Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2673

02.06.2003

BÆJARRÁÐ

2673. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 2. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, Lúðvík Bergvinsson og Arnar Sigurmundsson. Jafnframt mætti G. Ásta Halldórsdóttir, áheyrnarfulltrúi, á fundinn.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Fyrir lá bréf frá Inga Sigurðssyni, bæjarstjóra, dags. 30. maí varðandi atvinnuátak fyrir unglinga sumarið 2003.

Bæjarráð samþykkir að veita allt að kr. 10.000.000 til atvinnuátaks ungs fólks í Vestmannaeyjum í sumar og vísar því til endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2003. Leitað verður sérstaklega eftir samstarfi við atvinnurekendur um leiðir til þess að bregðast við þessu ástandi.

2. mál.

Bæjarráð sendir áhugafélagi um vegtengingu milli lands og Eyja stuðnings- og baráttukveðjur í því mikla hagsmunamáli sem þar er á ferð.

3. mál

Fyrir lá afrit af bréfi Áfrýjunarnefndar samkeppnismála til Jóhanns Péturssonar, hdl., dags. 27. maí sl. þar sem kynnt er stjórnsýslukæra Líkamsræktarstöðvarinnar ehf. vegna úrskurðar samkeppnisráðs.

Bæjarráð felur Jóhanni Péturssyni, hdl., að gæta hagsmuna bæjarins að höfðu samráði við bæjarstjóra og formann bæjarráðs.

4. mál.

Fyrir lá bréf frá umhverfisráðuneytinu dags. 26. maí sl. varðandi álagningu gatnagerðargjalda á húsnæði sem klætt er með dúk á stálgrind.

Bæjarráð felur bæjarritara að kanna betur 4. atriði sem fram kemur í bréfinu.

5. mál.

Fyrir lá afrit af bréfi Inga Sigurðssonar, bæjarstjóra, dags. 26. maí sl. til Úrvinnslusjóðs varðandi móttöku hjólbarða, samsettra pappaumbúða og rafhlaða.

6. mál.

Fyrir lá bréf frá Auði Karlsdóttur, starfandi leikskólafulltrúa, dags. 23. maí sl. þar sem óskað er eftir afnotum af Stakkagerðistúni, og til vara gamla íþróttasalnum í Íþróttamiðstöð, vegna sameiginlegs sumardags leikskólanna 19. júní nk.

Bæjarráð samþykkir erindið.

7. mál.

Í framhaldi af tilboði í hellulagnir á Kirkjuvegi sem frestað var á síðasta fundi samþykkir bæjarráð að fela bæjartæknifræðingi að freista þess að ná samningum við tilboðsgjafa sem næst kostnaðaráætlun og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs.

8. mál.

Í framhaldi af erindi frá ÍBV, dags. 26. maí sl., varðandi haugsugu felur bæjarráð yfirverkstjóra Áhaldahúss að vinna að málinu í samráði við ÍBV. Varðandi sorphirðu á Þjóðhátíð felur bæjarráð bæjarstjóra að leita eftir hagstæðum samningum við Gámaþjónustu Vestmannaeyja. Að þeim viðræðum loknum mun bæjarráð taka afstöðu til erindisins. Brýnt er að niðurstaða liggi fyrir hið allra fyrsta.

9. mál.

Samningamál.

10. mál.

Fyrir lá erindi frá Knattspyrnudeild ÍBV þar sem óskað er eftir leyfi fyrir Jónsmessugleði í Fiskiðjuporti 20. júní nk.

Bæjarráð samþykkir erindið fyrir sitt leyti, að því tilskyldu að aðrir aðilar sem um slík mál eiga að fjalla, samþykki það einnig, en leggur áherslu á að skemmtanahaldi verði lokið fyrir kl. 05.00 og að hljómsveitarsvið verði staðsett norðanmegin á svæðinu.

11. mál.

Svohljóðandi tillaga barst frá Selmu Ragnarsdóttur:

"Bæjarráð samþykkir að fela bæjarstjóra að leita leiða nú þegar til að koma upp veitinga- og leiklistaraðstöðu á Skanssvæðinu. Verkefnið sem áformað er að standi yfir í a.m.k. mánaðartíma á þessu sumri er hugsað sem tilraunaverkefni í tilefni að 30 ára goslokaafmæli. Ef verkefnið heppnast vel gæti þetta orðið til þess að efla mennigartengda ferðaþjónustu í Eyjum. Bæjarsjóður taki að sér að koma upp tjaldaðstöðu ofl. Að öðru leyti verði veitingarekstur á svæðinu boðinn út."

Samkvæmt sveitarstjórnarlögum og bæjarmálasamþykkt getur enginn, sem ekki á setu í bæjarráði, orðið aðalflutningsmaður að tillögu sem flutt er í bæjarráði. Þar sem enginn sem setu á í bæjarráði eða hefur þar tillögurétt er tilbúinn til þess að gerast aðalflutningsmaður að tillögu þeirri sem fyrir liggur, ákveður formaður bæjarráðs að úrskurða skv. 47. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyja að tillagan verði tekin útaf dagskrá.

.

Arnar Sigurmundsson og Ásta Halldórsdóttir óska bókað:

"Mótmælum því að tillagan skuli ekki fá efnislega meðferð á fundi bæjarráðs þar sem hún er löglega fram borin á fundinum af bæjarfulltrúum og áheyrnarfulltrúa í bæjarráði sem hefur þar málfrelsi og tillögurétt samkvæmt samþykkt um stjórn Vestmannaeyjabæjar."

Lúðvík Bergvinsson og Guðrún Erlingsdóttir óska bóka.

"Þar sem tillagan er ekki rétt fram borinn skv. ákvæðum laga og bæjarmálasamþykkta er ekki hægt að taka tillöguna á dagskrá."

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 19.55.

Guðrún Erlingsdóttir

Lúðvík Bergvinsson

Arnar Sigurmundsson

G. Ásta Halldórsdóttir

Páll Einarsson 


Jafnlaunavottun Learncove