Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2678

08.07.2003

BÆJARRÁÐ

2678. fundur.

Ár 2003, þriðjudaginn 8. júlí kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Bæjarráð þakkar Vestmannaeyingum og gestum fyrir þátttöku í velheppnaðri goslokahátíð. Jafnframt þakkar bæjarráð þeim fjölmörgu sem unnu að undirbúningi og framkvæmd hátíðarinnar.

2. mál.

Endurskipulagning á stjórnsýslu bæjarins og starfsmannahaldi.

Á fundinn mætti Jón Gauti Jónsson ráðgjafi hjá IBM Business Consulting Services og lagði fram greinargerð og tillögu.

Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

3. mál..

Svohljóðandi tillaga og greinargerð barst frá Andrési Sigmundssyni og Lúðvíki Bergvinssyni:

"Bæjarráð Vestmannaeyja samþykkir að fela ráðgjafa IBM að breyta fyrirliggjandi tillögu að stjórnskipulagi þannig að sú starfsemi, sem gert er ráð fyrir að sameinist á fjölskyldu- og þjónustusviði, verði áfram tvö svið, þ.e. félags- og fjölskyldusvið og fræðslu- og menningarsvið. Ráðgjafinn leggi fram nýtt stjórnskipulag og breyti starfslýsingum framkvæmdastjóranna með hliðsjón af þeirri breytingu.

Bæjarráð samþykkir að vísa greinargerð ráðgjafans með framangreindum breytingum til afgreiðslu í bæjarstjórn 10. júlí.

Greinargerð:

Í tillögu IBM er gert ráð fyrir að stjórnskipulag bæjarins skiptist í þrjú starfssvið í stað sjö starfssviða sem starfseminni er skipt upp í nú. Vegna árangurs af skólastarfi í bænum á undanförnum árum telja flutningsmenn tillögu þessarar óheppilegt að sameina sviðin tvö á þessum tímapunkti.

Ljóst er að nauðsynlegt er að gera verulegt átak í skólamálum hér á næstu árum. Talið er að nokkur tími fari í það að samhæfa og samræma starfsemi sviðanna eftir sameiningu. Á þeim sama tíma gæti því orðið erfitt að beina sérstakri athygli að umbótum í skólastarfi til þess að ná bættum árangri. Öllum má vera ljóst hvað það er mikilvægt fyrir börn í bænum að skólastarf hér sé á hverjum tíma í hæsta gæðaflokki. Undirritaðir flutningsmenn tillögu þessarar telja því heppilegra að sviðin tvö starfi áfram til þess að auðvelda sérstakt átak í skólastarfinu.

Liður í því að efla skólastarf í bænum er að fara að tillögu ráðgjafa um að fram fari umræða bæjaryfirvalda og skólamanna um skipulag skólastarfs í bænum m.t.t. hugsanlegrar skiptingar eftir aldri nemenda í stað hverfaskiptingar. Lögð verði áhersla á að þeirri umræðu og vönduðum undirbúningi að breytingum ljúki tímanlega svo að hugsanlegar breytingar geti tekið gildi frá og með hausti 2004. Ennfremur er lögð áhersla á að þegar í haust verði ráðinn sérstakur kennsluráðgjafi í fullt starf til þess að styrkja faglegt starf í skólum.

Flutningsmönnum tillögu þessarar er ljóst að sameining sviðanna er mikilvæg fyrir samræmingu og samhæfingu í störfum að velferð íbúanna, m.a. störfum sémenntaðra ráðgjafa og sérfræðinga. Ætlast er til að framkvæmdastjórar sviðanna tryggi, svo sem kostur er, þann ávinning þrátt fyrir að sameiningu sviðanna verði frestað um sinn. Mikilvægt er að þeir starfi vel saman að því að hámarka nýtingu á starfskröftum starfsmanna til heilla fyrir íbúa bæjarins."

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

´Tillaga bæjarráðsmanna meirihlutans gerir ráð fyrir því að áfram verði fjögur svið í skipuriti hjá Vestmannaeyjabæ og fallið verði frá tillögu Jóns Gauta Jónssonar ráðgjafa um að fækka sviðum í þrjú samkvæmt nýju skipuriti . Skóla- og fræðslumál skipta gríðarlegu máli og því nauðsynlegt að efla stjórnun í þessum málaflokki en hann tekur til sín liðlega 50% af tekjum Vestmannaeyjabæjar. Af þessum ástæðum er ég sammála tillögunni, en það sama gildir ekki um greinargerðina .Að öðru leyti áskil ég mér rétt til þess að leggja fram tillögur til breytinga í meðferð bæjarstjórnar á tillögum Jóns Gauta, eins og fram kom í bréfi bæjarmálahóps Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og óháðra frá 30. júní sl."

Meirihluti óskar bókað:

"Tilllögur ráðgjafans gera ráð fyrir að fækkað verði úr sjö sviðum eins og þau eru í dag í þrjú. Tillaga meirihluta bæjarráðs gerir ráð fyrir að fækkunin verði úr sjö sviðum í fjögur."

4. mál.

Fyrir lá fundargerð stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 20. júní sl.

5. mál.

Fyrir lágu ársskýrsla og ársreikningur Náttúrustofu Suðurlands vegna 2002.

6. mál.

Í framhaldi af 5. máli 2.676. fundar lágu fyrir þrjú bréf frá Ofanbyggjurum vegna gatnagerðargjalda.

Bæjarráð hefur móttekið bréfin en samþykkir að innheimta gatnagerðargjöld hjá Ofanbyggjurum í samræmi við lög og reglur og álit lögfræðings Sambands ísl. sveitarfélaga.

7. mál.

Fyrir lágu bréf frá Sýslumanninum í Vestmannaeyjum:

a) bréf dags. 27. júní sl. þar sem leitað er umsagnar um umsókn Gísla Vals Einarssonar vegna rekstrarleyfi fyrir tvö gistiheimili.

b) bréf dags. 2. júlí sl. þar sem leitað er umsagnar um umsókn Aldísar Atladóttur vegna rekstrarleyfis fyrir kaffitjald á Skansinum.

Bæjarráð samþykkir erindin fyrir sitt leyti að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla, samþykki þau einnig.

8. mál.

Í framhaldi af 15. máli á síðasta fundi bæjarráðs lá fyrir minnisblað frá Sigurði Símonarsyni, skóla- og menningarfulltrúa, vegna niðurstöðu samræmdra prófa í 10. bekk í grunnskólum bæjarins.

Í framhaldi af bókun bæjarráðs frá 2.677 fundi og minnisblaði skóla- og menningarfulltrúa frá 4. júlí sl., samþykkir bæjarráð Vestmannaeyja að skipa starfshóp til að leggja mat á þau uppeldisskilyrði sem börnum og ungmennum eru búin í Vestmannaeyjum. Sérstaklega verði litið til skýrslu um vímuefnaneyslu ungs fólks í Vestmannaeyjum frá 2002 og skýrslu um hagi og líðan ungs fólks í Vestmannaeyjum frá 2000 (frá Rannsókn og greiningu), aðstöðu og aðbúnaði leikskóla, grunnskóla, skólavistunar, aðstöðu til frístundastarfs (íþróttir, félagsheimili). Í framhaldi af þessari skoðun komi starfshópurinn með tillögur til að bæta uppeldisskilyrði barna og ungmenna í Vestmannaeyjum og efla þá verndandi þætti sem geta styrkt einstaklinga og minnkað áhættuþættina sem eru til staðar í samfélaginu – má líta á þessa vinnu sem hluta af mótun fjölskyldustefnu Vestmannaeyjabæjar.

Starfshópurinn líti til sambærilegra byggðarlaga sem nýverið hafa gert átak í að búa börnum sveitarfélags síns betri uppeldisskilyrði (Reykjanesbær, Reykjavík – Vestfirðir). Í starfshópnum verði fulltrúar frá skólamálaráði, félagsmálaráði, íþróttaráði, lögreglu, heilsugæslu auk tveggja bæjarfulltrúa.

Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá Lánasjóði sveitarfélaga dags. 1. júlí sl. um að samþykkt hafi verið lántökubeiðni frá Vestmannaeyjabæ að upphæð kr. 45.000.000.-

Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi lántöku upp á kr. 45.000.000 með 4,5% vöxtum og verðtryggingu, og tekið verði tillit til þessa í endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

10. mál.

Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 2. júlí sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.25.

Andrés Sigmundsson

Lúðvík Bergvinsson

Arnar Sigurmundsson

Ingi Sigurðsson


Jafnlaunavottun Learncove