Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2682
BÆJARRÁÐ
2682. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 18. ágúst kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Óskar Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Svohljóðandi tillaga barst frá meirihluta bæjarstjórnar:
“Bæjarráð skorar á stjórnvöld að gæta fyllsta jafnræðis í úthlutun aflaheimilda þannig að hlutdeild svæða raskist sem minnst. Ein slík leið gæti verið að allir sem landa á fiskmörkuðum eða beint til fiskvinnslufyrirtækja á Íslandi fái 5% ívilnun.
Greinargerð:
Vart þarf að tíunda mikilvægi þess að stjórnvöld stuðli að auknum umsvifum þeirra staða á landsbyggðinni sem byggja afkomu sína á veiðum og vinnslu nytjastofna við strendur landsins. Grípi stjórnvöld til aðgerða í þessum efnum er mikilvægt að fyllsta jafnræðis sé gætt og eitt svæði beri ekki meira úr býtum en annað hvað úthlutaðar aflaheimildir varðar. Áhrifa hugsanlegrar línuívilnunar upp á 5% mun ekki gæta að neinu ráði í Vestmannaeyjum, en Vestmannaeyjar hafa eins og mörg önnur byggðarlög á landsbyggðinni átt í vök að verjast.”
Bæjarráð samþykkir tillöguna.
2. mál.
Fyrir lá fundarboð á aðalfund Eignarhaldsfélags Vestmannaeyja 26. ágúst nk.
Bæjarráð samþykkir að bæjarstjóri fari með atkvæði bæjarsjóðs og Þróunarfélags Vestmannaeyja á aðalfundinum.
3. mál.
Fyrir lá fundargerð 188. fundar Launanefndar sveitarfélaga 13. ágúst sl.
4. mál.
Svohljóðandi tillaga og greinargerð barst frá Arnari Sigurmundssyni:
"Bæjarráð samþykkir að óska eftir umsögn skólamálaráðs á þeirri fyrirætlan að leggja niður starf skólamála- og menningarfulltrúa samhliða nokkrum öðrum skipulagsbreytingum hjá Vestmannaeyjabæ.
Bæjarráð telur mikilvægt að umsögn skólamálaráðs vegna ofangreindra breytinga liggi fyrir sem fyrst.
Greinargerð;
Bæjarstjórn samþykkti í síðasta mánuði með atkvæðum núverandi meirihluta bæjarstjórnar að ráðast í umtalsverðar breytingar á skipuriti Vestmannaeyjabæjar. Í þessu sambandi voru ráðnir framkvæmdastjórar til þess að stjórna þeim fjórum stoðum sem skipuritið byggir á. Undir fræðslu- og menningarsvið falla öll skóla- og fræðslumál, menningarmál og íþrótta- og æskulýðsmál. Þessir málaflokkar taka til sín rúmlega 71% af öllum skatttekjum bæjarins samkvæmt Fjárhagsáætlun Bæjarsjóðs fyrir árið 2003. Samkvæmt tillögum um starfsmannahald vegna fræðslu- og menningarsviðs er reiknað með menningarfulltrúa í hlutastarfi, leikskólafulltrúa í hlutastarfi og íþrótta- og æskulýðsfulltrúa í fullu starfi. Ekki er gert ráð fyrir sérstökum skólamálafulltrúa, þrátt fyrir að fræðslu- og skólamál vegi rúmlega 50% af útgjöldum bæjarins. Vestmannaeyjabær hefur rekið skólaskrifstofu frá því grunnskólarnir fluttust til sveitarfélaganna 1996. Þessari tillögu er ætlað að kalla fram umsögn skólamálaráðs á þessum skipulagsbreytingum, en þær snerta allt skólastarf í Vestmannaeyjum. Á vettvangi bæjarstjórnar hefur að undanförnu verið ítrekað rætt um eflingu skólastarfs og er það skoðun tillögumanns að skynsamlegast verði fyrir bæjarfélagið að falla frá því að leggja niður starf skólamála- og menningarfulltrúa. Starf framkvæmdastjóra fræðslu- og menningarsviðs verður víðtækara en starf sviðstjóra í eldra skipuriti og mun að töluverðu leyti verða fólgið í stjórnunarstörfum í þeim víðtæku málaflokkum sem undir það falla."
Bæjarráð samþykkir tillöguna en felur bæjarstjóra jafnframt að gera skólamálaráði nánari grein fyrir utfærslu á nýju skipuriti fyrir fræðslu- og menningarsvið.
5. mál.
Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Selmu Ragnarsdóttur:
“ Fyrirspurn vegna menningarhúss í Vestmannaeyjum:
Hvernig líður undirbúningsvinnu vegna fyrirhugaðs menningarhúss í Vestmannaeyjum þar sem fresturinn til að skila inn hugmyndum vegna hússins rann út 16. júlí sl.”
Fyrir liggur að verkefnastjórn um byggingu menningarhúss, sem skipuð er fulltrúum Vestmannaeyjabæjar og menntamálaráðuneytisins, mun koma saman innan tíðar þar sem farið verður yfir stöðu málsins og framkomnar tillögur.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.00
Andrés Sigmundsson
Stefán Ó. Jónasson
Arnar Sigurmundsson
Bergur E. Ágústsson