Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3155

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
27.05.2021 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðu flugsamgangna til og frá Vestmannaeyjum. Flugsamgöngur eru mikilvægar fyrir Vestmannaeyjar. Nú hefur um nokkurt skeið verið haldið úti flugsamgöngum með sérstöku framlagi frá samgönguráðuneytinu vegna covid. Það framlag hefur gert Icelandair kleift að fljúga tvisvar sinnum í viku.

Nú ætlar Icelandair að stórauka flugtíðni á markaðslegum forsendum til og frá Vestmannaeyjum og mun ferðum fjölga á næstu dögum. Til stendur að fljúga tvær ferðir á dag, fjóra daga vikunnar, og auðveldar það bæjarbúum og fyrirtækjum til muna að sækja þjónustu til höfuðborgarsvæðisins. Félagið mun kynna Vestmannaeyjar sem ákjósanlegan kost fyrir ferðamenn í sumar.

Frá og með 1. júní nk. mun Herjólfur sigla sjö ferðir milli lands og Eyja alla daga vikunnar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og lýsir ánægju með fjölgun ferða til og frá Vestmannaeyjum og að Icelandair sjái tækifæri í Vestmannaeyjum. Vonandi heldur flugið áfram að vaxa og dafna.

Einnig lýsir bæjarráð ánægju með að frá og með 1. júní verði sigldar sjö ferðir á dag með Herjólfi.
2. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við heilbrigðisráðuneytið og fjármálaráðuneytið um húsnæði Hraunbúða. Viðræðurnar ganga hægt.

Næsti fundur með ráðuneytunum er eftir viku.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
3. 200809029 - Reglur og samþykktir Vestmannaeyjabæjar
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að almennum reglum um birtingu gagna með fundargerðum á vef Vestmannaeyjabæjar.

Jafnframt voru lögð fyrir bæjarráð drög að samþykkt um kjör fulltrúa Vestmannaeyjabæjar vegna nefnda, ráða, stjórna, funda og ráðstefna.

Niðurstaða
Bæjarráð felur þeim Helgu Kristínu Kolbeins, bæjarráðsfulltrúa, Angantý Einarssyni framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs og Ásgeiri Elíassyni, lögfræðingi, að ljúka við reglurnar og samþykktina og leggja fyrir bæjarráð á næsta fundi til samþykktar.
4. 201909001 - Atvinnumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðu vinnu við gerð atvinnustefnu fyrir Vestmannaeyjar. Sérfræðingur hjá Þekkingarsetri Vestmannaeyja (ÞSV), sem verið hefur verkefnastjóri vinnunnar er að láta af störfum og óvissa um aðkomu ÞSV að vinnunni í framhaldi. Komið hafa upp hugmyndir að fella saman vinnu við gerð umhverfisstefnu og atvinnustefnu með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga á þessu sviði.

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs fór yfir stöðu átaksverkefnisins Veldu Vestmannaeyjar. Haft var samband við auglýsingastofuna Hvíta húsið, sem kom að vinnu við átaksverkefnið Vestmannaeyjar, alltaf góð hugmynd, vorið 2020, ásamt Ferðamálasamtökum Vestmannaeyja, um að vinna hugmyndir að Veldu Vestmannaeyjar og nýta hluta af vinnunni við markaðsátakið í fyrra, í þeirri vinnu. Verkefnið verður unnið eftir þeim forsendum sem samþykktar voru í bæjarstjórn í tengslum við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.

Niðurstaða
Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ræða við ÞSV og meta þörfina fyrir hugsanlegri aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga að gerð atvinnustefnu, sem og að kanna þann möguleika að vinna samhliða að gerð atvinnustefnu og umhverfis-auðlindastefnu.

Bæjarráð þakkar upplýsingarnar um stöðu átaksverkefnisins Veldu Vestmannaeyjar og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að óska eftir tillögum og tilboði frá Hvíta húsinu um vinnuna.
5. 202105202 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2021
Framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs kom á fund bæjarráðs og greindi frá viðauka við fjárhagsáætlun 2021, vegna innanhússframkvæmda í Sambýlinu, við Strandveg 26. Til stóð að kaupa innréttingar og húsbúnað í lok síðasta árs og því var ekki áætlað fyrir þeim kaupum í fjárhagsáætlun 2021. Þar sem framkvæmdir á húsnæðinu töfðust þó nokkuð tókst ekki að kaupa umræddan búnað á síðasta ári og því þarf að taka þau kaup inn nú í formi viðauka.

Viðaukinn er að fjárhæð 96,1 m.kr. og verður fjármagnaður með handbæru fé.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs upplýsingarnar og samþykkir framlagðan viðauka nr. 1.
6. 201909118 - Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar
Minnisblað starfshóps um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar:
Lagt var fyrir bæjarráð minnisblað starfshóps framkvæmdastjóra sviðanna sem bæjarstjórn fól þann 3. desember sl., að meta húsnæðisþörf fyrir starfsemi bæjarins og móta tillögur í þeim efnum. Hlutverk starfshópsins er m.a. að meta húsnæðisþörf þeirra stofnana Vestmannaeyjabæjar sem fyrirhugað er að flytji starfsemi sína annað á næstu árum og var starfshópnum falið að leggja fram tillögur um hvernig skuli ráðstafa því húsnæði sem verður til vegna þessa, þ.e. bjóða það til sölu, leigu, annarrar notkunar eða niðurrifs. Í minnisblaðinu eru lagðar fram tillögur um ráðstöfun húsnæðis sem mun losna á næstunni.

Erindi ÞSV um aðkomu að framkvæmdum á 3. hæð Fiskiðjunnar:
Bæjarráð tók fyrir erindi framkvæmdastjórn Þekkingarseturs Vestmannaeyja um aðkomu setursins að framkvæmdum á hluta þriðju hæðar Fiskiðjuhússins. Þekkingarsetur Vestmannaeyja hefur áhuga á að annast framkvæmdir á um 175 fm. hluta hæðarinnar og annast í framhaldi útleigu á sérrými og hlutdeild í sameiginlegu rými auk þess að halda utan um rekstur og þjónustu við leigutaka á þriðju hæðinni.

Niðurstaða
Minnisblað starfshóps um húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar:
Bæjarráð felur húsnæðishópnum að hefja undirbúning á sölu eigna skv. tillögu hópsins þar um, þ.e. sölu á gömlu slökkvistöðinni, sölu Rauðagerðis til niðurrifs og uppbyggingar íbúðarhúsnæðis á svæðinu og sölu 2. hæðar að Strandvegi 30. Í minnislaðinu kemur fram að umrædd hús munu ekki hafa hlutverk í starfsemi Vestmannaeyjabæjar og verða þ.a.l. boðin til sölu. Hvað varðar fjármagn til húsnæðis sem ekki er á fjárhagsáætlun 2021, vísar bæjarráð málinu til vinnu við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2022.

Erindi framkvæmdastjórnar ÞSV um aðkomu að framkvæmdum á 3. hæð Fiskiðjunnar:
Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að ræða formlega við Þekkingarsetur Vestmannaeyja um aðkomu setursins að framkvæmdum og útleigu á þriðju hæð Fiskiðjuhússins.
Minnisblað um húsnæðisþörf og tillögur um ráðstöfun húsnæðis í eigu Vm.bæjar - lokaeintak.pdf
Erindi ÞSV til bæjarráðs um framkvæmdir á 3 hæð Fiskiðjunnar.pdf
7. 202005044 - Fjögurra mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar
Drög að fjögurra mánaða uppgjöri Vestmannaeyjabæjar var lagt fram fyrir bæjarráð. Enn fremur var rekstraryfirlit 30. apríl 2021 kynnt fyrir bæjarráð þar sem bókfærð niðurstaða er borin saman við fjárhagsáætlun 2021.

Aðalsjóður:
Tekjur aðalsjóðs (A hluta)fyrstu fjóra mánuðina nema 1.697.713.150 kr. Þar af nemur útsvar 889.564.394 kr.
Gjöld aðalsjóðs (A hluta) nema 1.675.129.159 kr. Þar af nema laun og launatengd gjöld 784.020.768 kr.
Rekstrarafgangur nemur því 22.584.487 kr.

Samstæða:
Rekstrarafgangur samstæðunnar fyrstu fjóra mánuði ársins nemur 53.569.380 kr.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
8. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Í samráðgátt stjórnvalda liggur fyrir til umsagnar svokölluð Hvítbók um byggðamál. Lögum samkvæmt skal ráðherra leggja fram endurskoðaða áætlun á að minnsta kosti þriggja ára fresti og í júní 2021 verða þrjú ár liðin frá samhljóma samþykkt Alþingis á gildandi byggðaáætlun. Byggðaáætlun er lýsing á stefnu ríkisins í byggðamálum hverju sinni og samhæfing við aðra stefnumótun og áætlanagerð hins opinbera. Byggðaáætlun skal hafa að meginmarkmiði að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðalaga um land allt.

Umsagnarfrestur er til og með 31. maí 2021.
Beiðni um umsögn um hvítbók um endurskoðun byggðaáætlunar.pdf
9. 201707008 - Málefni Herjólfsbæjar í Herjólfsdal
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að samningi við Eyjatours um framtíðarsýn og rekstur Herjólfsbæjar.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir samninginn og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að undirrita hann f.h. Vestmannaeyjabæjar.
10. 202101038 - Dagskrá bæjarráðs
Formaður bæjarráðs lagði fram drög að dagskrá bæjarráðs fyrir næstu tólf mánuði.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi drög að dagskrá bæjarráðs.
11. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:40 

Til baka Prenta