Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2688

29.09.2003

BÆJARRÁÐ

2688. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 29. september kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Jónasson, Guðjón Hjörleifsson og Bergur Elías Ágústsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Viktor Stefán Pálsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá bréf iðnaðar- og viðskiptaráðuneytisins, dags. 25. september sl., vegna beiðni um viðræður um stofnun frumkvöðlaseturs, þar sem fram kemur að ráðuneytið sé tilbúið til viðræðna um málið.

Bæjarráð felur bæjarstjóra frekari framgang málsins.

2. mál.

Fyrir lágu drög að samningi vegna kaupa Vestmannaeyjabæjar á tímaeiningum í líkamsræktarsölum bæjarins.

Guðjón Hjörleifsson kom með svohljóðandi afgreiðslutillögu:

“Legg til að samningsdrögunum verði vísað til íþrótta- og æskulýðsráðs og jafnframt verði Björgunarfélagi Vestmannaeyja boðið að gerast aðili að samningnum.”

Meirihluti bæjarráðs samþykkir samningsdrögin fyrir sitt leyti og felur bæjarstjóra að ganga til viðræðna á grundvelli þeirra. Íþrótta- og æskulýðsráði verður kynnt málið á síðari stigum og bæjarráð telur eðlilegt að Björgunarfélag Vestmannaeyja verði aðili að samningnum enda hafi það alltaf legið fyrir að hálfu meirihlutans.

3. mál.

Í kjölfar álykta hagsmunafélaga í Vestmannaeyjum gegn fyrirhugaðri línuívilnun hefur bæjarráð Vestmannaeyja ákveðið að bjóða hagsmunasamtökum í Vestmannaeyjum til viðræðna um leiðir til að gæta hagsmuna Vestmannaeyinga í máli þessu.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirbúa fund með hagsmunasamtökum.

4. mál.

Fyrir lágu fjárlagaerindi bæjarstjórnar Vestmannaeyja til fjárlaganefndar.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Hafrannsóknarstofnun, dags. 22. september sl., vegna dýpkunarframkvæmda í Vestmannaeyjahöfn og losunar efnis utan hennar.

Bæjarráð vísar bréfinu til hafnarstjórnar.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Brimhól ehf., dags. 23. september sl., vegna breytinga á landhelgislínum við Vestmannaeyjar.

Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga.

7. mál.

Fyrir lá bréf frá IMG Deloitte, dags. 22. september sl., vegna samanburðargreiningar á grunnskóla og leikskóla.

Bæjarráð vísar bréfinu til skólamálaráðs.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá Ferli ehf., dags. 20. september sl., vegna kynningar á “Íbúðasýn – íbúðakerfi fyrir bæjar- og sveitarfélög”.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá Vinnumálastofnun, dags. 24. september 2003, vegna átaksverkefna.

Bæjarráð samþykkir að ráða Vilborgu Þorsteinsdóttur í stöðuna, enda gegndi hún þessari stöðu fyrr á þessu ári, gert verður ráð fyrir 25% framlagi bæjarins við endurskoðun fjárhagsáætlunar.

10. mál.

Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélag, dags. 22. september sl., vegna gjaldskrár hafna.

Bæjarráð vísar bréfinu til hafnarstjórnar.

11. mál.

Fyrir lá bréf frá Íbúðalánasjóði, dags. 22. september sl., vegna viðbótarheimildar til veitingar viðbótalána.

Bæjarráð vísar bréfinu til húsnæðisnefndar og til endurskoðunar fjárhagsáætlunar.

12. mál.

Fyrir lá bréf frá Val Andersen, dags. 22. september sl., vegna gatnargerðargjalda.

Bæjarráð ítrekar fyrri samþykktir sínar um málið.

13. mál.

Fyrir lá bréf frá hjúkrunarfræðinemum í Vestmannaeyjum, dags. 26. september 2003, þar sem farið er fram á styrk vegna námsferða.

Bæjarráð frestar erindinu og felur bæjarstjóra að koma með tillögur um úthlutunarreglur til fjarnámsnemenda hér í Vestmannaeyjum fyrir næsta bæjarráðsfund.

14. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

“Í framhaldi af fundi fulltrúa bæjarstjórnar Vestmannaeyja með samgönguráðherra er óskað eftir því að bæjarráð samþykki forgangsröð á þeim áhersluatriðum er fram komu á framangreindum fundi. Þaö er nauðsynlegt að samgönguyfirvöld og fjárveitinganefnd viti hug bæjaryfirvalda í þessum málum. Ljóst er að allir þeir þættir sem rætt var um rúmast ekki innan fjárlaga, og því er nauðsynlegt að ná samstöðu innan bæjarstjórnar um hvaða áherslur við munum hafa í forgang. Jafnframt liggur fyrir að skv. skýrslu samgönguhóps sem samgönguráðherra skipaði, mun farmtíðarákvörðun um samgöngmál milli lands og Eyja verða tekin á árinu 2005.”

Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:

“Bæjaryfirvöld hafa nú þegar kynnt fjárlaganefnd Alþingis og samgönguráðherra áherslur bæjarins og forgangsröðun þeirra. Hún skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi að skilgreina Herjólf sem þjóðveg sem mun leiða af sér lækkun far- og farmgjalda, í öðru lagi lítur hún að fjölgun ferða Herjólfs og niðurgreiðslu á flugi og í þriðja lagi að tryggt verði nægt fjármagn til að ljúka rannsóknum á botnlögum vegna jarðgangnagerðar milli lands og Eyja, auk annarra rannsókna sem eru í gangi. Það er ljóst að samgönguráðherra tók lítið undir áherslur heimamanna á fundi með honum sl. fimmtudag. Það verður því að bíða og sjá hvernig ríkisstjórnin afgreiðir fjárlög fyrir árið 2004. Þar mun vilji hennar birtast vegna þeirra erinda sem Vestmannaeyjabær lagði fram. Bæjaryfirvöld telja að allar þær beiðnir sem lagðar voru fyrir nefndina eigi að rúmast innan ramma fjárlaga. Það er því ríkisstjórnarinnar og meirihluta Alþingis að sýna hug sinn í verki gagnvart Vestmannaeyjabæ.”

Í ljósi þessa telur meirihluti bæjarráðs tillögu Guðjóns Hjörleifssonar óþarfa og vísar henni frá.

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

“Enn á ný er ábyrgðarleysi meirihlutans algjört þegar horfa á til framtíðar í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Fundur með samgönguráðherra var góður en mjög illa undirbúinn af hálfu meirihlutans. Fulltrúar samgönguráðuneytisins voru engu nær um forgangsröð í samgöngumálum okkar. Í framhaldi af frávísun tillögu minnar legg ég fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga:

“Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að rannsóknir vegna jarðgangnagerðar milli Vestmanneyja og lands séu forgangsverkefni Vestmannaeyjabæjar í samgöngumálum og leggur áherslu á að framlag upp á 60 milljónir króna fáist til þess að ljúka þeim rannsóknum. Það er mikilvægt að þetta liggi fyrir svo niðurstaða allra rannsókna verði til staðar þegar framtíðarákvörðun í samgöngumálum okkar Eyjamanna verður tekin árið 2005.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson óska bókað:

“Enn á ný þvælist Guðjón Hjörleifsson fyrir er kemur að því að berjast fyrir bættum samgöngum milli lands og Eyja. Við vísum fullyrðingum Guðjóns um illa undirbúinn fund með samgönguráðherra á bug. Öll erindi Vestmannaeyjabæjar hvort sem var til fjárlaganefndar og sömuleiðis til samgönguráðherra voru mjög vel undirbúin eins og allir geta kynnt sér, en þau erindi voru lögð fram fyrr á fundinum 4. mál hér að framan. Í bókun okkar hér að framan koma fram áhersluatriði meirihlutans í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Við hvetjum Guðjón til að taka þátt í þeirri vinnu að bæta samgöngumálin. “

Meirihluti bæjarráðs samþykkir að vísa tillögu Guðjóns frá.

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

“Sem bæjarráðsmaður og jafnframt þingmaður er ég að óska eftir veganesti frá bæjaryfirvöldum til þess geta svarað því hvaða forgangsröð á að vera í fjárveitingar vegna framtíðarákvörðunar í samgöngumálum Eyjanna, en skv. tillögu samgönguhóps samgönguráðherra þá á að taka ákvörðun um framtíð okkar Eyjamanna í samgöngumálum árið 2005. Erindi meirihlutans eru upp á tæpar 200 milljónir og það er ljóst að ekki næst að ná öllum okkar óskum inn á næsta fjárlagaár. Ef meirihlutinn treystir sér ekki til þess að samþykkja tillögu mína þá gæti það haft þau áhrif að niðurstöður rannsókna um jarðgöng milli lands og Eyja verði ekki tilbúnar árið 2005. Það er því algjört ábyrgðarleysi af hálfu meirihluta bæjarráðs að hafna tillögu minni um að jarðgangnarannsóknir séu forgangsverkefni í samgöngumálum okkar Eyjamanna. Á blaði sem kynnt var samgönguráðherra í síðustu viku þá voru jarðgangnarannsóknir fjórði valkosturinn um áherslur í samgöngumálum okkar Eyjamanna og því vísa ég á bug að erindi til fjárlaganefndar hafi verið grunnur að viðræðum við samgönguráðherra.

Fulltrúi minnihlutans mun leggja fram þetta blað á næsta bæjarráðsfundi, sé þess óskað.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson óska bókað:

“Áhersluatriði í samgöngumálum okkar Eyjamanna liggja þegar fyrir. Því skorum við enn á ný á Guðjón að berjast með meirihlutanum fyrir bættum samgöngum milli lands og Eyja. Bættar samgöngur eru forsenda fyrir því að byggð hér geti eflst. Við vísum í bókun okkar hér að framan það sem fram komu áherslur bæjarins og forgangsröðun í samgöngumálum sem var kynnt fyrir fjárlaganefnd Alþingis og samgönguráðherra.”

Guðjón Hjörleifsson, óskar bókað:

“Ég tel það mjög mikilvægt að meirihluti bæjarráðs marki stefnu um forgangsröð og því flutti ég tillögu um að rannsóknir vegna jarðgangna nytu forgangs.

Hvað varðar fjölgun ferða Herjólfs, niðurgreiðslu á flugi og flutningskostnaði með Herjólfi, þá eru það mál sem þarf að vinna áfram í. Það hefur náðst árangur í fjölgun ferða Herjólfs upp á 30% og enn má gera betur. Ég mun vinna í þessum málum enda í fullu samræmi við tillögu okkar Eyjamanna sem voru í samgönguhóp sem samgönguráðherra skipaði og skilaði af sér á sínum tíma.

Harma ábyrgðar- og stefnuleysi núverandi meirihluta um framtíðarsýn í samgöngumálum okkar Eyjamanna.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Jónasson óska bókað:

“Málflutningur af því tagi er kemur fram í bókun Guðjóns hjálpar ekki íbúum bæjarins til að fá samgöngubætur og farm- og fargjaldalækkun sem brennur á þeim. Við hörmum það að Guðjón Hjörleifsson skuli gera allt til að rjúfa þá samstöðu sem nauðsynleg er til að samgöngur batni milli lands og Eyja.”

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

“Með tillögu minni var ég að óska eftir samstöðu innan bæjarráðs um forgangsröðun um jarðgangnarannsóknir milli lands og Eyja, og því vísa ég bókun þeirra Andrésar og Stefáns á bug. Að öðru leyti vísa ég til bókana minna í málinu.”

15. mál.

Svohljóðandi fyrirspurnir bárust frá Guðjóni Hjörleifssyni:

1. “Í framhaldi af samþykkt 3ja ára áætlunar bæjarstjóðs og stofnana hans sem meirhlutinn hefur samþykkt er óskað eftir svari við eftirfarandi spurningum.

a. Er þurrkví inn á 3ja ára áætlun?

b. Er rekstur eða leiga á nýjum leikskóla inn í 3ja ára áætlun?

c. Nú liggur fyrir að breytingar eru jafnvel í rekstri Sorpeyðingarstöðvar og formaður bæjarráðs hefur lýst því yfir að jafnvel komi til greina að flytja sorp með Herjólfi upp á land til urðunar.

Því er spurt...

i. Er hér um persónlulega skoðun formanns bæjarráðs að ræða, eða er þetta skoðun meirihlutans ?

ii. Sé hér um skoðun meirihlutans að ræða er óskað svara við því hvort fulltrúar hans hafi áttað sig á því hvert álagið af þessu á Herjólf yrði, hve mikið af stæðum fyrir einkabíla Eyjamanna gæti fækkað og þar af leiðandi hve biðlastar gætu aukist með Herjólfi ef sorp frá Eyjum verður flutt upp á fasta landið.

iii. Hafa fulltrúar meirihlutans gert sér grein fyrir því hvaða áhrif sorpflutningur hefði á flutning á matvælum til og frá Eyjum með Herjólfi ?

  1. Nú liggur fyrir að bæjartæknifræðingur og skólamálafulltrúi eru hættir störfum. Þegar störf eru lögð niður er ljóst að það þarf að greiða biðlaun. Eru biðlaun þessara aðila inn í 3ja ára áætlun bæjarsjóðs ?
  1. Hvað er gert ráð fyrir miklum greiðslum til Inga Sigurðssonar, fyrrverandi bæjarstjóra í 3ja ára áætlun bæjarsjóðs?
  1. Nú liggur ljóst fyrir að þrátt fyrir að farið hafi verið í umtalsverðar breytingar á skipuriti með mjög svo umdeildum uppsögnum á reyndum og góðum starfsmönnum undir því yfirskyni að ná fram rekstrarhagræðingu hefur orðið fjölgun á starfsmönnum í Ráðhúsi og yfirstjórn bæjarnins því orðið töluvert dýrari. Hvað munu þessar breytingar kosta bæjarsjóð árlega og er gert ráð fyrir þessu í 3ja ára áætun?
  1. Með nýju skipuriti voru ráðnir 4 nýir framkvæmdastjórar hjá Vestmanneyjabæ. skv. fundargerðum samninganefndar hafa launakjör þeirra aldrei verið lögð fyrir og því er spurt .

i. Eru þessir aðilar í sjálfboðaliðsvinnu?

ii. Ef ekki, hafa þeir fengið greidd laun án þess að samninganefnd hafa fjallað um launakjör þeirra?

  1. Í 3ja ára áætlun er gert ráð fyrir 720 milljón króna söluhagnaði af hlutabréfum Vestmannaeyjabæjar í Hitaveitu Suðurnesja. Hlutur Vestmannaeyjabæjar eru 511 milljónir á genginu 1. Fulltrúar V listans voru á móti þessari sölu og töldu hana mistök af hálfu Sjálfstæðismanna og Andrésar Sigmundssonar. Nú liggur fyrir að verðmæti hlutabréfanna eru töluvert hærri en fulltrúar V-listans hafa hingað til ályktað.

Skv. 3já ára áætlun, er miðað við að selja hlutabréfin fyrir 720 milljónir. Er verið að tala um öll hlutabréfin eða bara hluta þeirra. Mikilvægt er að bæjarfulltrúar V-listans sem hingað til hafa ekki talið eðilegt að ræða verðmæti þessara hlutabréfa nema á genginu 1 geri grein fyrir því hvers vegna þeir telji nú ástæðu til að fara öðru vísi að og svari því hvað hefur breyst af hálfu V-listans um hugsanleg verðmæti hlutabréfanna.

  1. Skv. bókun meirihluta bæjarráðs undir 18. máli bæjarráðs frá 15. sept. fól bæjarráð bæjarstjóra að afla upplýsinga vegna kostnaðar tveggja ferða, annarsvegar ferðar til Frakklands og hinsvegar ferðar til Færeyja. Jafnframt var óskað eftir því að lagðar yrðu fram skýrslur um kostnað, tilefni, árangur og fjölda ferða bæjarfulltrúa og embættismanna frá árinu 1990.

i. Í framhaldi af þessu er óskað eftir því að í stað þess að miða eingöngu við kjörtímabil bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins verði miðað við árið 1986 og framangreindur kostnaður uppreiknaður til verðlags í dag.

ii. Óskað er eftir eftirfarandi upplýsingum vegna kostnaðar forseta bæjarstjórnar Vestmanneyja vegna ferðar erlendis frá árinu 1986 til og með árinu 2003. Allar upphæði verði framreiknaðar til dagsins í dag.

a. Ragnars Óskarssonar 1986 til1990

b. Braga I. Ólafssonar frá 1990 til 1994

c. Ólafs E. Lárussonar frá 1994 til 1998

d. Sigrúnar I. Sigurgeirsdóttur frá 1998 til 2002

e. Guðjóns Hjörleifssonar frá 2002 til 2003

f. Andrésar Sigmundssonar í rúma 3 mánuði árið 2003

Jafnframt er óskað eftir upplýsingum um hvort greiddur hafi verið kostnaður vegna maka forseta bæjarstjórnar Vestmennaeyja og ef svo er hvort samþykkt bæjarstjórnar hafi legið að að baki.”

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara fyrirspurnum Guðjóns Hjörleifssonar. Þar sem um margar fyrirspurnir er að ræða mun taka einhvern tíma að svara þeim og mun það verða gert í áföngum.

Andrés Sigmundsson, óskar bókað:

“Vegna c. liðar í fyrirspurn Guðjóns vil ég taka eftirfarandi fram: Verið er að athuga stöðu sorpmála í Eyjum eins og m.a. kemur fram í bréfi frá umhverfis- og framkvæmdasviði bæjarins og bæjarráð afgreiddi 1. september s.l. Ákvörðun um framtíð þeirra mála hefur enn ekki verið tekin. Bollaleggingar Guðjóns Hjörleifssonar um Herjólf og biðlista fyrir einkabíla með skipinu snýr því eingöngu að yfirmönnum samgöngumála í landinu og samflokksmönnum hans.”

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

“Andrés Sigmundsson staðfesti það á bæjarráðsfundinum að hann hafi marg oft rætt um það sem einn valkost að flytja sorp með Herjólfi. Ég hef meiri áhuga á því að fjölga ferðum Herjólfs til þess að þjónusta okkur Eyjamenn betur, heldur en að óska eftir fjölgun ferða Herjólfs til þess að koma sorpi upp á land.”

Andrés Sigmundsson óskar bókað:

“Ég ítreka það sem áður kom fram, að ákvörðun um framtíðarskipan sorpmála í Eyjum hefur ekki enn verið tekin. Bókun Guðjóns um sorp og Herjólf lýsir einungis þeim furðulegu vinnubrögðum er hann stundar hér á þessum fundi. Ég harma það.”

16. mál.

Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 25. september 2003.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20:40.

Andrés Sigmundsson

Bergur E. Ágústsson

Stefán Jónasson

Guðjón Hjörleifsson

Viktor S. Pálsson


Jafnlaunavottun Learncove