Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3160

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
09.09.2021 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202108158 - Fjárhagsáætlun 2022
Ræddar voru forsendur fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022. Framundan eru vinnufundir í fagráðum og bæjarstjórn. Jafnframt er gert ráð fyrir að auglýsa og vinna úr umsóknum um "Viltu hafa áhrif?" næstu vikur og að framkvæmdastjórar skili áætlunum um rekstur og viðhald til fjármálastjóra. Gert er ráð fyrir að bæjarráð afgreiði fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn undir lok októbermánaðar. Undirbúningur áætlunarinnar miðar vel.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er lagt upp með að útsvarsprósenta verði óbreytt á milli ára eða 14,46% og að framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir áður en áætlunargerðinni lýkur. Í forsendum er hlutfall af álagningu fasteignaskatta á A flokk húsnæðis (íbúðarhúsnæði) 0,291%, á B flokk (opinberar stofnana) 1,32% og á C flokk (atvinnuhúsnæði) 1,45%.

Gerð er tillaga um að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki um 2,5% í takt við spá um vísitölu neysluverðs á næsta ári. Hins vegar á eftir að taka ákvörðun um gjaldskrár er snúa að fjölskyldufólki sérstaklega, t.a.m. leikskólagjöld, skólamáltíðir og Frístund.

Stuðst verður við sérstaka launaáætlun við undirbúning fjárhagsáætlunarinnar, sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga. Með því eykst nákvæmni við áætlun launa. Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 2,5%.

Niðurstaða
Tillaga:
Meirihluti E og H lista leggur til að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði lækki á milli ára og verði 0,281% á íbúðarhúsnæði (A flokki), 1,32% á opinberar stofnanir (B flokki) og 1,45% á annað húsnæði (C flokki), þ.m.t. atvinnuhúsnæði. Með þessu móti sé komið í veg fyrir að hækkun fasteignamats auki álögur Vestmannaeyjabæjar á íbúa og fyrirtæki.

Tillagan var samþykkt samhljóða.

Bókun frá fulltrúa D lista
Undirrituð fagnar og samþykkir fyrirhugaðar lækkanir á fasteignaskatti líkt og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins hafa áður lagt til á kjörtímabilinu. Undirrituð leggur áherslu á mikilvægi hagræðingar og ráðdeildar í rekstri og leggur því fram eftirfarandi tillögu:
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)

Tillaga frá fulltrúa D lista
Undirrituð leggur til að fallið verði frá ákvörðun meirihluta H og E lista um fjölgun bæjarfulltrúa í hagræðingarskyni en óhjákvæmilegt er að launakostnaður, stærsti einstaki útgjaldaliður sveitarfélagsins vaxi enn frekar á komandi árum vegna þess.

Tillagan var felld með tveimur atkvæðum E og H lista gegn einu atkvæði D lista

Bókun frá fulltrúum E og H lista
Það er ánægjulegt að fulltrúi sjálfstæðisflokksins í bæjarráði samþykkir tillöguna enda gríðarlega mikilvægt að gæta hófs í álögum sveitarfélagsins til þess að gera Vestmannaeyjabæ að aðlaðandi stað fyrir fólk og fyrirtæki.

Undirrituð geta ekki samþykkt tillöguna enda er ekki gert ráð fyrir hærri heildarkostnaði við fjölgun bæjarfulltrúa. Næsta Bæjarstjórn ákveður sjálf laun kjörinna fulltrúa og getur þ.a.l. ákveðið að fara ekki umfram þær fjárheimildir sem lagt er til í fjárhagsáætlun sem eru þær sömu og eru fyrir sjö fulltrúa.
Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)

Bæjarráð samþykkir forsendur fjárhagsáætlunarinnar og þakkar upplýsingarnar. Bæjarráð leggur áherslu á að við gerð fjárhagsáætlunar verði reynt að komast hjá því að auka álögur á bæjarbúa eins og kostur er, án þess að þjónusta skerðist.
Samþykkt samhljóða.

Bókun frá fulltrúa D lista
Ég samþykki forsendurnar en minni á að ákvörðun meirihlutans um fjölgun bæjarfulltrúa kemur til framkvæmda um mitt næsta ár. Ég geri því athugasemd við að ekki hafi verið gert ráð fyrir útgjaldaaukningu vegna þessarar ákvörðunar í forsendum fjárhagsáætlunar. Engin ákvörðun hefur verið tekin um lækkun launa bæjarfulltrúa, áætlanir sveitarfélagsins mega ekki taka mið af ákvörðunum sem hugsanlega verða teknar í framtíðinni heldur af raunstöðunni eins og hún er í dag, annað væri óábyrgt.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)


2. 202109012 - Kjörskrá vegna Alþingiskosninga 25. september 2021
Njáll Ragnarsson vék af fundi undir þessum dagskrárlið.

Bæjarráð fjallaði um undirbúning bæjarskrifstofanna vegna Alþingiskosninga 25. September 2021. Í samráði við yfirkjörstjórn hefur verið ákveðið að kjörstaður fyrir kjósendur í Vestmannaeyjum verði í Barnaskólanum.

Samkvæmt 26. gr. kosningarlaga nr. 24/2000 skal leggja kjörskrá fram til sýnis á bæjarskrifstofum eða öðrum hentugum stað eigi síðar en 10 dögum fyrir kjördag. Bæjarskrifstofunum hefur borist kjörskrá fyrir Alþingiskosningarnar og verður hún til sýnis í afgreiðslu bæjarskrifstofanna við Bárustíg 15, frá 15. september nk.

Samkvæmt 2. mgr. 24. gr. kosningalaga skal kjörskrá undirrituð af oddvita sveitarstjórnar eða framkvæmdastjóra sveitarfélags þegar búið er að semja hana.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra að undirrita kjörskrána.
3. 200809029 - Reglur og samþykktir Vestmannaeyjabæjar
Á síðasta fundi bæjarráðs voru lögð fyrir drög að viðverustefnu Vestmannaeyjabæjar. Ákveðið var á þeim fundi að yfirfara drögin milli funda og samþykkja viðverustefnu á næsta fundi bæjarráðs.

Engar breytingar eru á skjalinu frá útsendum gögnum 3159. fundar bæjarráðs.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir viðverustefnuna og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og mannauðsstjóra að upplýsa forstöðumenn stofnana um saþykki stefnunnar.
Viðverustefna Vestmanannaeyjabæjar (clean).pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:55 

Til baka Prenta