Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2680

28.07.2003

BÆJARRÁÐ

2680. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 28. júlí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Guðjón Hjörleifsson og Bergur Elías Ágústsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Andrési Sigmundssyni og Lúðvíki Bergvinssyni:

"Í framhaldi af tillögu í skýrslu atvinnumálahóps bæjarins um heilsutengda ferðaþjónustu og aukin atvinnutækifæri í heilbrigðisþjónustu í Vestmannaeyjum leggjum við til að stofnaður verði hópur fagaðila til að vinna að ítarlegri útfærslu ásamt viðskiptaáætlun varðandi einstaka þætti er koma þar fram.

Sótt verði um styrk til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og viðskiptaráðuneytisins vegna kostnaðar af ofangreindri vinnu."

Bæjarráð samþykkir tillöguna og felur bæjarstjóra framgang málsins.

2. mál.

Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir almennri ánægju sinni með starf íþróttafélaganna í bænum og með mót sem þau hafa staðið fyrir í sumar sem hafa dregið fjölda fólks til Vestmannaeyja. Starfsemi þessara félaga skiptir miklu máli fyrir bæjarfélagið í heild sinni.

3. mál.

Fyrir lá bréf frá Nýsköpunarsjóði dags. 17. júlí sl. þar sem fram kemur að sjóðurinn telur ekki fært að koma að stofnun frumkvöðlaseturs í Vestmannaeyjum að svo stöddu.

Bæjarráð mun leita til Nýsköpunarsjóðs á ný þegar vinna við stofnun frumkvöðlaseturs er lengra á leið komin.

4. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 22. júlí sl. vegna stofnframlaga til framkvæmda í grunnskólum bæjarins.

5. mál.

Fyrir lágu beiðnir um leyfi til vínveitinga:

a) ÍBV-íþróttafélag sækir um leyfi fyrir bjór og "skotum" í Týsheimili yfir verslunarmannahelgina frá kl. 10 til 20.

Bæjarráð samþykkir sambærilegt leyfi og var í gildi á síðasta ári.

b) Svanhildur Guðlaugsdóttir sækir um endurnýjun á léttvínsleyfi fyrir Skýlið.

Bæjarráð samþykkir erindið að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík leyfi eiga að fjalla, samþykki það einnig.

c) Þröstur Bjarnhéðinsson sækir um vínveitingaleyfi fyrir Hótel Eyjar sbr. bréf dags. 27. júlí sl.

Bæjarráð samþykkir erindið að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík leyfi eiga að fjalla, samþykki það einnig.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 18. júlí sl. þar sem lagt er til að afskrifa óinnheimtanlegar skuldir skv. lista.

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti.

7. mál.

Fyrir lá tillaga minnihlutans frá síðasta fundi bæjarstjórnar um ráðningar starfsfólks til frumkvöðlaseturs/nýsköpunarmiðstöðvar.

Bæjarráð samþykkir að taka tillöguna til efnislegrar meðferðar þegar málið kemur til endanlegrar afgreiðslu.

Svohljóðandi bókun barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Tel mikilvægt að þessi staða verði auglýst sem og aðrar stöður hjá Vestmannaeyjabæ í framtíðini."

Lúðvík Bergvinsson og Andrés Sigmundsson óska bókað:

"Að fortíð skal hyggja er framtíð skal byggja. Það hefði verið rétt af fyrrverandi meirihluta íhaldsins að að hafa þessi sjónarmið að leiðarljósi undanfarin misseri"

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

"Enn á ný geta þeir félagar ekki tekið ákvörðun um auglýsingu á stöðu starfsmanns væntanlegs frumkvöðlaseturs. Það er ljóst að stefna núverandi meirihluta virðist vera sú að að brjóta allar jafnræðisreglur og ráða í stöður eftir geðþótta eða viðkomandi aðili sem ráðinn er þurfi að flagga flokksskírteini ákveðins stjórnmálaflokks. Hinn almenni borgari á fullan rétt á því að allar stöður hjá Vestmanneyjabæ og stofnunum hans skuli auglýstar."

Lúðvík Bergvinsson og Andrés Sigmundsson óska bókað.

"Vísað til fyrri bókunar. Að öðru leyti er þessum kjánagangi vísað á bug."

Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:

"Það lýsir hroka og ólýðræðislegum vinnubrögðum Lúðvíks og Andrésar að kalla það kjánagang þegar fulltrúi minnihlutans í bæjarráði er að leggja áherslu á að allir bæjarbúar sitji við sama borð og geti sótt um störf hjá bænum, ekki þröngur hópur.

Einkavinavæðingastefna meirihlutans er einsdæmi í mannaráðningum hjá Vestmanneyjabæ og stofnunum hans."

Lúðvík Bergvinsson og Andrés Sigmundsson óska bókað.

"Hörmum órökstuddar dylgjur minnihlutans. Vísum að öðru leyti til fyrri bókana meirihlutans, en meginatriðið er það að hæfir og vel menntaðir einstaklingar hafa verið ráðnir til bæjarins, sem án efa eiga eftir að skila bæjarfélaginu miklu í framtíðinni."

Svohljóðandi bókun barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:

"Vísa til fyrri bókana bæjarfulltrúa minnhlutans í bæjarráði og bæjarstjórn varðandi óauglýstar mannaráðningar hjá bænum."

8. mál.

Fyrir lá bréf frá Jóhanni Ó. Guðmundssyni og Selmu Ragnarsdóttur dags. 28. júlí þar sem fram kemur kynning á menningar- og kaffihúsi fyrir ungt fólk og leitað eftir samstarfi við bæjaryfirvöld um málið.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju sinni með að komið skuli á stofn menningar- og kaffihúsi fyrir ungt fólk í Eyjum. Jafnframt þakkar bæjarráð undirbúningshópnum fyrir vel unna skýrslu um málið.

9. mál.

Samningamál.

10. mál.

Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar frá 24. júlí sl.

Bæjarráð frestar 4. máli fundargerðarinnar og felur bæjarstjóra að afla nánari upplýsinga en samþykkir fundargerðina að öðru leyti.

11. mál.

Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 24. júlí sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.15

Andrés Sigmundsson

Lúðvík Bergvinsson

Guðjón Hjörleifsson

Bergur Elías Ágústsson


Jafnlaunavottun Learncove