Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3164

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
18.11.2021 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri hefur verið í reglulegum samskiptum við samgönguráðuneytið og Vegagerðina um stöðu flugsamgangna til og frá Vestmannaeyjum frá því reglulegu flugi til Vestmannaeyja var hætt í lok sumars. Jafnframt hefur bæjarráð átt nokkra fundi með samgönguráðuneytinu og Vegagerðinni og síðast í gær, miðvikudaginn 17. nóvember. Kom m.a. fram á þeim fundi að ráðuneytið muni fara í verðkönnun á lágmarksflugsamgöngum til og frá Vestmannaeyjum í vetur vegna áhrifa Covid-faraldursins. Jafnframt tilkynnti ráðuneytið að það hefði falið Vegagerðinni þarfagreiningu og aðra forvinnu í tengslum við ákvörðun um hvort farið verði í útboð á ríkisstyrktu flugi, en slíkt fyrirkomulag þarf að samræmast reglum skv. EES-samningnum á þessu sviði.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og ítrekar mikilvægi þess að reglulegu flugi verði komið á milli lands og Eyja, með þeim hætti að það nýtist samfélaginu sem best. Ánægjulegt er að samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið og Vegagerðin sýni ástandinu skilning og vinni að því að finna ásættanlega lausn.
2. 202109030 - Breytingar á leiðbeiningum um ritun fundargerða og notkun fjarfundarbúnaðar
Leitað var til Sesselju Árnadóttur, lögfræðings og stjórnsýsluendurskoðanda Vestmannaeyjabæjar, um tillögu að viðauka við bæjarmálasamþykkt til þess að stuðla að notkun fjarfundarbúnaðar á fundum bæjarstjórnar, ráða og nefnda á vegum bæjarins, sbr. nýgerðar breytingar á sveitarstjórnarlögum, þar sem slíkt er gert heimilt, með viðaukum við tilheyrandi ákvæðum bæjarmálasamþykkta. Jafnframt er lagt til að í viðauka verði skerpt á 47. gr. samþykktarinnar með því að tilgreina skýrt um fullnaðarafgreiðslu annarra en bæjarstjórnar eða bæjarráðs, vegna nýtilkominna breytinga á 42. gr. sveitarstjórnarlaga.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir umræddar tillögur fyrir sitt leyti og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að leita eftir áliti sveitarstjórnarráðuneytisins og vísar málinu til fyrri umræðu í bæjarstjórn, en tvær umræður þarf um breytingar á bæjarmálasamþykktum og viðaukum, lögum samkvæmt.

Bókun frá fulltrúa D lista

Í ljósi þess að verið er að ræða breytingar á bæjarmálasamþykkt með viðaukum mun undirrituð gera það að tillögu sinni á næsta fundi bæjarstjórnar að bæjarmálasamþykkt verði tekin upp og þar verði 1. Grein bæjarmálasamþykktar eftirfarandi

"Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar er skipuð sjö fulltrúum" í stað
"Bæjarstjórn Vestmannaeyjabæjar er skipuð níu fulltrúum".

Fyrirsjáanlegt er að fjölgun bæjarfulltrúa komi til með að valda auknum rekstrarkostnaði, auka flækjustig og þyngja stjórnsýslu, ásamt því að hvorki H- né E- listi kynnti kjósendum fyrirætlanir sínar um jafn stóra og stefnumarkandi ákvörðun í aðdraganda síðustu kosninga.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
3. 202109058 - Viltu hafa áhrif 2022
Fyrr á árinu auglýsti Vestmannaeyjabær eftir ábendingum, tillögum og styrkumsóknum undir heitinu Viltu hafa áhrif 2022? Markmiðið með þessu er að stuðla að auknu íbúalýðræði í Vestmannaeyjum með því að gefa fólki, fyrirtækjum og félagasamtökum tækifæri á að hafa áhrif á bæinn sinn í gegnum fjárhagsáætlun næsta árs. Fjölmargar góðar ábendingar hafa borist í gegnum tíðina. Má þar m.a. nefna styrki til fjölda sýninga, búnað og aðstöðu fyrir starfsemi sem ekki er rekin í hagnaðarskyni, til kaupa á leiktækjum á opnum svæðum og göngustíga.

Bæjarráð hittist á vinnufundi þann 15. nóvember sl. og tók ákvörðun um hvaða verkefni hljóti styrki í ár. Í fjárhagsáætlun ársins 2022 er gert ráð fyrir 11 m.kr. í Viltu hafa áhrif? Alls bárust í ár 32 styrkumsóknir sem og nokkrar ábendingar um hvað betur megi fara í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar bæjarbúum fyrir fjölbreyttar umsóknir og ábendingar. Það er ljóst að bæjarbúar eru hugmyndaríkir um hvernig gera megi góðan bæ enn betri. Lagt verður fyrir bæjarstjórn hverjir hljóta styrk við umræðu um fjárhagsáætlun 2. desember nk. Styrkirnir verða svo formlega afhentir fimmtudaginn 9. desember nk.
4. 202003120 - Ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum
Lögð voru fram drög að gjaldskrá fyrir notkun ljósleiðara í dreifbýli sem bæjarráð þarf að samþykkja.

Jafnframt ræddi bæjarráð stofnun einkahlutafélags um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli og þau hagnýtu atriði sem þurfa að liggja fyrir við stofnsetningu slíks félags, þ.e. að skipa stjórn félagsins, framkvæmdastjóra, ákveða heiti þess, skipa endurskoðanda, ákveða hlutafé og tilgang félagsins.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að gjaldskrá fyrir ljósleiðara í dreifbýli.

Jafnframt samþykkir bæjarráð stofnsetningu nýs einkahlutafélags um ljósleiðaravæðingu í þéttbýli og að hlutafé félagsins verði 500.000 kr. Þriggja manna stjórn og varastjórn félagsins verður skipuð bæjarfulltrúum á næstu dögum. Tilgangur félagsins er að leggja ljósleiðara að hverju heimili í Vestmannaeyjum í mögulegu samstarfi við einkaaðila sem sýnt hafa áhuga á slíku. Komi til þess verður skoðað að fjölga fulltrúum í stjórn til samræmis. Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka við stofnun félagsins í samráði við framkvæmdastjóra og umverfis- og framkvæmdasviðs og deildarstjóra tölvudeildar, í samræmi við umræður í bæjarráði.
5. 202103172 - Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja
Bæjarstjóri fór yfir fund frá 9. nóvember sl. sem fulltrúar Vestmannaeyjabæjar áttu með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra um beiðni Vestmannaeyjabæjar um að hefja undirbúning á nýrri vatnsleiðslu til Vestmannaeyja.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
6. 202108158 - Fjárhagsáætlun 2022
Tekið var fyrir minnisblað framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, f.h. fræðsluráðs, um heimild til að hækka framlag í fjárhagsáætlun 2022 til að kaupa fleiri leikskólapláss af Sóla. Um er að ræða 9,8 m.kr. hækkun á árinu 2022. Þá er sömuleiðis gert ráð fyrir auknum fjárframlögum til Kirkjugerðis í fjárhagsáætlun næsta árs.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir beiðni framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs og vísar málinu til fjárhagsáætlunargerðar. Mikilvægt er að bjóða upp á sem bestu þjónustu á leikskólum og stuðlar þessi heimild að því að hægt sé að bjóða upp á leikskólapláss fyrir börn frá 12 mánaða aldri.
Minnisblað til bæjarráðs vegna heimilda fyrir auknum rýmum á Sóla.pdf
7. 202111061 - Safnahelgin 2021
Glæsilegri Safnahelgi í Vestmannaeyjum er nýlokið og óhætt að fullyrða að vel hafi tekist til. Fjölbreyttir viðburðir voru á dagskránni í ár sem stóð yfir dagana 4. til 7. nóvember. Um var að ræða 15 auglýsta viðburði víðsvegar um bæinn.

Niðurstaða
Bæjarráð vill senda öllum þeim sem komu að skipulagningu og þátttöku Safnahelgarinnar sínar bestu þakkir og hamingjuóskir með frábæra og metnaðarfulla dagskrá.
8. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir viðræður við fjármálastjóra HSU um húsaleigusamning milli stofnunarinnar og Vestmannaeyjabæjar vegna leigu á Hraunbúðum og lagði fyrir ráðið drög að húsaleigusamningi.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka gerð húsaleigusamningsins á þeim forsendum sem drögin kveða á um.
9. 201909001 - Atvinnumál
Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir stöðu vinnunnar við átakið Veldu Vestmannaeyjar og tilboð Hvíta hússins um framkvæmd átaksins.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar kynninguna.
10. 201911084 - Áfangastaðaáætlanir og áfangastaðastofur
Á ársþingi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga var til umfjöllunar tillaga um að Markaðsstofa Suðurlands tæki að sér rekstur áfangastaðastofu fyrir Suðurlandið skv. samningi milli atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra að kalla eftir upplýsingum um verkefnið frá SASS í samræmi við umræður á fundinum.
11. 202101038 - Dagskrá bæjarráðs
Formaður bæjarráðs lagði fram drög að dagskrá ráðsins út maí 2022.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að dagskrá bæjarráðs.
12. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram til upplýsinga fundargerð 902. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, sem haldinn var 29. október sl.

Jafnframt var lögð fram fundargerð 573. fundar stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga, sem haldinn var þann 8. október sl.
573.-fundur-stj.-SASS.pdf
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 902.pdf
13. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:00 

Til baka Prenta