Bæjarráð Vestmannaeyja nr. 2675

16.06.2003

BÆJARRÁÐ

2675. fundur.

Ár 2003, mánudaginn 16. júní kl. 17.45 var fundur haldinn í bæjarráði Vestmannaeyja í Ráðhúsinu.

Mættir voru: Guðrún Erlingsdóttir, Stefán Jónasson, Selma Ragnarsdóttir og Ingi Sigurðsson bæjarstjóri.

Fundargerð ritaði Páll Einarsson.

Fyrir var tekið:

1. mál.

Rætt um árshlutareikning bæjarsjóðs og stofnana hans sem lagður var fyrir í bæjarráði 10. júní sl.

Svohljóðandi bókun barst frá Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Ó. Jónassyni:

"Við skoðun á þriggja mánaða uppgjöri kemur í ljós að heildarskuldir og skuldbindingar samstæðu eru kr. 4.436. mkr. eða sem samsvarar 1.005.000 kr á hvern bæjarbúa. Einnig kemur í ljós að tekjur hjá bæjarsjóði á dag sl. þrjá mánuði eru 3,3 mkr og gjöld 3,8 mkr. Bæjarsjóður er því rekinn með 500.000 kr. halla á hverjum degi. Slíkur viðskilnaður er óskaplega dapur hjá Sjálfstæðisflokknum í Vestmannaeyjum eftir tæplega 13 ára valdasetu. Nýr meirihluti mun leggja metnað sinn í að snúa dæminu við. Það mun taka einhvern tíma en bæjarfulltrúar hins nýja meirihluta eru þess fullviss að hægt sé að koma rekstri bæjarins í betra horf. "

Svohljóðandi bókun barst frá Selmu Ragnarsdóttur:

" Fagna því að 3ja mánaða niðurstöður milliuppgjörs Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans liggi nú fyrir. Er uppgjörið í góðu samræmi við fjárhagsáætlun ársins að teknu tilliti til afskrifta og lífeyrisskuldbindinga."

Svohljóðandi bókun barst frá Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Ó. Jónassyni:

" Teljum að 500 þús. kr. halli á hverjum degi í rekstri bæjarsjóðs fyrstu þrjá mánuði ársins beri ekki vott um góða fjármálastjórn og áætlanagerð hjá sjálfstæðismönnum. Vísum að öðru leyti til fyrri bókunar okkar."

2. mál.

Fyrir lágu frekari upplýsingar frá bæjarstjóra varðandi 5. mál frá fundi þann 10. júní sl. er varðar gatnagerðargjöld á Ofanbyggjara.

Bæjarráð frestar málinu þar sem ekki liggja fyrir svör frá Guðjóni Hjörleifssyni, fyrrv. bæjarstjóra. Bæjarráð ítrekar að þau svör liggi fyrir á næsta fundi bæjarráðs.

Svohljóðandi bókun barst frá Selmu Ragnarsdóttur:

" Öll gögn liggja nú þegar fyrir í málinu og bæjaryfirvöldum því ekkert að vanbúnaði að gæta hagsmuna Vestmannaeyjabæjar."

Svohljóðandi bókun barst frá Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Ó. Jónassyni:

" Ítrekum það að svör Guðjóns Hjörleifssonar, fyrrverandi bæjarstjóra liggja ekki fyrir og er það nú í hans höndum hvenær Vestmannaeyjabær fær tækifæri til þess að gæta hagsmuna bæjarins. Ítrekum við því enn og aftur að skrifleg svör liggi fyrir í síðasta lagi 23. júní n.k."

3. mál.

Atvinnumál.

Fyrir lá afrit af bréfi Vestmannaeyjabæjar dags. 13. júní sl., til ýmissa aðila í tengslum við beiðni um viðræður um stofnun frumkvöðlaseturs í Vestmannaeyjum.

Fyrir lá bréf Egils Arngrímssonar dags. 13. júní sl., varðandi hugmyndir bréfritara um Nýsköpunarmiðstöð í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð felur bæjarstjóra framgang málsins og þakkar bréfritara fyrir framkomnar hugmyndir. Bæjarstjóra er falið að upplýsa bréfritara um leið og viðbrögð koma frá þeim aðilum sem leitast hefur verið eftir samstarfi við í tengslum við stofnun frumkvöðlaseturs.

4. mál

Málefni Sorpu og sorphirðu rædd.

Meirihluti bæjarráðs samþykkir að segja upp núgildandi samningum við Gámaþjónustuna um rekstur Sorpu og sorphirðu, þar sem frestur til að segja upp samningunum er til 1. júlí nk. Jafnframt er bæjarstjóra og eftirlitsmanni Sorpu falið að leggja fram tillögur um framtíðarskipan sorpmála fyrir 1. september nk.

Svohljóðandi tillaga barst frá Selmu Ragnarsdóttur:

"Bæjarráð samþykkir að freista þess að ljúka gerð nýs samnings við núverandi rekstraraðila sorpeyðingarstöðvar og sorphirðu í Vestmannaeyjum fyrir næstu mánaðarmót þannig að nýr samningur taki gildi þegar að núverandi rekstrarsamningur rennur út."

Meirihluti bæjarráðs vísar tillögunni frá þar sem fyrir liggur að framkvæma þarf endurskoðun á fyrirkomulagi sorphirðu og sorpeyðingar í Vestmannaeyjum og því nauðsynlegt að allir samningar séu lausir.

5. mál.

Fyrir lá úrskurður Áfrýjunarnefndar samkeppnismála dags. 12. júní sl., í máli Líkamsræktarstöðvarinnar ehf. gegn Samkeppnisráði.

6. mál.

Fyrir lá bréf Vegagerðarinnar dags. 10. júní sl., varðandi afgreiðslu á umsókn um framlag til endurbóta á vegi í Herjólfsdal upp á 2 m.kr.

Bæjarráð felur bæjartæknifræðingi að gera kostnaðaráætlun varðandi veginn kringum Daltjörnina í samræmi við núgildandi deiliskipulag.

7. mál

Fyrir lá bréf frá Úrvinnslusjóði dags. 10. júní sl., varðandi skilagjald á ökutækjum ásamt fylgiskjölum.

Bæjarráð felur þeim aðilum sem unnu svar til sjóðsins að yfirfara erindið.

8. mál

Fyrir lá bréf frá Heru Ósk Einarsdóttur félagsmálastjóra dags. 15. júní sl., varðandi aukafjárveitingu vegna bilunar á frystivél við frystiklefann í eldhúsi Hraunbúða.

Bæjarráð samþykkir kr. 320.000 í viðgerð á frystivél í frystiklefa og að gert verði ráð fyrir fjárveitingunni í endurskoðaðri fjárhagsáætlun.

9. mál

Svohljóðandi tillaga barst frá Arnari Sigurmundssyni:

“Bæjarráð samþykkir að fela tækni- og umhverfissviði Vestmannaeyjabæjar að gera áætlun um kostnað við að koma upp göngustíg og göngubrú í Neðri-Kleifum er taki land í sandfjörunni "Undir Löngu" sunnan Heimakletts. Bæjarráð óskar eftir að kostnaðaráætlun liggi fyrir eigi síðar en 30. september nk. Komi til framkvæmda verði verkið unnið í nánu samstarfi við hafnarstjórn Vestmannaeyja, enda staðsetning mannvirkja á athafnasvæði hafnarinnar.”

Greinargerð:

Það hefur lengi verið draumur margra Eyjamanna að koma á tengingu milli uppfyllingar norðan Friðarhafnar og svæðisins "Undir Löngu". Á fyrri hluta síðustu aldar var göngubrú í berginu í Neðri-Kleifum er tók land í fjörunni Undir Löngu. Þá eiga margir Eyjamenn góðar minningar um ferðir “Undir Löngu” á smábátum yfir sumartímann. Þetta svæði var dæmigert útivistarsvæði einkum barna og unglinga á góðviðrisdögum. Menningartengd ferðaþjónusta verður sífellt umfangsmeiri og falla nýjar hugmyndir menningarmálanefndar um staðsetningu v/b Blátinds VE á bóli á svæðinu mjög vel að þessari tillögu.

Gangi þessi tillaga eftir er nauðsynlegt að góð samvinna takist á milli allra þeirra aðila sem koma að málinu með einum eða öðrum hætti.

Tillagan var ekki tæk til afgreiðslu þar sem flutningsmaður sat ekki fundinn.

Svohljóðandi bókun barst frá Selmu Ragnarsdóttur:

" Tillagan kemur frá Arnari Sigurmundssyni, aðalmanni í bæjarráði, og var komin inn fyrir tiltekinn tíma, en hann forfallaðist á síðustu stundu vegna veðurs. Í ljósi þessa tel ég að tími sé kominn til að fá botn í tillögurétt aðal- og varamanna í bæjarráði og bæjarstjórn."

Svohljóðandi bókun barst frá Guðrúnu Erlingsdóttur og Stefáni Ó. Jónassyni:

"Hörmum endalausan klaufaskap sjálfstæðismanna við tillöguflutning í bæjarráði og vonumst eftir því að þeir vandi betur vinnubrögð sín."

10. mál

Fyrir lá afrit af bréfi Náttúrustofu Suðurlands dags. 10. júní sl., varðandi umsögn um fyrirliggjandi drög að náttúruverndaráætlun.

11. mál

Fyrir lá bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga dags. 10. júní sl., varðandi greiðslur vegna Launanefndar sveitarfélaga 2003.

12. mál.

Fyrir lá bréf frá sýslumanninum í Vestmannaeyjum dags. 3. og 10. júní sl., þar sem leitað er umsagnar um eftirtaldar umsóknir:

a) ÍBV-íþróttafélag vegna ýmissa leyfa vegna Þjóðhátíðar.

b) María Tegeder vegna rekstrarleyfis fyrir Gistiheimilið María, Brekastíg 37.

Bæjarráð samþykkir erindin fyrir sitt leyti að því tilskyldu að aðrir aðilar, sem um slík erindi eiga að fjalla, samþykki þau einnig.

13. mál.

Fyrir lá fundargerð menningarmálanefndar frá 11. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

14. mál.

Fyrir lá fundargerð skólamálaráðs frá 12. júní sl.

Bæjarráð samþykkir fundargerðina.

15. mál.

Fyrir lá fundargerð hafnarstjórnar frá 12. júní sl.

16. mál.

Fyrir lá fundargerð skipulags- og bygginganefndar frá 10. júní sl.

Fleira ekki bókað. Fundi slitið kl. 20.40.

Guðrún Erlingsdóttir

Selma Ragnarsdóttir

Stefán Ó. Jónasson

Ingi Sigurðsson 


Jafnlaunavottun Learncove