Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2679

21.07.2003

BÆJARRÁÐ

2679. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 21. júlí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Ó. Jónasson, Guðjón Hjörleifsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð býður Berg Elías Ágústsson bæjarstjóra velkominn til starfa og væntir góðs samstarfs við hann.

2. mál.

Í ljósi þess að Ingi Sigurðsson, fyrrverandi bæjarstjóri, hefur ákveðið að fela lögmanni að sjá um öll samskipti sín við Vestmannaeyjabæ vegna samninga um starfslok samþykkir meirihluti bæjarráðs að fela Ástráði Haraldssyni, hrl., að tryggja hagsmuni bæjarins í þeim viðræðum.

3. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Andrési Sigmundssyni og Stefáni Ó. Jónassyni:

"Leggjum til að nú þegar verði hafist handa um að malbika göngustíg inn í Herjólfsdal og verkinu lokið fyrir þjóðhátíð. Gert verði ráð fyrir kostnaði í endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2003."

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“ Samþykki tillöguna og fagna þessari ákvörðun og dreg því tillögu mína til baka um sama málefni sem ég hafði sent inn til bæjarráðs í morgun. Óska eftir því að kostnaðaráætlun verði lögð fram á næsta fundi bæjarráðs.”

4. mál.

Í ljósi erfiðrar fjárhagsstöðu Vestmannaeyjabæjar samþykkir bæjarráð að fela bæjarstjóra, Bergi E. Ágústssyni að skila greinargerð um stöðu mála fram að þeim tíma er núverandi meirihluti tók við.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Iðntæknistofnun dags. 9. júlí sl. þar sem lýst er áhuga á því að taka þátt í viðræðum um stofnun frumkvöðlaseturs í Vestmannaeyjum.

Fyrir liggur að meirihluti bæjarstjórnar hefur ákveðið að setja á stofn nýsköpunarmiðstöð og fagnar bæjarráð því áhuga Iðntæknistofnunar fyrir málinu og mun eiga frekari viðræður við þá.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Eignarhaldsfélaginu Brunabótarfélagi Íslands dags. 10. júlí sl. þar sem boðað er til aðalfundar 3. október nk.

7. mál.

Fyrir lágu tvö tilboð í að annast fjárhagslegan aðskilnað þreksalar frá annarri starfsemi Íþróttamiðstöðvar.

a) Deloitte & Touche kr. 94.000 auk VSK.

b) IBM Business Consulting Serv. kr. 640.000 auk ferðakostnaðar.

Bæjarráð samþykkir tilboð Deloitte & Touche í verkið.

8. mál.

Fyrir lágu fundargerðir 54. og 55. fundar Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands vegna grunnskóla.

9. mál.

Fyrir lágu undirskriftalistar þar sem bæjaryfirvöld eru hvött til að koma upp nýrri félagsmiðstöð fyrir unglinga.

Bæjarráð þakkar þeim er stóðu að undirskriftasöfnuninni fyrir áhugann og tekur undir þau sjónarmið sem fram koma í meðfylgjandi bréfi. Bæjarráð vísar málinu að öðru leyti til tómstunda- og íþróttaráðs.

Jafnframt lá fyrir fyrirspurn minnihlutans frá síðasta fundi bæjarstjórnar um stefnu núverandi meirihluta í uppbyggingu fyrir æskulýðsstarfsemi í Vestmannaeyjum.

Unnið er að endurskipulagninu á tómstunda- og æskulýðsstarfsemi á vegum bæjarins og munu niðurstöður verða birtar síðar.

10. mál.

Fyrir lá tillaga frá síðasta fundi bæjarstjórnar um að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri Barnaskólans í Vestmannaeyjum skili áliti sínu um ástæður niðurstaðna samræmdra prófa 10. bekkinga í Barnaskóla Vestmannaeyja.

Bæjarráð vísar tillögunni frá þar sem greinargerð Sigurðar Símonarsonar, skólamálfulltrúa, liggur fyrir og málið er í vinnslu.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“ Harma það að skólastjóri og aðstoðarskólastjóri BV fái ekki að láta álit sitt í ljós vegna slaks árangurs í samræmdum prófum 10. bekkjar Barnaskólans. Jafnframt tel ég rétt að foreldrar barna í 10. bekk eigi rétt á að fá skriflegt álit skólastjórnenda í málinu en stór orð hafa fallið í garð nemenda og foreldra.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“Fyrir liggur að meirihluti bæjarstjórnar leggur ríka áherslu á að stórefla allt skólastarf. Mikilvægt er að aðilar er koma að þessu máli, þ.e. skólarnir, nemendur og foreldrar vinni náið saman til að auka og efla árangur í öllu skólastarfi.”

11. mál.

Í framhaldi af 8. máli frá síðasta fundi bæjarráðs, og breytingartillögu frá síðasta fundi bæjarstjórnar, er tekin til umfjöllunar tillaga um að skipa starfshóp til að leggja mat á þau uppeldisskilyrði sem börnum og ungmennum eru búin í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð samþykkir að bæta við í starfshópinn einum fulltrúa foreldra frá hvorum skóla og einum fulltrúa nemenda frá hvorum skóla.

12. mál.

Bæjarráð samþykkir að næsti fundur bæjarstjórnar verði miðvikudaginn 23. júlí nk. í stað 24. júlí sem ákveðið hafði verið áður, og síðan 4. september nk. Bæjarráð mun sjá um afgreiðslur milli bæjarstjórnarfunda í samræmi við bæjarmálasamþykkt.

13. mál.

Fyrir lá tölvupóstur frá félagasamtökunum Veraldarvinum dags. 17. júlí sl. þar sem kynnt er hugmynd um að erlendir sjálfboðaliðar gætu tekið að sér verkefni í Eyjum.

Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu að þessu sinni en er reiðubúið til viðræðna á næsta ári.

14. mál.

Fyrir lá bréf frá Eignarhaldsfélagi Vestmannaeyja dags. 16. júlí sl. varðandi greiðslu á útistandandi hlutafjárloforði og óskað eftir formlegu svari.

Fram kemur hjá bréfritara að bréfi frá 6. mars sl. hafi ekki verið svarað og því felur bæjarráð bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga um Eignarhaldsfélagið og mál tengd því.

15. mál.

Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti að óbreytt fyrirkomulag haldist á afgreiðslutíma verslunar ÁTVR í Eyjum fyrir þjóðhátíð eins og verið hefur undanfarin ár.

16. mál.

Fyrir lá bréf frá Fornleifavernd ríkisins dags. 14. júlí sl. þar sem starfsemi stofnunarinnar er kynnt.

Bæjarráð vísar bréfinu til menningarmálanefndar.

17. mál.

Fyrir lá bréf frá Ólafi Þ. Snorrasyni dags. 12. júlí sl. varðandi ráðningu fjögurra framkvæmdastjóra til bæjarins nýlega og hvort þurft hefði að auglýsa störfin.

Meirihluti bæjarráðs felur bæjarstjóra að svara bréfinu.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Tek undir með bréfritara. Með þessu er meirihluti bæjarstjórnar að hunsa allar reglur og samþykktir um að auglýsa störf. Í viðtali við Lúðvík Bergvinsson á Eyjar.net segir hann að það hefði verið sýndarmennska að auglýsa störf sem

þegar væri búið að ákveða hver ætti að fá. Ljóst er að þegar pólitíkusar ráðstafa störfum Vestmanneyjabæjar eftir geðþótta þá er það brot á jafnræðisreglu. Með þessu er bæjarbúum sem hafa menntað sig til hinna ýmsu starfa mismunað og eins og fram kemur hjá bréfritara en þar stendur “þar sem það hefur ekki verið í pólitísku starfi eða er æsku- eða golffélagi einhverra pólitíkusa” Jafnframt er það alvarlegt að brjóta hina almennu reglu um auglýsingu starfa hjá Vestmannaeyjabæ. Það gefur auga leið að hin yfirlýsta stefna V-listans um stuðning við fólk til þess að mennta sig og koma heim til starfa er moðreykur einn. Þarf viðkomandi aðili kannski að vera með flokksskírteini áður en hann ákveður að hefja framhaldsnám og ætla að flytja aftur til Eyja. Framkoma meirihlutans í þessu máli er honum til skammar og ætti hann að sjá sóma sinn í að afturkalla þessar ráðningar og auglýsa störfin aftur eins og fram kemur í tillögu minni hér á eftir.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“Bókun Guðjóns Hjörleifssonar, fyrrverandi bæjarstjóra, vekur undrun. Það kemur hvergi fram að auglýsa hafi þurft þessi störf. Það er mikill fengur fyrir bæjarfélagið að fá til liðs við okkur jafn hæft og vel menntað fólk og nýráðnir einstaklingar eru. Í mjög svo erfiðri fjárhagsstöðu bæjarins eru skipulagsbreytingar, og þar með ráðning á viðkomandi starfsmönnum, mikið happ fyrir bæjarfélagið. Í jafnerfiðri stöðu og bæjarfélagið er nú þjóna deilur um þessi mál engum tilgangi.”

18. mál.

Fyrir lá bréf frá Láru V. Júlíusdóttur, hrl., dags. 14. júlí sl. þar sem óskað er eftir úrlausn vegna hávaðamengunar að Bárustíg 9.

Bæjarráð vísar málinu til skipulags- og byggingarnefndar.

19. mál.

Fyrir lá bréf frá Oddi Bjögvin dags. 15. júlí sl. þar sem bent er á lausn varðandi bílastæði við Heimagötu.

Bæjarráð þakkar Oddi fyrir erindið og vísar því til skipulags- og byggingarnefndar.

20. mál.

Fyrir lá bréf frá Ferðamálasamtökum Vestmannaeyja dags. 21. júlí sl. þar sem óskað er eftir liðsinni við að koma upp upplýsingaskilti við þjóðveg 1.

Bæjarráð samþykkir styrk að upphæð allt að kr. 200.000 til verkefnisins og vísar upphæðinni til endurskoðaðrar fjárhagsáætlunar 2003..

21. mál.

Guðjón Hjörleifsson óskar eftir því að lögfræðiálit frá Ragnari H. Hall sem Ingi Sigurðsson bæjarstjóri lagði fram á bæjarstjórnarfundi þann 10. júlí, verði lagt fram í bæjarráði og bókað inn sem sérstakt mál í bæjarráði.

Bæjarráð vísar málinu frá þar sem lögfræðiálitið var lagt fyrir á fundi bæjarstjórnar 10. júlí sl.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Ég harma ákvörðun meirihluta bæjarráðs. Ég vil minna bæjarráðsmenn meirihlutans á að Ingi Sigurðsson þáverandi bæjarstjóri lagði fram lögfræðiálit Ragnars H. Hall á síðasta bæjarstjórnarfundi þar sem fjallað er um ráðningarsamning hans sem samþykktur var á bæjarstjórnarfundi 12. júní 2002 og gilti hann út kjörtímabilið. Lögfræðiálitið er mjög afgerandi og ljóst að mínu mati að Ingi Sigurðsson á rétt á launum út kjörtímabilið eins og ráðningarsamningur gerir ráð fyrir. Meirihluta bæjarstjórnar var gefið tækifæri á því að skoða lögfræðiálitið betur áður en til uppsagnar kæmi. Var meirihlutanum boðið að halda annan fund í bæjarstjórn innan mánaðarins og var því hafnað.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“ Við viljum vekja atyhygli á að Ingi Sigurðsson fyrrverandi bæjarstjóri lagði fram á bæjarstjórnarfundi 10. júlí sl. lögfræðiálit frá Ragnari H. Hall sem dagsett er 12. júní sl. Þá var Ingi í starfi sem bæjarstjóri núverandi meirihluta bæjarstjórnar. Að öðru leyti vísum við í 2. mál fundarins hér að framan.”

22. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Á síðasta bæjarstjórnarfundi kom fram í máli Lúðvíks Bergvinssonar og Stefáns Jónassonar að samkomulag/samningur hafi verið gerður við Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar hvernig staðið verður að uppsögnum og niðurlögn starfa hjá Vestmannaeyjabæ.Óska eftir því að samningurinn eða samkomulagið verði lagt fram á næsta bæjarráðsfundi. Jafnframt er þess óskað að fá upplýsingar um samskipti meirihluta bæjarstjórnar við fulltrúar annarra stéttarfélaga bæjarstarfsmanna þar sem störf þeirra eru lögð niður.”

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara fyrirspurninni.

23. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Í framhaldi af yfirlýsingu meirihluta bæjarstjórnar sem Lúðvík Bergvinsson og Andrés Sigmundsson lögðu fram 10. júlí sl. segir: “Frá því að nýr meirihluti tók við hefur ekki tekist að mynda þann nauðsynlega trúnað sem verður að ríkja á milli bæjarstjóra og meirihlutans, en bæjarstjóri er á hverjum tíma helsti trúnaðarmaður meirihlutans. Í því ljósi er það mat bæjarfulltrúa meirihlutans og þeirra flokka sem að honum standa að það þjóni best hagsmunum allra, ekki síst hagsmunum bæjarbúa, að nýr einstaklingur taki við starfi bæjarstjóra” tilvitnun lýkur.

Því legg ég fram eftirfarandi fyrirspurn og óska eftir svari á næsta bæjarráðsfundi:

Hve oft hafa bæjarfulltrúar núverandi meirihluta, þ.e. Lúðvík, Andrés, Guðrún og Stefán fundað sameiginlega með Inga Sigurðssyni, þáverandi bæjarstjóra frá því að þeir tóku við meirihluta í bæjarstjórn Vestmannaeyja í lok mars til 10. júlí sl. ? Ef svarið er aldrei hve oft hafa 3 af þessum fjórum bæjarfulltrúum átt sérstakan fund með Inga Sigurðssyni þáverandi bæjarstjóra ? “

Andrés Sigmundsson óskar að bóka:

“ Fyrirspurnin þjónar engum tilgangi.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“ Svar meirihluta bæjarstjórnar er útúrsnúningur og viðurkenning á því að þeir fjórir kjörnu bæjarfulltrúar meirihlutans hafa aldrei átt sameiginlegan fund með Inga Sigurðssyni, þáverandi bæjarstjóra, frá því þeir tóku við meirihlutanum.

Á blaðamannafundi sem Lúðvík Bergvinsson og Andrés Sigmundsson boðuðu til var yfirlýsing þar sem sagt var að ekki hafi tekist að mynda þann nauðsynlega trúnað sem verður að ríkja á milli bæjarstjóra og meirihluta bæjarstjórnar hverju sinni.

Það er ljóst að það er ekki hægt að mynda trúnað þegar meirihlutinn ræðir ekki við starfandi bæjarstjóra, þrátt fyrir að Ingi Sigurðsson bæjarstjóri hafi margsinnis beðið um fund hjá bæjarfulltrúum V-listans en þeir hafa aldrei orðið við beiðni Inga.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“ Svona karp þjónar engum tilgangi.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Bókun meirihlutans segir allt sem segja þarf um framkomu þeirra gagnvart Inga Sigurðssyni í bæjarstjóratíð hans frá því að núverandi meirihluti tók við.”

Andrés Sigmundsson óskar að bóka:

“ Framkoma og vinnubrögð sjálfstæðismanna gagnvart fyrrverandi bæjarstjóra er það sem skaðað hefur hann mest.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Vísa til fyrri bókana minna í málinu og málefnalegra ummæla bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi.”

24. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Legg til að ráðningar 4ra framkvæmdastjóra á síðasta bæjarstjórnarfundi verði afturkallaðar og að auglýst verði í þessar stöður, enda var unnið gegn samþykktum við Starfsmannafélag Vestmannaeyjabæjar þar sem gert er ráð fyrir að öll störf á vegum Vestmannaeyjabæjar séu auglýst áður en ráðið er í þau. Hafi nýtt samkomulag verið gert í stað gamla samkomulagsins óska ég eftir upplýsingum um hvenær slíkt átti sér stað og hvort það hafi verið kynnt starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar og bæjarfulltrúum."

Bæjarráð hafnar tillögunni.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“ Harma afgreiðslu meirihluta bæjarráðs. Sérstaklega vil ég vekja athygli á að Stefán Jónasson er annar þeirra sem hafnar þessu, en hann hefur setið í stjórn STAVEY í mörg ár og barist fyrir heiðarlegum vinnubrögðum milli bæjaryfirvalda og hins almenna borgara. Nú liggur fyrir að yfirstjórn bæjarins er orðin rammpólitísk og allar reglur og samþykktir þverbrotnar, og hinn almenni borgari má sín lítils gegn fámennri valdaklíku sem nú stjórnar bæjarfélaginu.

Jafnframt óska ég svara um hvort nýtt samkomulag hafi verið gert milli STAVEY og bæjarins um auglýsingar á störfum hjá bænum.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“Það var farið eftir lögum og reglum. STAVEY var kynnt þessi verkáætlun í þessum breytingum og hafði stéttarfélagið eina viku til umsagnar um þær breytingar sem hér er verið að ræða um. Vil ég biðja Guðjón Hjörleifsson að sýna bæjarfulltrúum á næsta bæjarstjórnarfundi hvar það sé að finna að lausar stöður skuli auglýstar.

Ummæli Guðjóns Hjörleifssonar um pólitík og valdaklíku lýsa einungis þeim stjórnarháttum er giltu er hann og valdaklíka Sjálfstæðisflokksins réðu ríkjum í Eyjum.

Þeir tímar eru liðnir.

Nýir tímar opinnar umræðu eru teknir við. Ólundarköst G.H. skýrast af þessu.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Ég vísa til bréfs stjórnar STAVEY frá 15. júlí 2003 þar sem stjórnin gagnrýnir að störfin hafi ekki verið auglýst en almenn regla er að auglýsa laus störf. Stjórn STAVEY harmar jafnframt þessi vinnubrögð og vill að formleg afsökunarbeiðni verði send til þeirra sem hlut eiga að máli.”

25. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Hjörleifssyni til Guðrúnar Erlingsdóttur forseta bæjarstjórnar Vestmannaeyja og óskað eftir svari á næsta bæjarráðsfundi:

“Nú hefur þú mikla reynslu af kjaramálum, réttindamálum starfsmanna og samskiptum fyrirtækja við starfsmenn sína. Því óska ég eftir því að þú svarir þessum spurningum skilmerkilega á næsta fundi bæjarráðs.

  1. Inga Sigurðssyni bæjarstjóra var sagt upp störfum á síðasta bæjarstjórnarfundi, þrátt fyrir yfirlýsingar bæjarfulltrúa í meirihluta bæjarstjórnar um að ekkert slíkt stæði til. Finnst þér þetta trúverðugt og hvað myndir þú ráðleggja Inga að gera væri þú formaður stéttarfélags hans ?
  1. Ingi Sigurðsson þáverandi bæjarstjóri lagði fram mjög trúverðuga greinargerð frá virtum lögfræðingi þar sem fram kemur að hann telji rétt Inga ótvíræðan eins og ráðningarsamningur frá 12. júní 2002 gerir ráð fyrir, þ.e. að hann eigi rétt á launum út þetta kjörtímabil.

Ef þú færir formaður stéttarfélags hans myndir þú hvetja hann til þess að :

1. hætta við málið og una niðurstöðu Ástráðs Haraldssonar

2. Leita réttar sins og láta lögfræðing fara með málið í eðlilegan farveg í dómskerfinu.

3. Vera tilbúin að taka málið að þér sem fulltrúi stéttarfélags eins og þú hefur m.a. gert fyrir þína félagsmenn í hér í Eyjum.”

26. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Hjörleifssyni til Guðrúnar Erlingsdóttur, forseta bæjarstjórnar Vm.

"Óskað er eftir upplýsingum á næsta fundi bæjarráðs um hvernig staðið var að tilkynningu til starfsmanna sem störf verða lögð niður hjá Vestmannaeyjabæ. Hér á ég við:

Gunnar Stefán Jónsson, bæjargjaldkera

Ólaf Ólafsson, bæjartæknifræðing

Pál Einarsson, bæjarritara

Sigurð Símonarson, skóla- og menningarmálafulltrúa

Sigþóru Guðmundsdóttur, forvarnarfulltrúa.

A. Fengu þau vitnesku um þetta fyrir blaðamannafundinn eða síðar?

Óskað er eftir dagsetningu og ca. tíma.

B1. Var þeim afhent/eða sent bréf ?

B2. Var þeim kynnt þetta persónulega ?

B3. Var þriðji aðili beðinn um að skila þessu til þeirra?

B4. Var þeim tilkynnt þetta í SMS skilaboðum ?

Óskað er eftir því að sjálfstætt svar komi um við hvern einasta

einstakling eins og framan er getið."

27. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Hjörleifssyni til Guðrúnar Erlingsdóttur, forseta bæjarstjórnar Vm.

"Óskað er eftir upplýsingum á næsta fundi bæjarráðs um réttindi þeirra starfsmanna sem lentu í því vegna skipulagsbreytinga að störf þeirra verða lögð niður. Þegar störf eru lögð niður er ljóst að aðilar eiga rétt á biðlaunum í 6-12 mánuði, án tillti til þess hvort þeir fari í annað starf hjá Vestmannaeyjabæ og stofnunum hans. Óskað er eftir upplýsingum um rétt eftritalinna starfsmanna (þ.e. fjöldi mánaða í biðlaun).

Gunnar Stefán Jónsson bæjargjaldkera

Ólaf Ólafsson, bæjartæknifræðing

Pál Einarsson, bæjarritara

Sigurð Símonarson, skóla- og minningarmálafulltrúa

Sigþóru Guðmundsdóttur, forvarnarfulltrúa.

Ef ofangreindum aðilum verður boðið að fara í önnur störf hjá Vestmannaeyjabæ og þá væntanlega lenda þeir í launalækkun, munt þú sem forseti bæjarstjórnar beita þér fyrir því að réttindi þeirra verði virt og þeim greidd full biðlaun, en ekki skert með því að bjóða þeim önnur störf og falla frá réttindum sínum að hluta eða öllu leyti ?"

28. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Guðjón Hjörleifssyni:

"Bæjarstjórn Vestmannaeyja samþykkir og beinir því til hafnarstjórnar Vestmannaeyja að lækka aflagjöld úr 1,6% í 1,28% eins og heimilt er og margar hafnir eru að gera í kjölfar aukinnar samkeppni um viðskipti.

Greinargerð:

Fyrir liggur að útgerðaraðilar í Eyjum hafa fengið send erindi frá höfnum þar sem þeim er boðið lægsta leyfilega aflagjald skv. nýrri gjaldskrá, þ.e. 20% afsáttur af 1,6% sem er leyfilegt gjald og því er boðið upp á 1,28% aflagjald. Fiskvinnsla í Eyjum á undir högg að sækja og það er of mikil áhætta að eiga það á hættu að missa afla frá Eyjum, sem gæti orðið til þess að störfum í fiskvinnslu fækkaði enn frekar. Það er trú mín að tekjur hafnarinnar minnki ekki með þessu heldur skili sér þannig að útgerðir Eyjamanna landi áfram í Eyjum. Ef útgerðir í Eyjum fara að landa annars staðar getur það haft áhrif á það að sjómenn og fjölskyldur þeirra hugsi sér til flutnings frá Eyjum."

Bæjarráð vísar tillögunni til hafnarstjórnar.

29. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Hve mikið hefur IBM Business Consulting Serv. verið greitt fyrir úttekt og tillögur um skipulagsbreytingar hjá Vestmanneayjabæ og stofnunum hans ? Sundurliðun óskast vegna vinnu, ferðakostnaðar, dagpeninga og uppihalds.

Hver er áætlaður heildarkostnaður verksins og hvenær er von á lokatillögu ?

Hver er kostnaður við sérstaka úttekt á Hraunbúðum sem samþykkt var ?

Var gengið beint til samninga við IBM B.S. eða var verkið boðið út ?"

Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara fyrirspurninni.

30. mál.

Fyrir lá bréf frá STAVEY dags. 15. júlí sl. þar sem mótmælt er vinnubrögðum varðandi breytingar á störfum hjá Vestmannaeyjabæ.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við STAVEY.

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Tek undir bréf stjórnar STAVEY þar sem mótmælt er vinnubrögðum meirihluta bæjarstjórnar í garð félagsmanna sinna. Jafnframt tek ég undir mótmæli þeirra að framkvæmdastjórastörfin hafi ekki verið auglýst. Það er því ljóst að ummæli Lúðvíks Bergvinssonar og Stefáns Jónassonar á síðasta bæjarstjórnarfundi um samkomulag og samráð við Starfsmannafélagið eru ósönn, enda í engu samræmi við bréf STAVEY og til þess eins fallið að breiða yfir valdníðslu og hroka þann sem einkennir stjórnarhætti Lúvíks Bergvinssonar og Andrésar Sigmundssonar.

Ég krefst þess að meirihluti bæjarstjórnar biðji viðkomandi starfsmenn og Stjórn STAVEY afsökunar á framkomu sinni í þessu máli. Jafnframt krefst ég þess að Lúðvík Bergvinsson og Stefán Jónasson biðjist formlega afsökunar á því að hafa farið með ósannindi á síðasta bæjarstjórnarfundi eða geri grein fyrir því hvaða misskilningur var til þess að þessi ummæli um samráð og samkomulag við STAVEY féllu á síðasta bæjarstjórnarfundi.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“ Við vísum fullyrðingum Guðjóns Hjörleifssonar á bug og minnum á að málflutningur af þessu tagi þjónar engum tilgangi. Samstarf STAVEY og Vestmannaeyjabæjar hefur verið gott og er betra nú en í valdatíð G.H. og Sjálfstæðisflokksins.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

“Bréf stjórnar STAVEY segir allt sem segja þarf um málið og ljóst er að meirihluti bæjastjórnar þarf á ný að ávinna sér traust við stjórn STAVEY.”

Andrés Sigmundsson og Stefán Ó. Jónasson óska að bóka:

“Í bréfi STAVEY gagnrýnir stjórn STAVEY orð sem viðhöfð voru á bæjarstjórnarfundi 10. júlí sl. Þarna á stjórn STAVEY við bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins. Þetta segir allt sem segja þarf í málinu.”

Guðjón Hjörleifsson óskar að bóka:

Staðhæfingar A.S. og S.Ó.J. eru úr lausu lofti gripnar og einungis gerðar til þess að dreifa athyglinni frá ummælum Lúðvíks Bergvinssonar og Stefáns Jónassonar um samkomulag við STAVEY vegna þeirra starfa sem lögð voru niður og framkomu meirihluta bæjarstjórnar gagnvart því fólki sem var í þessum störfum.”

31. mál.

Fyrir lá fundargerð skólamálaráðs frá 17. júlí sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.45.

Andrés Sigmundsson

Stefán Ó. Jónasson

Guðjón Hjörleifsson

Bergur Elías Ágústsson


Jafnlaunavottun Learncove