Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2654
BÆJARRÁÐ
2654. fundur.
Ár 2003, mánudaginn 20. janúar kl. 15.30 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Guðjón Hjörleifsson, Lúðvík Bergvinsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá tillaga frá fulltrúum meirihluta bæjarstjórnar um skipun starfshóps sem verði falið að undirbúa verkefnið "Fegrun bæjarins."
"Bæjarráð samþykkir að starfshópur skipaður formönnum skipulags- og byggingarnefndar, umhverfisnefndar og hafnarstjórnar verði falið að undirbúa verkefni “Fegrun bæjarins”. Tillögur verði tilbúnar fyrir 15. febrúar og er ætlað að taka á hreinsun svæða, fegrun húsa ofl. Höfð verði samvinna við fyrirtæki, stofnanir og fólk í bænum um að taka til og fegra í sínu umhverfi. "
Bæjarráð samþykkir tillöguna.
2. mál.
Í framhaldi af 2. máli 2.652. fundar lá fyrir umsögn Farsæls, félags smábátaeigenda dags. 16. jan. sl., Sjómannafélagsins Jötuns dags. 14. jan. sl. og Útvegsbændafélags Vestmannaeyja dags. 17. jan. sl.
Bæjarráð samþykkir að óska eftir áliti Hafrannsóknarstofnunar.
3. mál.
Fyrir lá bréf frá Farsæl, félagi smábátaeigenda, dags. 16. jan. sl. þar sem kynnt er ályktun frá fundi 16. jan. um að krókaveiðar verði leyfðar í hrygningarstoppi við Vestmannaeyjar, minnkun á bannsvæði við raflínu og vatnsleiðslu, línuívilnun o.fl.
Bæjarráð samþykkir að óska eftir áliti Hafrannsóknarstofnunar. Jafnframt óskar bæjarráð eftir umsögn Rarik og Hitaveitu Suðurnesja varðandi minnkun á bannsvæði við raflínu og vatnsleiðslu.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá Alcoa dags. 10. jan. sl. þar sem gerð er grein fyrir byggingu álvers á Reyðarfirði og sjónarmið fyrirtækisins kynnt.
Bæjarráð lýsir yfir ánægju með fyrirhugaða atvinnuuppbyggingu sem hafin er á Austurlandi.
5. mál.
Fyrir lá bréf frá Sigtryggi Helgasyni, f.h. Blátinds VE 21 áhugamannafélags, dags. 12. jan. sl. þar sem leitað er eftir stuðningi að upphæð kr. 500.000 vegna kaupa á vél í Blátind.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við formenn hafnarstjórnar og menningarmálanefndar um málið.
6. mál.
Fyrir lá bréf frá Kjartani Ólafssyni Vídó dags. 14. jan. sl. þar sem leitað er eftir styrk vegna útgáfu á kynningablaði um Vestmannaeyjar.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að afla frekari upplýsinga.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá Sigurmundi G. Einarssyni dags. 13. jan. sl. þar sem mótmælt er höfnun skipulags- og byggingarnefndar á erindi um sérstök svæði til geymslu á stórum bifreiðum og óskað eftir viðræðum um málið.
Bæjarráð felur formanni bæjarráðs og skipulags- og bygginganefndar ásamt bæjarstjóra að ræða við bréfritara og leggja fram tillögu á næsta fundi bæjarráðs.
8. mál.
Fyrir lá bréf frá sjávarútvegsráðuneytinu dags. 16. jan. sl. þar sem gerð er grein fyrir ákvörðun ráðuneytisins um kvótasetningu á löngu, keilu, skötusel og kolmunna.
Bæjarráð óskar eftir upplýsingum frá Hafrannsóknarstofnun um forsendur tillagna stofnunarinnar.
9. mál.
Fyrir lá bréf frá félagsmálaráðuneytinu dags. 13. jan. sl. þar sem með fylgja afrit af 6 bréfum frá Oddi Júlíussyni vegna málefna Þróunarfélags Vestmannaeyja.
Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:
"Ég vil vekja athygli á því að skv. gögnum frá félagsmálaráðuneytinu eru 3 af 6 bréfum Odds Björgvins Júlíussonar til Félagsmálaráðuneytisins vegna Þróunarfélags Vestmannaeyja, þ.e. frá frá 17, sept, , 24. sept. og 31. október sl. send í faxi til Félagsmálaráðuneytisins frá skrifstofu Sjómannafélagsins Jötuns í Vestmannaeyjum, en þar veitir forstöðu Elías Björnsson faðir Björns Elíassonar sem er fulltrúi V-listans í stjórn Þróunarélags Vestmannaeyja.
Ég vona að hér sé um einskæra tilviljun að ræða og bréf Odds séu tilkomin vegna frumkvæðis hans, en ekki þrýstings frá öðrum aðilum."
Lúðvík Bergvinsson óskar að bóka
"Í bókun Guðjóns Hjörleifssonar er gefið í skyn að annað en réttlætiskennd Odds Björgvins Júlíussonar hafi ráðið för, þegar hann ritaði og sendi félagsmálaráðuneyti bréf sín með athugsemum við afgreiðslur meirihluta bæjarstjórnar og stjórnar þróunarfélags Vestmannaeyja vegna málefna þess síðarnefnda, án þess að hann treysti sér til að segja það berum orðum. Ekkert er fjallað um ætterni annarra starfsmanna eða stjórnarmanna Sjómannafélagsins Jötuns en formanns félagsins sem hefði mátt telja eðlilegt í ljósi mikils ættfræðiáhuga sem birtist í bókuninni. Engar formlegar upplýsingar hafa verið lagðar fyrir bæjarráð Vestmannaeyja um það hvernig erindi Odds bárust ráðuneytinu að öðru leyti. Flestir þekkja þann mikla áhuga sem Oddur hefur sýnt bæjarmálum í Vestmannaeyjum í gegnum tíðina og því lýsi ég mikilli vanþóknun á dylgjum bæjarfulltrúans í hans garð, sem augljóslega birtast í bókun Guðjóns Hjörleifssonar."
Guðjón Hjörleifson óskar bókað:
"Það er búið að taka Lúðvík Bergvinsson, bæjarfulltrúa V-listans tæpar 20 mínútur að semja þessa bókun og ef taka ætti mið af því, þá er ljóst að mikill vandræðagangur er hjá honum að krafsa sig út úr þessu máli.
Ég er ekki með neinar dylgjur, heldur vil ég vekja athygli á því hvaðan bréfin eru föxuð, enda stendur í bókun minni:
"Ég vona að hér sé um einskæra tilviljun að ræða og bréf Odds séu tilkomin vegna frumkvæðis hans en ekki vegna þrýstings frá öðum aðilum."
Mér finnst ósmekklegt að Lúðvík sé að draga fjölda saklausra mana inn í þessa umræðu, en það er ekert nýtt samanber umræðu og bókanir fulltrúa V-listans í málefnum Þróunarfélags Vestmannaeyja."
Lúðvík Bergvinsson óskar að bóka.
"Hinum órökstuddu dylgjum bæjarfulltrúans Guðjón Hjörleifssonar er vísað á bug enda ekki svara verðar. Því er fyrri bókun ítrekuð. Jafnframt harma ég að Guðjón Hjörleifsson skuli fara með fundi bæjarráðs Vestmannaeyja niður á svo lágt plan, sem bókanir hans bera vitni."
Guðjón Hjörleifsson óskar bókað:
"Viðbrögð Lúvíks í þessu máli segja allt sem segja þarf, þar sem bókun mín er einungis gerð til þess að vekja athygli á erindum Odds Júlíussonar til Félagsmálaráðuneytisins og hvernig þau berast ráðuneytinu.
Að öðru leyti vísa ég til fyrri bókana minna í þessu máli."
10. mál.
Fyrir lá erindi frá Júdósambandi Íslands þar sem leitað er eftir styrk vegna útgáfu rits vegna 30 ára afmælis sambandsins.
Bæjarráð getur ekki orðið við erindinu.
11. mál.
Samningamál.
12. mál.
Fyrir lá bréf frá Ólafi Ólafssyni, bæjartæknifræðingi, dags. 20. jan. vegna athugasemda Steina og Olla ehf. sbr. 8. mál frá 2653. fundi bæjarráðs.
13. mál.
Fyrir lá bréf frá Kristjáni Bjarnasyni, f.h. áhugahóps um bættar samgöngur milli lands og Eyja, dags. 20. jan. þar sem óskað er eftir því að gerð verði úttekt á félagslegum og efnahagslegum áhrifum samgöngubóta.
Bæjarráð er hlynnt erindinu og felur bæjarstjóra að senda Byggðastofnun bréf varðandi styrk til verkefnisins.
14. mál.
Fyrir lá fundargerð húsnæðisnefndar frá 14. jan. sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
15. mál.
Fyrir lá fundargerð félagsmálaráðs frá 15. jan. sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
16. mál.
Fyrir lágu fundargerðir landnytjanefndar frá 16. jan. og 17. jan. sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðirnar.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 17.30.
Andrés Sigmundsson
Lúðvík Bergvinsson
Ingi Sigurðsson
Guðjón Hjörleifsson