Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3178

Haldinn í fundarsal Ráðhúss,
09.09.2022 og hófst hann kl. 11:30
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Angantýr Einarsson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202209020 - Fjárhagsáætlun fyrir árið 2023
Ræddar voru forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 og tímalína vinnu við áætlunargerðina. Framundan eru vinnufundir í fagráðum og bæjarstjórn. Jafnframt er gert ráð fyrir að auglýsa og vinna úr umsóknum um "Viltu hafa áhrif?" á næstunni og jafnframt að framkvæmdastjórar skili áætlunum um rekstur og viðhald til fjármálastjóra. Gert er ráð fyrir að bæjarráð afgreiði fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn undir lok októbermánaðar. Undirbúningi áætlunarinnar miðar vel.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er lagt upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 14,46% og að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir áður en áætlunargerðinni lýkur.

Vestmannaeyjabær hefur verið að skoða áhrif lækkunar á álagningaprósentum á tekjur bæjarsjóðs af fasteignagjöldum. Bæjarráð mun þurfa að ákvarða álagningarprósentu fasteignagjalda fyrir árið 2023 á næsta fundi.

Horft er til þess að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki í samræmi við vísitölu neysluverðs. Hins vegar á eftir að taka ákvörðun um gjaldskrár sem snúa að fjölskyldufólki sérstaklega, t.a.m. leikskólagjöld, skólamáltíðir og Frístund.

Stuðst verður við sérstaka launaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar, sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga. Með því eykst nákvæmni við áætlun launa. Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 4%.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir að halda áfram undirbúningi fjárhagsáætlunar á þeim forsendum og skv. þeirri tímalínu sem kynnt var bæjarráði.
2. 201712076 - Innleiðing persónuverndarlaga
Lögð var fyrir samantekt yfir breytingar á innri persónuverndarstefnu Vestmannaeyjabæjar. Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs kynnti fyrir bæjarráði umræddar breytingar.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir umræddar breytingar á innri persónuverndarstefnu Vestmannaeyjabæjar.
Samantekt yfir breytingar á innri persónuverndarstefnu - Vestmannaeyjabær.pdf
Vestmannaeyjabær - Innri persónuverndarstefna - 20.07.22.pdf
3. 201801036 - Ráðhús - endurbygging
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að minnisblaði Ólafs Snorrasonar, framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, um stöðu framkvæmda í Ráðhúsinu. Bæjarráð tók jafnframt fyrir tillögu þess efnis að ljúka framkvæmdum í Ráðhúsinu á þessu ári, innan heildarfjárheimilda Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2023, í stað þess að bíða með lokahluta framkvæmdanna fram á næsta ár.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir tillögu framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs um að halda áfram framkvæmdum í Ráðhúsinu á þessu ári og að fjárheimildir verði færðar milli framkvæmdaliða í fjárhagsáætlun 2023 og langtímaáætlun. Slík tilhögun fjárheimilda mun ekki hafa áhrif á heildarupphæð fjárfestinga í fjárhagsáætluninni.
4. 202207045 - Eygló eignarhaldsfélag um ljósleiðaravæðingu í Vestmannaeyjum
Lögð var fyrir bæjarráð beiðni stjórnar og framkvæmdastjóra Eyglóar ehf., um fjármögnun framkvæmda við lagningu ljósleiðara í þéttbýli Vestmannaeyja og drög að samningi um lánalínu milli Vestmannaeyjabæjar og félagsins að fjárhæð 180 m.kr. Gert er ráð fyrir að lánið verði með 6,25% breytilegum vöxtum (óverðtryggðum). Jafnframt er gert ráð fyrir að endurgreiðsla lánsins hefjist árið 2025, þegar tekjur af afnotagjöldum ljósleiðarins verða komnar til að fullu leyti og að lánið verði að fullu endurgreitt á 10 árum. Um er að ræða fjármögnun tveggja áfanga af sex talsins.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrir sitt leyti umrædda beiðni Eyglóar ehf. og felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka við samninginn á umræddum forsendum, sem unnar voru með aðstoð endurskoðanda Vestmannaeyjabæjar.
5. 202209019 - Eignaskiptayfirlýsing ÍBV og Vestmannaeyjabæjar vegna Hásteinsstúku
Lögð var fyrir til kynningar eignaskiptayfirlýsing Vestmannaeyjabæjar og ÍBV um áhorfendastúku og aðstöðu keppenda, dómara og starfsfólks við Hásteinsvöll.
Eignaskiptasamningur um búningsklefa á Hásteinsvelli.pdf
6. 202209022 - Framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs
Lagt var fyrir bæjarráð mat á umsóknum um starf framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs Vestmannaeyjabæjar. Samkvæmt matinu er Brynjar Ólafsson, verkfræðingur, talinn hæfastur til þess að gegna starfinu.

Alls sóttu 6 einstaklingar um starf framkvæmdastjóra.

Við mat á umsóknum var stuðst við verklagsreglur Vestmannaeyjabæjar við ráðningar starfsfólks og leitað til Hagvangs, utanaðkomandi ráðgjafa, um matið, sem er í samræmi við umræddar verklagsreglur.

Niðurstaða
Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir að ráða Brynjar Ólafsson í starf framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs.

Bæjarráð þakkar umsækjendum áhugann og býður Brynjar velkominn til starfa. Bæjarráð felur bæjarstjóra að undirrita ráðningarsamning við Brynjar f.h. bæjarstjórnar.

Bæjarráð þakkar jafnframt Ólafi Snorrasyni fyrir gott og farsælt starf undanfarin ár og óskar honum velfarnaðar á nýjum vettvangi.
7. 202111091 - Goslokanefnd 2022
Bæjarráð skipar þau Sigurhönnu Friðþórsdóttur, Ernu Georgsdóttur, Hákon Helga Valsson og Þórarinn Ólason í Goslokanefnd fyrir árið 2023. Með nefndinni starfar Jóhann Jónsson, forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar. Goslokanefnd mun starfa náið með afmælisnefnd sem skipuð verður í tilefni þess að árið 2023 verða 50 ár liðin frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár frá eldgosinu í Surtsey. Hákon Helgi forstöðumaður Íþróttamiðstöðvar Vestmannaeyja kemur inn í Goslokanefnd fyrir Grétar Þór Eyþórsson forvera sinn.

Niðurstaða
Bæjarráð vill koma á framfæri þakklæti til fráfarandi goslokanefndar fyrir skipulagningu og umsjón með goslokahátíð Vestmannaeyja árið 2022. Hátíðin tókst með eindæmum vel og einkenndist af fjölbreyttri og skemmtilegri dagskrá. Einnig þakkar bæjarráð öllum þeim fyrirtækjum og einstaklingum sem lögðu hátíðinni lið.
8. 202107103 - Viðburðir árið 2023 í tilefni þess að 50 ár eru liðin frá Eldgosinu á Heimaey og 60 ár frá Surtseyjargosinu
Bæjarráð hefur ákveðið að skipa formlega afmælisnefnd sem annast skipulag og framkvæmd viðburða í tilefni að á árinu 2023 eru 50 ár eru frá eldgosinu á Heimaey og 60 ár síðan eldgosinu í Surtsey lauk. Nefndin mun taka við hlutverki undirbúningsnefndar, sem skipuð var í mars sl. Nefndin mun starfa í náinni samvinnu við Goslokanefnd.


Niðurstaða
Bæjarráð hefur ákveðið að skipa þau; Pál Magnússon, Helgu Jóhönnu Harðardóttur og Margréti Rós Ingólfsdóttur í nefndina. Með nefndinni munu starfa Kári Bjarnason, forstöðumaður Safnahúss, Sigurhanna Friðþórsdóttir, staðgengill forstöðumanns Safnahúss og Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
9. 202110038 - Boðaslóð 8-10, Rauðagerðislóð
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að samningi milli Vestmannaeyjabæjar og Steina og Olla ehf., um niðurrif og uppbyggingu húsnæðis á svokallaðri Rauðagerðislóð við Boðaslóð 8-10. Til stendur að rífa núverandi húsnæði Rauðagerðis og reisa þar ný hús í samræmi við tillögu Steina og Olla, sem samþykkt var að undangenginni auglýsingu um uppbyggingu svæðisins. Í samningnum er kveðið á um ýmsar forsendur við framkvæmdina.

Niðurstaða
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ljúka við samninginn með þeim athugasemdum og viðbótum sem ræddar voru á fundi ráðsins.
10. 202209033 - Ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga
Tekið var fyrir erindi Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um að skipa í svokallaðar milliþinganefndir á vegum samtakanna, á ársþingi sem fram fer á Hornafirði 27.-28. október nk. Um er að ræða nefndir á nokkrum málasviðum.

Niðurstaða
Bæjarráð, f.h. bæjarstjórnar, samþykkir að tilnefna Jónu Sigríði Guðmundsdóttur í fjárhagsnefnd, Pál Magnússon í allsherjarnefnd, Helgu Jóhönnu Harðardóttur í velferðarnefnd, Eyþór Harðarson í atvinnumálanefnd, Hildi Sólveigu Sigurðardóttur í velferðarnefnd og Gísla Stefánsson í mennta- og menningarmálanefnd. Njáll Ragnarsson verður formaður í samgöngunefnd. Þar að auki tilnefnir bæjarráð Írisi Róbertsdóttur, bæjarstjóra, í mennta- og menningarmálanefnd. Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs er falið að upplýsa Samtök sunnlenskra sveitarfélaga um tilnefningar Vestmannaeyjabæjar.
Tölvupóstur frá SASS um ársþing samtakanna á Hornafirði.pdf
Nefndir á ársþingi SASS 2022 23 08 2022.pdf
11. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram fundargerð 585. fundargerð stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var þann 15. ágúst sl.

Jafnframt var lögð fram 912. fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna fundar sem haldinn var þann 26. ágúst sl.
Fundargerð 912. fundar stjórnar Sambandsins.pdf
585.-fundur-stj.-SASS-15-08-2022.pdf
12. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:40 

Til baka Prenta