Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2696
BÆJARRÁÐ
2696. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 24. nóvember kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Meirihluti bæjarráðs leggur til að bæjarstjóri kanni þann möguleika að stofnað verði fasteignafélag um fasteignir bæjarsjóðs og stofnana hans í samvinnu við einkaaðila.
Greinargerð:
Mikilvægt er að Vestmannaeyjabær kanni þennan kost, en ljóst er að vanda þarf til verka. Fyrir það fyrsta þarf að fara yfir með hverjum slíkt samstarf gæti reynst farsælt og ræða við þær fjármálastofnanir sem áhuga hafa á slíku samstarfi við Vestmanneyjabæ. Takist vel til er nokkuð ljóst að slík aðgerð mun hafa verulega jákvæð áhrif á fjárhagslega stöðu bæjarsjóðs og stofnana hans sem mun meðal annars leiða til verulegra lækkunar skulda.
Bæjarráð samþykkir tillöguna.
2. mál.
Fyrir lá 7. mál. fundargerðar bæjarráðs frá 17. nóvember sl., þar sem bæjarstjóra var falið að afla upplýsinga um stöðu atvinnumála og leggja fyrir bæjarráð.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að vinna að undirbúningi fundar með fulltrúum atvinnulífsins í Vestmannaeyjum.
3. mál.
Fyrir lágu drög að reglum um ferðastyrki til fjarnámsnema í Vestmannaeyjum.
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi breytingartillögu:
“Legg til að nýjar reglur um ferðastyrki til fjarnámsnema í Vestmannaeyjum nái einnig til skólafólks sem lögheimili hefur í Eyjum og stundar viðurkennt staðbundið háskólanám og annað framhaldsnám sem ekki er hægt að stunda í Vestmannaeyjum. Heildarupphæð ferðastyrkja kr. 400 þúsund á árinu 2004 samkvæmt tillögu meirihlutans breytist ekki, en upphæðin skiptist á fleiri nemendur sem ýmist stunda staðbundið háskólanám, fjarnám og annað framhaldsnám sem ekki er hægt að stunda í Vestmannaeyjum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að gera breytingar á drögum um ferðastyrki sem nú hafa verið lögð fram í annað sinn og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.”
Meirihluti samþykkir fyrirliggjandi drög um reglur varðandi ferðastyrki til fjarnámsnema í Vestmannaeyjum, en leggur þó til að reglurnar verði endurskoðaðar að ári liðnu. Vísum málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir árið 2004.
Andrés og Stefán óska bókað:
“Viljum taka það fram að ekki sé ólíklegt að reglur þessar taki breytingum þegar reynsla af þeim liggur fyrir.”
4. mál.
Að beiðni meirihluta bæjarráðs var fjallað um fund sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar áttu með fulltrúum Vegagerðarinnar þann 24. nóvember.
5. mál.
Fyrir lá fundarboð vegna fundar bæjarstjórnar Vestmannaeyja með þingmönnum Suðurkjördæmis, sem ráðgert er að halda föstudaginn 5. desember nk. kl. 08.00 í Höllinni.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra undirbúning fundarins.
6. mál.
Fyrir lá minnisblað frá Sigurgeiri Jónssyni, menningarmálafulltrúa Vestmannaeyjabæjar, dags. 19. nóvember 2003 vegna málefna bátsins Blátinds.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að ganga til samninga við verktaka um upptöku, vinnu og garðaleigu í vetur vegna vb. Blátinds.
7. mál.
Fyrir lá 189. fundargerð launanefndar sveitarfélaga, dags. 17. nóvember 2003.
8. mál.
Fyrir lá 2. mál. fundargerðar bæjarráðs frá 17. nóvember sl., þar sem framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs var falið að afla upplýsinga vegna bréfs sjávarútvegsráðuneytisins frá 10. nóvember sl. og leggja þær fyrir bæjarráð.
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi reglur Vestmannaeyjabæjar.
9. mál.
Fyrir lá erindi Ólafs Guðlaugssonar, dags. 19. nóvember 2003, þar sem farið er fram á fyrirgreiðslu bæjarins vegna hnefaleikamóts sem ráðgert er að halda í Vestmannaeyjum 29. nóvember nk.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindi um fjárstuðning en samþykkir að taka þátt í kostnaði vegna viðurkenningarskjals eða bikars.
10. mál.
Fyrir lá bréf Erlings B. Richardssonar, dags. 21. nóvember sl., vegna ráðningar á íþrótta- og æskulýðsfulltrúa.
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
“Legg til að ákvörðun um ráðningu íþrótta- og æskulýðsfulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ verði vísað á ný til íþrótta- og æskulýðsráðs, í ljósi menntunarkrafna sem fram komu í auglýsingu Vestmannaeyjabæjar og upplýst var um á síðasta fundi bæjarráðs og þeirra upplýsinga sem fram koma í bréfi Erlings B. Richardssonar.”
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að fresta tillögu Arnars Sigurmundssonar og felur bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga skv. umræðu á fundinum.
11. mál.
Fyrir lá bréf frá Skipulagsstofnun, dags. 20. nóvember sl., vegna tillögu að aðalskipulagi Vestmannaeyja 2002-2014.
Bæjarráð vísar bréfi Skipulagsstofnunar til nánari umfjöllunar skipulags- og byggingarnefndar.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð 317. stjórnarfundar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, frá 13. nóvember sl.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð heilbrigðisnefndar Suðurlands, frá 19. nóvember sl.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar, frá 18. nóvember sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina með vísan til bókana hér að neðan.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
“Get ekki samþykkt að Vestmannaeyjabær taki hugsanlega á sig fjárhagslegar skuldbindingar vegna áforma um miðlun menningarefnis á vefnum um landnámsbæ og langskip, en heildarkostnaður er áætlaður 14 millj. kr., eins og fram kemur í 6. máli fundargerðar menningarmálanefndar. Að öðru leyti samþykki ég fundargerðina.”
Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson óska bókað: “Í fundargerðinni er engin ákvörðun tekin, hvort um ræðir framkvæmdir eða fjárútgjöld. Aftur á móti telur nefndin verkefnið áhugavert og hefur falið menningarfulltrúa að afla frekari upplýsinga um málið. Það teljum við eðlileg og sjálfsögð vinnubrögð nefndarinnar.
15. mál.
Samningamál.
Bæjarráð samþykkir fundargerð starfskjaranefndar frá 24. nóvember sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.41.
Andrés Sigmundsson (sign.)
Stefán Jónasson (sign.)
Arnar Sigurmundsson (sign.)
Bergur Elías Ágústsson (sign.)
Viktor Stefán Pálsson (sign.)