Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2666
BÆJARRÁÐ
2666. fundur.
Ár 2003, miðvikudaginn 16. apríl kl. 15.30 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Stefán Óskar Jónasson, Lúðvík Bergvinsson, Arnar Sigurmundsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Bæjarráð fagnar kjöri Lúðvíks Bergvinssonar í stjórn Hitaveitu Suðurnesja. Jafnframt óskar bæjarráð nýkjörinni stjórn velfarnaðar í störfum sínum og væntir góðs samstarfs við hana á komandi misserum.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að senda ályktun þessa til stjórnarformanns og framkvæmdastjóra HS.
Arnar Sigurmundsson óskar að bóka:
"Það er ástæða til þess að fagna því að fulltrúi Vestmannaeyjabæjar skuli áfram eiga sæti í stjórn Hitaveitu Suðurnesja hf., einkum í ljósi þess að stjórnarmönnum var fækkað úr tólf í sjö á aðalfundi Hitaveitunnar í síðustu viku."
2. mál.
Fyrir lá bréf frá menntamálaráðuneytinu dags. 1. apríl sl. um verkefnastjórn vegna byggingar menningarhúss í Vestmannaeyjum.
Arnar Sigurmundsson lagði fram eftirfarandi tillögu:
"Bæjarráð leggur áherslu á að verkefnisstjórn vegna menningarhúss í Vestmanna-eyjum, sem samið var um við menntamálaráðuneytið 21. mars sl. taki sem fyrst til starfa. Miklu skiptir að vel verði vandað til alls undirbúnings og fjármögnunar og leitað verði eftir sjónarmiðum bæjarbúa og annara hagsmunaaðila um framgang verksins. Með góðri undirbúnings- og skipulagsvinnu skapast möguleikar að hefja framkvæmdir fyrir lok þessa árs, þó meginhluti framkvæmda verði á árinu 2004."
Bæjarráð vísar tillögunni til afgreiðslu bæjarstjórnar.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu dags. 10. apríl sl. um breytta tilhögun varðandi stjórnun heilbrigðisstofnana skv. nýjum lögum.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá Vinnumálastofnun dags. 8. apríl sl. þar sem staðfest er styrkveiting til atvinnuátaksverkefna, alls 11 störf í 2-4 mánuði, en jafnframt óskað eftir nánari skilgreiningu á umsókn Vestmannaeyjabæjar vegna umhverfisverkefna.
Bæjarráð þakkar stofnuninni fyrir jákvæða afgreiðslu og góðar undirtektir varðandi átaksverkefni.
5. mál.
Fyrir lá bréf frá Alcoa dags. 26. febr. sl. sem svar við ályktun bæjarráðs frá 20. jan. sl.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Kvennahlaupi ÍSÍ dags. 9. apríl sl. þar sem leitað er eftir styrk að upphæð kr. 45.000 vegna ráðningar leiðbeinenda til að stjórna æfingum fyrir kvennahlaupið 21. júní nk.
Bæjarráð vísar erindinu til íþrótta- og æskulýðsráðs.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Guðmundi Þ.B. Ólafssyni, eftirlitsmanni fasteigna, dags. 8. apríl sl. varðandi ástand hússins Áshamar 75.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að leita eftir heimild til Vinnumálastofnunar varðandi átaksverkefni til að hafa eftirlit með byggingunni á meðan núverandi ástand er við lýði.
8. mál.
Fyrir lá bréf frá Oddi Björgvini dags. 9. apríl sl. þar sem óskað er eftir upplýsingum um greidda húsaleigu til Hitaveitu Suðurnesja vegna afnota af Tangagötu 1.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfinu í samræmi við upplýsingalög og umræðu í bæjarráði.
9. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 11. apríl sl. vegna beiðni Vestmannaeyjabæjar um frest til að skila 3ja ára áætlun.
10. mál.
Fyrir lá niðurstaða Samkeppnisráðs dags. 10. apríl sl. vegna erindis Líkamsræktarstöðvarinnar ehf. vegna líkamsræktarsalar Íþróttamiðstöðvar.
Bæjarráð vísar málinu til kynningar og umsagnar í íþrótta- og æskulýðsráði.
Arnar Sigurmundsson óskar að bóka:
"Niðurstaða Samkeppnisstofnunar leiðir í ljós að Vestmannaeyjabær hefur ekki gerst brotlegur við ákvörðun samkeppnisráðs nr. 17/1996 með rekstri líkamsræktarsalar í Íþróttamiðstöðinni á undanförnum árum. Legg áherslu á að málinu verði lokið sem fyrst á vettvangi bæjarstjórnar og skapa þannig meiri sátt um málið innan bæjarstjórnar og við samkeppnisaðila"
11. mál.
Fyrir lá fundargerð 702. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga frá 28. mars sl.
12. mál.
Fyrir lá afrit af bréfi Gunnars Árnasonar til landbúnaðarráðherra dags. 10. apríl sl. um þörf þess að gera gróðurfarsrannsóknir í Eyjum.
Bæjarráð samþykkir að senda erindið til umhverfisnefndar til kynningar.
13. mál.
Fyrir lá afrit af bréfi Inga Sigurðssonar, bæjarstjóra, til Knattspyrnusambands Íslands dags. 15. apríl sl. þar sem fram kemur staðfesting bæjaryfirvalda varðandi keppnisleyfi fyrir Hásteinsvöll.
14. mál.
Fyrir lá tölvupóstur frá Hafrannsóknarstofnun dags. 7. apríl sl. varðandi ástand og kvótasetningu stofna löngu, keilu, kolmunna og skötusels.
15. mál.
Fyrir lá fundargerð landnytjanefndar frá 10. apríl sl.
Bæjarráð samþykkir að leita eftir afbrigðum til þess að fundagerðin verði tekin fyrir á fundi bæjarstjórnar síðar í dag.
16. mál.
Fyrir lá fundargerð skipulags- og byggingarnefndar frá 8. apríl sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 16.40.
Stefán Ó. Jónasson
Lúðvík Bergvinsson
Arnar Sigurmundsson
Ingi Sigurðsson