Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3244

Haldinn í Ráðhúsinu,
11.09.2025 og hófst hann kl. 12:30
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri sat fundinn í gegnum fjarfundarbúnað.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201503002 - Staða atvinnumála - uppsagnir í Leo Seafood
Þann 10. september sl. tilkynnti Vinnslustöð Vestmannaeyja um uppsagnir 50 starfsmanna hjá Leo Seafood. Bæjarráð óskaði eftir því að Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson framkvæmdastjóri VSV kæmi á fund ráðsins til að fara yfir forsendur máls.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir þungum áhyggjum af þeirri stöðu sem upp er komin. Mikilvægt er að forsvarsmenn VSV í samráði við stéttarfélög starfsmanna vinni saman að því að tryggja starfsfólkinu störf og eyða óvissu um framhaldið.

Bæjarráð mun áfram fylgjast með framvindu mála.
Gestur:
Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri VSV
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðuna á slipptöku Herjólfs og afleysingarskipi. Herjólfur er kominn í slipp í Hafnarfirði. Gert er ráð fyrir að slippurinn taki um tæpar þrjár vikur. Helstu verkefni í slippnum eru einkum tvenn; málun og upptaka veltiugganna. Skipið verður heilmálað að utan auk þess sem bíladekkið verður tekið alveg í gegn. Upptaka ugga er gerð á fimm ára fresti skv. fyrirmælum framleiðanda.

Breiðafjarðarferjan Baldur leysir af og er hún með undanþágu til siglinga í Þorlákshöfn. Vegagerðin vinnur að því að ferjan fái B-haffæri svo hún geti verið varanlegt varaskip fyrir Herjólf árið um kring. Þar sem Baldur tekur færri farþega og bíla en Herjólfur hefur ferðum verið fjölgað í átta ferðir á dag.

Niðurstaða
Ráðið þakkar upplýsingarnar og leggur þunga áherslu á að Baldur hafi haffæri allan ársins hring í báðar hafnir og að skipið geti nýst sem varaskip fyrir Herjólf þegar þörf er á.
3. 202504032 - Fjárhagsáætlun 2026
Ræddar voru forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2026. Framundan eru vinnufundir í fagráðum og bæjarstjórn. Framkvæmdastjórar skila áætlunum um rekstur og viðhald til fjármálastjóra. Vinna stendur yfir við undirbúning áætlunarinnar.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er lagt upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 14,91% og að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir í október og endanlega fyrir fyrri umræðu um fjárhagsáætlun í bæjarstjórn.

Vestmannaeyjabær hefur verið að skoða áhrif lækkunar á álagningaprósentum á tekjur bæjarsjóðs af fasteignagjöldum. Lögð voru fyrir drög að forsendum til ákvörðunartöku álagningarhlutfalls á fasteignaskatti.
Bæjarráð mun taka afstöðu til álagningarprósentu fasteignagjalda fyrir árið 2026 á næsta fundi.

Horft er til þess að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki um 3,5% eða skv. vísitölu neysluverðs.

Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 3,5%. Í því felst hagræðing á kostnaðarhlið fjárhagsáætlunar, þar sem verðlagsþróun hefur verið umtalsvert hærri.

Stuðst er við sérstaka launaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar, sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga. Með því eykst nákvæmni við áætlun launa.

Aðrir þættir sem gera þarf ráð fyrir í fjárhagsáætlun og hafa verið samþykktir af fjölskyldu- og tómstundaráði eru breytingar á húsnæði Heimaeyjar og rekstrarfé vegna sköpunarhúss.

Þá þarf fjárhagsáætlun að taka mið af kennsluúthlutun fyrir grunnskóla sem fræðsluráð hefur samþykkt.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir samhljóða forsendur fjárhagsáætlunar og að halda áfram undirbúningi skv. þeirri tímalínu sem ráðið samþykkti 9. apríl sl. Bæjarráð samþykkir óbreytt útsvar 14,91% og hækkun almennra rekstrarliða um 3,5%. Einnig samþykkir bæjarráð að hækkanir gjaldskráa, sem tengjast forsendum kjarasamninga, verði 3,5% en aðrar gjaldskrár hækki skv. vísitölu neysluverðs.

Bæjarráð samþykkir jafnframt samhljóða að í fjárhagsáætlun verði gert ráð fyrir breytingum á Heimaey og reiknað verði út rekstrarfé fyrir sköpunarhús í samræmi við tillögur fjölskyldu- og tómstundaráðs. Þá samþykkir ráðið að fjárhagsáætlun taki mið af kennsluúthlutun fyrir grunnskóla sem fræðsluráð hefur samþykkt.
4. 202412014 - Almannavarnarlögn NSL-4
Vatnshópurinn kom saman á fundi þann 29. ágúst sl. ásamt lögmanni. Bæjarstjóri fór þar yfir stöðuna á NSL4 og samtöl við ráðherra varðandi frekari aðkomu ríkisins að fjármögnun lagnarinnar. Bæjarstjóri hefur óskaði eftir fundi vatnshóps með fjármálaráðherra og verður hann 25. september nk.

Niðurstaða
Ráðið þakkar upplýsingarnar.
5. 202503106 - Kjarasamningar KÍ félaga og SÍS 2025-2028
Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir drög að skýrslu faghóps sem skipaður var af bæjarráði á 3236. fundi þann 12. maí 2025. Hópurinn hafði það verkefni að fara yfir tillögur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs um hagræðingar á fræðslusviði og meta, í samráði við skólastjórnendur, hvaða kostir væru í stöðunni m.t.t áhrifa á þjónustu og starfsemi. Vinna hópsins er langt komin og verða endanleg drög lögð fyrir bæjarráð á næsta fundi.

Ýmsar hagræðingar hafa þegar komið til framkvæmda í skólunum frá hausti 2025 sem áætlað er að spari um 27 m.kr. á haustönninni. Áætlaður viðbótarlaunakostnaður fyrir árið 2025 vegna kjarasamninga var áætlaður 110-115 m.kr.en getur orðið nær 140 m.kr. Því er óskað eftir rekstrarviðauka upp á 115 m.kr. til að mæta þessum aukna launakostnaði. Viðaukinn liggur fyrir í sjötta dagskrárlið.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
6. 202502131 - Viðaukar við fjárhagsáætlun 2025
Viðauki 6 lagður fram til samþykktar. Um er að ræða 115 m.kr. rekstrarviðauka vegna viðbótarlaunakostnaðar í tengslum við kjarasamninga. Viðaukinn er fjármagnaður með handbæru fé.

Niðurstaða
Ráðið samþykkir samhljóða viðauka 6.
7. 202207045 - Eygló eignarhaldsfélag um ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum
Sölu á Eygló til Mílu er formlega lokið og hefur Míla greitt fyrstu greiðslu skv. samningi og verður síðari greiðslan greidd innan sex mánaða. Framundan er úttekt á lagningu ljósleiðarastrengja í öll staðföng sem tilgreind eru í áföngum 1 og 2 skv. samningi.

Niðurstaða
Bæjarráð lýsir yfir ánægju með þennan áfanga og þakkar stjórn félagsins vel unnin störf.
8. 202409085 - Styrktarsjóður menningar, lista, íþrótta og tómstunda
Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs lagði til breytingu á reglum sjóðsins (Viltu hafa áhrif). Um er að ræða breytingu á þriðju efnisgrein 6. gr. reglnanna er varðar tímaramma styrkhafa til að skila inn greinargerð um ráðstöfun styrks.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir samhljóða umrædda breytingu og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að uppfæra reglurnar í samræmi við tillögu.
9. 202509014 - Umboð til áritunar á lóðarleigusamninga
Óskað er eftir að bæjarráð veiti Brynjari Ólafssyni, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs umboð til að undirrita lóðaleigusamninga fyrir hönd sveitarfélagsins.

Niðurstaða
Ráðið samþykkir samhljóða að veita umbeðið umboð.
10. 201604034 - Heimgreiðslur
4. mál af 397. fundi fræðsluráðs þann 27. ágúst sl. Ráðið leggur til að viðmiðunartekjur foreldra breytist í upphafi hvers árs um sömu prósentu og almennir rekstrarþættir sveitarfélagsins skv. fjárhagsáætlun, fyrst árið 2026. Mun því 3. gr. í reglum um heimgreiðslur breytast í samræmi við það.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir samhljóða umrædda breytingu á 3. gr. reglna um heimgreiðslur.
11. 202502061 - Fundargerðir til kynningar 2025
Fundargerðir samtaka, nefnda og ráða lagðar fram til kynningar.
625.-fundargerd-SASS_140825.pdf
12. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:00 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove