Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2660
BÆJARRÁÐ
2660. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 3. mars kl. 16.15 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Guðjón Hjörleifsson, Stefán Óskar Jónasson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá svohljóðandi tillaga frá meirihluta bæjarráðs:
“Bæjarráð skorar á sjávarútvegsráðuneytið að auka loðnukvótann á núverandi vertíð til jafns við það magn sem heimilað var að veiða á sl. vertíð. Í ljósi atvinnuástands víða um land er mikilvægt að loðnukvótinn verði aukinn um allt að 250 þús. tonn.”
2. mál.
Bæjarráð þakkar öllum þeim sem tóku þátt í umræðufundi/íbúaþingi um aðalskipulag Vestmannaeyja, sem unnið er að og gilda mun til ársins 2014, sem fram fór í Höllinni sl. laugardag frá kl. 10-16. Þingið þótti takast mjög vel og vera gott innlegg í þá vinnu sem framundan er við að móta lokatillögu að aðalskipulagi Vestmannaeyja.
3. mál.
Fyrir lá bréf Guðmundar Þ.B. Ólafssonar dags. 27. feb. sl. varðandi keppnisleyfi fyrir Hásteinsvöll.
4. mál.
Fyrir lá dagskrá stofnfundar áhugahóps um vegtengingu milli lands og Eyja laugardaginn 8. mars. kl.15.30 í Höllinni.
5. mál.
Fyrir lá afrit af bréfi KSÍ til félaga í efstu deild karla 2003 dags. 21. feb sl. varðandi styrki til uppbyggingar aðstöðu fyrir áhorfendur.
6. mál.
Fyrir lágu umsagnir Hafrannsóknarstofnunar dags. 24. feb sl. varðandi:
a. undanþágu innan þriggja sjómílna landhelgi við Vestmannaeyjar.
b. forsendur aflamarks á löngu, keilu, skötusel og kolmunna.
c. krókaveiðar í hrygningarstoppi við Vestmannaeyjar.
Bæjarráð samþykkir að senda hagsmunaaðilum ofangreindar umsagnir og telur eðlilegt að ræða þessi mál nánar á næsta fundi bæjarstjórnar.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Oddi Björgvin dags. 21. feb. sl., varðandi Áhaldahús bæjarins.
Bæjarráð vísar erindinu til tækni- og umhverfissviðs Vestmannaeyjabæjar.
8. mál.
Fyrir lá svohljóðandi tillaga frá Stefáni Óskari Jónassyni dags. 3. mars sl.:
“Bæjarráð samþykkir að gangast fyrir átaki til kynningar á kostum búsetu hér með það fyrir augum að fjölga íbúum í Vestmannaeyjum. Sérstakt kynningarátak skal gert gagnvart þeim starfsmönnum sem vinna hjá fyrirtækjum í Vestmannaeyjum en hafa sjálfir lögheimili annars staðar.”
Bæjarráð telur tillöguna falla vel að þeirri vinnu sem nú hefur verið sett af stað og hefur starfsmönnum Þróunarfélagsins verið falin ákveðin vinna í þeim tilgangi.
9. mál.
Fyrir lágu upplýsingar frá bæjarstjóra vegna erindis Frosta Gíslasonar frá fundi bæjarráðs þann 17. feb. sl.
Bæjarráð samþykkir allt að fjóra námsstyrki, að upphæð kr. 135.000 pr. styrk, til vinnu á verkefnum sem munu nýtast fyrirtækjum og stofnunum í Vestmannaeyjum.
10. mál.
Fyrir lá svohljóðandi fyrirspurn frá meirihluta bæjarráðs:
“Í ljósi þess að flísar á botni sundlaugarinnar hafa losnað á stóru svæði óskar bæjarráð eftir að könnuð verði ábyrgð verktaka á því tjóni. Tækni- og umhverfissviði bæjarins ásamt lögmanni verði falið að skila inn áliti svo fljótt sem auðið er svo tjón þetta verði sannanlega bætt.”
11. mál.
Fyrir lá svohljóðandi tillaga frá Stefáni Óskari Jónassyni, dags. 3.mars sl.:
“Þar sem fyrirhugað er að koma á laggirnar “Vaktstöð siglinga”, sbr. frumvarp sem liggur fyrir Alþingi lýsir bæjarráð Vestmannaeyja yfir vilja sínum til þess að slík stöð verði sett upp í Vestmannaeyjum. Kostir þess að staðsetja hana í Vestmannaeyjum eru margir m.a. er þar mikil þekking til staðar, nægt húsnæði, auk mikils áhuga heimamanna enda teljum við Vestmannaeyjar vera það umhverfi þar sem slík starfsemi á heima. Það yrði mikill akkur fyrir starfsemina að henni yrði varanlega fyrirkomið í Eyjum. Bæjarráð skorar því á samgönguráðherra að beita sér fyrir því að henni verði komið á fót í Vestmannaeyjum og lýsir vilja sínum til að gera það sem í hennar valdi stendur svo af því geti orðið.”
Bæjarráð samþykkir tillöguna.
12. mál.
Fyrir lá erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga skv. tölvupósti dags. 27. feb sl. varðandi tvær ráðstefnur um málefni sveitarfélaga.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð 4. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Félags íslenskra náttúrufræðinga dags. 21. feb. sl.
14. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 19 feb. sl., varðandi staðgreiðsluuppgjör vegna tekjuársins 2002.
15. mál.
Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 24 feb. sl., varðandi ráðstefnu um Staðardagskrá 21 dagana 14.-15. mars nk.
Bæjarráð vísar málinu til umhverfisnefndar.
16. mál.
Fyrir lá bréf frá Gullrót dags. 17. feb. sl., þar sem þakkað er fyrir fjárstuðning ofl.
17. mál.
Lögð voru fram ýmis gögn vegna fyrirspurna á fundi bæjarstjórnar þann 27. feb. sl.
18. mál.
Fyrir liggur að samgönguhópur samgönguráðherra mun skila ráðherra lokaskýrslu og tillögum um samgöngur milli lands og Eyja fimmtudagsmorguninn 6. mars nk. og halda borgarafund um skýrsluna fimmtudagskvöldið kl. 20.30 í Höllinni.
19. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar dags. 25. feb. sl.
20. mál.
Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar dags. 25. feb. sl.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 17.30.
Andrés Sigmundsson
Stefán Ó. Jónasson
Guðjón Hjörleifsson
Ingi Sigurðsson