Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2700
BÆJARRÁÐ
2700. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 22. desember kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Að beiðni bæjarstjóra var fjallað um fund með aðilum í ferðaþjónustu.
Bæjarráð samþ. að fela undirbúningsnefnd að stofnun Nýsköpunarstofu, að samhliða stofnun stofunnar, verði ferða- og markaðsmál tekin til sérstakrar umfjöllunar.
2. mál.
Fyrir lá bréf frá Andrési Sigmundssyni vegna vinarbæjarsamskipta milli Götu í Færeyjum og Vestmannaeyjabæjar.
Bæjarráð vísar bréfinu ásamt fylgiskjölum til menningarmálanefndar.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá Frosta Gíslasyni dags. 22. des. sl. þar sem fram kemur kostnaðaráætlun vegna viðhalds Hraunbúða.
Bæjarráð mun ræða málið nánar á næsta fundi sínum.
4. mál.
Að beiðni Arnars Sigurmundssonar ræddi bæjarráð um vinnulag vegna
framlagningu fjárhagsáætlunar Vestmannaeyjabæjar og stofnana 2004.
Fyrri umræða um fjárhagsáætlun var afgreidd af bæjarstjórn Vestmannaeyja 18. desember sl. Nefndir hafa nú fjárhagsáætlunina til umfjöllunar eins og venja er milli umræðna. Bæjarráð leggur áherslu á að nefndir á vegum bæjarins, sem fjalla um fjárhagsliði sinna málaflokka, skili inn tillögum sínum fyrir 18. janúar 2004 þannig að bæjarráð geti afgreitt fjárhagsáætlun fyrir árið 2004 til síðari umræðu í bæjarstjórn.
5. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu, dags. 15. desember sl., vegna húsaleigubóta.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 10. desember sl., vegna framkvæmdaratriða við gerð ársreikninga sveitarfélaga.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Svæðisvinnumiðlun Suðurlands, dags. 12. desember sl., vegna sérstakra verkefna á vegum vinnumiðlunarinnar og Vestmannaeyjabæjar.
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að svara bréfinu.
8. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 18. desember sl., vegna óskar um vinabæjarsamband.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
9. mál.
Fyrir lá tölvupóstur frá Sambandi ísl. sveitarfélaga dags. 19. des. sl. þar sem kynnt er námskeið um stjórnsýslureglur um meðferð mála hjá sveitarfélögum.
10. mál.
Fyrir lá tölvupóstur frá Körfuknattleiksdeild ÍV dags. 19. desember sl. þar sem farið er fram á styrk að upphæð kr. 150.000 til að halda áramótadansleik fyrir 16-18 ára unglinga eins og samþykkt var á síðasta ári.
Bæjarráð samþykkir erindið og að gert verði ráð fyrir upphæðinni í fjárhagsáætlun 2004.
11. mál.
Samningamál
12. mál.
Fyrir lá fundargerð skólamálaráðs frá 17. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Með tillögum meirihluta skólamálaráðs er gert ráð fyrir að lækka gjaldskrá leikskóla fyrir ákveðinn hóp skólafólks, án þess að fram komi með hvaða hætti tekjutapi skuli mætt í rekstri leikskólanna á næsta ári..
Ég er andvígur því að lækka leikskólagjöld hjá sumum aðilum, en hækka hjá öðrum á sama tíma. Óska eftir því að fyrir næsta fundi bæjarráðs liggi fyrir útreikningar á væntanlegri tekjulækkun leikskólanna vegna þessarar samþykktar.
Þá fyrst getur bæjarráð tekið formlega afstöðu til samþykktar meirihluta skólamálaráðs og framhald málsins við afgreiðslu fjárhagsáætlunar leikskólanna 2004."
Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska bókað:
"Hér er ekki um neina hækkun að ræða. Skólamálaráð er með samþykkt sinni að koma til móts við barnafólk er stundar framhaldsnám. Þessi ákörðun ráðsins fellur að stefnu meirihluta bæjarstjórnar í málefnum bæjarins. Skólamálaráð mun skila sinni fjárhagsáætlun til bæjarráðs eins og aðrar nefndir og þá munu umbeðnar upplýsingar liggja fyrir."
13. mál.
Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 17. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs frá 19. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Arnar Sigurmundsson óskar að bóka:
"Tek undir bókun fulltrúa minnihlutans í 6. máli- önnur mál, í fundargerðinni. Jafnframt lýsi ég furðu minni á þeim vinnubrögðum formanns ráðsins að neita að taka bréf Erlings Richardssonar á dagskrá fundarins, nema undir liðnum önnur mál.
Á sama hátt er vægast sagt mjög sérstakt að ritari ráðsins skuli bóka neðanmáls í fundargerðinni, án þess að geta þess að ágreiningur hafi verið um fundarsköp og vinnubrögð formanns ráðsins."
Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska bókað:
"Samkvæmt fundargerðinni hefur formaður ráðsins tekið öll þau mál á dagskrá er beðið var um af nefndarmönnum. Eðlilegt er að ritari ráðsins geri grein fyrir því ef einhverjir nefndarmenn neita að rita undir fundargerðina eins og í þessu tilviki."
15. mál.
Fyrir lá fundargerð stjórnar Náttúrustofu Suðurlands frá 16. desember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
16. mál.
Fyrir lá fundargerð almannavarnanefndar frá 17. desember sl.
17. mál.
Fyrir lá fundargerð hafnarstjórnar frá 19. desember sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.45.
Arnar Sigurmundsson
Andrés Sigmundsson
Stefán Ó. Jónasson
Bergur E. Ágústsson