Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2667

28.04.2003

BÆJARRÁÐ

2667. fundur.

Ár 2003, miðvikudaginn 28. apríl kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mætt voru: Guðrún Erlingsdóttir, Stefán Óskar Jónasson, Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri. Einnig var Andrés Sigmundsson áheyrnarfulltrúi.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Á fundinn mættu Hafsteinn Gunnarsson, löggiltur endurskoðandi og Magnús Þorsteinsson, aðalbókari. Lagðir voru fram reikningar ársins 2002 fyrir bæjarsjóð og stofnanir hans.

Bæjarráð vísar reikningunum til fyrri umræðu í bæjarstjórn. Jafnframt þakkar bæjarráð þeim sem unnu að gerð reikninganna fyrir góð störf.

2. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 16. apríl sl., varðandi álit ráðuneytisins á málefnum Þróunarfélags Vestmannaeyja.

Svohljóðandi greinargerð og tillaga var lögð fram af Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Óskari Jónassyni:

"Með bréfi dags. 2. jan. 2003 var Vestmannaeyjabæ tilkynnt að félagsmálaráðuneytið hefði ákveðið að taka málefni Þróunarfélags Vestmannaeyja og tengsl félagsins við Vestmannaeyjabæ til sérstakrar athugunar. Álit ráðuneytisins liggur nú fyrir.

Það er óhætt að fullyrða að þar er tekið undir allar athugasemdir sem ftr. V-listans hafa gert við starfsemi félagsins undanfarin misseri. Þar eru fyrrverandi stjórn félagsins og fyrrverandi framkvæmdastjóri gerð ábyrg fyrir starfsemi þess.

Í áliti ráðuneytisins eru gerðar stórfelldar athugasemdir við starfsemi, stjórn og rekstur félagsins undanfarin misseri. Í stuttri bókun verður álitinu ekki gerð tæmandi skil, enda álitið uppá 13 síður. Hér verður aðeins tæpt á því helsta sem þar kemur fram. Þá er rétt að skýra frá því að í áliti ráðuneytisins kemur m.a. fram að þar sem nýr meirihluti hafi tekið við stjórn Vestmannaeyjabæjar, telur það ekki rétt að beita viðurlögum gagnvart sveitarfélaginu, sem það ella hefði gripið til í tilvikum sem þessum. Þess er á hinn bóginn krafist að því verði gerð skýr grein fyrir því til hvaða aðgerða bæjarstjórn Vestmannaeyja muni grípa til að koma betra lagi á rekstur Þróunarfélags Vestmannaeyja.

Hér að neðan er gerð grein fyrir helstu athugasemdum sem fram koma í áliti ráðuneytisins, sem þó eru langt frá því að vera tæmandi taldar um málsatvik.

I. Úrsögn Hitaveitu Suðurnesja úr ÞV stórskaðar bæjarsjóð fjárhagslega.

Ráðuneytið telur að eins og staðið var að úrsögn Hitaveitu Suðurnesja úr félaginu sé ljóst að fjárhagslegar byrðar bæjarsjóðs vegna skulda félagsins hafi þyngst verulega. Það er óhætt að fullyrða að þær byrðar hlaupa á milljónum króna.

II. Brot á lögum um bókhald og ársreikninga.

Í áliti ráðuneytisins um bókhald og ársreikninga félagsins segir m.a.”Er því tæplega ofsagt að mikil óreiða hafi verið á bókhaldi félagsins, sem stjórn og framkvæmdastjóri hljóta að bera sameiginlega ábyrgð á, sbr. Einkum 4.,5.,7.,9., og 20 gr. laga um bókhald með síðari breytingum, sbr. einnig IV kafla þeirra laga. “ Í IV kafla þeirra laga er fjallað um viðurlög og refsingar en þar segir m.a. í 1. mgr. 36. gr. að brot gegn ákvæðum þessara laga geti varðað allt að 6 ára fangelsi.

Það er því ljóst að félagsmálaráðuneytið lítur mál þetta mjög alvarlegum augum.

III. Brot á sveitastjórnarlögum.

Það er ljóst af áliti ráðuneytisins að bæjarstjórn var óheimilt að gangast í fjárhagslega ábyrgð vegna lántöku Þróunarfélagsins uppá tugmilljónir króna. Þær ákvarðanir fá ekki staðist ákvæði sveitastjórnarlaga. Þetta er skýrt tekið fram í áliti ráðuneytisins.

IV. Meðferð almannafjár harðlega gagnrýnd.

Meðferð á almannafé er harðlega gagnrýnd þegar það var notað til kaupa á hlutafé í Skúlason ehf. Í áliti ráðuneytisins um það efni segir m.a. "Verður óhjákvæmilega að gera ríkar kröfur til þeirra sem sýsla með fjármuni almennings að þeir gæti þess sem best að fjármunirnir komi að þeim notum sem til er ætlast. Að mati ráðuneytisins er það því með öllu óásættanlegt að umræddir fjármunir skyldu vera greiddir til Skúlason ehf. án þess að jafnframt væri gengið frá því skriflega til hvers fjármunirnir yrðu notaðir og hver yrði eignarhlutur og áhrif ÞV í Skúlason ehf. Verður að átelja að ekki skyldi gengið formlega frá þessari ráðstöfun fyrr en löngu eftir að greiðsla átti sér stað.”

Það er ljóst að hér er á ferðinni þungur áfellisdómur um meðferð almannafjár enda segir frekar um þetta atriði ásamt öðru í áliti ráðuneytisins “Telji eigendur félagsins þörf á ítarlegri rannsókn á fjárreiðum félagsins verða þeir sjálfir að taka ákvörðun um það, óháð athugun ráðuneytisins.” Og áfram segir í áliti ráðuneytisins “Ef sveitarstjórn vanrækir skyldur sínar skal ráðuneytið skv. 2. mgr. 102. gr. sveitarstjórnarlaga veita henni áminningu og skora á hana að bæta úr vanrækslunni. Verði sveitarstjórn eigi við áskorun ráðuneytisins er heimilt að stöðva greiðslur til sveitarsjóðs úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Jafnframt getur ráðuneytið með lögsókn krafist dagsekta af þeim sem ábyrgð bera á vanrækslunni.”

Það er því ljóst að ráðuneytið felur bæjarstjórn að taka endanlega ákvörðun um það hvort málið verði sent til frekari rannsóknar hjá lögreglu. Enn fremur ítrekar það alvarleika málsins með því að vísa til lagaákvæða um viðurlög ef ekki er brugðist við athugasemdum í samræmi við alvarleika málsins

V. Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar.

Athugun hefur leitt í ljós að bókhaldsmál ÞV voru ekki í samræmi við ákvæði laga um bókhald. Jafnframt telur ráðuneytið að ársreikningur Vestmannaeyjabæjar hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um ársreikninga og reglugerð um bókhald og ársreikninga sveitarfélaga, stofnana þeirra og fyrirtækja. Komu þar hvorki fram að ábyrgðarskuldbindingar bæjarins vegna ÞV né var gerður fyrirvari um að í ársreikninginn skorti upplýsingar um áhrif eignaraðildar Vetmannaeyjabæjar að félaginu á fjárhag bæjarsjóðs. Þetta lítur ráðuneytið mjög alvarlegum augum.

VI. Félagsíbúðir Vestmannaeyjabæjar.

Ráðuneytið gerir alvarlegar athugasemdir og telur með öllu óeðlilegt að félagsíbúðir skyldu látnar greiða 2,4 milljónir kr. til Þróunarfélagsins án þess að sýnilegt framlag kæmi á móti. Ráðuneytið fer fram á að viðeigandi leiðréttingar verði gerðar hið fyrsta.

Það er ljóst að með áliti ráðuneytisins er það lagt á herðar bæjarstjórnar Vestmannaeyja að taka frekari ákvörðun um framhald málsins. Í ljósi hinna alvarlegu athugasemda sem fram koma í úrskurði félagsmálaráðuneytisins, þar sem m.a. er vísað til þess að lög um bókhald hafi verið brotin, miklar athugasemdir gerðar um starfsemi félagsins, meðferð almannafjár og fleira, leggur bæjarráð til að bæjarstjóra verði falið að undirbúa beiðni í samráði við bæjarfulltrúa til ríkislögreglustjóra um að starfsemi Þróunarfélags Vestmannaeyja verði tekin til frekari rannsóknar. Það er mat bæjarráðs í ljósi þess sem fram kemur í úrskurði ráðuneytisins að önnur leið sé ekki fær."

Meirihluti bæjarráðs samþykkir tillöguna.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Með bréfi félagsmálaráðuneytisins frá 16. apríl sl. kemur fram að samkvæmt fyrirliggjandi málsgögnum hafi verið bætt verulega úr þeim ágöllum hjá Þróunarfélagi Vestmannaeyja sem athugun ráðuneytisins beindist að. Í ljósi þessa taldi ráðuneytið ekki rétt að beita viðurlögum á grundvelli ákvæðis í sveitastjórnalögum. Undirritaður var í meginatriðum sammála niðurstöðum ráðuneytisins og taldi að nú væri loks að sjá fyrir endann á þeim ágreiningi sem kom upp varðandi bókhald, fjárfestingar og tafir við gerð ársreiknings félagsins fyrir 2001. Á fundi bæjarráðs fyrr í dag var samþykkt að vísa ársreikningum Vestmannaeyjabæjar og annara stofnana bæjarins, þar á meðal Þróunarfélagsins fyrir árið 2002 til fyrri umræðu í bæjarstjórn.

Í endurskoðunarskýrslu skoðunarmanna og lögg. endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar vegna áreikninga félagsins 2001 og síðar athugun félagsmálaráðuneytisins hefur ekkert komið fram sem bendir til þess að stjórn félagsins og fyrrv. framkvæmdastjóri hafi misfarið með fjármuni í sína þágu, þótt ýmislegt hafi betur mátt fara í rekstri félagsins. Ég tel ekki næg rök fyrir því að fara þá leið sem meirihluti bæjarráðs leggur til og bendi jafnframt á að þessi málmeðferð getur í ljósi ofanritaðs hugsanlega kallað á skaðabótakröfur á hendur Vestmannaeyjabæ frá fyrrv. framkvæmdastjóra félagsins. Það skiptir miklu fyrir alla að endanleg niðurstaða fáist í málefni Þróunarfélags Vestmannaeyja sem allra fyrst. Þá fyrst geta bæjaryfirvöld tekið þátt í aðkallandi verkefnum á sviði atvinnumála á nýjan leik og veitt áframhaldandi aðstoð við frumkvöðlastarf í Vestmanannaeyjum, sem var eitt að meginverkefnum Þróunarfélags Vestmannaeyja á sínum tíma."

Svohljóðandi bókun barst frá Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Óskari Jónassyni:

"Bæjaryfirvöld hafa nú þegar hafið vinnu við uppbyggingu atvinnulífsins, þrátt fyrir sorglegan frágang fyrrrverandi meirihluta sjálfstæðimanna sl. 13 ár. Áfram mun unnið að uppbyggingu atvinnulífsins og beiðni um rannsókn á starfsemi Þróunarfélagsins mun ekki trufla þá vinnu. Staða atvinnumála væri ekki eins alvarleg og raun ber vitni ef sjálfstæðismenn hefðu viðurkennt ástandið í atvinnumálum fyrr og ekki eyðilagt þau tækifæri sem stofnun Þróunarfélagsins hefði getað veitt."

3. mál.

Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 23. apríl sl., varðandi afgreiðslu á kæru Guðríðar Ástu Halldórsdóttur vegna varabæjarfulltrúa B-lista.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Þrátt fyrir að úrskurður félagsmálaráðuneytisins hafi ekki komið á óvart í ljósi sveitastjórnarlaga ber að fagna ógildingu á tilkynningu Andrésar Sigmundssonar um að 12. maður á framboðslista skipi sæti sem varafulltrúi, sem Guðríður Ásta Halldórsdóttir var rétt kjörin til í kosningum til bæjarstjórnar á síðasta ári."

4. mál.

Fyrir lá bréf frá iðnaðar- og viðskiptaráðuneytinu dags. 22. apríl sl., varðandi rökstuðning á niðurstöðu forvals um þátttöku Vestmannaeyjabæjar í verkefninu “Rafrænt samfélag”.

Bæjarráð felur bæjarstjóra ásamt þeim sem unnu umsóknina að fara yfir rökstuðning ráðuneytisins.

5. mál.

Fyrir lá bréf frá Magnúsi Oddssyni ferðamálastjóra, f.h. Ferðamálaráðs Íslands, dags. 10. apríl sl., varðandi rökstuðning á afgreiðslu umsóknar Vestmannaeyjabæjar og Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja um framlag til kynningar á erlendum markaðssvæðum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra ásamt þeim sem unnu umsóknina að fara yfir rökstuðning ferðamálastjóra.

6. mál.

Bæjarráð samþykkir að næstu fundir bæjarstjórnar verði miðvikudaginn 28. maí og fimmtudagana 26. júní, 24. júlí og 4. september nk. og hefjast þeir kl 18.00.

7. mál.

Fyrir lágu fjögur bréf frá Oddi Björgvin dags. 14.04., 21.04. og 22.04. sl., varðandi:

a) að Heimagata verði gerð að einstefnugötu.

Bæjarráð vísar erindinu til skipulags- og bygginganefndar.

b) málefni Hallarinnar.

c) málefni kertaverksmiðjunnar Heimaey.

Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálaráðs

d) landnytjanefnd.

Bæjarráð vísar erindinu til landnytjanefndar og ítrekar við nefndina að umræddum erindum bréfritara verði svarað sem allra fyrst.

8. mál.

Fyrir lá bréf frá Umboðsmanni Alþingis dags. 15. apríl sl. vegna kvörtunar Odds Björgvins Júlíussonar um að landnytjanefnd hafi ekki svarað erindum hans frá 20. og 22. janúar sl.

Vísað er til afgreiðslu á 7. máli, d.lið.

9. mál.

Samningamál.

10. mál.

Fyrir lá bréf frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga dags. 12. apríl sl., varðandi áætlun um úthlutun framlaga úr sjóðnum á árinu 2003.

11. mál.

Fyrir lá afrit af bréfi Inga Sigurðssonar bæjarstjóra til Svæðisvinnumiðlunar Suðurlands dags. 23. apríl sl., varðandi afgreiðslu bæjarráðs á erindi varðandi Áshamar 75 frá 16. apríl sl.

12. mál.

Fyrir lá bréf frá Icelandic Geographic dags. 9. apríl, varðandi kostun á grein vegna Vestmannaeyja í blaði ársins 2003.

Bæjarráð frestar afgreiðslu á erindinu á meðan frekari upplýsinga er aflað.

13. mál.

Fyrir lá styrktarbeiðni frá Alnæmissamtökunum á Íslandi dags. 15. apríl sl.

Bæjarráð vísar erindinu til félagsmálaráðs.

14. mál.

Fyrir lágu ályktanir fulltrúaráðs Sambands íslenskra sveitarfélaga frá 63. fundi þann 11. apríl sl., ásamt ársskýrslu sambandsins, áætlunum 2003 og lögum sambandsins.

15. mál.

Fyrir lá bréf landnytjanefndar dags. 13. apríl sl., varðandi hugmyndir og rök fyrir girðingu á Dalfjalli og í Hlíðarbrekkum.

Bæjarráð felur landnytjanefnd og umhverfisnefnd að boða sameiginlegan fund þar sem farið verði yfir girðingar- og beitarmál með hliðsjón af skýrslu Landgræðslu ríkisins.

16. mál.

Fyrir liggur skv. tölvupósti dags. 22. apríl sl., beiðni frá SASS um að Vestmannaeyjabær skipi sinn fulltrúa í verkefnisstjórn menningarmála, sem hefur það markmið að koma á samningi milli sveitarfélaga á Suðurlandi og menntamálaráðuneytisins um samstarf í menningarmálum.

Bæjarráð felur Lúðvík Bergvinssyni og Inga Sigurðssyni, bæjarstjóra, til vara, að sitja sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar í nefndinni.

17. mál.

Fyrir lágu tvö bréf frá Hagstofu Íslands dags. 14. apríl sl. og 22. apríl sl., varðandi breytingar á kjörskrá Vestmannaeyjabæjar.

18. mál.

Svohljóðandi fyrirspurn barst frá Arnari Sigurmundssyni:

"Í fréttatíma RÚV 23. apríl sl. var viðtal við Andrés Sigmundsson forseta bæjarstjórnar, þar sem hann upplýsti að áformað væri að leggja fram kæru til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra um samskipti Þróunarfélags Vestmannaeyja og Vestmannaeyjabæjar.

Spurt er: Hvaða atriði í samskiptum þessara aðila er áformað að kæra til efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra?"

Meirihluti bæjarráðs vísar í afgreiðslu á 2. máli fundarins.

19. mál.

Rætt um tilnefningu Vestmannaeyjabæjar í stjórn Visku fræðslu- og símenntunarstöðvar Vestmannaeyja.

Bæjarráð felur bæjarstjóra að kanna lögmæti þess að skipta um fulltrúa Vestmannaeyjabæjar í stjórn Visku.

Arnar Sigurmundsson óskar bókað:

"Viska fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja er sjálfseignarstofnun með aðkomu 18 stofnaðila. Í staðfestri skipulagsskrá Visku er gert ráð fyrir að stjórn og varastjórn skuli kjörin á aðalfundi Visku sbr. 11. gr . sem undirrrituð er af öllum stofnaðilum 6. janúar 2003."

20. mál.

Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar dags. 10. apríl sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina og óskar jafnframt Ósvaldi Frey Guðjónssyni, bæjarlistamanni árið 2003, til hamingju.

21. mál.

Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs dags. 22. apríl sl.

Varðandi 17. mál fundargerðarinnar þá heimilar bæjarráð 50% stöðugildisaukningu í 3 mánuði eða kr. 195.000, og skal gert ráð fyrir þeirri aukningu í endurskoðaðri fjárhagsáætlun. Endurskoðun á þessari afgreiðslu mun fara fram að þeim tíma loknum ef tilefni gefst til.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina að öðru leyti.

22. mál.

Fyrir lá fundargerð hafnarstjórnar dags. 24. apríl sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 22.40.

Guðrún Erlingsdóttir

Arnar Sigurmundsson

Stefán Ó. Jónasson

Ingi Sigurðsson

Andrés Sigmundsson


Jafnlaunavottun Learncove