Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2652
BÆJARRÁÐ
2652. fundur.
Ár 2003, þriðjudaginn 7. janúar kl. 16.15 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.
Mættir voru: Andrés Sigmundsson, Guðjón Hjörleifsson, Lúðvík Bergvinsson og Ingi Sigurðsson, bæjarstjóri.
Fundargerð ritaði Páll Einarsson.
Fyrir var tekið:
1. mál.
Fyrir lá undirritaður samningur milli Vestmannaeyjabæjar og umhverfisráðuneytis um rekstur Náttúrustofu Suðurlands.
Bæjarráð samþykkir samninginn fyrir sitt leyti.
2. mál.
Fyrir lá bréf frá Brimhól ehf. dags. 19. des. sl. þar sem lagt er til að nokkur hafsvæði verði opnuð aftur fyrir minni tog- og dragnótarbátum.
Bæjarráð samþykkir að leita eftir umsögn og afstöðu hagsmunafélaga í Vestmannaeyjum til erindisins.
3. mál.
Fyrir lá ársskýrsla Slökkviliðs Vestmannaeyja fyrir árið 2002.
4. mál.
Fyrir lá bréf frá Brimhól ehf. dags. 20. des. sl. þar sem fram kemur að útgerð Maríu Pétursdóttur VE-14 sjái sér ekki lengur fært að standa við tilboð í aflaheimildir mb. Adólfs Sigurjónssonar VE-182.
5. mál.
Fyrir lá ályktun Skipstjóra- og stýrimannafélagsins Verðanda frá 27. des. sl. þar sem harðlega er mótmælt kvótasetningu keilu, löngu, skötusels og kolmunna.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að framsenda erindið til sjávarútvegsráðherra og jafnframt að óska eftir afstöðu ráðherra til erindisins og hvernig hann hyggist bregðast við því.
6. mál.
Fyrir lá fundargerð 14. fundar Launanefndar sveitarfélaga og Samflots sex bæjarstarfsmannafélaga frá 11. des. sl.
7. mál.
Fyrir lá bréf frá samgönguráðuneytinu dags. 18. des. sl. þar sem kynnt er skýrsla um vaxtar- og markaðssvæði íslenskrar ferðaþjónustu og nefnist skýrslan "Auðlindin Ísland."
8. mál.
Fyrir lá ársskýrsla meindýraeyðis fyrir árið 2002.
9. mál.
Í framhaldi af bréfaskrifum Odds Júlíussonar frá 17. sept., 24. sept., 7. okt., 31. okt. og 5. des. sl. til félagsmálaráðuneytisins lá fyrir bréf frá ráðuneytinu dags. 2. jan. sl. þar sem óskað er eftir ýmsum upplýsingum frá bæjarstjórn varðandi Þróunarfélag Vestmannaeyja.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að svara bréfritara í samráði við bæjarráðsmenn. Bæjarráð óskar jafnframt eftir afriti af bréfum Odds Júlíussonar til félagsmálaráðuneytisins.
Svohljóðandi bókun barst frá Lúðvík Bergvinssyni:
"Lýsi yfir ánægju minni með að ráðuneyti sveitarstjórnarmála skuli nú hefja formlega rannsókn á málefnum Þróunarfélags Vestmannaeyja."
Svohljóðandi bókun barst frá Guðjóni Hjörleifssyni:
"Ástæða fyrir bréfi félagsmálaráðuneytisins er vegna 5 bréfa Odds Júlíussonar til ráðuneytisins, sem skylt er að afla upplýsinga í samræmi við upplýsingalög."
Svohljóðandi bókun barst frá Lúðvík Bergvinssyni:
Í bréfi ráðuneytisins segir m.a. "Við yfirferð ársreiknings kom í ljós að miklir hnökrar voru á bókhaldi félagsins og skráningu fundargerða." Með bréfum sínum til stjórnar Þróunarfélagsins annarsvegar og bæjarstjórnar hins vegar er ljóst að ráðuneytið hefur ákveðið í framhaldi af erindum Odds Júlíussonar og almennri umfjöllun um málefni félagsins í bæjarstjórn, bæjarráði og fjölmiðlum að taka málið til rannsóknar í samræmi við hlutverk sitt sem ráðuneyti sveitarstjórnarmála."
10. mál.
Fyrir lá bréf frá framleiðslufyrirtækinu Stormi dags. 6. jan. sl. þar sem leitað er eftir styrk að upphæð kr. 300.000 vegna gerðar heimildarþáttaraðar um eldgosið 1973.
Bæjarráð felur bæjarstjóra að ræða við bréfritara.
11. mál.
Fyrir lá fundargerð íþrótta- og æskulýðsráðs frá 3. janúar sl.
Bæjarráð samþykkir fundargerðina.
Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 17.45.
Lúðvík Bergvinsson
Andrés Sigmundsson
Guðjón Hjörleifsson
Ingi Sigurðsson