Fundargerðir

Til baka Prenta
Fjölskyldu- og tómstundaráð - 265

Haldinn í fundarsal Rauðagerðis,
03.06.2021 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Helga Jóhanna Harðardóttir formaður,
Hrefna Jónsdóttir varaformaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Esther Bergsdóttir aðalmaður,
Hafdís Ástþórsdóttir aðalmaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Silja Rós Guðjónsdóttir starfsmaður sviðs.
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 200704150 - Fundargerð barnaverndar fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð
Fundargerð barnaverndar er færð í sérstaka trúnaðarmálabók

Niðurstaða
Fundargerð barnaverndar er færð í sérstaka trúnaðarmálabók. Um er að ræða fullnaðarafgreiðslu skv. viðauka IV við bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjar nr. 991/2020.
2. 200704148 - Fundargerð trúnaðarmála fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð.
Undir þennan lið falla trúnaðarmál sem lögð eru fyrir ráðið og eru færð í sérstaka trúnaðarmálabók.

Niðurstaða
Fundargerð trúnaðarmála er færð í sérstaka trúnaðarmálabók. Um er að ræða fullnaðarafgreiðslu skv. viðauka IV við bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjar nr. 991/2020.
3. 202104149 - Verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna
Yfirfélagsráðgjafi kynnti nýtt verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna. Verklagið er hliðarafurð tilraunaverkefnisins "Aðgerðir gegn ofbeldi" og var unnið af yfirfélagsráðgjafa og fræðslufulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Verklagið er fyrir Grunnskólann, leikskólana, Framhaldsskólann, Tónlistarskólann, Frístund og félagsmiðstöðina. Verklagið verður kynnt starfsfólki viðkomandi stofnana í haust.

Niðurstaða
Ráðið þakkar kynninguna og telur það jákvætt að verið sé að samræma verklag vegna gruns um ofbeldi, vanrækslu eða áhættuhegðun barna.
4. 201910049 - Öldrunarþjónusta Vestmannaeyjabæjar
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og tómstundaráðs leggur fram samþykkta áhersluþætti Vestmannaeyjabæjar í málaflokki aldraðra fram til umræðu.

Niðurstaða
Í stefnunni kemur fram að mikilvægt sé að farið sé yfir markmið hennar á hverju ári. Nú þegar hafa nokkrir þættir hennar breyst eftir að rekstur Hraunbúða er ekki lengur á vegum sveitarfélagsins. Mikilvægt er að uppfæra stefnuna og leggja upp kostnaðaráætlun fyrir næsta ár út frá því hvaða leiðir skal fara til að ná þeim markmiðum sem sett eru. Ráðið þakkar umræðuna og tekur málið aftur upp þegar unnið verður að fjárhagsáætlun næsta árs.
5. 201902114 - Fundargerðir öldungaráðs Vestmannaeyjabæjar
Fundargerð öldungaráðs frá 25.02.2021 lögð fram til kynningar.

Niðurstaða
Ráðið leitaði eftir áliti öldungaráðs er varðar heilsueflingu fyrir eldri borgara. Ráðið þakkar kynninguna og vekur athygli á mikilvægi þess að leita ráða til Öldungaráðs því þeirra verkefni er að vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn og gæta hagsmuna eldri borgara.
Fundur í öldungaráði250521.pdf
6. 201811022 - Heilsuefling fyrir eldri borgara
Framhald af 4. máli 263. fundar fjölskyldu- og tómstundaráðs.

Niðurstaða
Fyrir liggur boð um nýjan samstarfsamning við Janus-heilsuefling um heilsueflingar- og rannsóknarverkefnið "Fjölþætt heilsuefling 65 plús í Vestmannaeyjum". Ráðið samþykkir fyrir sitt leiti erindið enda er það mikilvægt forvarnarverkefni sem hjálpar til við meginmarkmið laga um félagsþjónustu að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi og velferð íbúa. Góð heilsa tryggir hæfni eldri borgara til að geta búið eins lengi og unnt er í heimahúsum og við sem eðlilegast heimilislíf. Ráðið felur framkvæmdastjóra sviðs að leita heimilda fyrir fjármagni til að tryggja áframhald verkefnisins.
7. 202011027 - Heimsendur matur til þjónustuþega stuðningsþjónustu og stofnana Vestmannaeyjabæjar
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs gerði grein fyrir þróun heimsends matar til þjónustuþega stuðningsþjónustu og til stofnana Vestmannaeyjabæjar. Fyrir liggur mun meiri aukning á þjónustunni en áætlun gerir ráð fyrir og virðist áhrif Covid hafa fest í sessi meiri nýtingu á þessari þjónustu, fjölgun þjónustuþega og stöðugri nýtingu á heimsendum mat. Fyrir tíma Covid var heildarfjöldi skammta um 9 - 10 þúsund á ári. Mikil aukning varð árið 2020 sem sett var í samhengi við Covidástand. Búist var við að þróunin færi til baka þegar drægi úr áhrifum Covid. Það hefur ekki gerst heldur fjölgar þeim sem nýta sér umrædda þjónustu og stefnir í tvöföldun matarskammta frá því fyrir tíma Covid. Ef fram heldur mun þessi þróun leiða til þess að fjárhagsáætlun vegna heimsends matar stenst ekki.

Niðurstaða
Vestmannaeyjabær vill standa vörð um nauðsynlega þjónustu sem tryggja á félagslegt öryggi íbúa. Heimsendur matur til þjónustuþega stuðningsþjónustu Vestmannaeyjabæjar er mikilvægur þáttur í þeirri þjónustu og samræmist stefnu bæjarins í að gera fólki kleift að búa sem lengst í heimahúsum og við sem eðlilegst heimilislíf. Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að gera viðeigandi aðilum grein fyrir stöðu mála.
8. 202105241 - Málefni dagdvalar
Framkvæmdastjóri fjölskyldu- og tómstundaráðs fer yfir starfsemi og húsnæðismál dagdvalar í framhaldi af 3. máli 263. fundar fjölskyldu- og tómstundaráðs. Fyrir liggur stefna Vestmannaeyjabæjar um að finna dagdvöl annað og hentugra húsnæði auk þess sem fyrir liggur að núverandi aðstaða dagdvalar er sprungin og þarfnast annað húsnæði. Lagt er til að kanna með leigu á hluta húsnæðis að Vestmannabrautar 58b (Sambýlið) undir starfsemi dagdvalar og hluta sem félagslegar leiguíbúðir.

Niðurstaða
Framkvæmdastjóri fór vel yfir stöðu mála og svaraði fyrirspurnum ráðsmanna. Ráðið þakkar kynninguna og gerir sér grein fyrir alvarleika málsins. Lagt er til að ráðið fari vel yfir þær upplýsingar sem komu fram á fundinum og kynni sér málið vel og taki afstöðu á næsta fundi.
9. 200703210 - Félagslegar leiguíbúðir Vestmannaeyjabæjar
Fjölgun umsókna um félagslegt leiguhúsnæði og sala Vestmannaeyjabæjar á óhentugu húsnæði innan félagslega leiguhúsnæðisins hefur leitt af sér að brýn þörf er finna ný og hentug húsnæði. Framkvæmdastjóri sviðs fer yfir stöðu mála og hugmyndir að lausnum.

Niðurstaða
Ráðið þakkar kynninguna og svör við fyrirspurnum ráðsmanna. Ráðið tekur undir nauðsyn þess að fundin sé lausn á húsnæðismálum fólks í félagslegum vanda. Ráðsmenn munu gefa sér tíma og fari vel yfir þær upplýsingar sem komu fram á fundinum og lagt er til að málið verði tekið aftur fyrir á næsta fundi ráðsins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:07 

Til baka Prenta