Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2697

01.12.2003

BÆJARRÁÐ

2697. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 1. desember kl. 17.25 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Á fund bæjarráðs komu fulltrúi Samskipa og hafnarstjóri til að ræða málefni Herjólfs, vegna færslu á ferðum og aukins kostnaðar við rekstur ferjunnar.

2. mál.

Svohljóðandi tillaga var lögð fyrir um álagningu gjalda fyrir árið 2004:

"Álagning útsvars, fasteignagjalda, holræsagjalds og sorpeyðingargjalda árið 2004:

a) Bæjarráð samþykkir að útsvar fyrir árið 2004 verði 13,03% sbr. 6. gr. laga nr. 144/2000.

b) Fasteignaskattur af húsnæði verði eftirfarandi hlutfall af fasteignamati þeirra samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, með síðari breytingum, og reglugerð um fasteignaskatt nr. 945/2000.

1) Íbúðir og íbúðarhús, útihús og mannvirki á bújörðum, sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,37 %.

2) Allar aðrar fasteignir: 1,35 %.

c) Holræsagjald af fasteignamati húsa og lóða skv. reglugerð.

1) Íbúðir og íbúðahús, útihús og mannvirki á bújörðum sem tengd eru landbúnaði og sumarbústaðir: 0,20%

2) Allar aðrar fasteignir: 0,30%

Heimild til undanþágu er í samræmi við h) lið hér á eftir.

d) Bæjarráð samþykkir að lagt verði sorpeyðingargjald á hverja íbúð, kr. 5.500.- og að sorphirðu- og sorppokagjald verði kr. 3.500.- á hverja íbúð.

Heimild til undanþágu er í samræmi við h) lið hér á eftir.

e) Sorpbrennslu – og sorpeyðingargjöld fyrirtækja verða óbreytt þar til annað verður ákveðið.

f) Gjalddagar fasteignagjalda skulu vera tíu þ.e. 20. jan., 15. feb.,15. mars, 15. apríl, 15. maí, 15. júní, 15. júlí, 15. ágúst, 15. sept., 15. okt.

Dráttarvextir reiknast af gjaldföllnum fasteignagjöldum 30 dögum eftir gjalddaga.

g) Bæjarráð samþykkir að veittur verði 5% staðgreiðsluafsláttur af fasteignagjöldum, holræsagjöldum og sorpgjöldum skv. b), c), og d) liðum hér að ofan, séu þau að fullu greidd eigi síðar en 13. febrúar 2004.

h) Bæjarráð samþykkir að fella niður fasteignagjöld og holræsagjöld ellilífeyrisþega, sem njóta tekjutryggingar, af eigin íbúð, sem þeir búa í.

Ennfremur samþykkir bæjarráð með tilliti til 4. mgr. 5. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga, að fella niður fasteignaskatt ellilífeyrisþega af eigin íbúð, sem þeir búa í, á eftirfarandi hátt.

1) Fyrir einstakling:

Brúttótekjur 2003 allt að 1678 þús. kr. 100% niðurf.

Brúttótekjur 2003 allt að 1984 þús. kr. 70% niðurf.

Brúttótekjur 2003 allt að 2254 þús. kr. 30% niðurf.

2) Fyrir hjón, sem bæði eru ellilífeyrisþegar:

Brúttótekjur 2003 allt að 2018 þús. kr. 100% niðurf.

Brúttótekjur 2003 allt að 2439 þús. kr. 70% niðurf.

Brúttótekjur 2003 allt að 2765 þús. kr. 30% niðurf.

Við mat á niðurfellingu fasteignaskatts af eigin íbúð 75% öryrkja, sem þeir búa í, skal hafa hliðsjón af fyrrgreindum reglum.

3) Sorphirðu-/sorpeyðingargjald, holræsagjald og lóðarleiga verði fellt niður eða lækkað í samræmi við ofangreindar reglur hvað varðar eigin íbúð ellilífeyrisþega og 75% öryrkja, sem þeir búa í.

i) Að fasteignaskattur af nýjum húseignum falli niður í allt að tvö ár eftir útgáfu fokheldisvottorðs."

Hér er um óbreytta gjaldstefnu að ræða og engar hækkanir á álagningarprósentu frá því sem verið hefur. Bæjarráð samþykkir að vísa tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.

3. mál.

Fyrir lágu drög að framlengingu á samningi við Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. vegna reksturs Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja.

Bæjarráð samþykkir samningsdrögin og felur bæjarstjóra að skrifa undir samningin, enda felur samningurinn í sér umtalsverða lækkun á útgjöldum bæjarins.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Fagna því að tekist hafa samningar um áframhaldandi þjónustu Gámaþjónustu Vestmannaeyja ehf. um rekstur Sorpeyðingarstöðvar Vestmannaeyja. Með þessum samningi er fallið frá öllum hugmyndum um aðrar aðferðir við sorpeyðingu í Eyjum Samningurinn tryggir um leið lægri heildarkostnað fyrir Vestmannaeyjabæ.”

4. mál.

Fyrir lágu drög að samningi við Bjarna Jónasson vegna útsendinga á fundum bæjarstjórnar.

Bæjarráð samþykkir samninginn, en með þeim breytingu á 5. gr að samningur rennur út án uppsagnar 31. desember 2004.

5. mál.

Fyrir lá endurskoðuð fjárhagsáætlun A-hluta Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2003.

Bæjarráð mun fjalla um einstaka liði áætlunar á næsta fundi sínum.

6. mál.

Að beiðni Stefáns Jónassonar bæjarráðsmanns fjallaði bæjarráð um fyrirhugaða vaktstöð siglinga.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá Skipulagstofnun, dags. 24. nóvember sl., vegna útgáfu á leiðbeiningum um gerð aðalskipulags – ferli og aðferðir.

Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til skipulags- og byggingarnefndar.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá ÍBV – íþróttafélagi, dags. 27. nóvember sl., vegna samgöngumála.

Bæjarráð hefur nú þegar óskað eftir fjölgun ferða Herjólfs í erindi sínu til fjárveitingarvaldsins og Vegagerðinnar.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Legg áherslu á að viðræður við Vegagerðina og fjárveitingavald vegna álagstíma hjá Herjólfi yfir sumartímann og framlengingu á haustáætlun Herjólfs út desember 2004 þurfa nú þegar að fara í gang. Starfsfólk Vegagerðinnar hefur jafnan sýnt vilja til þess að fjölga frekar ferðum m/s Herjólfs enda verði fjármagn frá fjárveitingavaldinu þá tryggt til að mæta þeim útgjöldum.

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó Jónasson óska bókað:

“Í síðasta mánuði áttu fulltrúar bæjarins viðræður við fullrúa Vegagerðarinnar um fjölgun ferða í desember. Allar líkur eru fyrir að af því geti orðið. Jafnframt hafa fulltrúar bæjarins lagt fyrir Fjárlaganefnd Alþingis erindi um að fé verði tryggt fyrir fjölgun ferða Herjólfs, þá ekki síst fjölgun ferða í kringum þjóðhátíð og þau mót er haldin eru hér á vegum íþróttahreyfingarinnar yfir sumartímann. Við teljum það eðlilegt að fulltrúar íþróttahreyfingarinnar eins og aðrir bæjarbúar hafi áhyggjur af samgöngumálum Eyjamanna. Við munum kappkosta að fjölga ferðum Herjólfs og vinna að bættum samgöngum milli lands og Eyja.”

9. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Arnari Sigurmundssyni:

“Bæjaráð samþykkir að fela væntanlegri Nýsköpunarstofu í Vestmannaeyjum það forgangsverkefni að kanna möguleika á flutningi opinberra stofnana til Vestmannaeyja.

Hugmyndum og tillögum verði skilað til bæjaráðs eigi síðar en 1. mars 2004.”

Greinargerð:

Í skýrslum Byggðastofnunar kemur fram að uppbygging á þjónustu hins opinbera hefur að mestu leyti orðið á höfuðborgarsvæðinu á undanförnum árum, þrátt fyrir ásetning stjórnvalda að flytja ríkisstofnanir út á land. Mikið ójafnvægi ríkir í þessum efnum og er fækkun sérhæfðra starfa í þjónustu í Vestmannaeyjum vaxandi áhyggjuefni. Mikið hefur skort á að athafnir hafi fylgt orðum stjórnvalda og þingmanna kjördæmisins um flutning opinberrar þjónustu til Vestmannaeyja. Þess í stað hefur verið háð varnarbarátta í Vestmannaeyjum til margra ára að halda þeirri opinberri þjónustu sem til staðar er í byggðarlaginu. Á sama tíma þenst opinber þjónusta sílfellt út á höfuðborgarsvæðinu og landsbyggðin situr að verulegu leyti eftir. Hér er lagt til að væntanleg Nýsköpunarstofa í Vestmannaeyjum sem ráðgert er að taki til starfa í byrjun næsta árs fái það forgangsverkefni að leggja fram hugmyndir og tillögur í þessum efnum. Yfir stofunni verður væntanlega sett stjórn sem mun fylgjast náið með þróun atvinnu- og samgöngumála og markaðssetningu á Vestmannaeyjum. Æskilegt er að stjórn Nýsköpunarstofu taki þátt í þessu verkefni, sem síðan verði lagt fyrir bæjarráð og síðar þingmenn kjördæmisins.

Svohljóðandi afgreiðslutillaga og bókun barst frá Andrési Sigmundssyni og Stefáni Jónassyni;

“Á fundi bæjarráðs, þann 8. september sl. lagði bæjarstjóri fram hugmyndir að stofnun Nýsköpunarstofu Vestmannaeyja, samkvæmt þeim er ráðgert að Nýsköpunarstofan taki til starfa í byrjun næsta árs. Í framlögðum gögnum sem bæjarstjóri lagði fram þann 8. september sl., er tekið á þeim efnisþáttum er tillaga Arnars Sigurmundssonar lýtur að. Tillaga þessi samræmist vel þeirri vinnu og þeirri umræðu sem nú þegar er í gangi og því telur meirihluti bæjarráðs hana of seint fram komna og óþarfa. “

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

“Lýsi miklum vonbrigðum með afgreiðslu meirihluta bæjaráðs á tillögu minni sem fjallar um forgangsverkefni Nýsköpunarstofu í Vestmannaeyjum. Ég geri mér fulla grein fyrir því að umrætt verkefni rúmast innan væntanlegra verkefna stofunnar og legg jafnframt áherslu á mikilvægi þess að bæjaryfirvöld verði á hverjum tíma vakandi fyrir öllum nýjum tækifærum og verkefnum sem falla undir flutning opinberra stofnana og verkefna á landsbyggðina. Bæjarráð þarf jafnan að taka efnislega afstöðu til einstakra mála og framgangs þeirra í þágu bæjarfélagsins.”

Stefán Ó. Jónasson og Andrés Sigmundsson óska eftir að bóka:

“Tökum undir seinni hluta bókunar Arnars.”

Bæjarstjóri óskar bókað:

“Atvinnumál eru einn mikilvægasti málafokkur Vestmannaeyjabæjar. Ef vel á að takast til í atvinnumálum Eyjanna er nauðsynlegt að allir aðilar sem að málinu koma sýni samstöðu og einhug í framkvæmd. Bæjarstjóri hvetur bæjarfulltrúa að sína samstöðu í þessu mikilvæga máli.”

10. mál.

Fyrir lá erindi frá Stígamótum, dags. 21. nóvember sl., vegna beiðni um fjárstuðning.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

11. mál.

Fyrir lá erindi frá Samtökunum ´78, dags. 24. nóvember sl., vegna beiðni um fjárstuðning.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

12. mál.

Fyrir lá erindi frá Félagi heyrnarlausra, dags. 21. nóvember sl., vegna beiðni um fjárstuðning.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.

13. mál.

Fyrir lá bréf frá Krabbameinsfélaginu, dags. 21. nóvember sl., vegna kynningar á könnun á notkun tóbaksvarnarnámsefnis félagsins í grunnskólum landsins.

14. mál.

Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dags. 24. nóvember, um skiptinámsdvöl fyrir stjórnendur í norrænum sveitarfélögum.

15. mál.

Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs, frá 26. nóvember sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina og vísar 20. máli til endurgerðar fjárhagsáætlunar 2003.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.30.

Andrés Sigmundsson (sign.)

Stefán Jónasson (sign.)

Arnar Sigurmundsson (sign.)

Bergur Elías Ágústsson (sign.)

Viktor Stefán Pálsson (sign.)


Jafnlaunavottun Learncove