Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2722
BÆJARRÁÐ
2722. fundur.
Ár 2004, mánudaginn 10. maí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lágu drög að úttekt KPMG Ráðgjafar þar sem gerður er samanburður á tveimur valkostum við eignarhald og rekstur fasteigna.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að undirbúa kynningu á skýrslunni og þeim valkostum sem í henni felast fyrir aðal- og varabæjarfulltrúa.
2. mál.
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjarráðsmenn lögðu fram eftirfarandi tillögu:
“Bæjarráð óskar eftir að stjórn um byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum kanni hvernig söfn bæjarins, m.a. Náttúrugripasafnið og Byggðasafnið og fleiri geti sem best tengst væntanlegri byggingu á menningarhúsi í Vestmannaeyjum.
Í framhaldi af þeirri vinnu mun bæjarráð óska eftir fundi með fulltrúum ríkisstjórnarinnar til að skýra hugmyndir um eflingu og uppbyggingu safnanna vegna hugsanlegrar samþættingar þeirra við byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum.”
Greinargerð:
Menning Eyjamanna verður ætíð nátengd náttúrufari Vestmannaeyja og hafinu umhverfis eyjarnar, nándinni við náttúruöflin og höfuðskepnur tilverunnar og samspili hennar við mannlífið. Þetta hefur einkennt menningarlíf Eyjamanna og ekki síst safnastarfsemi bæjarfélagsins.
Náttúrugripasafn Vestmannaeyja verður 40 ára þann 5. júní nk. og sýndu Eyjamenn mikla framsýni með stofnun þess. Þar hefur verið rekið eitt elsta og virtasta fiskasafn landsins sem hefur verið mjög vinsælt jafnt hjá heima- og ferðamönnum. Húsa- og tækjakostur safnsins hefur oft og tíðum verið takmarkaður og starfsemin byggt á alúð og þekkingu starfsmanna. Nú nýlega var á Alþingi bent á mikilvægi og möguleika sædýrasafna fyrir almenningsfræðslu um lífríki hafsins og ferðaþjónustu almennt. Byggðasafnið hefur gefið góða mynd af lífinu við sjávarsíðuna auk þess að gefa gestum og gangandi kost á að kynna sér gosið í Heimaey. Miklir möguleikar eru á að byggja það enn frekar upp sem þá sérstakt gosminjasafn, líkt og bent hefur verið á í skýrslu Ferðamálaráðs um Auðlindina Ísland (2002).
Mikill áhugi er í Vestmannaeyjum að bæta til muna húsnæði og allan aðbúnað þessara safna, svo þessi söfn geti gegnt betur sínum hlutverkum í menningarlífi byggðarlagsins og stutt samhliða við starfsemi menningarhússins. Jafnframt má telja umtalsverða möguleika á að tengja starfsemi menningarhússins og safnanna við rannsóknir og vísindastarfsemi Rannsóknaseturs Vestmannaeyja sem og ferðaþjónustuna, einn helsta vaxtarsprota íslensks atvinnulífs.
Undirbúningsvinnu við byggingu menningarhúss í Vestmannaeyjum miðar vel og er þarfagreiningu vegna hússins senn lokið. Eftir er að velja staðsetningu svo fara megi í hugmyndasamkeppni um húsið. Mikilvægt er að hugað sé að safnaþættinum samhliða
undirbúningsvinnu við menningarhúsið. Ýmsir aðilar gætu komið að þeirri vinnu s.s. Náttúrustofa Suðurlands, Nýsköpunarstofa Vestmannaeyja, Náttúrugripasafn Vestmannaeyja og Byggðasafn Vestmannaeyja.
Bæjarráð samþykkir tillöguna.
3. mál.
Bæjarráð vill koma á framfæri þakklæti til þeirra sem studdu verkefnið “Heimaklettur í stærra ljósi” og leitt var af Vinum klettsins.
4. mál.
Bæjarráð þakkar þeim félagssamtökum og einstaklingum sem tóku þátt í hreinsunardegi Vestmannaeyjabæjar um síðastliðna helgi.
5. mál.
Bæjarráð óskar ÍBV-knattspyrnudeild kvenna til hamningju með deildarmeistaratitilinn.
6. mál.
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjaráðsmenn lögðu fram eftirfarandi tillögu:
“Bæjarráð samþykkir að gefa út “Ráðhúspóst” til handa bæjarbúum þrisvar til fjórum sinnum á ári, þar sem veittar verða helstu upplýsingar um rekstur bæjarins og önnur mál sem varða bæjarbúa.”
Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur bæjarstjóra framgang málsins.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
“Tel nauðsynlegt að kostnaðaráætlun vegna útgáfu fréttabréfs bæjarstjórnar liggi fyrir áður en ráðist verður í þetta verkefni. Einnig vil ég leggja áherslu á að þess verði vandlega gætt að pólitísk viðhorf bæjarfulltrúa ráði ekki ferðinni í útgáfunni. Slíkur bæjarpóstur getur orðið ef vel tekst til góð viðbót við upplýsingasíðu bæjarins. Legg einnig áherslu á að teknir verði upp viðtalstímar bæjarfulltrúa á nýjan leik, eigi síðar en næsta haust.”
Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska bókað:
“Að sjálfsögðu verður lögð fram kostnaðaráætlun vegna útgáfunnar. Fyrirhugað er að upplýsingabæklingur verði gefin út tvisvar á þessu ári. Einungis er gert ráð fyrir að upplýsingar frá bæjarstjórn, verklegum framkvæmdum og almennt um rekstur bæjarfélagsins verði í bæklingnum og pólitísk viðhorf bæjarfulltrúa birtist þar ekki.”
7. mál.
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson bæjaráðsmenn lögðu fram eftirfarandi tillögu:
“Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa greinargerð fyrir bæjarráð um hvernig bæjarfélagið geti sem best stutt við uppbyggingu vísinda- og rannsóknastarfs í Vestmannaeyjum.”
Greinargerð:
Í nútímasamfélagi er menntun, rannsóknir, nýsköpun og frumkvæði drifkraftur hagvaxtar. Á Íslandi hefur framlag til rannsókna og þróunarstarfs aukist mikið og má meta árangurinn af þeirri fjárfestingu m.a. í aukinni nýsköpun sem leitt hefur til fjölgunar starfa, góðri frammistöðu íslenskra vísindamanna í alþjóðasamstarfi og sívaxandi útflutningi á þekkingartengdri þjónustu og vöru (Vísinda- og tæknistefna, 2003).
Á landsbyggðinni hefur einhæfni einkennt atvinnulífið, þar sem meginhluti starfa hefur verið í frumframleiðslugreinunum landbúnaði og sjávarútvegi. Störfum í þessum atvinnugreinum hefur fækkað stöðugt, eftir því sem tækni hefur fleygt fram og framleiðni aukist. Í byggðaáætlun ríkisstjórnarinnar 2002-2005 er lögð áhersla á mikilvægi aukinnar þekkingar þar sem „...hæfni fólks á ýmsum sviðum er undirstaða þess að byggð og atvinnulíf á landsbyggðinni geti eflst og dafnað.”(www.byggdastofnun.is, 2001). Vísinda- og tækniráð bendir á að byggðaþróun á næstu árum muni að miklu leyti ráðast af „...hvernig til tekst með nýsköpun í atvinnulífinu og að fjölga störfum sem byggja á þekkingu í dreifðum byggðum landsins. Rannsóknaeiningar sem mannaðar eru hæfum starfskröftum með ríkt frumkvæði geta haft ótvíræð jákvæð áhrif á þróun byggða, ekki síst þar sem hægt er að nýta staðbundna sérstöðu ákveðinna svæða.“ (Vísinda- og tæknistefna, 2003)
Sérstaða Vestmannaeyja er ótvírætt tengd nálægð byggðarlagsins við náttúruöflin, bæði þau sem hvíla í iðrum jarðar og hafinu sjálfu. Í Vestmannaeyjum hafa verið starfandi útibú frá nokkrum af helstu rannsóknastofnunum landsins; Háskóla Íslands, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins og Hafrannsóknarstofnun. Jafnframt er Náttúrustofa Suðurlands staðsett í Vestmannaeyjum. Nokkurt samstarf er á milli þessara stofnana og eru þær m.a. staðsettar í sama húsnæði sem rekið er undir nafninu Rannsóknasetur Vestmannaeyja. Vestmannaeyjabær er aðili að Rannsóknasetrinu í gegnum yfirstjórn þess, Samstarfsnefnd Háskóla Íslands og Vestmannaeyjabæjar sem og í gegnum rekstur bæjarfélagsins á Náttúrustofu Suðurlands. Mikill vilji er meðal starfsmanna setursins að auka samstarfið enn frekar og byggja upp rannsókna- og vísindastarf til muna hér í byggðarlaginu.
Í Vestmannaeyjum hefur atvinnulíf bæjarfélagsins byggst á nýtingu takmarkaðra auðlinda hafsins. Í niðurstöðum AVS starfshóps sjávarútvegsráðuneytisins er bent á að litlar líkur séu á að fjölgun starfa og aukning verðmæta verði ekki með auknum veiðum heldur mun frekar með betri og nýstárlegri nýtingu þessara auðlinda. Þessi tegund af nýsköpun verður ótvírætt tengd þeim rannsóknaeiningum og starfsmönnum sem eru starfandi í Rannsóknasetri Vestmannaeyja. Mikilvægt er því að styðja sem best við starfsemi þess.
Stuðningur bæjarfélagsins gæti m.a. verið fólginn í húsnæði fyrir fræðimenn sem koma til að stunda rannsóknir við setrið, betri aðbúnaði til rannsóknastarfa og beinum stuðningi við samstarfsverkefni á milli útibúanna. Einnig gæti bæjarfélagið haft forgöngu um að leita eftir auknum stuðningi frá fyrirtækjum í bæjarfélaginu við setrið.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
“Samþykki tillöguna enda er í hún í samræmi við stefnu bæjarstjórnar, en legg áherslu á að leitað verði samstarfs við Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja og forstöðumenn í Rannsóknasetrinu um framgang þessa verkefnis.”
8. mál.
Arnar Sigurmundsson bæjarráðsmaður lagði fram eftirfarandi fyrirspurn:
Á fundi skólamálaráðs 20. apríl sl. voru samþykktar tillögur sem varða starfsemi grunnskóla Vestmannaeyjabæjar á skólaárinu 2004-2005. Bæjarstjórn samþykkti fundargerðina á fundi sínum 29. apríl sl., en þessar tillögur og hugmyndir eru í mörgun liðum og varða starf stýrihóps skólamálaráðs.
Með hliðsjón af tillögum skólamálaráðs og framgang þeirra í grunnskólum bæjarins síðustu daga, beini ég þeirri fyrirspurn til bæjarstjóra og framkvæmdastjóra fræðslu- og menningarsviðs bæjarins hvort verið geti að framgangur málsins sé ekki í samræmi við þær tillögur og hugmyndir sem samþykktar hafa verið.
Ástæða þessarar fyrirspurnar er m.a. að þær fréttir berast úr grunnskólum bæjarins að gripið hafi verið til aðgerða sem ekki felast í tillögum skólamálaráðs og bæjarfulltrúum hafi ekki verið kunnugt um. Tekið skal fram að góð samstaða hefur verið innan bæjarstjórnar á nauðsyn þess að auka samstarf á milli grunnskóla bæjarins og leita leiða til að auka skilvirkni skólastarfs og aukins aðhalds í útgjöldum þessa stóra og mikilvæga málaflokks.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara fyrirspurninni á næsta fundi bæjarráðs.
9. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 4. maí sl. þar sem tilkynnt er um endanlegt framlag vegna nýbúafræðslu á fjárhagsárinu 2004.
10. mál.
Fyrir lá bréf frá allsherjarnefnd Alþingis dags. 4. maí sl. þar sem leitað er umsagnar um frumvörp um útvarpslög og samkeppnislög, 974. mál, eignarhald á fjölmiðlum.
11. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi ísl. sveitarfélaga dags. 27. apríl sl. þar sem kynnt eru ýmis mál frá fulltrúaráðsfundi sem haldinn var 23. apríl sl.
12. mál.
Fyrir lá bréf frá umhverfisstofnun dags. 28. apríl sl. þar sem kynnt er landsáætlun um meðhöndlun úrgangs.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfisnefndar.
13. mál.
Fyrir lá bréf frá fræðslu- og menningarsviði dags. 5. maí sl. þar sem lagt er til að veitt verði aukafjárveiting til þess að merkja stofnanir bæjarins.
Bæjarráð óskar eftir að kostnaráætlun liggi fyrir áður en afstaða verður tekin til erindisins.
14. mál.
Fyrir lá bréf frá Vátryggingafélagi Íslands, ódags., þar sem óskað er eftir viðræðum um sveitarstjórnartryggingar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara erindinu, en í gildi er samningur um tryggingar bæjarins við TM hf.
15. mál.
Fyrir lá bréf frá Lýðheilsustöð dags. 5. maí sl. þar sem óskað er eftir samstarfi um verkefni um bætt mataræði og aukna hreyfingu barna og ungmenna.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til íþrótta- og æskulýðsráðs.
16. mál.
Fyrir lá bréf frá Skákfélaginu Hróknum, ódags., þar sem leitað er eftir styrkjum til starfsemi félagsins.
Bæjarráð samþykkir að gerast silfur-bakhjarl með 50. þús.kr. framlagi.
17. mál.
Fyrir lá bréf frá Vinnueftirlitinu dags. 30. apríl sl. um námskeið og fræðslu um öryggismál.
Bæjarráð vísar erindinu til framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.
18. mál.
Fyrir lá erindi frá Þorsteini Þorsteinssyni, formanni undirbúningsnefndar um alþjóðlegu ráðstefnuna Biostronomy 2004.
Bæjarráð samþykkir erindið og felur bæjarstjóra framgang málsins.
19. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 30. apríl sl., vegna framlaga til jöfnunar tekjutaps vegna lækkunar af fasteignaskatti árið 2004.
Bæjarráð felur fjármálastjóra Vestmannaeyjabæjar að svara erindinu.
20. mál.
Fyrir lágu árskýrslur Sambands íslenskra sveitarfélaga og Lánasjóðs sveitarfélaga.
21. mál.
Ákvörðun um næstu fundi bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
22. mál.
Fyrir lá fundargerð Launanefndar sveitarfélaga, nr. 193 frá 5. maí sl.
23. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar frá 5. maí sl.
Bæjarráð frestar síðari hluta 2. máls og felur bæjarstjóra að afla nánari gagna, að öðru leyti samþykkir bæjarráð fundargerðina.
24. mál.
Fyrir lá fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 4. maí sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.23.
Bergur Ágústsson (sign.)
Andrés Sigmundsson (sign.)
Stefán Jónasson (sign.)
Arnar Sigurmundsson (sign.)