Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2677

30.06.2003

BÆJARRÁÐ

2677. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 30. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Stefán Ó. Jónasson Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Andrés Sigmundsson var kosinn formaður bæjarráðs.

2. mál.

Atvinnumál

Lögð fram skýrsla starfshóps um atvinnumál í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð þakkar öllum þeim sem þátt tóku í starfshópi um atvinnumál í Vestmannaeyjum þá vinnu sem lögð hefur verið fram og liggur að baki skýrslunni. Sérstakar þakkir fá Stefán Óskar Jónasson og Páll Scheving Ingvarsson sem héldu utan um vinnu hópsins.

Bæjarráð samþykkir að leita eftir samkomulagi við Guðmund Elíasson hjá VST um nánari úrvinnslu á skýrslu starfshópsins.

3. mál.

Fyrir lá afrit af bréfi heilbrigðisráðuneytisins til Björns Jóhannssonar dags. 25. júní sl. þar sem ráðuneytið hafnar umsókn hans um lyfsöluleyfi í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð harmar niðurstöðu ráðherra um að hafna umsókn um nýtt lyfsöluleyfi og hvetur ráðherra til að endurupptaka málið og veita umbeðið leyfi.

Greinargerð:

Hagsmunir Vestmannaeyinga hvað varðar lyfsölu í bænum felast í tryggum aðgangi að lyfjum, góðri þjónustu og góðu verði. Umrædd umsókn, hefði hún verið samþykkt, hefði leitt til þess að starfandi yrðu tvö apótek í Vestmannaeyjum. Tvö apótek ættu að tryggja öryggi við afhendingu lyfja, samkeppni í verði og bætta þjónustu. Það er kjarni þess sem Vestmannaeyingar vilja. Þegar málið kom til umsagnar bæjarstjórnar Vestmannaeyja lá ekki ljóst fyrir hvort niðurstaðan yrði sú að nýtt apótek keypti það sem fyrir var eða opnaði nýja verslun. Nú liggur það fyrir að Lyf og heilsa ætlaði að opna nýja verslun.

Röksemdafærsla ráðuneytisins fyrir höfnuninni er eftirfarandi:

a))Að ekki sé tryggt að tvö apótek veiti betri þjónustu en eitt.

b)Draga verði í efa að í 4500 manna byggðarlagi sé rekstrargrundvöllur fyrir tveimur apótekum.

Það er afar erfitt að taka þessar röksemdir alvarlega. Spurningin sem vaknar í kjölfarið er fyrst og fremst sú hvort yfirvöld heilbrigðismála hafi tekið upp þá stefnu að skipta mörkuðum lyfsala á landsbyggðinni þannig að aðeins einn lyfsali fái einokun á tilteknu svæði. Ef niðurstaða ráðuneytisins er fordæmi er ljóst að íbúar byggða þar sem færri en 4500 íbúar búa fá ekki notið samkeppni í rekstri apóteka í framtíðinni. Þetta gerir íbúa landsbyggðarinnar að annarsflokks þegnum. Við það er ekki hægt að una. Enn fremur vakna spurningar um hvað ráðherra hyggist gera á þeim svæðum þar sem fleiri apótek eru nú þegar en að tryggt sé að a.m.k. 4500 íbúar séu að baki hverju og einu. Þetta á t.d. við á Suðurlandi. Mun þessi úrskurður leiða til þess að einhverjum apótekum þar verði lokað þar sem svæðið uppfyllir ekki kröfur um fjölda íbúa. Ef ekki er þá verið að mismuna íbúum landsins. Einnig vakna spurningar um það hvort það sé hlutverk heilbrigðisráðherra að meta hvort rekstrargrundvöllur sé fyrir verslanir eða ekki. Svo telur bæjarráð ekki vera. Hlutverk ráðuneytisins á fyrst og fremst að vera það að tryggja aðgang og öryggi íbúa að fá notið þjónustu apóteka. Það er því nauðsynlegt að ráðherra endurskoði ákvörðun sína með tilliti til þess að röksemdafærsla hans fyrir höfnuninni fær ekki staðist. Vestmannaeyjabær er tilbúinn til að taka upp viðræður við ráðherra um málið ef eftir því yrði leitað.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Bæjarstjórn Vestmannaeyja hefur nú sent heilbrigðis- og tryggingaráðherra umsögn sína varðandi umsókn um fjölgun lyfsöluleyfa í Eyjum. Málið hefur því verið afgreitt í bæjarstjórn með formlegum hætti. Þar sem meirihluta bæjarfulltrúa treysti sér ekki að mæla með umsókninni til ráðherra og með hliðsjón af röksemdum sem fram koma í bréfi heilbrigðisráðuneytis ætti niðurstaða þess ekki að koma á óvart."

Andrés Sigmundsson og Stefán Óskar Jónasson óska að bóka:

"Eðlilegt er að fram komi að meirihluti bæjarfulltrúa treysti sér ekki til að leggjast gegn umsókn um nýtt lyfsöluleyfi í Eyjum. Tveir bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðust hins vegar gegn nýju lyfsöluleyfi, einn sat hjá. Við vísum til bókunar hér að framan og hvetjum til þess að ákvörðun um að hafna nýju lyfsöluleyfi verði endurskoðuð."

4. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 23. júní sl. þar sem fram kemur álit ráðuneytisins að ekki beri að endurgreiða gatnagerðargjöld þó stálgrindarhús verði fjarlægð af lóðum.

Bæjarráð samþykkir að innheimta gatnagerðargjalda af mannvirkjum klædd með dúk verði með sama hætti og önnur mannvirki eins og lög og álit ráðuneyta segja til um.

5. mál.

Bæjarráð samþykkir að leita eftir tilboðum í skilgreindan verkþátt til að annast um fjárhagslegan aðskilnað líkamsræktarsalar og annarrar starfsemi Íþróttamiðstöðvar í samræmi við úrskurð samkeppnisráðs frá 27. mars sl. og úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála frá 12. júní sl. og skal aðskilnaðinum lokið fyrir 12. ágúst nk.

6. mál.

Bæjarráð samþykkir að taka tilboði Kaupþings/Búnaðarbanka í innlenda lántöku skv. fjárhagsáætlun 2003 fyrir bæjarsjóð og stofnanir hans að upphæð kr. 290.000.000 með föstum 5,4% vöxtum auk verðtryggingar.

7. mál.

Bæjarstjóri og bæjarritari gerðu grein fyrir þeim athugasemdum sem höfðu borist vegna ákvörðunar bæjarráðs á síðasta fundi að gefa starfsmönnum bæjarins kost á því að tjá sig um úttekt IBM Business Consulting Services á stjórnskipulagi bæjarsjóðs og stofnana hans.

8. mál.

Bæjarráð getur ekki orðið við því að heimila rýmri afgreiðslutíma á áfengi fimmtudaginn 3. júlí sl. en skv. almennum reglum en samþykkir jafnframt óbreytt leyfi til vínveitinga á goslokahátíð eins og verið hefur undanfarin ár.

9. mál.

Fyrir lá bréf frá Samtökum ferðaþjónustunnar dags. 20. júní sl. þar sem rætt er um samkeppnisrekstur gistiþjónustu í opinberu húsnæði.

10. mál.

Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 24. júní sl. þar sem leitað er umsagnar um umsókn Sigurmundar Gísla Einarssonar vegna rekstrarleyfis fyrir kaffihús að Tangagötu 7.

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla, samþykki það einnig.

11. mál.

Í framhaldi af ákvörðun bæjarstjórnar frá fundi 26. júní sl. lá fyrir bréf Inga Sigurðssonar, bæjarstjóra, dags. 27. júní til Gámaþjónustu Vestmannaeyja þar sem samningum um sorphreinsun og rekstur sorpeyðingarstöðvar er sagt upp.

12. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Arnari Sigurmundssyni:

“Bæjarráð samþykkir í framhaldi af frestun bæjarstjórnar á 2. máli í fundargerð landnytjanefndar frá 5. júní sl., að ekki verði ráðist í girðingarkaup af hálfu bæjarsjóðs vegna þeirra aðila sem stunda búfjárhald í Vestmannaeyjum. Það er eðlilegt að búfjáreigendur greiði þennan kostnað sjálfir eins og verið hefur. Jafnframt beinir bæjarráð því til landnytjanefndar að fallið verði frá fyrri hugmyndum um innheimtu sérstaks hausagjalds af fjölda sauðfjár hjá þeim sem stunda sauðfjárbúskap í Vestmannaeyjum í frístundum sínum.”

Bæjarráð vísar tillögunni til landnytjanefndar.

13. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Arnari Sigurmundssyni:

Bæjarráð Vestmannaeyja lýsir yfir eindregnum stuðningi við fyrirhugaðan Suðurstrandarveg milli Þorlákshafnar og Grindavíkur og leggur áherslu á að undirbúningi að verkinu og síðar framkvæmdum verði hraðað eins og kostur er. Bæjarráð telur að lagning Suðurstrandarvegar geti skipt miklu máli í greiðari samgöngum innan Suðurkjördæmis og auðveldað um leið fyrirtækjum í Vestmannaeyjum að koma framleiðslu sinni flugleiðis frá Keflavíkurflugvelli á erlendan markað.

Bæjarráð skorar á þingmenn Suðurkjördæmis að fylgja málinu eftir því Suðurstrandarvegur mun skipta miklu í þróun samgangna og samskipta innan kjördæmisins.”

Bæjarráð samþykkir tillöguna.

Svohljóðandi bókun barst frá Andrési Sigmundssyni og Stefáni Óskari Jónassyni:

"Framganga samgönguráðherra skiptir miklu varðandi það hvort þessi framkvæmd verður að veruleika eða ekki. Við hvetjum ráðherra til allra góðra verka.

Við ítrekum jafnframt samþykkt bæjarráðs um að Herjólfur sé skilgreindur sem þjóðvegur milli lands og Eyja og ályktun sína frá því í maí að viðræður geti átt sér stað við samgönguráðherra og Vegagerðina um málið sem fyrst."

14. mál.

Bæjarráð samþykkir að næsti fundur bæjarstjórnar verði 10. júlí nk.

15. mál.

Rætt um niðurstöður samræmdra prófa í grunnskólum bæjarins.

Svohljóðandi tillaga barst frá meirihluta bæjarráðs:

“Bæjarráð lýsir miklu áhyggjum vegna niðurstaðna úr samræmdum prófum 10. bekkjar grunnskóla. Niðurstaðan er áfellisdómur yfir þeirri menntastefnu sem hefur verið rekin í Vestmannaeyjum undanfarin misseri undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Það er mikilvægt að bæjaryfirvöld grípi nú þegar til aðgerða. Því felur bæjarráð skólamálafulltrúa að skila minnisblaði um hverjar hann telji ástæður þessa, til hvaða aðgerða gripið hefur verið til undanfarin misseri til að tryggja góðan árangur nemenda og hugmyndum hans um hvernig hann telji að bregðast eigi við þessum niðurstöðum. Minnisblaðinu skal skilað eigi síðar en mánudaginn 7. júlí svo það geti komið til umfjöllunar á bæjarráðsfundi þann dag. Formanni skólamálaráðs skal einnig afhent minnisblaðið."

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Opin og hreinskilin umræða um árangur í skólastarfi er nauðsynleg og skapar eðlilegt aðhald fyrir alla þá sem koma að þessum mikilvæga málaflokki. Niðurstöður samræmdra prófa í 10. bekk grunnskóla í Vestmannaeyjum hafa nokkuð verið til umræðu að undanförnu. Það gleymist í þessari umræðu að námsárangur nemenda í samræmdum prófum í 10. bekk Hamarsskóla var með því besta á landinu. Á undanförnum árum hafa grunnskólar í Eyjum verið nálægt meðaleinkunn á Suðurlandi og hafa skólarnir skiptst á um betri námsárangur. Skólastarf þarf að vinna á faglegum forsendum. Er því eðlilegt að skólayfirvöld og skólamálaráð fjalli ítarlega um námsárangur nemenda í 10. bekk grunnskóla og beri saman við árangur þeirra á samræmdum prófum í 4. og 7. bekk."

16. mál.

Bæjarstjóri gerði grein fyrir mögulegum efnisflutningum í Helgafellsgryfju í tengslum við núverandi hafnarframkvæmdir, til að ljúka frágangi á gömlu sorpgryfjunni.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita eftir samkomulagi um málið.

17. mál.

Fyrir lá bréf frá Jóhanni Inga Árnasyni, ritstjóra eyjar.net, dags. 21. júní sl., varðandi endurskoðun á auglýsingastefnu Vestmannaeyjabæjar og möguleikar á að auglýsa á eyjar.net.

Bæjarráð lýsir yfir ánægju með þá öflugu netmiðla sem eru starfandi í Vestmannaeyjum og mun taka málið upp til skoðunar samhliða endurnýjun á upplýsingavef bæjarins.

18. mál.

Fyrir lá fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs frá 24. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

Arnar Sigurmundsson tekur undir bókun Elsu Valgeirsdóttur í 1. máli fundargerðarinnar.

19. mál.

Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 26. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

20. mál.

Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar frá 26. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.53.

Andrés Sigmundsson

Stefán Ó. Jónasson

Arnar Sigurmundsson

Ingi Sigurðsson  


Jafnlaunavottun Learncove