Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3159

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
01.09.2021 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Arnar Pétursson, stjórnarformaður og Hörður Orri Grettisson, framkvæmdastjóri Herjólfs ohf. mættu á fund bæjarráðs undir 2. dagskrárlið.

Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri vék af fundir undir dagskrárlið 14.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202108158 - Fjárhagsáætlun 2022
Lögð voru fram drög að tímasetningum og verklagi í tengslum við undirbúning og gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022. Bæjarráð ræddi drögin og forsendur fjárhagsáætlunar, þ.m.t. tímasetningu undirbúnings og vinnulags vegna gerðar fjárhagsáætlunar fyrir næsta ár.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir tímalínuna og vinnuferlið og felur bæjarstjóra, framkvæmdastjórum sviða og fjármálastjóra að halda áfram undirbúningsvinnu við gerð fjárhagsáætlunarinnar og upplýsa bæjarráð reglulega um gang mála.
Verklag og tímalína við gerð fjárhagsáætlunar 2022.pdf
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarráð ræddi ákvörðun Icelandair um að hætta öllu áætlunarflugi til og frá Vestmannaeyjum, í gær 31. ágúst. Ákvörðunin er vissulega mikil vonbrigði fyrir Vestmannaeyinga, en eftirspurn eftir flugi milli lands og Eyja var undir þeim væntingum sem Icelandair hafði gert ráð fyrir. Það er að mati flugfélagsins fjárhagslega ómögulegt að halda úti áætlunarflugi til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum. Bæjarstjóri fundaði með Vegagerðinni vegna flugsins þegar það stefndi í að hætta ætti flugi í lok september. Eftir að félagið gaf út að þeir myndu hætta mánuði fyrr hefur bæjarstjóri og formaður bæjarráðs fundað með samgönguráðherra og óskað eftir fundi með Vegagerðinni vegna málsins þar sem samgöngur til Vestmannaeyja eru á ábyrgð ríkisins.

Framkvæmdastjóri og stjórnarformaður Herjólfs komu á fund bæjarráðs og fóru yfir fjárhagslega stöðu félagsins, farþegatölur og áætlun.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir vonbrigðum með að Icelandair hætti áætlunarflugi til Vestmannaeyja mánuði fyrr en áætlað var. Ef fullreynt er að fljúga á markaðslegum forsendum til Vestmannaeyja þarf að bregðast við því og því þarf að fá svör um framhaldið sem allra fyrst. Flugsamgöngur eru bæjarbúum og atvinnulífi afar mikilvægar, m.a. til að sækja heilbrigðisþjónustu sem illu heilli hefur verið skert verulega í samfélaginu og til atvinnu og því mikilvægt byggðamál, ekki síst á veturna þegar færð á vegum er slæm og siglingar erfiðari.

Bæjarráð þakkar framkvæmdastjóra og stjórnarformanni Herjólfs ohf. fyrir upplýsingarnar.
3. 202103172 - Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja
Bæjarstjóri gerði grein fyrir fundum með samgönguráðherra og fulltrúum ráðuneytisins og forstjóra HS veitna og fulltrúum fyrirtækisins. Farið var yfir stöðuna og mikilvægi þess að flýta lagningu nýrrar vatnsleiðslu.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra áframhaldandi framgöngu málsins ásamt framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.
4. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Bæjarráð fjallaði um þá stöðu sem komin er upp við brjóstaskimanir í Vestmannaeyjum. Þegar Krabbameinsfélagið annaðist brjóstaskimanir fóru slíkra skimanir fram í Vestmannaeyjum með reglulegu millibili. Eftir að Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana tók við keflinu var ákveðið að hætta brjóstaskimunum í Vestmannaeyjum í haust og allan vetur. Þess í stað eru allar konur boðaðar í brjóstaskimun upp á land, með tilheyrandi raski og óhagræði fyrir konur í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir miklum vonbrigðum með þá ákvörðun Samhæfingarmiðstöðvar krabbameinsskimana að hætta brjóstaskimunum í Vestmannaeyjum og boða þess í stað allar konur á fastalandið. Ljóst er að töluvert meiri kostnaður og óhagræði fylgir því að konur í Vestmannaeyjum þurfi að sækja skimun alla þessa leið og er síður en svo hvetjandi fyrir konur að fara í skimanir.

Bæjarráð skorar á heilbrigðisráðherra að verja heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni. Það hefur varla verið tilgangur ráðherra að skerða þjónustu á landsbyggðinni með ákvörðun um að fela Samhæfingarmiðstöðinni umrædda þjónustu.
5. 201909001 - Atvinnumál
Bæjarstjóri greindi frá stöðu vinnu við gerð atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar. Evganía Kristín Mikaelsdóttir mun hefja störf í Þekkingarsetri Vestmannaeyja í september. Hún hefur hins vegar nýtt sumarið í vinnu við undirbúning atvinnustefnu Vestmannaeyja og kynnt þá vinnu fyrir starfshópi um gerð atvinnustefnunnar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og hvetur fulltrúar fyrirtækja og íbúa til að taka þátt í könnunni og vinnunni við stefnuna.
6. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri fór yfir drög að minnisblaði frá ÍBV um fjárhagsstöðu félagsins vegna áhrifa Covid á tekjur þess. Ljóst er að sú ákvörðun að aflýsa Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum tvö ár í röð hefur haft mikil áhrif á fjárhagsstöðu félagsins og sérstaklega rekstur barna- og unglingastarfs. Fulltrúar ÍBV íþróttafélags og bæjarstjóri hafa fundað með menntamálaráðherra, sveitarstjórnarráðherra og fjármálaráðherra og kynnt þá alvarlegu stöðu sem upp er komin hjá félaginu vegna þeirra takmarkanna sem ríkisstjórnin setti og urðu til þess að ekki var hægt að halda þjóðhátíð.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og tekur undir þær áhyggjur sem ÍBV hefur af þeirri stöðu sem upp er komin hjá félaginu. Bæjarráð felur bæjarstjóra að fylgjast með gangi viðræðna milli félagsins og stjórnvalda.
7. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Bæjarstjóri upplýsti um sölu húsnæðis í eigu Vestmannaeyjabæjar. Annars vegar gamla slökkvistöðin við Heiðarveg 12 og hins vegar 2. hæðin að Strandvegi 30 þar sem meðeigendur í húsinu nýttu forkaupsrétt sinn skv. samningi þar um. Við þau viðskipti eignaðist Vestmannaeyjabær góða geymslu við Tangagötu, sem nýtt verður sem geymsluhúsnæði fyrst um sinn.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi kauptilboð í Heiðarveg 12 og 2. hæð Strandvegar 30.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð samþykkir sölu fasteignanna sem samræmist vel tillögu bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins við síðustu fjárhagsáætlanagerð um að farið yrði í heildarendurskoðun á húsnæðisþörf sveitarfélagsins með það að markmiði að selja, leigja eða rífa fasteignir og draga þar með úr íþyngjandi og vaxandi rekstrarkostnaði fasteigna.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Gögn vegna sölu á 2. hæð að Strandvegi 30.pdf
Kauptilboð í gömlu slökkvistöðina.pdf
8. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við ríkið um greiðslu húsaleigu fyrir Hraunbúðir. Heilbrigðisráðuneytið ákvað nýlega að forstjóri og yfirstjórn HSU annist þær samningaviðræður við Vestmannaeyjabæ og hefur einn fundur verið haldinn milli aðila.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
9. 202004102 - Mannauðs/starfsmannamál
Fyrir bæjarráði lá beiðni yfirmanns tölvudeildar um ráðningu kerfisfræðings í ótímabundið fullt starf. Ákveðið var fyrir ári síðan að ráða kerfisfræðing tímabundið þar sem álag á tölvudeildina hafði þyngst á undanförnum árum. Ljóst er að það álag er komið til að vera og sífellt meiri kröfur gerðar um þjónustu, öryggi og aðstoð við upplýsingakerfi og vélbúnað Vestmannaeyjabæjar. Því er óskað eftir að ráðinn verði sérfræðingur í fullt starf ótímabundið. Verði það samþykkt verður staðan auglýst laus til umsóknar frá og með næstu áramótum.

Niðurstaða
Bæjarráð tekur undir minnisblað yfirmanns tölvudeildar og vísar beiðninni til vinnu við fjárhagsáætlun.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð sýnir því skilning að í heimsfaraldri covid hefur meira mætt á tölvuþjónustu sveitarfélagsins. Nauðsynlegt er að málefninu sé vel sinnt en á sama tíma mikilvægt að sporna við þenslu í starfsmannahaldi en launakostnaður er stærsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagsins.
Undirrituð leggur til að kannað verði fyrirkomulag þjónustunnar hjá öðrum sambærilegum sveitarfélögum og skoðaðir möguleikar á borð við útboð afmarkaðrar þjónustu sem hægt væri að sinna í verktöku.
Undirrituð samþykkir að vísa málinu til fjárhagsáætlunar með þeim formerkjum að hagrætt verði til móts við þann kostnað sem af stöðunni skapast.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Minnisblað til bæjarráðs vegna mönnunar á tölvudeild.pdf
10. 200809029 - Reglur og samþykktir Vestmannaeyjabæjar
Drög að viðverustefnu Vestmannaeyjabæjar lögð fyrir bæjarráð.

Niðurstaða
Bæjarráð mun fjalla um drögin milli funda og samþykkja viðverustefnu á næsta fundi ráðsins.
11. 202007416 - Kerfisáætlun Landsnets
Bæjarstjóri gerði grein fyrir umsögn Vestmannaeyjabæjar um kerfisáætlun Landsnets fyrir árin 2022-2030, en umsögnin er í meginatriðum svipuð og umsögn sem send var í fyrra.
Umsögn Vestmananeyjabæjar um kerfisáætlun Landsnets fyrir 2021-2030.pdf
12. 202011037 - Starfshættir kjörinna fulltrúa
Hildur Sólveig Sigurðardóttur, fulltrúa D-lista, óskaði eftir umræðu um liðinn.

Niðurstaða
Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð harmar ummæli bæjarstjóra, oddvita H listans, í fjölmiðlum um málefni einstaka starfsmanns vegna kvörtunar starfsmannsins um meint einelti og minnir á mikilvægi þess að atvinnurekanda ber skylda til að sýna varfærni við meðferð slíkra mála og nærgætni með virðingu og einkahagi hlutaðeigandi í huga.
Mikilvægt er að öflugt sveitarfélag á borð við Vestmannaeyjabæ sýni gott fordæmi, sinni öflugum forvörnum í vinnuvernd, fylgi reglugerðum vinnuverndar og leyfi meintum þolendum að njóta vafans og virðingar á meðan viðkvæm mál þeirra eru tekin skjótt til meðferðar.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Bæjarstjóri tjáði sig í stuttu máli við vefmiðil Mannlífs, eftir ítrekaðar óskir þess efnis. Á þeim tíma sem bæjarstjóri tjáði sig hafði viðkomandi starfsmaður þegar sjálfur gert það með því að staðfesta innihald fréttar Eyjafrétta, frá 10. ágúst sl. við DV. Með hliðsjón af því lá fyrir afstaða viðkomandi til þess að upplýsingar um málið nytu ekki leyndar sem persónu- eða einkaupplýsingar í skilningi laga nr. 90/2018 um persónuvernd og/eða upplýsingalaga nr. 140/2012. Þau svör sem bæjarstjóri veitti blaðamanni Mannlífs fólu því ekki í sér aðgang að neinum upplýsingum sem ekki lágu þegar fyrir opinberlega.
Bæjarfulltrúinn Hildur Sólveig Sigurðardóttir tjáir sig hins vegar á sama tíma og hún vísar í ákvæði reglugerðar nr. 1009/2015 því til stuðnings að bæjarstjóra hafi ekki verið heimilt að tjá sig um málefni viðkomandi starfsmanns, þá gerir hún það sjálf og setur auk þess fram getgátur um það að aðrir starfsmenn hafi „hrakist úr störfum sínum hjá sveitarfélaginu á undanförnum árum“. Það verður að teljast vafasamt að Hildur tjái sig um málið með þeim hætti.
Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)

Bókun frá fulltrúa D lista
Það skal tekið sérstaklega fram að hvergi í grein undirritaðrar setti ég fram getgátur heldur vísaði ég í orð starfsmanns úr opinberri grein hans og því leggja fulltrúar meirihlutans mér orð í munn. Undirrituð er ekki æðsti embættismaður né framkvæmdastjóri sveitarfélagsins og telst því ekki atvinnurekandi í þeim skilningi heldur bæjarfulltrúi sem vill tryggja eðlilega málsmeðferð hjá Vestmannaeyjabæ.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)

Bókun frá fulltrúa E lista
Að undanförnu hefur oddviti sjálfstæðisflokksins tekið þátt í umræðu um mál sem er til vinnslu hjá stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar. Í blaðagrein sem oddviti sjálfstæðisflokksins skrifar þann 27. ágúst sl. gerir hún að því skóna að tjáningarfrelsi starfsmanna bæjarins sé skert, ýtir undir ásakanir um að starfsmenn hafi verið hraktir úr störfum og fer aukin heldur fram á það að pólitískir fulltrúar ræði ásakanir um meinta hegðun yfirmanna gagnvart starfsmönnum. Það að draga kjörna fulltrúa í slíka ferla grefur óneitanlega undan trausti á stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar sem á að getað starfað óáreitt gagnvart kjörnum fulltrúum, sérstaklega í viðkvæmum málum starfsmanna.
Ég tel að oddviti sjálfstæðismanna hafi með athöfnum sínum undanfarna daga og vikur, brotið fjórar greinar siðareglna kjörinna fulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ og auk þess brotið á ákvæðum sveitarstjórnarlaga og bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar. Ég mun því á næstu dögum óska eftir því að þar til bær stjórnvöld fari yfir þau mál og skeri þar úr um.
Njáll Ragnarsson (sign.)

Bókun frá fulltrúa D listi
Það er með ólíkindum að þegar kjörinn fulltrúi Sjálfstæðisflokksins tjáir sig opinberlega þar sem hann lýsir áhyggjum af velferð starfsmanna og gagnrýnir að bæjarstjóri fari ekki eftir reglugerð um vinnuvernd kjósi formaður bæjarráðs í krafti embættis síns, ekki að leita leiða til að tryggja vernd og vellíðan starfsmanna heldur beinir hann orku sinni fremur í að saksækja undirritaða sem vogaði sér að ljá málinu rödd sína. Slíkt er honum til minnkunar.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
13. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram til upplýsinga fundargerð 571. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldinn var þann 13. ágúst sl.
571.-fundur-stj.-SASS.pdf
14. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:55 

Til baka Prenta