Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1602

Haldinn í Ráðhúsinu,
25.01.2024 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Páll Magnússon forseti,
Óskar Jósúason 3. varamaður,
Hildur Rún Róbertsdóttir 1. varamaður,
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Helga Jóhanna Harðardóttir boðaði forföll og í hennar stað mætti Hildur Rún Róbertsdóttir. Margrét Rós Ingólfsdóttir boðaði einnig forföll og í hennar stað mætti Óskar Jósúason.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðuna í samgöngumálum við Vestmannaeyjar sem hefur verið mjög þung undanfarna mánuði, siglingar í Landeyjahöfn hafa verið mikið skertar og höfnin oft lokuð vegna dýpis. Bæjarráð hefur óskað eftir gögnum frá Vegagerðinni um ástæður þess að illa gengur að dýpka.

Höfnin er ekki tilbúin og ef Landeyjahöfn á að vera samgöngumáti Vestmannaeyinga þarf að ljúka við framkvæmdina á höfninni til þess að hún nái þeim markmiðum sem sett voru í upphafi um nýtingu hennar. Það er ekki bara dýpið sem truflar heldur líka ölduhæðin sem orsakar frátafir í siglingum og mæta ekki þeim viðmiðum sem sett voru í upphafi.

Kjörnir fulltrúar eru í miklum samskiptum við yfirvöld sem stýra þessum málaflokki. Samgönguyfirvöld bera ábyrgð og eiga að tryggja samgöngur við Eyjar. Reglulegir fundir eru með Vegagerðinni, ráðherrum, þingnefndum og öllum þeim sem málið varða. Alltaf er verið að ræða þessi mál.

Í næstu viku mun innviðaráðherra og vegamálastjóri mæta á íbúafund um samgöngur og eru bæjarbúar hvattir til að fjölmenna, enda fundurinn hugsaður fyrir þá til að eiga milliliðalaust samtal við þá ráðamenn sem bera ábyrgð á samgöngum Vestmannaeyinga. Það er nauðsynlegt að við vinnum þetta saman sem samfélag og höldum þrýstingnum á stjórnvöldum um bættar samgöngur.

Starfshópur er í gangi sem innviðaráðherra skipaði og á hann að klára matið á fýsileika gangna til Eyja, bæði fjárhagslegan og framkvæmdarlega. Það er mjög brýnt að niðurstaða komi sem fyrst frá þeim hópi svo hægt sé að stíga næstu skref í samgöngum til framtíðar.

Vestmannaeyingum hefur undanfarin ár verið lofað ríkisstyrktu flugi og loksins hillir undir það næsta haust og þá er hægt að hætta þeim vandræðagangi af hálfu ríkisins sem verið hefur á hverjum vetri undanfarið ár varðandi flugið.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson, Gísli Stefánsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Njáll Ragnarsson

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Vestmannaeyja lýsir yfir verulegum vonbrigðum með stöðu dýpkunarmála við Landeyjahöfn og skorar á samgönguyfirvöld að taka almennilega á málaflokki samgangna við Vestmannaeyjar.

Landeyjahöfn
Fyrirheit um nýtingu hafnarinnar fyrir ferjusiglingar hafa því miður ekki staðist. Ofan á slæmar aðstæður og veðurfar, gengur afleitlega að halda höfninni opinni eins og vænta mætti miðað við kostnað við dýpkun hafnarinnar. Engar haldbærar skýringar liggja fyrir hvers vegna dýpkun gengur jafn illa yfir veturinn og raun ber vitni. Það hlýtur að vera krafa Vegagerðarinnar að samningsaðilar uppfylli sínar skyldur við dýpkun hafnarinnar. Landeyjahöfn er ófær til siglinga stóran hluta vetrarins, með miklu óhagræði og skerðingu ferðafrelsis fyrir íbúa og atvinnulíf en ferðaþjónustan í Vestmannaeyjum liggur af þeim sökum nær alveg niðri stóran hluta ársins sem verður að teljast óásættanlegt í ljósi þess sem lagt var upp með framkvæmdinni í upphafi.

Flugsamgöngur
Flugsamgöngur við Vestmannaeyjar eru bráðnauðsynlegar yfir vetrartímann og þeim mun mikilvægari þegar siglingar liggja niðri til Landeyjahafnar líkt og verið hefur stóran hluta síðasta vetrar. Ítrekað hafa bæjaryfirvöld bent á öll þau rök sem snúa að mikilvægi áætlunarflugs til Eyja. Ekki hefur vantað skilning ráðherra og þingmanna á þeim rökum, en sárlega hefur vantað eftirfylgni til að láta það raungerast. Áætlunarflug er m.a. afar mikilvægt fyrir íbúa til að sækja sér ýmsa þjónustu sem ekki er í boði í heimabyggð, þ.á.m. grunnheilbrigðisþjónustu, fyrir atvinnulífið til að fá liðsauka og svo ýmsa þjónustu fyrir þá einstaklinga sem eiga erfitt með löng ferðalög.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja væntir þess að ráðamenn muni fjölmenna á íbúafund um samgöngumálin þann 30. janúar nk. í Eyjum. Þar þurfa Eyjamenn að geta fengið svör og skýringar við þeim vandamálum sem við blasa í samgöngumálum og einnig hver áform samgönguyfirvalda eru til að bæta stöðuna til framtíðar.

Páll Magnússon (sign.)
Hildur Rún Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Óskar Jósúason (sign.)
2. 202311142 - Tjón á neysluvatnslögn
Ágreiningur er á milli Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna um þær skyldur og ábyrgð sem HS Veitur bera á viðgerð og viðhaldi vatnslagnarinnar, skv. samningum og lögum þar að lútandi. Tekið skal fram að þessi ágreiningur hefur ekki haft áhrif á að allt er gert sem mögulegt er til að treysta lögnina og hafa á takteinum viðgerðaráætlun ef hún brestur. Aðilar hafa verið í stöðugum samskiptum vegna þessa ágreinings um margra vikna skeið og nú er innviðaráðuneytið komið að málinu til að freista þess að ná niðurstöðu. Aðgerðastjórn Vestmannaeyjabæjar vinnur að lokafrágangi viðbraðgsáætlunar með almannavarnadeild Ríkislögreglustjóra og öðrum hagaðilum. Liður í þeirri viðbragðsáætlun er að tengja RO vélar við veitukerfi bæjarins.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tók til máls: Eyþór Harðarson
3. 202311149 - Umræða um náttúruhamfarir í Grindavík og afleiðingar þeirra.

Niðurstaða
Tillaga til staðfestingar

Mikil óvissa ríkir um þróun mála í Grindavík eins og staðan er í dag og má gera ráð fyrir að svo verði áfram um einhvern tíma. Áríðandi er að leysa úr þeim brýna vanda sem íbúar og fyrirtæki standa frammi fyrir, m.a. varðandi húsnæði og aðra aðstöðu. Bæjarstjórn felur bæjarstjóra og framkvæmdastjórum sveitarfélagsins að fara yfir þá möguleika til aðstoðar sem eru til staðar í Eyjum. Grindvíkingar sýndu Eyjamönnum mikinn stuðning í gosinu 1973 og ekki síst í því ljósi er ríkur vilji hjá bæjarstjórn að létta undir með Grindvíkingum í þeim mikla vanda sem við blasir.

Við umræðu um málið tók til máls: Íris Róbertsdóttir

Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Drífa Gunnarsdóttir, fundarritari vék af fundi í 4. máli og ritaði Brynjar Ólafsson, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs fundargerð í hennar stað.
4. 202401108 - Ráðning framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Á 3208. fundi bæjarráðs Vestmannaeyja þann 9. janúar sl. var mál um ráðningu framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs tekið fyrir.

Fyrir bæjarráði lágu vinnugögn úr ráðningarferli vegna stöðu framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs. Bæjarráð hefur tekið þátt í ráðningarferlinu ásamt starfsmönnum sveitarfélagsins og ráðgjafa frá Vinnvinn. Ferlið var unnið skv. verklagsreglum um ráðningar hjá Vestmannaeyjabæ.


Tillaga frá bæjarráði

Eftir ítarlegt ráðningarferli samþykkir bæjarráð að gera tillögu til bæjarstjórnar um að ráða Drífu Gunnarsdóttur í starf framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Fundargerðir
5. 202312002F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 297
Liðir 1-2 liggja fyrir til upplýsinga.
6. 202312005F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 394
Liðir 1-4 liggja fyrir til upplýsinga.
7. 202312003F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3206
Liðir 1-6 liggja fyrir til upplýsinga.
8. 202312009F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 380
Liður 1 liggur fyrir til upplýsinga.
9. 202312011F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 299
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
10. 202312018F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3207
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
11. 202401002F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3208
Liður 5, Jafnréttisáætlun Vestmannaeyjabæjar, liggur fyrir til staðfestingar.

Liður 6, Ný persónuverndarlög, liggur fyrir til staðfestingar.

Liðir 1-4 og 7-9 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Liður 5, Jafnréttisáætlun Vestmannaeyjabæjar, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 6, Ný persónuverndarlög, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
12. 202401005F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 300
Liðir 1-4 liggja fyrir til upplýsinga.
13. 202401007F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 395
Liður 1, Breytt aðalskipulag Vestmannaeyja - Nýir reitir fyrir hafnarsvæði, lagður fram til staðfestingar.

Liður 2, AT-2-skipulagsbreytingar, lagður fram til staðfestingar.

Liður 3, Lagfæring á vatnslögn-Óveruleg breyting á aðalskipulagi, lagður fram til staðfestingar.

Liður 4, Tangagata 10 - Breyting á deiluskipulagi vegna niðurrifs og bílakjallara, lagður fram til staðfestingr.

Liður 6, Gjaldskrá vegna skipulags- og byggingarmála 2024, lagður fram til staðfestingar.

Liðir 5 og 7 lagðir fram til upplýsinga.

Niðurstaða
Undir lið 1 tóku til máls Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Njáll Ragnarsson, Eyþór Harðarson og Íris Róbertsdóttir
Liður 1, Breytt aðalskipulag Vestmannaeyja - Nýir reitir fyrir hafnarsvæði, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 2, AT-2-skipulagsbreytingar, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 3, Lagfæring á vatnslögn-Óveruleg breyting á aðalskipulagi, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 4, Tangagata 10 - Breyting á deiluskipulagi vegna niðurrifs og bílakjallara, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 6, Gjaldskrá vegna skipulags- og byggingarmála 2024, var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
14. 202401001F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 299
Liðir 1-2 liggja fyrir til upplýsinga.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 18:29 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove