Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1604

Haldinn í Ráðhúsinu,
21.03.2024 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Margrét Rós Ingólfsdóttir aðalmaður,
Helga Jóhanna Harðardóttir aðalmaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Páll Magnússon aðalmaður,
Rut Haraldsdóttir 1. varamaður,
Erlingur Guðbjörnsson 1. varamaður,
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Njáll Ragnarsson var fjarverandi og í hans stað mætti Erlingur Gubjörnsson, 1. varamaður E lista.
Hildur Sólveig Sigurðardóttir var fjarverandi og í hennar stað mætti Rut Haraldsdóttir, 1. varamaður D lista.

Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, bar upp í upphafi fundar tillögu um að taka inn með afbrigðum fundargerð 3212. fundar bæjarráðs, sem haldinn var fyrr í dag. Tillagan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202402069 - Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2023
-FYRRI UMRÆÐA-

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri gerði grein fyrir ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2023 í framsögu. Jafnframt gerði hún grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Rut Haraldsdóttir, Helga Jóhanna Harðardóttir, Eyþór Harðarson, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir og Páll Magnússon

Bókun bæjarfulltrúa E og H lista

Rekstrarniðurstaða Vestmannaeyjabæjar á árinu 2023 er afar góð. Niðurstaða samstæðu bæjarins (A- og B- hluta) er jákvæð um 564 m.kr. sem er um 400 m.kr. umfram áætlun og 530 m.kr betri en árið á undan.
Rekstrarafkoma A- hluta er jákvæð um 231 m.kr og um 409 m.kr. fyrir afskriftir og fjármagnsliði sem sýnir að rekstur bæjarins er sjálfbær í erfiðu rekstrarumhverfi sveitarfélaga.
Fjárfestingar bæjarins hafa aukist á árinu og þær hafa allar verið fjármagnaðar af eigið fé og ekki hefur komið til lántöku.

Undanfarin ár hefur markvisst verið unnið að því að greiða niður skuldir bæjarsjóðs sem gerir það að verkum að skuldastaða bæjarins er töluvert betri en flestra annarra sveitarfélaga. A- hluti (sveitarsjóður) verður skuldlaus við fjármálastofnanir á yfirstandandi ári.
Ársreikningurinn endurspeglar vel fjárhagslegan styrk sveitarfélagsins sem er vel í stakk búið að standa undir framtíðaruppbyggingu.
Fjármálastjórnun bæjarins er fagleg, vel ígrunduð og með hagsmuni íbúa að leiðarljósi. Framtíðarhorfur samfélagsins eru bjartar.

Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Páll Magnússon (sign).
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign).
Erlingur Guðbjörnsson (sign.)

Bókun bæjarfulltrúa D lista

Það er ljóst að samstillt átak bæjarstjórnar hefur skilað jákvæðri rekstrarniðurstöðu A- hluta fyrir 2023. Niðurstaðan 2022 var neikvæð og voru það mikil vonbrigði eins og fulltrúar Sjálfstæðisflokksins bentu á.

Niðurstaðan telst ásættanleg á tímum sem þessum þegar kröfur til sveitarfélaga eru meiri en oft áður, sér í lagi þegar litið er til þeirra ábyrgða sem ríkið hefur velt yfir á sveitarfélögin undanfarin misseri. Þrátt fyrir jákvæða niðurstöðu í A-hluta verður mjög krefjandi að fjármagna komandi verkefni bæjarfélagsins og brýnt að stöðugt sé leitað leiða til að auka skilvirkni í rekstrinum og veita góða þjónustu án þess að auka útgjöldin. Þar munum við leggja okkar af mörkum sem fyrr.

Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
Rut Haraldsdóttir (sign.)


Páll Magnússon, forseti bæjarstjórnar, bar upp niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2023:

a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði (jákvæð) kr. 176.276.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 231.428.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 14.402.948.000
Eigið fé kr. 8.138.832.000

Samstæða Vestmannaeyjabæjar

Afkoma fyrir fjármagnsliði (jákvæð) kr. 542.471.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 564.108.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 17.325.368.000
Eigið fé kr. 11.100.293.000

b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 205.726.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 230.026.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 2.647.997.000
Eigið fé kr. 2.423.721.000

c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 18.438.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 903.140.000
Eigið fé (neikvætt) kr. -50.568.000

d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 94.282.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 66.850.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 730.518.000
Eigið fé kr. 477.892.000

e) Ársreikningur Vatnsveitu 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 320.000.000
Eigið fé kr. 0

f) Ársreikningur Vestmannaeyjaferjunar Herjólfs ohf 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 55.360.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 67.534.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 470.936.000
Eigið fé kr. 268.354.000

g) Ársreikningur Náttúrustofu Suðurlands 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -9.930.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -9.930.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 17.896.000
Eigið fé kr. 16.833.000

h) Ársreikningur Eyglóar eignarhaldsfélags ehf. 2023:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 2.320.000
Rekstrarafkoma ársins (neikvæð) kr. -21.800.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 612.162.000
Eigið fé (neikvæð) kr. -24.272.000


Samþykkt með níu samhljóða atkvæðum að vísa ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2023 til síðari umræðu í bæjarstjórn og til endurskoðunar.
2. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Haldinn var íbúafundur um samgöngumál þann 13. mars sl. Innviðaráðherra og vegamálastjóri fluttu erindi um stöðu samgangna við Vestmannaeyjar. Fram kom á fundinum að ríkisstyrkt flug er komið í útboðsferli og hefst það næsta vetur en það er til þriggja ára.

Vegagerðin vill að danska straumfræðistofan DHI verði fengin til frekari rannsókna og könnunar á aðstæðum í Landeyjahöfn.

Einnig kom fram að hugmyndir eru uppi um það hjá Vegagerðinni að færa ós Markarfljóts 2-4 km frá höfninni til austurs til að minnka sandburð.

Ráðherraskipaður vinnuhópur um göng milli lands og Eyja er að störfum og stefnir hópurinn á að skila af sér í maí.

Fundurinn var mjög vel sóttur og nýttu fundargestir sér það að innviðaráðherra og vegamálastjóri sátu fyrir svörum seinni hluta fundarins ásamt yfirmanni hafnarmála hjá Vegagerðinni.

Mikil umræða var um dýpkun í og við Landeyjahöfn og þung áhersla lögð á það hjá fundarmönnum og fulltrúum Vestmannaeyjabæjar að sú staða sem uppi var í vetur sé ekki ásættanleg . Skorað var á Vegagerðina að bæta ástandið en liður í því er að dýpkunaraðilinn standist útboðsskilmála varðandi afköst við dýpkun. Fram kom hjá Vegagerðinni að verið væri að skoða útboðsmál.

Bæjarstjórn fundaði með ráðherra og vegamálastjóra fyrir fundinn og kom vel á framfæri þeim kröfum og áhyggjum sem íbúar í Eyjum hafa af samgöngunum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Helga Jóhanna Harðardóttir, Eyþór Harðarson og Gísli Stefánsson

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn ítrekar að þeim kröfum sem fram komu á íbúafundinum verði fylgt eftir og sér í lagi að gengið verði þannig frá dýpkunarmálum í Landeyjahöfn að íbúum Vestmannaeyja verði ekki boðið upp á annan vetur sambærilegan þessum. Við treystum því að þingmenn kjördæmisins sem eiga að gæta okkar hagsmuna fylgi kröfum fundarins eftir af fullum þunga.

Páll Magnússon (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Rut Haraldsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
Erlingur Guðbjörnsson (sign.)
3. 202311142 - Tjón á neysluvatnslögn
Rut Haraldsdóttir vék af fundi.

Fulltrúar Vestmannaeyjabæjar hafa verið í samtali við innviðaráðuneytið varðandi viljayfirlýsingu milli Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna. Aðilar funduðu í gærmorgun og fóru yfir drög að viljayfirlýsingu sem snýr að viðbrögðum við tjóninu á vatnslögninni, lagningu nýrrar vatnsleiðslu í samráði við HS Veitur og frekari framtíðarsýn fyrir vatnsveituna.

Vestmannaeyjabær hefur fengið Garðar Jónsson ráðgjafa til að taka út rekstur vatnsveitunnar og er sú vinna hafin.

Ríkið hefur skrifað undir viljayfirlýsingu um að koma að nýrri vatnslögn. Vatnsgjöld á íbúa í Vestmannaeyjum eru mjög há og mikilvægt að bregðast við því. Gjaldskrá vatnsveitunnar í Eyjum er margfalt hærri en á Suðurnesjum þrátt fyrir að um sama eiganda veitnanna sé að ræða.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir og Eyþór Harðarson

Afgreiðslutillaga

Tjón sem varð á vatnslögninni í nóvember 2023 er verulegt. Vátryggingafélag útgerðarinnar hefur viðurkennt bótaskyldu að tilteknu lögbundnu hámarki og koma bætur til greiðslu á árinu 2024. Ljóst er að tjónið er umfram hámark vátryggingabóta. Bæjarstjórn samþykkir að leitast við, í samstarfi við  HS Veitur, eiganda vatnsveitunnar, að sækja frekari bótagreiðslur til útgerðarinnar til að tryggja skaðleysi íbúa Vestmannaeyjabæjar vegna tjónsins.

Tillagan samþykkt með átta samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn felur bæjarráði að ganga frá viljayfirlýsingu við HS Veitur byggða á drögum sem liggja fyrir frá innviðaráðuneytinu og snúa að áframhaldandi vinnu vegna tjóns á vatnslögninni, lagningu nýrrar vatnsleiðslu í samráði við HS Veitur og frekari framtíðarsýn fyrir vatnsveituna. Mikilvægt er að vinnan gangi hratt og vel.

Tillagan samþykkt með átta samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
4. 201909059 - HS - veitur, hækkanir á gjaldskrá
Mikið hefur verið fjallað um hækkun á húshitunarkostnaði í Vestmannaeyjum undanfarna mánuði enda hækkuðu HS Veitur hann um 33% á fjórum mánuðum. Fyrst var hækkun á gjaldskrá og lækkun á hitastigi vatns í september sl. sem samsvaraði 15% hækkun á húshitunarkostnaði og svo í annað sinn um áramótin þar sem 18% gjaldskrárhækkun kom til. Orkustofnun og Orkumálaráðuneyti hafa staðfest umræddar hækkanir.

Samkvæmt samantekt Byggðastofnunar fyrir árið 2023 er Vestmannaeyjabær stærsta sveitarfélagið sem býr við svo háan húshitunarkostnað, sem hefur hækkað enn frekar frá því að samantektin var gerð. Þá er Vestmannaeyjabær með hæsta húshitunarkostnað á landinu þar sem notast er við rafkyntar fjarvarmaveitur.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Helga Jóhanna Harðardóttir, Eyþór Harðarson og Gísli Stefánsson

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn óskar ef því við Orkustofnun og Orkumálaráðuneytið að Vestmannaeyjabær fái rökstuðning og allar þær upplýsingar sem lágu til grundvallar við samþykkt gjaldskráhækkana HS Veitna á heitu vatni sl. mánuði upp á samtals 33%.

Bæjarstjórn skorar á HS Veitur að halda íbúafund og útskýra fyrir bæjarbúum þær hækkanir á gjaldskrá sem fyrirtækið hefur gripið til í Vestmannaeyjum undanfarna mánuði. Ekki hafa allar rafkyntar fjarvarmaveitur á landinu hækkað gjaldskrá sína vegna skerðinga á raforku eins og HS Veitur hafa gert.

Það er með öllu óskiljanlegt og mikil vonbrigði hvernig íbúum þessa lands er mismunað með þeim hætti sem kemur fram í gjaldskrám fyrir húshitun á landsbyggðinni. Núverandi staða er óásættanleg fyrir íbúa Vestmannaeyja og gerir bæjarstjórn kröfu til þingmanna kjördæmisins að þeir knýi fram breytingar á þeirri löggjöf sem gildir um rafkyntar fjarvarmaveitur.

Tillagan samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
5. 201006074 - Kosning í ráð, nefndir og stjórnir skv. 42. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar.
Samkvæmt 1. tl. D-liðar 42. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 991/2020, skipar bæjarstjórn aðal- og varastjórn Herjólfs ohf. Bæjarstjórn hefur ákveðið að skipa neðangreinda einstaklinga í stjórn Herjólfs ohf:

Aðalmenn:
Pál Scheving, formann
Guðlaug Friðþórsson
Agnesi Einarsdóttur
Helgu Kristínu Kolbeins
Sigurberg Ármannsson

Varamenn:
Rannveigu Ísfjörð
Sæunni Magnúsdóttur

Niðurstaða
Samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Bæjarstjóra er falið að leggja ofangreinda aðila til í framboði til stjórnar á aðalfundi Herjólfs.
Fundargerðir
6. 202402009F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 382
Liður 2, Heimgreiðslur, liggur fyrir til umræðu.
Liðir 1 og 3-4 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Undir lið 2 (sjá bókun fræðsluráðs í lið 6.2 fyrir neðan) tóku til máls: Eyþór Harðarson, Íris Róbertsdóttir og Helga Jóhanna Harðardóttir

Bókun bæjarfulltrúa D lista

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í fræðsluráði gerðu ítrekað athugasemdir við þá leið sem ákveðin var að fara í þessu máli en þau varnaðarorð voru hunsuð. Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins taka undir bókanir fulltrúa flokksins í fræðsluráði vegna málsins og hvetjum við til þess að málið sé í sífelldri endurskoðun.

Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
Rut Haraldsdóttir (sign.)

Bókun bæjarfulltrúa E og H lista

Meirihluti E og H lista tekur undir bókun meirihlutans í ráðinu. Ekki komin mikil reynsla á þetta fyrirkomulag eða aðeins 1 mánuður. Nú þegar hafa foreldrar þriggja barna afþakkað leikskólapláss í bili á meðan þeir þiggja heimgreiðslur sem var eitt af markmiðunum með þessari aðgerð. Ekki er tímabært að fara aftur í fyrra horf, heldur verður málið tekið upp í haust eins og þegar var búið að ákveða í fræðsluráði.

Páll Magnússon (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir(sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Erlingur Guðbjörnsson ((sign.)


LIÐIR ÚR FUNDARGERÐ FRÆÐSLURÁÐS

6.2. 201604034 - Heimgreiðslur
Framkvæmdastjóri gerir grein fyrir stöðu heimgreiðslna eftir breyttar reglur sem tóku gildi 1. janúar sl. Í janúar lágu fyrir 14 umsóknir um heimgreiðslur fyrir börn sem eru orðin 12 mánuða gömul og á biðlista eftir leikskólaplássi. Af þeim fengu 7 fulla heimagreiðslu og 4 hlutagreiðslu. Þrír af umsækjendum voru yfir tekjumörkum og milli 200 - 400 þúsund yfir viðmiðunum (1.050.000 kr). Styrkurinn var greiddur 5. febrúar og heildargreiðslur fyrir janúar 1.718.137 kr.
Ráðið þakkar upplýsingarnar

Bókun frá fulltrúum D listans:
Í ljósi þess að áhyggjur undirritaðra hafa raungerst og hópur foreldra fær nú engar eða mun minni heimgreiðslur en áður leggja undirritaðar fram eftirfarandi tillögu; "Fyrirkomulagi heimgreiðslna Verði breytt aftur í fyrra horf og þeir sem rétt eiga á heimgreiðslum fái 110þ kr mánaðarlega óháð tekjum". (sign Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Halla Björk Hallgrímsdóttir)

Kosið var um tillögu D listans og var hún felld með 3 atkvæðum E og H listans á móti 2 atkvæðum D listans.

Bókun frá fulltrúum E og H lista:
Áhugavert er að taka stöðuna eftir fyrsta mánuð heimgreiðslna skv. nýju fyrirkomulagi og er dreifingin milli þeirra sem eru yfir tekjuviðmiðum, þeirra sem fá hlutagreiðslur eða fullar greiðslur í samræmi við það sem áætlað var. Auk þess hafa foreldrar þriggja barna tekið ákvörðun um að þiggja heimgreiðslur frekar en að þiggja leikskólapláss strax. Nauðsynlegt er að gefa breyttu fyrirkomulagi lengri tíma til að geta metið áhrif þess. (sign Aníta Jóhannsdóttir, Hafdís Ástþórsdóttir og Ellert Scheving Pálsson)

Bókun frá D listanum:
Leitt að ekki sé hægt að bregðast hratt við óánægju foreldra gagnvart fyrirkomulaginu né tekið tillit til athugasemda minnihluta en undirritaðar leggja til að málið verði tekið fyrir að nýju í lok apríl þegar ársfjórðungsmat liggur fyrir. (sign Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Halla Björk Hallgrímsdóttir)
7. 202403001F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 303
Liður 2, Aðalskipulag Vestmannaeyja - Nýir reitir fyrir hafnarsvæði, liggur fyrir til umræðu.
Liðir 1 og 3-4 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Undir lið 2 (sjá bókun framkvæmda- og hafnarráðs í lið 7.2 fyrir neðan) tóku til máls: Eyþór Harðarson, Erlingur Guðbjörnsson, Íris Róbertsdóttir og Gísli Stefánsson

Bókun bæjarfulltrúa D lista

Mikilvægt er að ákvarðanir séu teknar af yfirvegun og í sátt við bæði atvinnulífið og náttúruna. Kynna þarf breytingar á aðalskipulagi af þessu tagi betur þannig að íbúar fái rétta mynd af hugmyndum sem uppi eru fyrr í ferlinu. Til að mynda hefði mátt koma með skýringarmyndir í réttum hlutföllum sem sýndu bæði nýtingu og ásýnd, hvort sem rætt er um viðlegukanta í innsiglingunni eða innan hafnar.

Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
Rut Haraldsdóttir (sign.)


LIÐIR ÚR FUNDARGERÐ FRAMKVÆMDA- OG HAFNARRÁÐS
7.2. 202311102 - Breytt Aðalskipulag Vestmannaeyja - Nýir reitir fyrir hafnarsvæði
Í aðalskipulagi er lagður grundvöllur fyrir gerð deiliskipulags varðandi landnotkun, takmarkanir á landnotkun, samgöngu- og þjónustukerfi og byggðamynstur. Ferli aðalskipulagsbreytinga er skipt upp í fjóra fasa og getur tekið um 6-12 mánuði.
- Skipulagslýsing
- Drög á vinnslustigi
- Tillaga auglýst
- Afgreiðsla
Síðan tekur við álíka ferli við gerð deiliskipulags fyrir ákveðnar lóðir.
Hafnarstjóri fór yfir hvar málið er statt í skipulagsferlinu og yfir þær umsagnir sem bárust. Einnig greindi hann frá íbúafundi sem haldinn var um málið þann 15. febrúar.
Ráðið þakkar yfirferðina.

Eftir gott samtal við bæjarbúa sem og athugasemdir við fyrirhugaðar aðalskipulagsbreytingar telur framkvæmda- og hafnarráð ekki ráðlagt að fara í lengingu á Kleifabryggju (staurabryggja þvert fyrir Löngu). Óskar ráðið eftir því við umhverfis- og skipulagsráð að tekið verði tillit til þess í framhaldinu á skipulagsvinnunni. Ráðið óskar eftir því að núverandi aðalskipulag í Löngu haldist óbreytt að undanskilinni styttingu Hörgaeyrargarðs.

Einnig komu inn ábendingar frá bæjarbúum varðandi stækkun á H2 svæði Vestmannaeyjahafnar í austur (Brimneskant á móts við Ystaklett). Til upplýsinga hafa verið unnar hráar myndir sem sýna hvernig bryggjukantar í Skansfjöru og Gjábakkafjöru gætu litið út. Myndir sýna annars vegar 100 metra kant við Skansfjöru skv. núverandi aðalskipulagi og svo 250 metra Brimneskant skv. breytingu á aðalskipulagi. Myndirnar sýna hvar skip gætu legið í innsiglingunni.

Einnig vill ráðið árétta að stórskipakantur utan við Eiðið er hugmynd sem ekki hefur verið hætt við en með fyrirliggjandi aðalskipulagsbreytingum er verið að opna fyrir aðra möguleika. Ljóst er að Vestmannaeyjahöfn er sprungin bæði þegar horft er til legupláss og upplands og er verið að leita allra leiða til að bregðast við kröfum og vaxandi þörf.
8. 202402011F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 398
Liður 5, Uppfærðar reglur um götu- og torgsölu í Vestmannaeyjum, liggur fyrir til staðfestingar.
Liðir 1-4 og 6-7 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Liður 5 (sjá bókun umhverfis- og skipulagsráðs í lið 8.5 fyrir neðan) samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

LIÐIR ÚR FUNDARGERÐ UMHVERFIS- OG SKIPULAGSRÁÐS
8.5. 202403014 - Uppfærðar reglur um götu- og torgsölu í Vestmannaeyjum
Lagt fram, uppfærðar reglur um götu og torgsölu í Vestmannaeyjum þar sem m.a. er gert ráð fyrir söluvögnum við Vigtartorg.
Ráðið samþykkir breyttar reglur fyrir sitt leyti.
Erindi vísað til bæjarstjórnar.
9. 202403003F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3211
Liður 5, Viðaukar við fjárhagsáætlun 2023, liggur fyrir til staðfestingar.
Liður 6, Aðkoma sveitarfélaga að nýundirrituðum kjarasamningi á almennum markaði-Stöðugleikasamningi, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.
Liður 8, Listaverk í tilefni 50 ára gosloka, liggur fyrir til umræðu.
Liðir 1-4, 7 og 9-17 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Liður 5 (sjá bókun bæjarráðs í lið 9.5 fyrir neðan) var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum.

Undir lið 6 (sjá bókun bæjarráðs í lið 9.6 fyrir neðan) tóku til máls: Rut Haraldsdóttir, Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson og Páll Magnússon

Afgreiðslutillaga um lið 6

Bæjarstjórn samþykkir að leggja sitt lóð á vogarskálarnar vegna langtíma kjarasamninga og tryggja stöðugleika til að ná niður vöxtum og verðbólgu.
Bæjarstjórn samþykkir að áfram verði unnið að því að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla, sem gert er vel í Eyjum, einnig verði stuðlað að fjölbreyttri húsnæðisuppbyggingu.

Bæjarstjórn leggur til að endurskoða gjaldskrár til að koma til móts við kjarasamninga. Horft verði til þess að allar almennar gjaldskrár fyrir þjónustu við barnafjölskyldur og viðkvæma hópa hækki ekki meira en 3,5 % . Breytingin tekur gildi eftir að kjarasamningar hafa verið staðfestir. Þess ber að geta að almennar gjaldskrár hækkuðu aðeins um 4,5% í Vestmannaeyjum um síðustu áramót.

Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði varðandi gjaldfrjálsar skólamáltíðir og áður en ákvörðun verður tekin um það mál verði beðið eftir útfærslunni sem koma á fram í maí enda tekur þessi liður í kjarasamningi ekki gildi fyrr en í ágúst.

Tillagan samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Liður 8, fallið var frá umræðu um liðinn.


LIÐIR ÚR FUNDARGERÐ BÆJARRÁÐS
9.5. 202403036 - Viðaukar við fjárhagsáætlun 2023
Viðauki nr. 5 við fjárhagsáætlun 2023 vegna Náttúrustofu Suðurlands lagður fram og er tilkominn vegna hækkunar ríkisins á framlagi til Náttúrustofu sem leiðir einnig af sér hækkun á framlagi frá Vestmannaeyjabæ. Upphæðin er 1,8 m.kr. sem rúmast innan fjárhagsáætlunar 2023 með innri færslum.

Viðauki nr. 6 við fjárhagsáætlun 2023 vegna kaupa á viðbótardvalargildum fyrir nýja deild á Sóla lagður fram. Bæjarráð samþykkti að fara í viðauka fyrr á árinu 2023 til að kaupa viðbótardvalargildi skv. tillögu fræðsluráðs. Um er að ræða 41,7 m.kr. sem eru fjármagnaðar með handbæru fé og rúmast innan fjárheimilda ársins 2023.

Viðauki nr. 7 við fjárhagsáætlun 2023 lagður fram. Um er að ræða fjárfestingu upp á 280 m.kr. vegna Eyglóar.

Viðauki nr. 8 við fjárhagsáætlun 2023 lagður fram. Um er að ræða tilfærslu eignafærslna á árinu 2023. Tilfærslurnar rúmast innan fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023.
Bæjarráð samþykkir samhljóða fyrirliggjandi viðauka við fjárhagsáætlun 2023.
9.6. 202403040 - Aðkoma sveitarfélaga að nýundirrituðum kjarasamningi á almennum markaði-Stöðugleikasamningi
Langtíma kjarasamningar hafa náðst á stórum hluta almenna markaðsins. Nú standa yfir áframhaldandi viðræður við þá sem eftir eru á almenna markaðnum og opinbera aðila.

Aðkoma ríkis og sveitarfélaga er hluti af nýundirrituðum samningi. Þeir þættir sem snúa beint að sveitarfélögum eru fjórir. Í fyrsta lagi er sameiginleg vinna aðila að leiðum við að brúa bilið milli fæðingarorlofs og leikskóla og í öðru lagi samtal um uppbyggingu og framboð fjölbreytts húsnæðis. Í þriðja lagi að sveitarfélögin endurskoði gjaldskrár sínar þannig að hækkanir verði ekki meiri en 3,5% og sérstaklega verði horft til gjaldskráa er snúa að barnafjölskyldum og viðkvæmum hópum. Í fjórða lagi er ósk um gjaldfrjálsar skólamáltíðir þar sem lagt er til að ríki og sveitarfélög munu fjármagna greiðsluþátttöku foreldra. Ríki og sveitarfélög munu útfæra þetta og á því að vera lokið í maí. Áætlað er í kjarasamningi að skólamáltíðir verði gjaldfrjálsar frá og með næsta hausti.
Bæjarráð Vestmannaeyja fagnar því að þetta mikilvæga skref hafi verið stigið til að skapa frið á vinnumarkaði. Langtímasamningar og fyrirsjáanleiki sem þeim fylgja skiptir miklu máli fyrir alla aðila til á ná niður vöxtum og verðbólgu.

Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að vinna áfram að því að brúa bilið, sem gert er vel í Eyjum, og áframhaldandi húsnæðisuppbyggingu.

Einnig leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að endurskoða gjaldskrár til að koma til móts við kjarasamninga. Þess ber að geta að almennar gjaldskrár hækkuðu aðeins um 4,5% í Vestmannaeyjum um síðustu áramót.

Varðandi gjaldfrjálsar skólamáltíðar leggur bæjarráð til við bæjarstjórn að áður en ákvörðun verður tekin um það mál verði beðið eftir útfærslunni sem koma á fram í maí enda tekur þessi liður í kjarasamningi ekki gildi fyrr en í ágúst.

Bæjarráð Vestmannaeyja mótmælir þeirri aðferðafræði að útsvarstekjum sveitarfélaga sé ráðstafað við samningaborð þar sem sveitarfélögn sjálf eiga ekki sæti við borðið. Eigi sveitarfélög að taka þátt í samningi á almennum vinnumarkaði verða þau að vera upplýst og taka sjálfstæðar ákvarðanir um þátttöku en ekki í gegnum í stjórn Samband íslenskra sveitarfélaga sem ekki hefur stöðuumboð til að ákvarða í hvað útsvarstekjur einstakra sveitarfélaga fara.
10. 202403002F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 302
Liðir 1-4 liggja fyrir til upplýsinga.
11. 202403005F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 383
Liðir 1-2 til upplýsinga.
12. 202403007F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3212
Liður 2, Móttaka flóttafólks, liggur fyrir til staðfestingar.
Liðir 1 og 3 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Liður 2 var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

LIÐIR ÚR FUNDARGERÐ BÆJARRÁÐS
12.2. 202203028 - Móttaka flóttafólks
Nýr samningur varðandi samræmda þjónustu við flóttafólk lagður fram.
Bæjarráð gerir ekki athugasemd við samninginn og vísar honum til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:13 

Til baka Prenta