Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2656
BÆJARRÁÐ
2656. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 3. febrúar kl. 16.15 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Guðjón Hjörleifsson, Guðrún Erlingsdóttir og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Ingi Sigurðsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá fundargerð frá VISKU, Fræðslu- og símenntunarstöð Vestmannaeyja dags. 6. jan. sl. ásamt undirritaðri skipulagsskrá.
2. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 31. janúar sl. þar sem veittur er frestur til 1. mars nk. til að ljúka gerð fjárhagsáætlunar.
3. mál.
Ákvörðun um næstu fundi bæjarstjórnar.
Bæjarráð samþykkir að næstu fundir bæjarstjórnar verði fimmtudagana 20. feb., 27. feb., 20. mars og þriðjudaginn 29. apríl nk. kl.18.00.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá Þorkeli Húnbogasyni, f.h. Gistiheimilisins Heimis, dags. 27. jan sl. varðandi fyrirhugaða Jónsmessugleði í júní nk.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara og hátíðarhaldara.
5. mál.
Fyrir lá bréf frá Taflfélagi Vestmannaeyja dags. 30. jan sl. varðandi húsnæðismál félagsins.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.
6. mál.
Fyrir lágu drög að svari til félagsmálaráðuneytisins varðandi bréf ráðuneytisins dags. 2. jan. sl.
Bæjarstjóra falið að fullgera bréfið og senda til ráðuneytisins.
Guðrún Erlingsdóttir óskar eftir að bóka:
“Óska eftir að fá bréfið til yfirlestrar áður en það verður sent ráðuneytinu og áskil mér rétt til að gera athugasemdir. Samkvæmt umræðu í bæjarráði munu Guðjón Hjörleifsson og Andrés Sigmundsson ekki heimila það að bréfið verði sent bæjaráðsmönnum til yfirlestrar áður en það fer sem endanlegt svar til ráðuneytisins. Bæjarfulltrúar Vestmannaeyjalistans líta svo á að svar bæjarstjóra sé því svar meirihlutans og áskilja bæjarfulltrúar Vestmanneyjalistans sér rétt til þess að senda ráðuneytinu leiðréttingar á þeim atriðum sem máli skipta.”
Guðjón Hjörleifsson og Andrés Sigmundsson óska eftir að bóka:
“Bæjarráð fól bæjarstjóra að svara félagsmálaráðuneytinu svör í samráði við bæjarráðsmenn. Drög að svörum voru send til bæjarráðsmanna, kynnt í bæjarráði.
Bæjarstjóri mun fullgera svarið í kvöld og afhenda það félagsmálaráðuneytinu í fyrramálið. Bæjarráðsmönnum verður sent bréfið fullgert og við viljum benda Guðrúnu Erlingsdóttir á að skv. bæjarmálasamþykkt eiga bæjarfulltrúar rétt á að fá afrit af öllum bréfum og því er bókun Guðrúnar ósmekkleg og úr lausu lofti gripin.”
Guðrún Erlingsdóttir óskar eftir að bóka:
“Í ljósi þess að svörin skyldu unnin í samráði við bæjarráð lýsi ég furðu minni á vinnubrögðum og bókun meirihlutans.”
7. mál.
Fyrir lá skýrsla stjórnar Lúðrasveitar Vestmannaeyja fyrir starfsárið 2002.
8. mál.
Samningamál
9. mál.
Fyrir lá fundargerð 185. fundar Launanefndar sveitarfélaga dags. 22. jan sl.
10. mál.
Fyrir lá bréf frá stjórn Þróunarfélags Vestmannaeyja dags. 3. feb. varðandi kaup á tækjum fyrir fiskréttaverksmiðju félagsins.
Guðrún Erlingsdóttir óskaði eftir fundarhléi og var það veitt.
Bæjarráð frestar erindinu.
11. mál.
Fyrirliggjandi var tillaga frá bæjarfulltrúum V-listans:
“Í ljósi þess alvarlega atvinnuástands og trúnaðarbrests sem ríkir milli Þróunarfélags Vestmannaeyja og bæjarstjórnar Vestmannaeyja samþykkir bæjarráð að skipa starfshóp sem hafi það verkefni að leita leiða til þess að gera félagið starfhæft á ný. Hópinn skipi einn tilnefndur af meirihluta bæjarstjórnar, einn tilnefndur frá minnihluta bæjarstjórnar og einn aðili sem bæjarstjórn kemur sér saman um. Framkvæmdastjóri félagsins vinni með hópnum.”
Tillögunni er vísað frá með eftirfarandi bókun:
“Það kemur bæjarfulltrúum meirihlutans á óvart að fulltrúi V-listans vilji endurvekja Þróunarfélagið, þegar fulltrúar V-listans hafa unnið markvisst að því í nokkra mánuði að rífa niður og lama starfsemi félagsins, á sama tíma og atvinnuleysi hefur því miður aukist í Vestmannaeyjum.”
Andrés Sigmundsson óskar eftir að bóka:
“Ég vil enn á ný vekja athygli á að fulltrúi Framsóknarflokksins kom ekki að stjórn Þróunarfélagsins fyrr en eftir síðustu kosningar. Í erfiðri stöðu félagsins skýt ég mér ekki undan ábyrgð að taka á vanda þess. Það vekur undrun mína og furðu er bæjarfulltrúar V-listans vilja nú gera kostnaðarsamar lífgunartilraunir á Þróunarfélagi Vestmannaeyja. Nóg er að komið. Félagsmálaráðuneytið hefur hafið rannsókn á málefnum félagsins og vonandi fæst botn í þá rannsókn hið fyrsta. Það er mitt álit að hvorki Þróunarfélagið né deilurnar um það hafi skilað bæjarbúum ávinningi.
Ég vek athygli á að mikið og óunnið verk er framundan í málefnum Vestmannaeyinga. Mikilvægt er að bæjarfulltrúar hvar í flokki sem þeir standa finni kröftum sínum og tíma annan og betri farveg en í deilur um ÞV.”
Guðrún Erlingsdóttir óskar eftir að bóka:
“Tillaga mín var flutt í þeim eina tilgangi að reyna að ná sátt um starfsemi og framtíð Þróunarfélagsins slík sátt kostar ekki mikla fjármuni. Í ljósi þess að félagsmálaráðuneytið hefur nú til umfjöllunar málefni félagsins og þar með fortíðina, þykir mér rétt að líta til framtíðar og snúa okkur að þeim málefnum sem brenna heitast á bæjarbúum um þessar mundir en það er glíman við atvinnuleysisdrauginn.”
12. mál.
Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar dags. 28. jan sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
13. mál.
Fyrir lá fundargerð umhverfisnefndar dags. 28. jan sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 18.50.
Guðjón Hjörleifsson
Guðrún Erlingsdóttir
Andrés Sigmundsson
Ingi Sigurðsson