Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3161

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
24.09.2021 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Eydis Ósk Sigurðardóttir, mannauðsstjóri Vestmannaeyjabæjar, voru gestir fundarins undir dagskrárlið 2.

Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss, var gestur fundarins undir dagskrárlið 3.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202107103 - Viðburðir árið 2023 í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá Eldgosinu á Heimaey og 60 ár frá Surtseyjargosinu
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, upplýsti bæjarráð um nýundirritaða viljayfirlýsingu hennar f.h. Vestmannaeyjabæjar og Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, um skipulagningu norræns ráðherrafundar forsætisráðherra, gerð minnisvarða og skipulagningu málstofu, í tilefni af því að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár frá Surtseyjargosinu.

Markmiðið er þrenns konar:
1. Undirbúningur og skipulagning samnorræns fundar forsætisráðherra í Vestmannaeyjum. Fundurinn verði haldinn sumarið 2023 í tengslum við Goslokahátíð Vestmannaeyja.
2. Gerð minnisvarða á Heimaey með skírskotun til eldgosanna. Stefnt er að afhjúpun minnisvarðans á Goslokahátíð 2023.
3. Skipuleggja málstofu í samvinnu við Jarðfræðafélag Íslands, fræðasamfélagið, HÍ, Veðurstofu, almannavarnir, embætti ríkislögreglustjóra, áhugafólk og fræðimenn. Málstofan mundi svipa til Kötluráðstefnunnar sem haldin var árið 2018.

Með þessu er vakin athygli Íslendinga á eldgosunum og þýðingu þeirra fyrir náttúruna og samfélagið í Vestmannaeyjum og á meginlandinu. Jafnframt stendur til að kynna eldgosin fyrir ráðamönnum Norðurlandanna og færa þeim þakkir fyrir ómetanlega aðstoð meðan á eldgosinu á Heimaey stóð.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar viljayfirlýsingu forsætisráðherra og Vestmannaeyjabæjar um skipulagningu viðburða í tengslum við að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár liðin frá eldgosinu í Surtsey. Af því tilefni hefur forsætisráðherra, f.h. ríkisstjórnar Íslands og bæjarstjóri, f.h. Vestmannaeyjabæjar lýst vilja til þess að standa myndarlega að þessum tímamótum í sögu Vestmannaeyja og samtímasögu landsins.
Viljayfirlýsing for og Vmbæjar um gosafmæli 2023.pdf
2. 202004102 - Mannauðs/starfsmannamál
Lögð var fyrir bæjarráð eftirfarandi yfirlýsing starfsfólks stjórnsýslu- og fjármálasviðs bæjarskrifstofa Vestmannaeyja:

"Berist til bæjarráðs
Af gefnu tilefni og í ljósi umræðna langar okkur starfsfólki stjórnsýslu- og fjármálasviðs á bæjarskrifstofum Vestmannaeyja að koma eftirfarandi á framfæri. Við hörmum mjög þá umræðu sem átt hefur sér stað um vinnustað okkar. Hjá okkur ríkir góður starfsandi, fagleg vinnubrögð og gagnkvæm virðing meðal starfsfólks og stjórnenda á sviðinu.
Starfsfólk stjórnsýslu- og fjármálasviðs."

Jafnframt voru lögð fyrir bæjarráð drög að stefnu og verkferlum um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi meðal starfsfólks Vestmannaeyjabæjar, sem stjórnsýslu- og fjármálasvið hefur unnið að síðan í vor. Stefnan og verklagsreglurnar taka mið af reglugerð sama efnis nr. 1009/2015.

Loks var rædd skipan öryggistrúnaðarnefndar Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt 6. gr. laga um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum, ber að skipa öryggistrúnaðarnefnd. Mannauðsstjóri fór yfir verklag við skipan slíkra nefnda.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar starfsfólki stjórnsýslu- og fjármálasviðs yfirlýsinguna.

Jafnframt samþykkir bæjarráð fyrirliggjandi drög að stefnu og verkferlum um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og mannauðsstjóra Vestmannaeyjabæjar að fylgja þeim eftir við forstöðumenn stofnana bæjarins.

Loks felur bæjarráð framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og mannauðsstjóra Vestmannaeyjabæjar að sjá til þess að ný öryggistrúnaðarnefnd verði skipuð.
Eineltisstefna_-_uppfærð_loka.pdf
Verklagsreglur_Vestmannaeyja_í_eineltis_og_kynferðismálum_loka.pdf
3. 202109104 - Ósk Sea Life Trust um varðveislu allra muna Náttúrugripasafns Vestmannaeyja
Bæjarráð tók fyrir erindi Sea Life Trust, dags. 21. september sl., þar sem fyrirtækið óskar eftir við Vestmannaeyjabæ, að fá til varðveislu og sýninga, þá safnmuni sem nú er að finna í Náttúrugripasafni Vestmannaeyja, eins og núgildandi samningur við Sea Life Trust kveður á um. Jafnframt upplýsti Kári Bjarnason bæjarráð um samtöl sem átt hafa sér stað við Safnaráð um umrædda umleitan Sea Life Trust. Til stóð að Safnaráð kæmi fyrr í þessari viku til þess að taka út húsnæði, en vegna veðurs þurfti að fresta ferðinni.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir að verða við beiðni Sea Life Trust um safnmuni Náttúrugripasafns Vestmannaeyja, með því skilyrði að Safnaráð veiti samþykki fyrir sitt leyti og felur forstöðumanni og verkefnastjóra Safnahúss að ræða við alla hlutaðeigandi aðila um breytingarnar og gerð samstarfssamning. Vestmannaeyjabær mun áfram eiga safnmunina.
4. 202108173 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð 2021
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:55 

Til baka Prenta