Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2691
BÆJARRÁÐ
2691. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 20. október kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá skýrsla frá IBM-Business consulting services vegna skoðunar á rekstri Hraunbúða, hjúkrunar- og elliheimilis Vestmannaeyjabæjar.
Bæjarráð samþykkir að vísa skýrslunni til félagsmálaráðs til umsagnar.
2. mál.
Fyrir lá minnisblað frá fundi er Andrés Sigmundsson og Bergur Ágústsson áttu með fulltrúum samtaka sunnlenskra sveitarfélaga föstudaginn 17. október 2003.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá sjávútvegsráðuneytinu, dags. 14. október 2003, vegna úthlutunar byggðakvóta til Vestmannaeyjabæjar.
Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að móta tillögur að úthlutunarreglum og senda þær til ráðuneytisins.
4. mál.
Fyrir lá samningur við Hagfræðistofnun vegna könnunar á þjóðhagslegri arðsemi Vestmannaeyjaganga.
Bæjarráð samþykkir samninginn, tekið verður tillit til kostnaðar vegna samningsins í endurskoðaðri fjárhagsáætlun.
5. mál.
Fyrir lá bréf frá Ægisklúbbnum, dags. 14. október 2003, vegna aðbúnaðar á tjaldsvæðum.
Bæjarráð samþykkir að vísa erindinu til framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs til umsagnar.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Alnæmissamtökunum á Íslandi, dags. 9. október 2003, þar sem farið er fram á fjárstuðning.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Skáksambandi Íslands, dags. 3. október 2003, þar sem farið er fram á fjárstuðning vegna þátttöku keppanda frá Vestmannaeyjum í heimsmeistaramóti barna og unglinga.
Bæjarráð samþykkir að styrkja þátttökuna um kr. 75.000, tekið verður tillit þessarar fjárhæðar við endurskoðun fjárhagsáætlunar.
8. mál.
Fyrir lá svar frá Bergi Ágústssyni, bæjarstjóra við fyrirspurn Guðjóns Hjörleifssonar frá 29. september sl. 15. mál.
“Svohljóðandi fyrirspurnir bárust frá Guðjóni Hjörleifssyni:
1. “Í framhaldi af samþykkt 3ja ára áætlunar bæjarsjóðs og stofnana hans sem meirihlutinn hefur samþykkt er óskað eftir svari við eftirfarandi spurningum.
a. Er þurrkví inn á 3ja ára áætlun?
Nei, ekki er gert ráð fyrir þurrkví í 3ja ára áætlun Vestmannaeyjabæjar. Ástæðan er sú að ekki liggur fyrirað ráðist verði í framkvæmdina né hversu mikið hún mun kosta. Bent skal á að þriggja ára áætlun er gerð á hverju ári og er um lagalega skyldu að ræða. Þegar ákvörðun um framkvæmdir og kostnaður vegna þeirra liggur fyrir verður gert ráð fyrir framkvæmdafé í áætlunargerð Vestmannaeyjabæjar.
b. Er rekstur eða leiga á nýjum leikskóla inn í 3ja ára áætlun?
Nei, ekki er gert ráð fyrir rekstri eða leigu vegna nýs leikskóla. Hvað 3ja ára áætlun varðar vísast til svars undir lið a. Þess skal einnig getið að unnið er markvisst að framkvæmd málsins og vonast er til að niðurstaða liggi fyrir fljótlega þannig að hægt verði að hefjast handa við byggingu nýs leikskóla.
2. Nú liggur fyrir að bæjartæknifræðingur og skólamálafulltrúi eru hættir störfum. Þegar störf eru lögð niður er ljóst að það þarf að greiða biðlaun. Eru biðlaun þessara aðila inn í 3ja ára áætlun bæjarsjóðs ?
Gert verður ráð fyrir biðlaunum í endurskoðaðri fjárhagsáætlun ársins, biðlaun eru ekki inn í 3ja ára áætlun.
3. Hvað er gert ráð fyrir miklum greiðslum til Inga Sigurðssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í 3ja ára áætlun bæjarsjóðs?
Gert er ráð fyrir 6 mánaða launum og þar af leiðandi ekki gert ráð fyrir biðlaunum í 3 ára áætlun fyrir árin 2004-2006.”
9. mál.
Fyrir lá svar frá Bergi Ágústssyni við fyrirspurn Arnars Sigurmundssonar frá 13. október sl.
Fyrirspurn:
Var meirihluta bæjarráðs og bæjarstjóra kunnugt um að verið er að auglýsa eftir menningarfulltrúa í 50% tímabundið starf hjá Vestmannaeyjabæ? Ef svo er og ráðið verður í stöðuna hvenær verður lögð fram tillaga í bæjarráði hvernig bregðast skuli við þeim útgjaldaauka sem fólginn er í fjölgun stöðuheita við yfirstjórn fræðslu- og menningarmála? Í stað þess að gert er ráð fyrir launaútgjöldum á árinu 2003 fyrir eitt stöðugildi skóla- og menningarfulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ stefnir nú allt í að greitt verði fyrir 3,5 stöðugildi fyrir svipuð störf á næstu tólf mánuðum hjá bænum.
Svar við fyrirspurn:
Meirihluta bæjarráðs var kunnugt um að verið væri að auglýsa eftir menningarfulltrúa í 50% tímabundið starf. Ástæða fyrir ráðningunni, sem er tímabundin er sú að unnið er að heildarúttekt á skólastarfi í Vestmannaeyjum. Nýráðinn fræðslufulltrúi mun fyrst um sinn vera í 50% starfshlutfalli. Menningarfulltrúi mun skila mikilvægu hlutverki þar sem stefnt er á tvinna saman menningar og fræðslustarf í Vestmannaeyjum í ríkum mæli. Hvað útgjaldaauka varðar er það rétt að hann mun til skamms tíma vera einhver, en þess skal getið að um er að ræða einn mikilvægasta málaflokk Vestmannaeyjabæjar og þar af leiðir að nauðsynlegt er að vanda til verka.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
“Fyrrihluta fyrirspurnar minnar frá síðasta bæjarráðsfundi er að nokkru svarað, en eftir stendur að ekki er gerð grein fyrir aukaútgjöldum úr bæjarsjóði á næstu tólf mánuðum vegna þessara breytinga. Ég ítreka fyrri bókun mína um að ekki er ástæða til þess að ráða sérstakan menningarfulltrúa í tímabundið starf hjá bænum og tel að framkvæmdastjóri fræðslu- og menningarsviðs eigi að vinna að þessum málum samhliða starfi sínu hjá bænum.”
10. mál.
Fyrir lá fundargerð jafnréttisnefndar frá 16. október 2003.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
11. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 16. október 2003.
Bæjarráð vísar 4. máli aftur til nefndarinnar en samþykkir fundagerðina að öðru leyti.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð goslokanefndar frá 13. október 2003.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina, gert verður ráð fyrir 3,2 milljónum króna við endurskoðun fjárhagsáætlunar.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar frá 13. október 2003.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 13. október 2003.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19:19.
Andrés Sigmundsson
Bergur E. Ágústsson
Stefán Jónasson
Arnar Sigurmundsson
Viktor S. Pálsson