Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3172

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
07.04.2022 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202203127 - Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021
Fyrr í vikunni kynntu þau Magnús Jónsson og Guðbjörg Erla Ríkharðsdóttir, fulltrúar KPMG, drög að ársreikningi Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021 og tóku allir bæjarfulltrúar þátt í fundinum. Ársreikningurinn sýnir glögglega sterka stöðu bæjarsjóðs.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar fulltrúum KPMG fyrir yfirferðina og vísar ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana fyrir árið 2021 til fyrri umræðu í bæjarstjórn síðar í dag.
2. 201909001 - Atvinnumál
Lögð voru fram drög að atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar. Stýrihópur um atvinnustefnuna sem skipaður er Írisi Róbertsdóttur, Hildi Sólveigu Sigurðardóttur, Njáli Ragnarssyni, Frosta Gíslasyni og Ívari Atlasyni hefur verið að störfum og Evgenía Mikaelsdóttir, sem sinnt hefur starfi verkefnastjóra. Hópurinn fundaði um drögin fyrr í vikunni og er sammála um að leggja þau fyrir bæjarráð.

Í drögunum er sett fram framtíðarsýn sveitarfélagsins í atvinnumálum, sex lykilmarkmið í atvinnuþróun og áherslur fyrir hvert markmiðanna, en áherslurnar byggja meðal annars á tillögum og athugasemdum, sem þátttakendur í skoðanakönnun meðal bæjarbúa sendu inn, sem og á vinnu í bæjarráði og fagráðum Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar öllum hlutaðeigandi aðilum fyrir góða vinnu við gerð atvinnustefnunnar. Um er að ræða metnaðarfull drög að stefnu, sem ná til allra helstu þátta atvinnumála Vestmannaeyja.

Bæjarráð leggur til að drögin verði lögð fyrir bæjarstjórn og bæjarfulltrúum gefist svigrúm til umsagnar um stefnuna til 16. apríl nk. Að því loknu mun stýrihópurinn og verkefnastjóri fara yfir umsagnirnar og vinna lokadrög stefnunnar, sem lögð verða fyrir bæjarráð 20. apríl nk. Í framhaldi gefst bæjarbúum kostur á að senda inn umsagnir. Jafnframt mun stýrihópurinn óska eftir umsögnum einstakra fagaðila og fulltrúa atvinnulífs, stofnana og hagsmunaaðila. Að þessu ferli loknu verður stefnunni vísað til bæjarstjórnar til samþykktar 5. maí nk.

Stýrihópnum verði jafnframt falið að móta tillögu að vinnu við aðgerðaáætlun til að fylgja eftir stefnunni.

Tillögunni er vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
3. 201911005 - Staða sýslumannsins í Vestmannaeyjum
Lagt var fyrir bæjarráðs bréf dómsmálaráðherra til Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 21. mars sl., um endurskipulagningu sýslumannsembætta. Í bréfinu er kveðið á um gagngera endurskoðun á skipulagi embættanna sem miðar að því að sameinu öll níu embætti landsins í eitt.

Fyrir hönd bæjarráð óskaði bæjarstjóri eftir fundi með dómsmálaráðherra. Sá fundur verður haldinn 2. maí nk. Þar mun dómsmálaráðherra fara yfir hugmyndir sínar um endurskipulagningu sýslumannsembætta.

Niðurstaða
Bæjarráð ítrekar fyrri afstöðu sína til málsins og leggst alfarið gegn þessum breytingum. Bæjarráð mun fylgja þeirri afstöðu eftir á þessum fundi með ráðherra.
Bréf dómsmálaráðherra um endurskipulagningu sýslumannsembætta.pdf
4. 202203128 - Römpum upp Ísland
Bæjarráð tók fyrir bréf stjórnarformanns Römpum upp Ísland verkefnisins til bæjarráðs og bæjarstjóra. Markmið verkefnisins er að auka aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu, verslun, og veitingahúsum á Íslandi. Stofnunin styrkir einkaaðila til að koma upp römpum eða annars konar lausnum við innganga sína og tryggja þannig að fólk með hreyfihömlun hafi aðgengi að þeirri þjónustu sem þar stendur til boða.

Niðurstaða
Bæjarráð fagnar frumkvæði viðkomandi aðila að bættu aðgengi hreyfihamlaðra að þjónustu enda hefur Vestmannaeyjabær staðið í sérstöku átaki á kjörtímabilinu er varðar aðgengismál fatlaðra.

Bæjarráð felur bæjarstjóra og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs sem og framkvæmdastjóra fræðslu- og fjölskyldusviðs að setja sig í samband við fulltrúa Römpum upp Ísland og kanna betur hvað felst í samstarfi félagsins og sveitarfélaga.
Römpum upp Ísland bréf.pdf
5. 202203120 - Þjónustukönnun Gallup 2022
Á íbúafundi sem haldinn var þann 21. mars sl. kom fram að Vestmannaeyjabær er efst 20 stærstu sveitarfélaga landsins þegar spurt er um þjónustu við barnafjölskyldur og fatlaða. Auk þess er bærinn í öðru til þriðja sæti þegar kemur að, þjónustu leikskóla og menningarmálum.

Óhætt er að fullyrða að þegar á heildina er litið, eru margar jákvæðar niðurstöður í könnuninni. Sorphirðumálin, sem illa hafa komið út undanfarin ár, eru skv. niðurstöðunum á mun betri stað. Það eru alltaf atriði sem betur mega fara og er þessi þjónustukönnun góður leiðarvísir fyrir bæjaryfirvöld að bættri þjónustu við íbúa.

Bæjarráð tók fyrir umræðupunkta sem urðu til í vinnuhópi ráðsins á íbúafundinum er varðar hagsmunagæslu sveitarfélagsins gagnvart ríkinu, menningarmál o.fl.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar fyrir góðar umræður og ábendingar á fundinum og mun hafa umrædd atriði til hliðsjónar í frekari vinnu um málaflokka bæjarráðs.
6. 201801078 - Jafnlaunavottun
Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs greindi frá því að úttekt á jafnlaunakerfi Vestmannaeyjabæjar sé hafin og er von á niðurstöðu í maí. Þegar niðurstöður liggja fyrir verða þær kynntar bæjarráði sérstaklega.
7. 202204014 - Aðalfundur Lánasjóðs sveitarfélaga 2022
Óskað var eftir umræðu um aðalfund Lánasjóðs sveitarfélaga fyrir árið 2021, sem haldinn var 1. apríl sl.

Niðurstaða
Vestmannaeyjabær er annar stærsti hluthafi í Lánasjóð íslenskra sveitarfélaga með 5,81% hlut. Til þess að tryggja best hagsmuni sveitarfélagsins er mikilvægt að leitast verði við að koma fulltrúa Vestmannaeyjabæjar í stjórn sjóðsins.
8. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Lögð var fram til upplýsinga fundargerð 908. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var þann 25. mars sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 908.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 12:50 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove