Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2689
BÆJARRÁÐ
2689. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 6. október kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að fela formanni bæjarráðs og bæjarstjóra að hefja viðræður við stjórn og framkvæmdastjóra Sambands sunnlenskra sveitarfélaga (SASS) með það að markmiði að ganga á ný til liðs við samtökin. Það er mikilvægt fyrir sveitarfélag eins og Vestmannaeyjar að vera í góðu samstarfi við önnur sveitarfélög á Suðurlandi. SASS er vettvangur þess samstarfs. Sú einangrunarstefna sem rekin hefur verið undanfarin misseri, sem m.a. fólst í úrsögn úr SASS fyrir nokkrum misserum, hefur ekki skilað Vestmannaeyjum neinu. Því samþykkir bæjarráð að óska eftir því við SASS að hefja viðræður með það að markmiði að Vestmannaeyjabær verði á ný aðili að samtökum.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
“Í tengslum við aðalfund SASS á síðasta ári fóru fram viðræður fulltrúa Vestmannaeyjabæjar og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga og þar metin staðan í samskiptum þessara aðila. Eftir að ný kjördæmaskipan kom til framkvæmda á þessu ári eru sveitarfélög í Suðurkjördæmi auk Vestmannaeyja í þremur mismunandi landshlutasamtökum. Ekki var vilji til þess að sameina SASS og Samtök sveitarfélaga á Suðurnesjum og fá Vestmannaeyjabæ og Hornafjörð í ný heildarsamtök í Suðurkjördæmi. Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar lýstu sig tilbúna að ganga til nánara samstarfs við SASS að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Ekki hefur tekist að leysa ágreining varðandi framlög til Náttúrustofu Suðurlands í Vestmannaeyjum og skiptingu fjármuna af framlögum Byggðastofnunar til atvinnuráðgjafar í Eyjum, en þeir fjármunir fara í gegnum SASS. Á þeim tíma var einnig uppi ágreiningur um hvort halda ætti úti heilbrigðiseftirliti í Vestmannaeyjum eða flytja það á Selfoss. Að mínu áliti þarf að leysa þessi ágreiningsmál í viðræðum við SASS, áður en afstaða verði tekin til þess hvort Vestmannaeyjabær gangi í Samtök sunnlenskra sveitarfélaga á nýjan leik.”
2. mál.
Fyrir lágu drög frá Frosta Gíslasyni vegna reglna um aðkomu og þátttöku Vestmannaeyjabæjar við gerð veggja þar sem lóðarmörk liggja að göngustígum samkvæmt samþykktu skipulagi.
Bæjarráð samþykkir reglurnar fyrir sitt leyti, en felur bæjarstjóra að útfæra reglurnar í samræmi við umræður á fundinum.
3. mál.
Fyrir lágu tvö bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga:
a) Bréf dags. 26. september 2003, vegna heimildarákvæðis 4. og 5. mgr. 5. gr. laga nr. 4/1995.
b) Bréf dags. 29. september 2003, vegna 59. fundargerðar launanefndar sveitarfélaga og félags leikskólakennara.
4. mál.
Fyrir lágu upplýsingar frá sjávarútvegsráðuneytinu, vegna byggðakvóta.
5. mál.
Fyrir lá 15. mál fundargerðar bæjarráðs frá 15. september sl. sem bæjarstjórn vísaði til bæjarráðs til frekari skoðunar.
Bæjarráð getur eftir atvikum samþykkt upphaflega afgreiðslu menningarmálanefndar, frá 28. ágúst sl., enda leiðir slíkt til lækkunar á útgjöldum.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Ríkiskaupum, dags. 29. september sl. vegna Skólavegs 15.
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að selja hæstbjóðendum 40% eignarhlut sinn í Skólavegi 15.
7. mál.
Fyrir lá 13. mál fundargerðar bæjarráðs frá 29. september sl., þar sem bæjarráð frestaði erindinu og fól bæjarstjóra að móta tillögur um úthlutnarreglur til fjarnámsnemenda í Vestmannaeyjum.
Bæjarráð samþykkir 55.000 þús. króna ferðastyrk til hjúkrunarfræðinema í fjarnámi, jafnframt samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra að vinna að frekari útfærslu á ferðastyrkjum.
8. mál.
Fyrir lá fundargerð almannavarnarnefndar Vestmannaeyja frá 2. október sl., þar sem óskað er eftir að bæjarstjórn skipi í almannavarnarnefndina.
Bæjarráð samþykkir að skipa eftirfarandi einstaklinga í nefndina, Ragnar Þór Baldvinsson starfandi slökkviliðstjóra og Frosta Gíslason.
9. mál.
Fyrir lá viðauki á leigusamningi vegna tölvubúnaðs frá Nýherja.
Bæjarráð samþykkir leigusamningin og felur bæjarstjóra að ganga frá málinu.
10. mál.
“Að beiðni Arnars Sigurmundssonar bæjarráðsmanns voru erindi Vestmannaeyjabæjar sem lögð voru fyrir fjárlaganefnd 25. sept. sl. tekin til sérstakrar umfjöllunar í bæjarráði. Arnar leggur ríka áherslu á eftirfylgni þeirra gagnvart fjárlaganefnd og stjórnvöldum. Einkum var rætt um erindi sem varða samgöngur við Vestmannaeyjar, svo sem arðsemismat og frekari fjármögnun rannsókna vísindamanna vegna möguleika á jarðgöngum milli lands og Eyja. Þá ræddi bæjarráð einnig um forgangsröðun og megináherslur í bættum samgöngum við Vestmannaeyjar.
Bæjarráð er sammála um áherslur gagnvart fjárlaganefnd og stjórnvöldum vegna bættra samganga við Vestmannaeyjar. Forgangsatriði í þeim er frekari fjölgun ferða Herjólfs, þjóðvegs okkar Eyjamanna og að stjórnvöld tryggi nauðsynlegt fjármagn til að ljúka rannsóknum vegna mögulegra jarðgangna milli lands og Eyja. Bæjarráð leggur mjög ríka áherslu á mikilvægi þess að stjórnvöld og bæjaryfirvöld geti tekið afstöðu til framtíðarkosta í bættum samgöngum eigi síðar en árið 2005 eins og lagt var til í skýrslu samgönguhóps í mars sl.
11. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 2. október sl.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð skólamálanefndar frá 2. október sl.
Bæjarráð samþykkir fundagerðina.
13. mál.
Samningamál.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.06.
Andrés Sigmundsson
Bergur E. Ágústsson
Stefán Jónasson
Arnar Sigurmundsson
Viktor S. Pálsson