Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2724
BÆJARRÁÐ
2724. fundur.
Ár 2004, mánudaginn 24. maí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Bæjarráð samþykkir að haldinn verði borgarafundur fyrri hluta júnímánaðar, vegna hugsanlegrar þátttöku bæjarins í fasteignafélaginu Fasteign hf. og byggingu nýs leikskóla, og er bæjarstjóra falið að undirbúa fundinn.
2. mál.
Fyrir lá erindi frá Frosta Gíslasyni, dags. 24. maí sl., vegna átaksverkefna.
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að undirbúa verkefnið í samræmi við fjárhagsáætlun ársins.
3. mál.
Fyrir lá erindi frá Frosta Gíslasyni, dags. 24. maí sl., vegna endurbóta á húsnæði Hraunbúða.
Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra að skrifa undir verksamning við Steina og Olla vegna endurbóta á húsnæði Hraunbúða á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs. Jafnframt samþykkir bæjarráð að gera ráð fyrir fjárveitingu vegna verksins á árunum 2005 og 2006.
4. mál.
Rætt var um væntanlegan fund með fulltrúum Vegagerðarinnar vegna samganga á sjó milli lands og Eyja. En fulltrúar Vegagerðarinnar eru væntanlegir til Eyja nk. miðvikudag.
5. mál.
Að beiðni Arnars Sigurmundssonar bæjarráðsmanns fjallaði bæjarráð um kynningarfund fasteignafélagsins Fasteignar hf. og fulltrúa KPMG með aðal- og varafulltrúum í bæjarstjórn sem haldinn var í gær. Bæjarráð leggur áherslu á mikilvægi þess að þessum fundi verði fylgt eftir með ýtarlegri skoðun á kostum og ókostum þess að bærinn gangi til liðs við fasteignafélag um yfirtöku á nokkrum fasteignum bæjarins. Þá leggur bæjarráð ríka áherslu á að fram fari ýtarlegt faglegt og fjárhagslegt mat á kostum þess að byggja 4 deilda leikskóla eða 6-7 deilda leikskóla í Vestmannaeyjum.
Bæði þessi mál eru gríðarlega mikilvæg fyrir Vestmannaeyjabæ og veltur á miklu að vel takist í þessum efnum.
Bæjarráð vísar í 1. mál hér að framan, en umbeðið erindi verður liður í undirbúningi að fyrirhuguðum borgarafundi.
6. mál.
Fyrir lá tölvupóstur frá Frumkvöðlafræðslunni SES dags. 12. maí sl. þar sem óskað er eftir styrkveitingu.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu að svo stöddu, en bæjarráð mun taka málið upp að nýju skapist forsendur að efna til náms í frumkvöðlafræðum við FÍV.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 17. maí sl. þar sem leitað er umsagnar um endurnýjun á gisti-/veitingaleyfi fyrir Gistiheimilið Heimi.
Bæjarráð samþykkir erindið að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla, samþykki það einnig.
8. mál.
Ákvörðun um næstu fundi bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkir að næstu fundir bæjarstjórnar verði haldnir 27. maí, 30. júní og 26. ágúst nk.
9. mál.
Fyrir lá bréf frá sjávarútvegsnefnd Alþingis dags. 18. maí sl. þar sem óskað er umsagnar um frumvarp til laga um stjórn fiskveiða, 996. mál, sóknardagar báta, krókaaflamark o.fl.
Farið var yfir umsögn Vestmannaeyjabæjar vegna nýs frumvarps til laga um stjórn fiskveiða, sem ákveðið var senda sem svar við bréfi nefndarinnar.
10. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 17. maí sl. um leiðbeiningu um beitingu 4. mgr. 5 .gr. laga nr. 4/1995 um tekjustofna sveitarfélaga og er jafnframt leitað eftir upplýsingum frá Vestmannaeyjabæ.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
11. mál.
Fyrir lá bréf frá Almenna byggingarfélaginu ehf., dags. 19. maí sl., vegna útboðs hafnarstjórnar.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til hafnarstjórnar.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar frá 18. maí sl.
Bæjarráð samþykkir erindið.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar frá 17. maí sl.
Bæjarráð samþykkir erindið.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 19. maí sl.
Bæjarráð samþykkir erindið.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.00.
Arnar Sigurmundsson
Bergur E. Ágústsson
Andrés Sigmundsson
Stefán Jónasson