Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2674
BÆJARRÁÐ
2674. fundur.
Ár 2003, þriðjudaginn 10. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Stefán Jónasson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson bæjarstjóri. Jafnframt mætti Andrés Sigmundsson, áheyrnarfulltrúi, á fundinn.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál
Fyrir lá árshlutareikningur Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans til 31. mars sl.
Bæjarráð mun ræða uppgjörið nánar á næsta fundi sínum.
2. mál.
Atvinnumál.
a) Bæjarráð lýsir ánægju sinni yfir því að öllum þeim unglingum sem óskuðu eftir sumarvinnu hafi verið gefið tækifæri á ráðningu hjá Vestmannaeyjabæ. Jafnframt lýsir bæjarráð yfir þakklæti til starfsmanna Svæðisvinnumiðlunar Suðurlands fyrir gott samstarf við að koma þessu stóra atvinnumáli í höfn.
b) Staða á vinnu atvinnuhópsins sem samþykktur var af bæjarráði fyrr í vor er sú að vinnan er á lokastigi og er miðað við að lokaskýrsla liggi fyrir í byrjun næstu viku.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá Vinnumálastofnun dags. 2. júní sl. vegna umsókna bæjarins
um atvinnuátaksverkefni:
a) Samþykkt er sumarverkefni fyrir börn með félagsleg/hegðunarleg og/eða geðræn
vandkvæði, 1 starf í 2 mánuði (eða 2*50% störf í 2 mán.).
b) Samþykkt er aðstoðarstarf á gæsluvelli, 1 starf í 3 mánuði (eða 2*50% í 3 mán.).
c) Samþykkt eru 2 störf í 3 mánuði á Hraunbúðum, stuðningur við aldraða, eftir endurnýjaða umsókn.
d) Samþykkt eru 15 störf í 3 mánuði í landgræðsluverkefni fyrir ungt fólk.
Bæjarráð þakkar Vinnumálastofnun fyrir jákvæð viðbrögð vegna ofangreindra umsókna.
4. mál.
Lagt fram lögfræðiálit Ástráðs Haraldssonar, hæstaréttarlögmanns, dags. 10. júní sbr. samþykkt bæjarstjórnar dags. 28. maí sl.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Í greinargerð Ástráðs Haraldssonar lögmanns í Reykjavík er megináherslan lögð á möguleika núveranda meirihluta bæjarstjórnar að rifta ráðningarsamningi bæjarstjórnar frá 12. júní 2002 við Inga Sigurðsson bæjarstjóra sem gildir til loka kjörtímabilsins vorið 2006. Að öðru leyti er í greinargerðinni almennt fjallað um uppsagnarfresti og biðlaun til starfsmanna bæjarins vegna þeirra starfsheita sem lögð verða niður nái tillögur og hugmyndir núverandi meirihluta fram að ganga. Í þeim tillögum og drögum að nýju skipuriti fyrir Vestmannaeyjabæ er ekki gert ráð fyrir að leggja niður starf bæjarstjóra í Vestmannaeyjum enda slíkt með öllu óheimilt samkvæmt sveitastjórnarlögum. Ég tel að meirihluti bæjarstjórnar skuldi starfsmönnum Vestmannaeyjabæjar og íbúum bæjarins frekari skýringar á þeim vinnubrögðum sem hér eru í gangi."
Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:
"Vísum dylgjum og rangfærslum sem fram koma í bókun minnihluta Sjálfstæðismanna á bug. Í tillögu sem samþykkt var í bæjarstjórn var þess farið á leit að réttarstaða bæjarsjóðs og starfsmanna verði skýrð eins og framast er kostur. Greinargerð Ástráðs Haraldssonar skýrir hana eins og hægt er. Það er mikilvægt fyrir bæjarsjóð og starfsmenn bæjarins, þ.m.t. bæjarstjóra að réttarstaðan sé skýr. Bókun minnihlutans vekur því mikla undrun, einkanlega þar sem úr henni má lesa að það markmið að skýra réttarstöðu allra, hvortveggja bæjarsjóðs og allra starfsmanna hans, sé honum ekki að skapi. Við teljum það til mikilla bóta og hagræðis fyrir starfsmenn bæjarins að þeir þekki vandlega sína réttarstöðu. Það eru vissulega vinnubrögð sem hafa ekki verið tíðkuð, en mikilvægt að bærinn komi fram við starfsmenn sína með virðingu, kurteisi svo fullum trúnaði verði haldið og góður starfsandi geti ríkt. Það teljum við okkur vera að gera. Hvergi hafa komið fram hugmyndir um að leggja niður starf bæjarstjóra og óljóst hvaðan sú hugmynd minnihlutans er kominn. Að öðru leyti er ástæðulaust fyrir minnihluta bæjarráðs að gera tilraun til að skapa óróa meðal starfsmanna bæjarins. Það þjónar hvorki hagsmunum hans né bæjarins. Í jafn viðkvæmum og vandmeðförnum málum eins og þeim sem hér eru til umfjöllunar er mikilvægt að leita til hæfustu manna hverju sinni. Við það mega menn ekki vera feimnir. Þannig vinnubrögð þjóna hagsmunum bæjarins, starfsmanna hans og bæjarbúum best. Þannig vill nýr meirihluti vinna."
Andrés Sigmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur ofangreindri bókun.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Stend að öllu leyti við fyrri bókun og legg jafnframt ríka áherslu á að núverandi meirihluti bæjarstjórnar greini bæjarbúum og starfsfólki bæjarins nánar frá áformum sínum og tillögum í rekstri og starfaskiptingu hjá Vestmannaeyjabæ og stofnunum sem allra fyrst."
Meirihluti bæjarráðs óskar bókað:
"Með þessum vinnubrögðum sýnir meirihlutinn að hann vill starfa fyrir opnum tjöldum. Öfugt við það sem tíðkaðist í meirihlutatíð Sjálfstæðisflokksins. Það þjónar ekki hagsmunum bæjarins að minnihluti Sjálfstæðisflokks skuli með svona málflutningi reyna að skapa óþarfa ótta hjá starfsmönnum bæjarins, vegna nauðsynlegra skipulagsbreytinga. Það er aðeins sorglegt þegar slíkum vinnubrögðum er beitt. Að öðru leyti er vísað til fyrri bókunar."
Andrés Sigmundson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur bókun þessari
5. mál.
Rætt um gatnagerðargjöld á Ofanbyggjara, þar sem fyrir lá bréf frá Árna Johnsen dags. 30. maí sem og upplýsingar frá bæjarstjóra og bæjarritara.
Meirihluti bæjarráðs leggur til að fresta afgreiðslu málsins. Í bréfi Árna Johnsen kemur fram "að hringlandaháttur og geðþóttaákvarðanir hafi einkennt vinnubrögð í málinu undafarin ár". Það er því mikilvægt að fá botn í þetta mál. Því leggur meirihluti bæjarráðs til að bæjarstjóra verði falið að kanna hvaða útgjöld bæjarsjóður hefur orðið fyrir vegna gatnagerðarframkvæmda við hvert eitt hús sem deilurnar standa um, ennfremur hvaða fjárhæðir deilt er um, hvernig gatnagerðargjöldum hjá öðrum sem bréfritari nefnir er háttað, og hvernig þau mál voru afgreidd hjá bæjarsjóði. Þá er nauðsynlegt að fyrrv. bæjarstjóri upplýsi um hvort og þá hvaða loforð hafi verið gefin vegna þessara mála líkt og bréfritari greinir frá að hafi verið lofað. Þessar upplýsingar skulu liggja fyrir eigi síðar en fyrir næsta bæjarráðsfund.
Andrés Sigmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur bókun þessari.
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Í þessu máli eins og öðrum er nauðsynlegt að halda til haga hagsmunum Vestmannaeyjabæjar, jafnframt þarf að gæta þess að ekki verði innheimt hærri gjöld af fasteignum vegna gatnagerðargjalda í Vestmannaeyjum en heimilt er hverju sinni."
Meirihluti bæjarráðs tekur undir bókun minnihluta að öðru leyti.
Andrés Sigmundsson, áheyrnarfulltrúi, er samþykkur bókun þessari.
6. mál
Fyrir lá bréf frá Ólafi Ólafssyni bæjartæknifræðingi dags. 10. júní sl. varðandi niðurstöðu viðræðna við tilboðsgjafa varðandi hellulögn á Kirkjuvegi og Vestmannabraut. Bæjartæknifræðingur hefur náð samkomulagi um kr. 6.463.150 m. VSK, kostnaðaráætlun er 5.415.250 m. VSK, en upphaflegt tilboðsverð var 7.187.282 m. VSK.
Bæjarráð samþykkir að ganga til samninga við Óskar G. Kjartansson miðað við kr. 6.463.150 m. VSK og felur bæjartæknifræðingi að ganga frá samningi miðað við þær forsendur sem lágu fyrir í útboðsskilmálum.
7. mál
Svohljóðandi tillaga barst frá meirihluta bæjarráðs:
“Bæjarráð samþykkir að starfsemi athvarfsins og leikfangasafnsins verði flutt í Þórsheimilið í kjölfar flutninga ÍBV-íþróttafélags í Týsheimilið, þ.e. svo fljótt sem auðið er. Nánari útlistun á flutningnum mun liggja fyrir innan skamms tíma og munu þær upplýsingar verða lagðar fyrir bæjarráð.”
Arnar Sigurmundsson óskar bókað:
"Er sammála því að flytja starfsemi Athvarfsins og Leikfangasafnsins í Þórsheimilið, enda var búið að samþykkja þessa tilhögun í fyrri meirihluta. Legg áherslu á að nánar verði greint frá áformum um frekari nýtingu á Þórsheimlinu þegar ÍBV íþróttafélag flytur í Týsheimilið".
8. mál
Fyrir lá bréf frá Götu kommúnu dags. 5. júní sl. varðandi undirritun vinabæjarsamkomulags sunnudaginn 15. júní nk.
Svohljóðandi tillaga barst frá Arnari Sigurmundssyni:
“Með vísan til afgreiðslu bæjarráðs frá 19. maí og samþykkt bæjarstjórnar 28. maí sl um að taka upp vinabæjartengsl milli Vestmannaeyja og bæjarfélagsins Götu í Færeyjum samþykkir bæjarráð að Ingi Sigurðsson bæjarstjóri verði fulltrúi Vestmannaeyjabæjar við athöfnina í Götu eins og gestgjafarnir þar gera ráð fyrir í bréfi sínu til bæjarráðs.”
Meirihluti bæjarráðs samþykkir að Andrés Sigmundsson, forseti bæjarstjórnar, verði fulltrúi Vestmannaeyjabæjar við undirritun vinabæjarsamkomulags við Götu kommúnu.
9. mál.
Fyrir lá afrit af bréfi Jóhanns Péturssonar lögmanns, f.h. Vestmannaeyjabæjar, til Áfrýjunarnefndar samkeppnismála dags. 9. júní sl., varðandi stjórnsýslukæru Líkamsræktarstöðvarinnar ehf.
10. mál.
Fyrir lá bréf frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu dags. 4. júní sl. varðandi beiðni Hitaveitu Suðurnesja hf. um rannsóknarleyfi til jarðhitarannsókna.
11. mál.
Fyrir lá bréf frá bókaútgáfunni Hólar dags. 23. maí sl., þar sem leitað er eftir styrk að upphæð kr. 30.000 vegna útgáfu kennslubókarinnar “Allir geta eitthvað, enginn getur allt.”
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
12. mál.
Fyrir lágu tvö bréf frá Ólafi Ólafssyni bæjartæknifræðingi dags. 10. júní varðandi
a) þátttöku Vestmannaeyjabæjar í girðingu á lóðarmörkum við göngustíg á vegum bæjarins að Búhamri 13 að upphæð kr. 190.000.
b) þátttöku Vestmannaeyjabæjar í girðingu á lóðarmörkum við göngustíg á vegum bæjarins að Áshamri 12 að upphæð kr. 190.000.
Bæjarráð samþykkir tillögur bæjartæknifræðings að upphæð kr. 380.000 og er gert ráð fyrir fjárveitingunni í sérsamþykktum bæjarráðs á þessu ári.
13. mál.
Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 2. júní sl., þar sem leitað er umsagnar um umsókn Þórdísar Sigurjónsdóttur vegna rekstrarleyfis fyrir gistiheimilið Hvíld að Höfðavegi 16.
Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti að því tilskyldu að aðrir aðilar sem um erindið fjalla samþykki það einnig.
14. mál.
Fyrir lá bréf frá Lyf og heilsu ehf. dags. 10. júní, varðandi afgreiðslu bæjarstjórnar Vestmannaeyja á erindi vegna lyfsöluleyfis Björns Jóhannssonar.
15. mál.
Samningamál
16. mál.
Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar frá 3. júní sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
17. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 5. júní sl.
Bæjarráð frestar afgreiðslu á 2. máli fundargerðarinnar en samþykkir fundargerðina að öðru leyti.
18. mál.
Fyrir lá fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs frá 6. júní sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.15.
Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson, Stefán Ó. Jónasson, Andrés Sigmundsson
Ingi Sigurðsson.