Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3176

Haldinn í Ráðhúsinu,
27.07.2022 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201911005 - Staða sýslumannsins í Vestmannaeyjum
Dómsmálaráðuneytið hefur birt í samráðsgátt stjórnvalda, drög að frumvarpi til laga um sýslumann þar sem veittur er umsagnarfrestur til 15. ágúst nk.

Með frumvarpinu er lagt til að lögfest verði ný lög um sýslumann sem er ætlað að leysa af hólmi lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Helstu breytingarnar varða fækkun sjálfstæðra sýslumannsembætta úr níu í eitt. Með því verða öll sýslumannsembætti landsins sameinuð undir einni yfirstjórn og einn sýslumaður skipaður í umrætt embætti.

Til stendur að starfrækja flestar núverandi starfsstöðvar, m.a. í Vestmannaeyjum. Hins vegar verður öllu starfsfólki sagt upp störfum og það ráðið í hið nýja embætti. Stöður sýslumanna verða lagðar niður og nýr sýslumaður annast ráðningar stjórnenda starfsstöðva um landið. Jafnframt stendur til að leggja fram drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum til að hægt sé að innleiða nútímalega starfshætti, m.a. stafræna þjónustu, hjá nýju embætti.

Ekki liggur fyrir hvar dómþing verða staðsett, en bent hefur verið á mikilvægi þess að dómþing sé sinnt í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að umsögn um frumvarp til laga um sýslumann, sem birt hefur verið í Samráðsgátt stjórnvalda. Vestmannaeyjabær leggur til að dómsmálaráðherra falli frá áformum um að leggja fram frumvarp til laga um sýslumann á þessum tímapunkti og hefji eðlilegt samráð við hlutaðeigandi aðila um framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin í landinu.

Jafnframt felur bæjarráð framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að birta umsögn bæjarráðs í Samráðsgátt stjórnvalda.

Samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa E og H lista, gegn einu atkvæði fulltrúa D lista.

Bókun frá fulltrúa D lista

Undirritaður getur ekki tekið undir umsögn meirihluta E og H listans hvað varðar frumvarp til laga um sýslumann. Breytingarnar sem eru boðaðar festa starfsstöð sýslumanns í Vestmannaeyjum í sessi og fela í sér mikil tækifæri fyrir starfsstöð sýslumanns í Eyjum með möguleikum á frekari sérhæfðum verkefnum og fjölgun starfa. Nýleg lagabreyting á tilhögun hjónavígsluskilyrða rennir stoðum undir það.

Markmið breytinganna er að auka þjónustustig við íbúa landsins, bætt stjórnun og rekstur og fjölgun starfa á landsbyggðinni, t.a.m, mun aðsetur sýslumanns vera á úti á landi. Með breytingunum eykst þjónusta sýslumanns í Eyjum við bæjarbúa. Á tímum stafrænnar þróunar er núverandi kerfi ekki að standast tímans tönn og eru því frumvarpið gott innlegg í bættan ríkisrekstur og nútímavæðíngu á þjónustu á landsbyggðinni. Síðustu ár hefur starfsemi embættisins í Eyjum eflst verulega og þar hefur öflugur yfirmaður skipt lykilmáli. Forysta embættisins verður áfram í Vestmannaeyjum samkvæmt boðuðum breytingum.

Eyþór Harðarson (sign.)
Umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp til laga um sýslumann.pdf
Samráðsgátt stjórnvalda, drög að frumvarpi til laga um sýslumann.pdf
2. 200702204 - Leikskólinn Sóli
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Hjallastefnunnar ehf., um rekstur leikskólans Sóla við Ásaveg í Vestmannaeyjum. Jafnframt voru lögð fyrir drög að viðauka við samninginn, um viðræður vegna inntöku barna frá 12 mánaða aldri. Samningurinn tekur gildi þann 15. ágúst nk. og gildir til 15. ágúst 2027.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi samning Vestmannaeyjabæjar og Hjallastefnunnar ehf.
Samningur við Hjallastefnuna ehf vegna Sóla júní 2022 undirritað.pdf
Samkomulag um viðræður vegna inntöku yngri barna júní 2022 undirritað.pdf
3. 202207046 - Undirbúningsnefnd um kaup á minnisvarða um eldgosið á Heimaey
Ósk forsætisráðuneytisins um tilnefningu í undirbúningsnefnd um kaup á minnisvarða um eldgosið á Heimaey. Tveir fulltrúar af fimm verða skipaðir samkvæmt tilnefningu bæjarstjórnar Vestmannaeyja.Tveir fulltrúar verða skipaðir samkvæmt tilnefningu Alþingis og einn án tilnefningar. Formaður nefndarinnar, sem skipaður er án tilnefningar, verður Bryndís Hlöðversdóttir, ráðuneytisstjóri forsætisráðuneytisins.

Niðurstaða
Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, tilnefnir þau Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra og Pál Magnússon, forseta bæjarstjórnar, í undirbúningsnefnd um kaup á minnisvarða um eldgosið á Heimaey. Er framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs falið að upplýsa forsætisráðuneytið um tilnefningu bæjarstjórnar.
Tilnefning í undirbúningsnefnd um minnisvarða um eldgosin.pdf
4. 202207045 - Eygló eignarhaldsfélag um ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum
Lagt var fyrir bæjarráð erindi Eyglóar eignarhaldsfélags, um fjármögnun framkvæmda á ljósleiðaralagningu í þéttbýli Vestmannaeyja. Um er að ræða fjármögnun á framkvæmdum fyrir 1. og 2. áfanga af sex áföngum.

Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar áttu fund með fulltrúum KPMG þann 25. júlí sl., um hvernig best er að standa að fjármögnun framkvæmdanna, þannig að hún standist lög og reikningsskilareglur. KPMG mun senda Vestmannaeyjabæ minnisblað um þá þætti sem þarf að hafa í huga.

Niðurstaða
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs að annast undirbúning og gerð gagna, m.a. samning milli Vestmannaeyjabæjar og Eyglóar ehf., um fjármögnun framkvæmda við ljósleiðaravæðingu í þéttbýli Vestmannaeyja og leggja fyrir næsta fund bæjarráðs, f.h. bæjarstjórnar, til samþykktar.
5. 202207006 - Beiðni um umsögn vegna leyfis til að selja áfengi á framleiðslustað Brothers Brewery
Umrætt erindi var samþykkt með skriflegum hætti milli funda, en þarfnast staðfestingar bæjarráðs. Um er að ræða umsögn um umsókn Brothers Brewery um leyfi til að selja áfengi á framleiðslustað. Bæjarráð hefur veitt heimild fyrir sitt leyti skv. lögum og reglugerðum þar um.

Niðurstaða
Bæjarráð staðfestir umsögn eftirlitsaðila um öll fimm skilyrði sem finna er í erindi fulltrúa sýslumannsins á Suðurlandi, þ.e.að:
1. starfsemin sé í samræmi við byggingarleyfi og skipulagsskilmála,
2. lokaúttekt hafi farið fram á húsnæðinu,
3. afgreiðslutími og staðsetning staðar sem umsókn lýtur að sé innan þeirra marka sem reglur og skipulag sveitarfélagsins segir til um,
4. starfsemi sé í samræmi við ákvæði laga um hollustuhætti og mengunarvarnir og laga um matvæli og, þegar við á, mat heilbrigðisnefndar á grenndaráhrifum starfseminnar, þ.m.t. hljóðvist og,
5. kröfum um brunavarnir, miðað við þá starfsemi sem fyrirhuguð er, sé fullnægt samkvæmt mati slökkviliðs.

Bréf þessa efnis hefur verið sent sýslumanninum á Suðurlandi.
beiðni um umsögn vegna umsóknar um leyfi til sölu áfengis á framleiðslustað.pdf
6. 202207052 - Svarbréf innviðaráðuneytisins um stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar
Lagt var fram svarbréf innviðaráðuneytisins dags. 24. júní sl., við kvörtun Hildar Sólveigar Sigurðardóttur, bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins í Vestmannaeyjum, dags. 5. ágúst 2020, undan stjórnsýslu bæjarfélagsins í tengslum við kaup á húsnæði fjölskyldu- og fræðslusviðs við Kirkjuveg 23.

Samkvæmt svari innviðaráðuneytisins fær ráðuneytið ekki séð á gögnum málsins að vísbendingar séu um að málsmeðferð Vestmannaeyjabæjar vegna kaupa á fasteigninni að Kirkjuvegi 23 hafi verið í andstöðu við lög eða reglur.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
Bréf - Stjórnsýsla Vestmannaeyjabæjar2.pdf
7. 201505010 - Siðareglur kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar
Kveðið er á um siðareglur kjörinna fulltrúa í 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og 19. gr. samþykktar um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2020. Í lögunum er m.a. kveðið á um að sveitarstjórn skuli setja sér siðareglur sem sendar skulu ráðuneytinu til staðfestingar. Ef siðareglur eru í gildi skal ný sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til endurskoðunar þeirra. Ef niðurstaðan er sú að siðareglur þarfnist ekki endurskoðunar halda þær gildi sínu. Tilkynna skal ráðuneytinu um þá niðurstöðu.

Lagðar voru fyrir bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, siðareglur kjörinna fulltrúa. Um er að ræða sömu siðareglur og samþykktar voru á síðasta kjörtímabili.

Niðurstaða
Meðan á sumarleyfi bæjarstjórnar stendur fer bæjarráð með allar sömu heimildir og bæjarstjórn. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að kanna hvort ástæða þykir til að endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og sérstaklega með hliðsjón af samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2020, sem tóku gildi eftir að siðareglurnar voru síðast staðfestar. Siðareglurnar verða svo lagðar fyrir bæjarstjórn á næsta fundi hennar í september.
Sidareglur kjörinna fulltrúa samþykktar 2019.pdf
8. 202207043 - Erindisbréf fyrir fulltrúa bæjarráðs
Lögð voru fram drög að erindisbréfum fulltrúa í bæjarráði Vestmannaeyja. Erindisbréfin eru unnin í samræmi við samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2020 (bæjarmálasamþykkt), sem samþykkt var árið 2020.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir drögin að erindisbréfi til fulltrúa bæjarráðs. Verður erindisbréfum allra ráða Vestmannaeyjabæjar vísað til samþykktar bæjarstjórnar á næsta fundi hennar í september.
Erindisbréf fyrir bæjarráð.pdf
9. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram fundargerð 583. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 15. júní sl.

Jafnframt var lögð fram 911. fundargerð fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var þann 23. júní sl.
583.-fundur-stj.-SASS.pdf
stjórn_Sambands_íslenskra_sveitarfélaga_-_911.pdf
10. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fundargerðir til staðfestingar
11. 202207005F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 361
Liður 4, Leikskólagjöld-endurskoðun á leikskólagjöldum á 5 ára deild, liggur fyrir til afgreiðslu.

Liður 5, Heimgreiðslur, liggur fyrir til afgreiðslu.

Fræðsluráð Vestmannaeyja tók bæði málin fyrir á 361. fundi ráðsins sem haldinn var þann 13. júlí sl. Var framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs falið að vísa málunum tveimur til bæjarráðs til umfjöllunar, þar sem um er að ræða aukinn kostnað fyrir árið 2022. Jafnframt leggur ráðið til að gert verði ráð fyrir breytingum á leikskólagjöldum og heimgreiðslum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.

Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs lagði fyrir bæjarráð minnislöð um málin tvö.

Liðir 1-3 og 6-7 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Leikskólagjöld á 5 ára deild

Að beiðni fulltrúa D lista voru greidd atkvæði um hvorn þátt fyrir sig á fundi bæjarráðs.

Fyrri hluti:
Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir afgreiðslu fræðsluráðs um breytta gjaldtöku á 5 ára deildinni (Víkinni) sem miðar að því að fyrstu 7 klst á leikskólanum verði gjaldfrjálsir. Áttundi tíminn verði gjaldið kr. 5.250 og níundi tíminn verði áfram kr. 8.522. Umrædd breyting taki gildi 1. september nk.

Samþykkt samhljóða

Seinni hluti:
Jafnframt samþykkir bæjarráð afgreiðslu fræðsluráðs um að fella út fæðisgjald á Víkinni.

Samþykkt með tveimur atkvæðum fulltrúa E og H lista, gegn einu atkvæði fullrúa D lista.

Bókun frá fulltrúa D lista

Hvað varðar frítt fæði á leikskólanum getur undirritaður ekki samþykkt. Rekstur sveitarfélagsins þyngist sífellt með auknum kröfum um þjónustu. Launakostnaður eykst umfram áætlanir og fjárfestingaþörf sveitarfélagsins er mikil á komandi árum. Eðlilegt hlýtur að teljast að foreldrar greiði hóflegt gjald fyrir fæði barna sinna.

Eyþór Harðarson (sign.)

Bókun frá fulltúum E og H lista

Meirihluti bæjarráðs tekur undir bókun E- og H- lista úr fræðsluráði um að stíga fyrstu skref í átt að gjaldfrjálsum leikskóla og gera Vestmannaeyjar að enn betri búsetukosti fyrir ungt fólk. Með þessum sjö gjaldfrjálsum stundum er líka verið að stíga skref í þá átt að stytta vinnudag barna og búa til hvata, þar sem foreldrar greiða fyrir vistunar tíma umfram þessar gjaldfrjálsu stundir. Mikilvægt er að bjóða þar að auki uppá gjaldfrjálst fæði á 5 ára deildinni þar sem nemendur í leikskóla hafa ekki val um að koma með nesti líkt og nemendur í GRV. Leikskólinn er fyrsta skólastigið og með þessu skrefi er verið að styrkja það skólastig og tryggja enn frekar að öll 5 ára börn geti notið þjónustu 5 ára deildarinnar

Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)

Jafnframt samþykkir bæjarráð áhrif þessara aðgerða á fjárhagsáætlun fyrir árið 2022, en breytingin leiðir til tekjufalls um 6,5 m.kr. á þessu ári. Jafnframt felur bæjarráð bæjarstjóra og framkvæmdastjórum bæjarfélagsins að gera ráð fyrir umræddum breytingum við fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár.

Heimgreiðslur

Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir afgreiðslu fræðsluráðs um að teknar verði upp heimagreiðslur fyrir foreldra barna á aldrinum 12 til 16 mánaða sem ekki eru í leikskóla. Greiðslum lýkur þann dag sem barn nær 16 mánaða aldri eða það hefur leikskólagöngu. Jafnframt samþykkir bæjarráð afgreiðslu fræðsluráðs um að heimagreiðsla verði í boði fyrir foreldra barna eldri en 16 mánaða ef ekki er laust leikskólapláss fyrir barnið í Vestmannaeyjabæ. Greiðslur falli niður þegar barn fær vistunarboð á leikskóla. Heimagreiðslur verði í boði frá 1. september 2022 og upphæð greiðslu verði kr. 110.000 á mánuði fyrir hvert barn.

Bæjarráð samþykkir jafnframt áhrif þessara breytinga á fjárhagsáætlun Vestmannaeyjabæjar og aukin útgjöld um 2,2 m.kr. á þessu ári. Þá felur bæjarráð jafnframt bæjarstjóra og framkvæmdastjórum bæjarfélagsins að gera ráð fyrir umræddum breytingum við fjárhagsáætlunargerð fyrir næsta ár.

Samþykkt samhljóða.
12. 202206012F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 368
Liður 1, Breyting á aðalskipulagi - Viðlagafjara, liggir fyrir til afgreiðslu.

Liður 2, Deiliskipulag Miðbæjar, liggur fyrir til afgreiðslu.

Málin tvö voru tekin fyrir á fundi umhverfis- og skipulagsráðs nr. 368 og vísað til afgreiðslu bæjarráðs vegna sumarleyfis bæjarstjórnar.

Liðir 3-14 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Breyting á aðalskipulagi - Viðlagafjara

Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir tillögu umhverfis- og skipulagsráðs um að auglýsa tillögu að aðalskipulagsbreytingu og umhverfismatsskýrslu áætlana fyrir Viðlagafjöru skv. 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Um er að ræða breytingu aðalskipulags Vestmannaeyja 2015-2035 vegna fiskeldis í Viðlagafjöru.

Samþykkt samhljóða af öllum fulltrúum bæjarráðs.

Deiliskipulag Miðbæjar

Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir að auglýsa tillögu að breyttu deiliskipulagi miðbæjar sbr. 1. mgr. 43. gr skipulagslaga nr. 123/2010.

Samþykkt samhljóða af öllum fulltrúum bæjarráðs.

Sameiginleg bókun bæjarráðs

Vestmannaeyjabær hefur lagt sig fram við að skapa umhverfi sem gefur öllum íbúum og fyrirtækjum jöfn tækifæri til að vaxa og dafna. Öflugt og fjölbreytt atvinnulíf er mikilvægt hverju samfélagi og nauðsynlegt er að eiga gott samtal við íbúa og hagsmunaaðila um uppbyggingu svæða eins og unnið er við vinnslu skipulags hjá sveitarfélaginu.

Ef lóðarhafi að Bárustíg 7 hefur áhuga á breytingu er hægt að óska eftir breytingu deiliskipulags eftir að nýtt skipulagið hefur verið auglýst og staðfest.

Njáll Ragnarsson (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:20 

Til baka Prenta