Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2708

23.02.2004

BÆJARRÁÐ

 

2708. fundur.       

 

Ár 2004, mánudaginn 23. febrúar kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

 

Mættir voru:  Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri. 

 

Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.

 

Fyrir var tekið:

 

  1. mál.

Bæjarráðsmenn áttu gagnlegan fund með Jóni Kristjánssyni heilbrigðisráðherra, aðstoðarmanni hans og skrifstofustjóra heilbrigðisráðuneytisins, þann 19. febrúar sl., þar sem farið var yfir samskipti ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar vegna heilbrigðismála í Vestmannaeyjum.

 

  1. mál.

Bæjarráð átti í dag fund með fulltrúum Rannsóknarstofnunar fiskiðnarins vegna starfssemi stofnunarinnar í Vestmannaeyjum.

 

  1. mál.

Bæjarráð óskar Handknattleiksdeild kvenna ÍBV til hamingju með að vera komnar í 8 liða úrslit í áskorendakeppni Evrópu.

 

  1. mál.

Fyrir lágu svör frá framkvæmdastjóra fræðslu- og menningarsviðs, dags. 18. febrúar sl., vegna 3. máls bæjarráðs frá 17. febrúar sl.

 

Bæjarráð óskar eftir að starfslýsing liggi fyrir á næsta fundi.

 

  1. mál.

Fjallað var um fasteignina Skólaveg 1 efri hæð, Vestmannaeyjum.

 

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að afla tilboða í eignina og ganga til samningaviðræðna vegna sölu á fasteigninni.

 

  1. mál.

Fyrir lá samningur milli Vestmannaeyjabæjar, Vélhjólaíþróttaklúbbs Vestmannaeyja og ÍBV-héraðssambands um afnot af svæði til iðkunar vélhjólaíþrótta, dags. 5. febrúar sl.

 

Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.

 

  1. mál.

Arnar Sigurmundsson bæjarráðsmaður, lagði fram eftirfarandi greinargerð og erindi:

 

“Í framhaldi af umræðum á síðasta fundi bæjarstjórnar og með vísan til bókana

og ummæla Andrésar Sigmundssonar í fjölmiðlun ítreka ég þá beiðni um að öll

gögn varðandi samskipti  bæjaryfirvalda og þá sérstaklega Andrésar

Sigmundssonar við KB-banka hf. verði lögð fram á þessum fundi bæjarráðs. Af

ummælum Andrésar á fundi bæjarstjórnar liggur enn ekki fyrir hverskonar gögn

hann lagði fram samhliða yfirlýsingu KB-banka á fundi bæjarráðs sl. mánudag.

Í Fréttablaðinu sl. laugardag heldur formaður bæjarráðs áfram að reyna að

útskýra  gengis- og vaxtamun vegna svokallaðs dollaraláns, sem var að upphæð

12 millj. bandaríkjadollara. Lánið sem tekið var 29. maí 2000 í tíð fyrri

bæjarstjórnar, var notað til þess m.a. að fjármagna framkvæmdir  svo sem

byggingu nýja íþróttahússins og skuldbreytingu eldri lána Vestmannaeyjabæjar

og stofnana á árunum 2000-2001.

 

Óskað er eftir skýringum og sundurliðun á gengis- og vaxtamun m.a.með

hliðsjón af því að í kynningu Kaupþings á gjaldmiðla- og vaxtaskiptasamningi

við Vestmannaeyjabæ dags. 2.mars 2001 er tekið sérstaklega fram að upphæðir

í erlendri mynt miðist við gengi þeirra 1. júní 2000. Einnig er tekið fram

að Vestmannaeyjabær greiði Kaupþing fasta vexti af samningsupphæðinni sem

var 7 milljónir dollarar eða jafnvirði upphæðarinnar í fjórum erlendum

gjaldmiðlum.  Óskað er eftir að Andrés geri nánari grein fyrir nýlegum

samningaviðræðum við KB-banka hf. og þeim gögnum sem þar voru lögð til

grundvallar. Þegar lánið var tekið var bandaríkjadollari skráður liðlega 76

ísl. kr. og síðan þá sveiflast mikið og er nú skráður á  67 ísl. kr.  Einnig er

óskað eftir að formaður bæjarráðs skýri frá því af hverju bæjarráði var ekki

gert kunnugt um fyrr en 17. febrúar sl.um að gengið hafði verið frá tveimur

samningum við KB-banka 21. og 23. janúar sl.

 

Óskað er eftir að upplýst verði hver gaf umboð til þess að undirrita þessi

skjöl án vitundar minnihluta bæjarráðsmanna og bæjarfulltrúa. Að endingu er

spurt hvort framhald verði á þessu vinnulagi og bæjarfulltrúar og bæjarbúar

muni framvegis fregna fyrst af afgreiðslu stærri mála í bæjarfélaginu með

viðtölum ráðamanna bæjarfélagsins í fjölmiðlum á höðfuðborgarsvæðinu og áður

en bæjarfulltrúar og bæjarbúar hafa hugmynd um hvað er í gangi.

Slík vinnubrögð er í algjörri andstöðu við reglugerð um stjórn

bæjarfélagsins og sveitarstjórnarlög. Enginn einstaklingur getur skuldbundið

bæjarfélagið með fjárútlátum og lántökum án undangengis samþykkis í

bæjarráði og auk þess áður en bæjarstjórn hafði samþykkt fjárhagsáætlun

2004.”

 

Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:

“Í framhaldi af greinargerð Arnars Sigurmundssonar leggur meirihluti bæjarráðs fram svohljóðandi bókun:

 

  1. Umrædd aðgerð, sem bæjarfulltrúinn Arnar Sigurmundsson vísar til í sinni greinargerð og kallar lántöku, lýtur að uppgjöri á gjaldföllnum greiðslum. Því var hvorki um nýja lántöku að ræða né skuldaaukningu heldur nauðsynlega aðgerð til að firra bæinn frekara tjóni.

 

  1. Umfjöllun fjölmiðla um dollaralánið átti sér stað eftir að bæjarráð hafði fjallað um málið. Umræddan bæjarráðsfund sat fulltrúi minnihlutans (Sjálfstæðisflokksins) og gerði engar athugasemdir á þeim fundi. Óskiljanlegum dylgjum um óeðlilega fjölmiðlaumfjöllun er því vísað frá sem staðleysu. 

 

  1. Hvergi hafa komið fram upplýsingar um að fyrrv. bæjarstjóri eða meirihluti bæjarstjórnar hafi veitt Kaupþingi nauðsynlega heimild til að grípa til aðgerða til varnar gengisáhættu vegna umrædds “dollaraláns”, fyrr en löngu eftir að það var tekið.  Það er alvarlegt mál.  Aðrir en bæjarstjóri og meirihluti bæjarstjórnar höfðu eðli málsins samkvæmt ekki umboð til að taka slíka ákvörðun. Yfirlýsing KB-banka dags. 16. feb. sl. ber með sér að fyrrv. bæjarstjóri og meirihluti bæjarstjórnar hafi því sýnt af sér mikla vanrækslu. 

 

Meirihluti bæjarráðs lýsir yfir miklum vonbrigðum vegna þeirra fullyrðinga sem bæjarfulltrúi minnihluta Sjálfstæðisflokksins Arnars Sigurmundssonar setur fram, einkum vegna rangfærslna sem þar birtast.  Þá bera þær augljóslega með sér takmarkaða þekkingu hans á málinu, enda ekki hægt að gera kröfu til þess að bæjarfulltrúinn hafi þekkingu á fjárhættuspili fyrrv. meirihluta Sjálfstæðisflokksins með fjármuni Vestmannaeyjabæjar á gjaldeyrismarkaði.  Þá hefur fyrrv. bæjarstjóri Guðjón Hjörleifsson enga grein gert fyrir því hvers vegna þessar ákvarðanir voru teknar og þá miklu áhættu sem þeim fylgdu.  Meirihluti bæjarráðs telur eðlilegt að bæjarstjóri leiti allra leiða til að tryggja hagsmuni bæjarins vegna umrædds láns í framtíðinni.”

 

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Á fundi bæjarráðs í dag var að minni beiðni lagður fram lánasamningur við KB-banka vegna lántöku til 3ja ára og voru lánsskjöl undirrituð 23. jan. sl. og gjaldeyris- og vaxtaskiptasamningur við KB-banka sem undirritaður var 21. jan. sl.  Ég mun ekki frekar en áður taka þátt í ómálefnalegum bókunum og framvegis sem hingað til halda mig við málefnin. Ég tel nauðsynlegt að fá niðurstöðu í þetta mál meðal annars með viðræðum við  KB-banka hf.  Ég mun ekki liggja á liði mínu í þeim efnum verði þess  óskað. Það er löngu kominn tími til þess að bæjarfulltrúar  fara að snúa sér að alvöru að fást við málefni bæjarins og láti af þeirri iðju að skjóta sig sífellt í fótinn, enda þjónar slíkt ekki hagsmunum bæjarfélagsins hvorki í nútíð né framtíð.”

 

Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:

“Til leiðréttingar því sem fram kemur í seinni bókun minnihluta bæjarráðs, Arnars Sigurmundssonar, vill meirihluti bæjarráðs taka fram, að öll skjöl sem þar er vísað til voru lögð fram á bæjarráðsfundi 17. feb. sl.  Meirihluti bæjarráðs fagnar því sérstaklega ef minnihlutinn hyggst láta af ómálefnalegum bókunum eins og þeirri sem birtist í fyrri bókun hans í þessu máli, þar sem rangfærslur og staðleysur ráða för.  Umræður um hið svokallaða “dollaralán” hafa leitt í ljós að bæjaryfirvöld höfðu á þeim tíma sem lánið var tekið hvorki þá þekkingu á gjaldeyrismarkaði, sem telja verður nauðsynlega, né vald yfir jafn flókinni samningsgerð og um ræðir.  Eftir því sem  málið hefur verið skoðað frekar hefur því alvarleiki þess komið æ betur í ljós.  Ábyrgð fyrri meirihluta Sjálfstæðisflokksins er því mikil.  Það þjónar því ekki hagsmunum bæjarins að reyna sífellt að beina athyglinni frá alvarleika  málsins í stað þess að taka á þeim vanda sem við er að etja.  Í svona máli dugar ekki að skjóta sendiboðann eins og minnihlutinn er að reyna að gera.  Málið er alvarlegra en svo.

Að öðru leyti ítrekar meirihlutinn fyrri bókun sína í þessu máli.”

 

  1. mál.

Fyrir lá erindi frá starfsfólki Barnaskóla Vestmannaeyja, dags. 17. febrúar sl., þar sem farið er fram á styrk vegna náms- og kynnisferðar til Danmerkur dagana 9. til 14. júní nk.

 

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til skólamálaráðs.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Nemendafélagi Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum, dags. 17. febrúar sl., vegna beiðni um styrkveitingu vegna árshátíðar nemenda.

 

Bæjarráð samþykkir að styrkja félagið um 50  þús. kr.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Lögréttu, ódags., vegna beiðni um styrk.

 

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Brunavarðafélagi Vestmannaeyja dags. 6. febrúar sl.

 

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga til viðræðna við bréfritara.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Alþingi, dags. 12. febrúar sl., vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum um mat á umhverfisáhrifum.

 

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til umhverfisnefndar.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Mennt, dags. 12. febrúar sl., vegna ráðstefnu um upplýsingatækni í skólastarfi.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 13. febrúar sl., vegna uppgjörs framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.

 

  1. mál.

Fyrir lá bréf frá Fasteignamati ríkisins, dags. 12. febrúar sl., vegna byggingarfulltrúaskipta.

 

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.

 

  1. mál.

Fyrir lá fundargerð 62. fundar  Heilbrigðisnefndar Suðurlands dags. 18. febrúar sl.

 

  1. mál

Fyrir lá fundargerð skólamálaráðs frá 18. febrúar sl.

 

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

 

  1. mál.

Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 18. febrúar sl.

 

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

 

Fundi slitið kl. 19.51.

 

Bergur Ágústsson (sign.)

Andrés Sigmundsson (sign.)

Lúðvík Bergvinsson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)


Jafnlaunavottun Learncove