Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2692
BÆJARRÁÐ
2692. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 27. október kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Elsa Valgeirsdóttir og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að óska eftir því við Samtök sveitarfélaga á Suðurlandi (SASS) að samtökin samþykki að Vestmannaeyjabær fái fulla aðild að þeim á næsta aðalfundi samtakanna í nóvember nk.
Greinargerð:
Viðræður bæjarstjóra og formanns bæjarráðs um aðild bæjarins að SASS hafa þegar átt sér stað. Þær hafa leitt í ljós að ekkert er í veginum fyrir því að Vestmannaeyjabær geti átt fulla aðild að samtökunum og þannig tekið þátt í baráttu fyrir sameiginlegum hagsmunum sveitarfélaga á svæðinu. Það skiptir miklu máli að eiga góð samskipti við sveitarfélög á svæðinu. Vestmannaeyjabær hefur staðið utan samtakanna um nokkurt skeið og er það mat bæjarráðs eftir þá reynslu að hagsmunum Vestmannaeyjabæjar sé betur borgið innan samtakanna en utan.
2. mál.
Bæjarráð samþykkir að nú þegar skuli auglýst eftir einstaklingi í starf íþrótta- og æskulýðsfulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ.
3. mál.
Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að fela bæjarstjóra að gera samning við sérfræðing á sviði lánaviðskipta um að yfirfara lánasamsetningu bæjarins og jafnframt að gera tillögur um endurskipulagningu og endurfjármögnun lána bæjarsjóðs og stofnana hans, telji hann það skynsamlegt. Þá skal bæjarstjóri ennfremur skoða hvort skynsamlegt sé að fá fyrirtæki til að vakta lán bæjarsjóðs og stofnana hans, með það að markmiði að halda kostnaði vegna þeirra í lágmarki.
Greinargerð:
Það er mikilvægt að lánamál bæjarsjóðs og stofnana hans verði endurskoðuð. Það er mikilvægt að leitað verði allra leiða til að takmarka kostnað vegna nauðsynlegrar lántöku eins og kostur er. Sum sveitarfélög hafa farið þá leið að fá fyrirtæki til að vakta lánasamsetningu bæjarins árið um kring og koma með tilllögur um breytingar ef efni standa til. Þetta hefur gefið góða raun og skilað sér í lægri kostnaði. Það er mikilvægt að Vestmannaeyjabær leiti allra leiða til að takmarka kostnað sinn vegna nauðsynlegrar lántöku. Staða á lánamarkaði nú gerir það að verkum að tækifæri kann að vera til staðar að stokka upp í þessum málum hjá Vestmannaeyjabæ nú svo ná megi því markmiði að draga úr kostnaði og gera afborganir af lánum lægri og viðráðanlegri fyrir bæjarsjóð með tilliti til árstíðabundins tekjustreymis.
Meirihluti bæjarráðs óskar bókað.
Verulegur árangur hefur náðst í að koma böndum á útgjöld bæjarsjóðs og stofnana hans. Heildarkostnaður er undir þeim áætlunum sem gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Tekjur eru lægri en áætlun gerði ráð fyrir. Meirihlutinn telur mjög mikilvægt að ná tökum á lánamálum með því að endurfjármagna óhagstæð lán. Stefnt er að því að jafnvægi verði náð í rekstri bæjarsjóðs og stofnana um áramótin 2004-2005. Mikilvægur hlekkur í því að það geti tekist er að vel takist til við uppstokkun á lánasamsetningu Vestmannaeyjabæjar.
4. mál.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að taka saman kostnað vegna rekstrarvara, auglýsinga og annarrar þjónustu, auk þess að gera tillögur um hvernig megi draga úr kostnaði.
5. mál.
Fyrir lá bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 21. október sl., vegna fjármálaráðstefnu sveitarfélaga 2003.
6. mál.
Fyrir lá tilboð frá Mentor ehf., dags. 17. október sl., í Skilvísi – upplýsingakerfi fyrir sveitarfélög.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að skrifa undir samning við Mentor á grundvelli fyrirliggjandi tilboðs.
7. mál.
Fyrir lá erindi Frosta Gíslasonar framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs um fjárveitingu vegna verkefnisins Heilsueyjan, heilsutengd ferðaþjónusta í Eyjum.
Bæjarráð samþykkir að veita kr. 148.000 til verkefnisins og gera ráð fyrir upphæðinni við endurskoðun fjárhagsáætlunar.
8. mál.
Fyrir lá bréf félagsmálaráðuneytisins frá 17. október sl., vegna jöfnunarframlags til sveitarfélaga vegna lækkunar tekna af fasteignaskatti.
9. mál.
Fyrir lá bréf frá Brunabótafélagi Íslands frá 13. október sl., vegna úthlutunar úr styrkarsjóði EBÍ til bæjarins að fjárhæð kr. 400.000 vegna uppsetningar á lifandi sýningu á skanssvæðinu um Tyrkjaránið 1627.
Bæjarráð lýsir sérstakri ánægju um styrkveitingu EBÍ.
10. mál.
Fyrir lá erindi frá Sjónarhóli, þjónustumiðstöð fyrir fjölskyldur barna með sérþarfir, vegna landssöfnunar samtakanna 8. nóvember nk.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.
11. mál.
Fyrir lá bréf frá Nýsköpunarsjóði námsmanna, dags. 15. október sl., um styrk fyrir næsta starfsár.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð 6. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags íslenskra náttúrufræðinga.
13. mál.
Fyrir lá erindi nefndar vegna landsmóts saumaklúbba, þar sem farið er fram á styrk frá bæjaryfirvöldum í formi afnota á húsnæði og söfnum bæjarins.
Bæjarráð samþykkir erindið.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar frá 6. október sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
15. mál.
Fyrir lá fundargerð hafnarstjórnar frá 23. október sl.
Svohljóðandi bókun barst frá Elsu Valgeirsdóttur:
Vegna 2. máls í fundargerð hafnarstjórnar 23. október sl., óska ég eftir því að upplýsingar um nöfn, menntun og helstu starfsreynslu umsækjanda um stöðu hafnarvarðar liggi fyrir á næsta fundi bæjarstjórnar.
16. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 23. október sl.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
17. mál.
Fyrir lá fundargerð umhverfisnefndar frá 16. október sl.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 18.25.
Andrés Sigmundsson
Bergur E. Ágústsson
Lúðvík Bergvinsson
Elsa Valgeirsdóttir
Viktor S. Pálsson