Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3190

Haldinn í fundarsal Ráðhúss,
08.03.2023 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Angantýr Einarsson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs kom á fundinn undir dagskrárlið 5, um viðauka við fjárhagsáætlun 2023.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Íris Róbersdóttir, bæjarstjóri, fór yfir stöðuna í Landeyjahöfn. Dýpkunarskip Björgunar hóf dýpkun í og við höfnina fyrr í vikunni og vonir eru bundnar við að þeirri vinnu ljúki í þessari viku samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni. Herjólfur mun þá sigla í Landeyjahöfn skv. siglingaáætlun.

Bæjarráð fór yfir drög að bréfi til innviðaráðuneytisins vegna óska bæjarins um áframhaldandi reksturs Herjólfs.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
2. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Þann 7. mars sl. átti bæjarráð fund með hluta af framkvæmdastjórn HSU þar sem m.a. var farið yfir mönnun lækna og annars heilbrigðisstarfsfólks á stofnuninni í Vestmannaeyjum. Á fundinum voru ýmsar leiðir ræddar til þess að bæta við mönnun á stofnuninni, m.a. ákvæði í lögum um Menntasjóð námsmanna sem heimila afslátt af námslánum til handa sérhæfðu heilbrigðisstarfsfólki sem ræður sig til starfa á landsbyggðinni að loknu námi. Þá voru einnig ræddar hugmyndir um það með hvaða hætti Vestmannaeyjabær gæti haft aðkomu að því að laða heilbrigðisstarfsfólk til Eyja.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar framkvæmdastjórn HSU fyrir fundinn.
3. 202103172 - Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja
Bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum hafa haldið áfram viðræðum við hlutaðeigandi aðila um nýja vatnslögn til Vestmannaeyja.

Bæjarráð skipaði þann 29. september sl., sérstakan starfshóp um lagningu nýrrar vatnslagnar til Vestmannaeyja og í þeim hópi eru þau Íris Róbertsdóttur, bæjarstjóri, Eyþór Harðarson, fulltrúi bæjarráðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.

Þann 21. febrúar sl., áttu fulltrúar starfshópsins fund með forstjóra og starfsfólki HS veitna, um nýja vatnslögn til Vestmannaeyja. Á þeim fundi voru rædd drög að samningi um lagningu nýrrar vatnslagnar og forsendur fyrir þeirri fjarfestingu og framkvæmd. Um er að ræða mjög kostnaðarsamt verkefni. Í framhaldi af fundinum leitaði Vestmannaeyjabær álits lögmannsstofunnar Logos og stjórnsýsluendurskoðanda bæjarins, þ.e. KPMG, á efni samningsins. Byggt á þessum álitum verða lagðar til breytingar. Auk þessa átti starfshópurinn fund með fulltrúum innviðaráðuneytisins þann 6. mars sl., um hugsanlega aðkomu ríkisins að framkvæmdinni og efni samningsdraganna. Enn er beðið formlegra svara.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og leggur áherslu á mikilvægi málsins.
4. 202112037 - Rafmagn til Vestmannaeyja, forgangsorka, varaafl og rafmagnsþörf
Bæjarstjóri fór yfir stöðu rafmagnsmála. Samkvæmt Landsneti er vinna við viðgerðaáætlun komin vel af stað og stefnt að viðgerð snemmsumars. Varaaflið er tryggt með tveimur strengjum, VM1 og streng sem kallaður er VM23, sem er samsetning leiðara úr tveimur strengjum.

Það hefur gengið vel hjá Landsneti og HS-veitum að leysa úr stöðunni sem upp kom vegna bilunar í strengnum í lok janúar sl. Þá hefur loðnuvertíðin gengið vel og afhending forgangsraforku hefur gengið snuðrulaust í gegnum vertíðina það sem af er.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
5. 202302187 - Viðaukar við fjárhagsáætlun 2023
Lagður var fyrir bæjarráð 1. viðauki við fjárhagsáætlun 2023. Um er að ræða viðauka vegna þriggja framkvæmda sem eru í gangi. Í fyrsta lagi vegna áframhaldandi framkvæmda við viðbótarhúsnæði á Sóla að fjárhæð 25 m.kr. Í öðru lagi vegna endurbóta á aðstöðu í dagdvöl aldraðra á Hraunbúðum að fjárhæð 15 m.kr. og í þriðja lagi vegna girðinga og annarrar aðstöðu við Hásteinsvöll að fjárhæð 24,5 m.kr.

Viðbótarfjárheimildir vegna umræddra mála verði fjármagnaðar með eigin fé bæjarsjóðs.

Niðurstaða
Viðauki 1 við fjárhagsáætlun 2023 var samþykktur samhljóða.
6. 201812022 - Samkomulag um kjarasamningsumboð
Lögð voru fram drög að samkomulagi við Samband íslenskra sveitarfélaga um að veita sambandinu umboð til að annast allar kjaraviðræður við viðkomandi stéttarfélög, ganga frá kjarasamningum og annast útgáfu þeirra í samráði við viðkomandi stéttarfélög. Um er að ræða breytt umboð frá því veitt var við síðustu kjarasamningagerð, þar sem samningsumboð nokkurra stéttarélaga detta út og önnur koma inn. Miðast það við stéttarfélagsaðild starfsfólks Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt er í nýju umboði kveðið skýrar á um ýmsar upplýsingar um laun og starfsbundin réttindi starfsfólks. Þær kröfur Sambandsins um launaupplýsingar hafa verið bornar undir persónuverndarfulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Jafnframt þarf að samþykkja uppfært samkomulag um sameiginlega ábyrgð og fylgiskjöl.

Undirritað kjarasamningsumboð og undirritað samkomulag um sameiginlega ábyrgð er forsenda þess að unnt sé að fá afhentar upplýsingar úr launakerfum sveitarfélaga inn í gagnalón Sambandsins svo hægt sé að annast gerð kjarasamninga og meta áhrif þeirra á launakostnað sveitarfélagsins.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir nýtt kjarasamningsumboð og samkomulag um sameiginlega ábyrgð. Með því er Sambandi íslenskra sveitarfélaga falið að annast kjarasamningagerð og mat á áhrifum þeirra fyrir Vestmannaeyjabæ.
Kjarasamningsumbod_2023_uppfært með stéttarfélögum.pdf
Samkomulag um sameiginlega ábyrgð vegna gagnalóns_PDF (1).pdf
7. 202303008 - Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja - rafræn skil
Héraðsskjalasafn Vestmannaeyja hefur áhuga á að taka þátt í sameiginlegu verkefni héraðsskjalasafna um landið er snýr að því að innleiða rafræn skil á gögnum. Héraðsskjalasafnið í Kópavogi mun hýsa öryggisafrit af rafrænum gögnum, í rými sem hefur verið sérhannað sem slíkt. Héraðsskjalaverður Vestmannaeyja og forstöðumaður Safnahússins áttu fund með framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og yfirmanni tölvudeildar Vestmannaeyjabæjar, þar sem verkefnið var kynnt og eru allir sammála um að þetta er framtíðin og yfirmaður tölvudeildar er feginn því að til verði öryggisafrit í sérhönnuðu rými.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
8. 202302012 - Viðmiðunarreglur um flutning gjaldfallins orlofs milli tímabila ef um langtímaveikindi eða fæðingarorlof er að ræða.
Lögð voru fyrir bæjarráð viðmiðunarreglur um afgreiðslu svokallaðs ógjaldfallins orlofs, þ.e. orlof sem starfsfólk hefur áunnið sér fyrir 1. maí 2022. Sérstakt ákveði er í kjarasamningum um hvernig skuli fara með gjaldfallið orlof og að það fyrnist ef ekki er hægt að ljúka töku þess innan ákveðinna tímamarka. Fjallað hefur verið um málið nokkrum sinnum á fundum forstöðumanna og þeir beðnir um að ljúka áætlunum um töku gjaldfallins orlofs, þar sem það á við. Viðmiðunarreglurnar fjalla um meðferð á gjaldföllnu orlofi.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir viðmiðunarreglur um meðferð á gjaldföllnu orlofi.
Viðmiðunarreglur um flutning gjaldfallins orlofs milli tímabila sbr kjarasamninga.pdf
9. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Fyrir liggur til upplýsinga fundargerð 919. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, vegna fundar sem haldinn var þann 28. febrúar sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 919.pdf
10. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00 

Til baka Prenta