Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2676
BÆJARRÁÐ
2676. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 23. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Stefán Jónasson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson bæjarstjóri. Einnig sat fundinn Andrés Sigmundsson sem áheyrnarfulltrúi.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lágu til kynningar drög að úttekt á stjórnskipulagi bæjarsjóðs og stofnana hans frá IBM Business Consulting Services ehf. sbr. 2. áfangi verksamnings. Fyrr í dag var haldinn kynningafundur með þeim starfsmönnum bæjarins sem ráðgjafi hafði áður rætt við.
Bæjarráð óskar eftir að starfsmenn bæjarins komi athugasemdum sínum ef einhverjar eru til viðkomandi stéttarfélags, bæjarstjóra eða bæjarritara, og að þessir aðilar muni skila bæjarráði framkomnum athugasemdum. Bæjarráð samþykkir jafnframt að haldinn verði kynningarfundur með ráðgjafa og bæjarfulltrúum þriðjudaginn 24. júní kl. 12 og óskar bæjarráð eftir að bæjarfulltrúar skili athugasemdum sínum til bæjarstjóra eða bæjarritara. Skilafrestur er fyrir kl. 11 mánudaginn 30. júní.
2. mál.
Fyrir lá undirritaður vinabæjarsamningur dags. 15. júní sl. milli Vestmannaeyjabæjar og Götu kommúnu í Færeyjum.
Bæjarráð lýsir ánægju sinni með ofangreindan samning og vonast til að hann verði til þess að efla samskipti á milli byggðarlaganna. Jafnframt felur bæjarráð skóla- og menningarfulltrúa, félagsmálastjóra og íþróttafulltrúa að lista upp þau félög og þá möguleika sem eru varðandi samskipti í skóla- félags- og menningarmálum, málefnum aldraðra og íþróttamálum.
3. mál.
Bæjarráð þakkar menningarmálanefnd og Andrési Sigurvinssyni, sem annaðist dagskrárgerð, fyrir vel heppnuð hátíðahöld á 17. júní sl. á Stakkagerðistúni. Framkvæmdin tókst í alla staði vel og vonast bæjarráð til að framhald verði á á komandi árum.
4. mál.
Fyrir lágu drög að yfirlýsingu og samkomulagi vegna málefna þrotabús Ögmundar ehf., unnið af lögmönnum Vestmannaeyjabæjar og þrotabúsins.
Bæjarráð samþykkir drögin fyrir sitt leyti en óskar eftir að útlagður kostnaður Vestmannaeyjabæjar vegna málsins verði greiddur af Sparisjóði Vestmannaeyja.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Tek ekki afstöðu til afgreiðslu málsins vegna setu minnar í stjórn Sparisjóðs Vestmannaeyja."
5. mál.
Fyrir lá bréf Guðjóns Hjörleifssonar fyrrverandi bæjarstjóra dags. 19. júní sl., varðandi mál frá fundi bæjarráðs frá 10. og 16. júní sl.
Bæjarráð samþykkir að gefa "Ofanbyggjurum" tækifæri til að tjá sig um um þau sjónarmið sem liggja fyrir. Skulu andmæli liggja fyrir eigi síðar en föstudaginn 4. júlí n.k.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Jökli Pálmari Jónssyni, skipulags- og byggingarfulltrúi Vestmannaeyjabæjar, dags. 18. júní, þar sem hann segir starfi sínu lausu.
Bæjarráð þakkar Jökli Pálmari fyrir góð störf en samþykkir jafnframt að fresta því að auglýsa stöðuna þar til fyrirhugaðar skipulagsbreytingar bæjarsjóðs og stofnana hans liggja fyrir.
7. mál.
Fyrir lágu tilboð fjármálastofnana í lánveitingu að upphæð kr. 290.000.000 skv. fjárhagsáætlun fyrir bæjarsjóð, hafnarsjóð og félagslegar íbúðir.
8. mál.
Rætt um bréf ÍBV-íþróttafélags frá fundi bæjarráðs dags. 2. júní sl., 8. mál, varðandi sorphirðu á Þjóðhátíð.
Bæjarráð samþykkir að taka þátt í kostnaði vegna sorphirðu ÍBV-íþróttafélags á Þjóðhátíð ársins 2003 sem nemur kr. 200.000 m.vsk. Gert verði ráð fyrir upphæðinni í endurskoðaðri fjárhagsáætlun.
9. mál.
Fyrir lá bréf Hönnu Maríu Siggeirsdóttur og Erlendar Jónssonar dags. 20. júní sl., varðandi bréf Lyf og Heilsu hf. dags. 6. júní sl. til bæjarstjórnar Vestmannaeyja.
10. mál.
Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 13. júní sl. þar sem leitað er umsagnar um umsókn Þorkels Húnbogasonar vegna rekstrarleyfis fyrir gistiheimilið Heimi, Heiðarvegi 1.
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla, samþykki það einnig.
11. mál.
Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 18. júní sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
12. mál.
Fyrir lá fundargerð Náttúrustofu Suðurlands frá 13. júní sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð Þróunarfélags Vestmannaeyja frá 20. júní sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina en hafnar afgreiðslu á 3. máli fundarins. Ljóst er að meirihluti bæjarstjórnar hyggst leggja Þróunarfélag Vestmannaeyja niður. Fundurinn 29 apríl var löglega boðaður. Vestmannaeyjabær er eigandi að 80% eignarhlut í félaginu. Aðrir eigendur hyggjast ekki taka þátt í greiðslu skulda. Það er því mikil ábyrgð sem í því felst að tefja afgreiðslu málsins. Meirihluti bæjarráðs lýtur því svo á að samþykktir stjórnar frá 29 apríl s.l. standi óhaggaðar.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Samþykki fundargerð stjórnar Þróunarfélags Vestmannaeyja frá 20. júní sl. Tek sérstaklega undir tillögu Helga Bragasonar varðandi ályktunarhæfni stjórnarfundar í félaginu frá 29. apríl sl., þar sem eingöngu tveir af fimm stjórnarmönnum voru mættir og var því fundurinn ekki lögmætur og gat ekki tekið ákvörðun um uppsagnir á starfsfólki félagsins."
Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:
"Stjórn sameignarfélagsins (Þróunarfélag Vestmannaeyjar) er ályktunarhæf ef fundur félagsins er löglega boðaður. Því er ákvörðun stjórnarinnar frá 29. apríl fyllilega lögmæt."
14. mál.
Fyrir lá fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 19. júní sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.25
Arnar Sigurmundsson
Stefán Ó. Jónasson
Lúðvík Bergvinsson
Andrés Sigmundsson
Ingi Sigurðsson