Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2701
BÆJARRÁÐ
2701. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 29. desember kl. 17.00 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor S. Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Meirihluti bæjarráðs lagði fram eftirfarandi tillögu:
“Bæjarstjórn samþykkir að skipa nefnd undir formennsku bæjarstjóra þar sem meirihluti bæjarstjórnar tilnefnir einn fulltrúa og minnihluti einn fulltrúa, til að endurskoða laun bæjarfulltrúa, nefndarfólks og annarra sem sitja í stjórnum og ráðum á vegum Vestmannaeyjabæjar.
Auk þess sem að framan er nefnt, skal nefndin fjalla sérstaklega um greiðslur til forseta bæjarstjórnar, formanna nefnda og sérstakra starfsnefnda sem settar eru á fót tímabundið til að fjalla um eða taka að sér tiltekin tilfallandi verkefni á vegum bæjarins.
Greiðslur fyrir þessi störf í Vestmannaeyjum eru mun lægri en annarsstaðar þekkist. Þær hafa ekki tekið breytingum um langt skeið. Það er mikilvægt að greiðslur vegna starfa fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum séu metin á sambærilegan hátt og annarsstaðar þekkist, einkum í ljósi þess að um mikilvæg störf er að ræða. Það er því eðlilegt í ljósi mikilla breytinga sem átt hafa sér stað í launaþróun undanfarin misseri að þessar greiðslur séu endurskoðaðar nú í upphafi nýs árs.
Við endurskoðunina skal nefndin taka mið af greiðslum fyrir sambærileg störf hjá sambærilegum sveitarfélögum. Má þar nefna sem dæmi Akranes, Ísafjörð, Árborg, Grindavík og Reykjanesbæ. Enn fremur skal nefndin skoða reglur annarra sveitarfélaga sem tengja þessar greiðslur við þingfararkaup og þær verða því ákveðið hlutfall af þeim.
Nefndin skal skila af sér tillögum um breytingar eigi síðar en 15. janúar nk. og skulu breytingar taka gildi frá og með 1. febrúar nk.”
Bæjarráð samþykkir að vísa tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.
2. mál.
Rætt um viðhald á Hraunbúðum.
Á fundinn kom Frosti Gíslason, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs. Farið var yfir viðhald og endurbætur sem fyrirhugaðar eru á Hraunbúðum.
Bæjarráð samþykkir að fela framkvæmdastjóranum að undirbúa útboð vegna verksins. Gert verður ráð fyrir þessum útgjöldum bæjarins á næsta ári við síðari umræðu um fjárhagsáætlun fyrir árið 2004 sem fram fer seinni hluta janúarmánaðar.
3. mál.
Fyrir lá álitsgerð frá lögmanni bæjarins vegna hugsanlegrar ábyrgðar verktaka á tjóni vegna lausra flísa á botni sundlaugarinnar í íþróttamiðstöð bæjarins.
Bæjarráð felst á þau rök sem fram koma í niðurstöðum álitsgjafa.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá Háskóla Íslands, dags. 11. desember sl., vegna atvinnuþátttöku fatlaðra.
5. mál.
Fyrir lá fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 12. des. sl.
6. mál.
Vegna samlagningarskekkju samþykkir bæjarráð að niðurstaða endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar 2003 verði 75.950 þús. í stað 70.150 þús. sem samþykkt hafði verið áður.
Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Brunamálastofnun, dags. 22. desember sl., vegna úttektar á slökkviliði Vestmannaeyja.
8. mál.
Fyrir lá bréf frá fjármálaeftirlitinu, dags. 23. desember sl., vegna skýrsluskila til stofnunarinnar á árinu 2004.
9. mál.
Fyrir lágu tvö frumvörp til úthlutunar á söluverði vegna nauðugarsölu frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum, dags. 22. desember sl.
10. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 18. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 18.00.
Arnar Sigurmundsson
Stefán Jónasson
Bergur Elías Ágústsson
Andrés Sigmundsson