Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1575

Haldinn í Einarsstofu safnahúsi,
16.09.2021 og hófst hann kl. 18:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Trausti Hjaltason aðalmaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Tillaga forseta um að fundargerðir 267. fundar fjölskyldu- og tómstundaráðs og 347. fundar fræðsluráðs verði teknar fyrir með afbrigðum.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum og við útsenda dagskrá bætast því tveir dagskrárliðir, nr. 15 og 16.

Tillaga borinn upp að liður 7, í fundargerð bæjarráðs nr. 3159 verði tekinn fyrir með afbrigðum og verði til umræðu.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Greint var frá fundi bæjarfulltrúa með fulltrúum stjórnar og framkvæmdastjóra Herjólfs ohf. fyrr í dag og farið var yfir stöðu félagsins. Nýr samningur og fjölgun farþega miðað við árið í fyrra gerir það að verkum að áætlanir fyrir þetta ár eru að standast. Þó er nokkuð í land að ná þeim farþegafjölda sem var 2019.

Greint var frá þeirri ákvörðun Icelandair að hætta öllu áætlunarflugi til Vestmannaeyja frá og með 31. ágúst sl. Sú ákvörðun var mikil vonbrigði, sérstaklega í ljósi þess að félagið hafði áður gefið út að flogið yrði á markaðslegum forsendum út september. Í kjölfarið óskaði bæjarstjóri f.h. bæjarráðs eftir fundi með samgönguyfirvöldum um stöðuna sem upp er komin og fór sá fundur fram síðastliðinn þriðjudag með samgönguráðherra og vegamálastjóra, ásamt öðrum fulltrúum Vegagerðarinnar. Ráðherra tók undir áhyggjur bæjarráðs af stöðunni og var á fundinum ákveðið að hefja vinnu við að finna mögulegar lausnir til þess að tryggja flug til Vestmannaeyja. Á fundinum kom fram skilningur á því að ekki verði við það búið að einungis ein samgönguleið sé til og frá Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason, Hildur Sólveig Sigurðardótti og Helga Kristín Kolbeins.

Sameiginleg bókun bæjarfulltrúa um samgöngur á sjó

Samgöngur eru lífæð samfélagsins og mikilvægt að þær séu sem bestar. Herjólfur er þjóðvegur íbúa og er mikilvægt að hann sé opinn enda vel yfir 95% af öllum farþegaflutningum, allir bílar og stór hluti flutningar á vörum er með Herjólfi. Rekstur Herjólfs ohf. hefur verið erfiður en nú horfir vonandi til betri vegar með auknum farþegafjölda. Á þessu ári hefur reksturinn gengið samkvæmt áætlun og er unnið samkvæmt þeim samningi sem samþykktur var í desember 2020. Öllum má vera ljóst að samgöngur til Vestmannaeyja eru afar mikilvægar allt árið, bæjarstjórn leggur áfram mikla áherslu á að haldið verði áfram að bæta þjónustuna eins mikið og kostur er og í takt við þarfir samfélagsins.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

Sameiginleg bókun bæjarfulltrúa um flugsamgöngur

Bæjarstjórn leggur mikla áherslu á að áætlunarflug sé milli Vestmannaeyja og Reykjavíkur. Skilningur er á milli aðila að ekki verði við það búið að einungis ein samgönguleið sé til og frá Vestmannaeyjum. Mikilvægt er að vinna í Vegagerðinni og samgönguráðuneytinu gangi hratt og vel fyrir sig, svo að það þjónusturof sem nú varir verði stutt. Ráðherrar og þingmenn þurfa að beita sér fyrir því.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
2. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Brjóstaskimanir
Bæjarstjóri greindi frá þeirri stöðu sem upp er komin við brjóstaskimanir í Vestmannaeyjum. Þegar Krabbameinsfélagið annaðist brjóstaskimanir fóru slíkar skimanir fram í Vestmannaeyjum með reglulegu millibili. Eftir að Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana tók við keflinu var ákveðið að ekki verði boðið upp á brjóstaskimanir í Vestmannaeyjum í haust og vetur. Þess í stað eru allar konur boðaðar í brjóstaskimun upp á land, með tilheyrandi raski og óhagræði fyrir konur í Vestmannaeyjum.

Staðsetning sjúkraþyrlu
Bæjarstjórn fjallaði um þá stefnu heilbrigðisráðherra sem fram kom í fjölmiðlum fyrr í þessum mánuði, að staðsetja sjúkraþyrlu á suðvestur horni landsins. Virðist þetta vera niðurstaða þeirrar vinnu um að hleypa af stokkunum tilraunverkefni um staðsetningu sjúkraflugs á Suðurlandi, sem ekkert varð úr á árinu 2020. Bæjarstjóri óskaði eftir svörum heilbrigðisráðherra um hvernig vinnu við tilraunverkefnið miðaði haustið 2020. Í svari heilbrigðisráðuneytisins dags. 22. desember 2020 kom m.a. fram að tveggja ára tilraunaverkefni með sjúkraþyrlu á Suðurlandi hafi átt að hefjast á miðju ári 2020 þegar búið væri að tryggja fjármagn til verkefnisins. Vegna sérstakra aðstæðna vegna Covid hafi ekki tekist að tryggja fjármagn til verkefnisins og frekari undirbúningur hafi þannig ekki farið fram á því ári.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins, Trausti Hjaltason, Elís Jónsson og Njáll Ragnarsson.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Á annað hundrað konur úr Vestmannaeyjum hafa verið boðaðar í brjóstamyndatöku/skimun á höfuðborgarsvæðið. Þessi þjónusta var í boði í Eyjum með reglulegu millibili þegar Krabbameinsfélagið sinnti þjónustunni. Samhæfingarmiðstöð krabbameinsskimana stefnir á að koma til Eyja á næsta ári, það dugar ekki til. Ferðalagið, vinnutapið og kostnaðurinn sem hlýst af þessu gerir þetta fyrirkomulag algjörlega óskiljanlegt. Það sama gildir um sónarþjónustu við óléttar konur.

Staðsetning sjúkraþyrlu á Suðurlandi, á sér langan aðdraganda. Til er skýrsla um mikilvægi þess að hún verði staðsett í Vestmannaeyjum vegna mikils fjölda ferðamanna á þessu svæði og langra vegalengda til Landspítala. Árið 2013 var skurðstofuvakt lögð af á sjúkrahúsinu í Vestmannaeyjum og dró þá úr getu til bráðaþjónustu en þá var rætt um sjúkraþyrlu sem mögulega lausn á hluta vandans. Sjúkraþyrla yrði mönnuð með bráðateymi sem yrði þá á staðnum og eykur það viðbragð og öryggi meðal annars í Vestmannaeyjum.

Það eru því eðlilega vonbrigði að heilbrigðisráðherra skuli stíga fram nú og lýsa því yfir að ekki standi til að staðsetja sjúkraþyrlu í Vestmannaeyjum líkt og oft hefur verið talað um, heldur staðsetja þá þyrluþjónustu á suð-vestur horni landsins. Þetta er óskiljanlegt og óásættanlegt. Skjótasta viðbragðið og Landsspítalinn eru einmitt á suðvesturhorninu. Þar er þörfin minnst fyrir sjúkraþyrlu.

Bæjarstjórn Vestmannaeyja skorar á Heilbrigiðsráðherra að vinna í því að jafna aðgengi að heilbrigðisþjónustu í stað þessa að breikka bilið enn frekar.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
3. 202109048 - Umræða um fræðslumál
Almennar umræður um stöðu fræðslumála í upphafi skólaárs, svo sem menntarannsóknarverkefni, spjaldtölvuvæðingu og önnur áhersluverkefni.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Elís Jónsson, Íris Róbertsdóttir, Helga Kristín Kolbeins, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Trausti Hjaltason.

Bæjarfulltrúar E og H lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Kveikjum neistann er þróunar- og rannsóknarverkefni sem formlega var hleypt af stokkunum 17. ágúst sl.í Vestmannaeyjum þar sem starfsdagur GRV var helgaður verkefninu. Samhliða verkefninu hefur verið stofnað rannsóknarsetur um menntun og hugarfar með aðsetur við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Á núverandi kjörtímabili hefur meirihluti E- og H- lista lagt mikla áherslu á fræðslumál og óhætt að segja að eftir því hefur verið tekið. Umtalsverð aukning hefur orðið á spjaldtölvum og tölvum í GRV. Árið 2019 voru 53 Chromebook tölvur og 39 spjaldtölvur (Ipad) eða 92 tæki í heild á 515 nemendur. Í lok vorannar 2021 voru 119 Chromebook tölvur og 266 spjaldtölvur (Ipad) eða 385 tæki í heild á 527 nemendur. Skv. skýrslu verkefnistjóra spjaldtölvuinnleiðingar GRV má sjá virkilega ánægjulegar niðurstöður og jákvæða þróun í skólastarfi GRV. Verkefnið væri ekki á þessu stað nema með samvinnu allra sem að því hafa komið og eru verkefnisstjóra og kennurum í innleiðingarteyminu færðar sérstakar þakkir fyrir. Það má því segja að víða hafi neistinn verið kveiktur í fræðslumálum í Vestmannaeyjum. Það er ekki nóg að hafa tæki og búnað innan veggja því hvatning er jafnframt mikilvæg. Til að búa til meiri hvatningu og stuðla að þróunar- og nýsköpunarstarfi í leik- og grunnskóla var jafnframt byrjað að úthluta styrkjum úr þróunarsjóði og veita hvatningarverðlaun á þessu kjörtímabili og hefur því verið tekið vel.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fræðslumál hafa verið og eru okkur afar mikilvæg. Aukin tækni, og breytingar í samfélaginu reyna á alla aðila og er því mikilvægt að við höldum áfram að leita leiða til að efla það góða starf sem unnið er. Menntun á að hafa forgang við þurfum öll að sameinast um verkefnið.

Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

4. 201808173 - Dagskrá bæjarstjórnafunda
Forseti bæjarstjórnar lagði fram tillögu að dagsetningum bæjarstjórnarfunda fram að áramótum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Elís Jónsson.

Tillaga að dagsetningum bæjarstjórnarfunda fram að áramótum:

Miðvikudagur 13. október 2021
Þriðjudagur, 26. október 2021 (fyrri umræða um fjárhagsáætlun)
Fimmtudagur 2. desember 2021 (seinni umræða um fjárhagsáætlun)

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Fundarhlé frá kl. 19:40 til 19:53.
Fundargerðir til staðfestingar
5. 202106011F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3157
Liðir 1-10 liggja fyrir til upplýsinga.
6. 202107001F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 265
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
7. 202107003F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 266
Liðir 1-2 liggja fyrir til upplýsinga.
8. 202107004F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3158
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
9. 202107006F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3159
Liður 7, Húsnæðismál Vestmannaeyjabæjar, tekinn inn með afbrigðum og liggur fyrir til umræðu.

Liður 12, Starfshættir kjörinna fulltrúa, liggur fyrir til umræðu.

Liðir 1-6, 8-11 og 13-14 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 7 tóku til máls: Trausti Hjaltason og Íris Róbertsdóttir.

Við umræðu um lið 12 tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Njáll Ragnarsson, Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason og Elís Jónsson.

Tillaga frá fulltrúa D lista

Undirrituð leggur til að Vestmannaeyjabær feli hlutlausum aðila að ráðast í úttekt á vinnustaðarmenningu skrifstofa sveitarfélagsins. Markmið slíkrar úttektar verði m.a.:
a. að kanna fylgni við reglugerð um einelti nr. 1009/2015
b. Kanna skilvirkni ferla sveitarfélagsins sem gilda um einelti eða aðra tegund ofbeldis.
c. Kanna umfang og eðli erfiðra samskipta og eineltis innan skrifstofa sveitarfélagsins.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)

Tillagan var felld með 4 atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn þremur atkvæðum D fulltrúa lista.

Njáll Ragnarsson, fulltrúi E lista gerði grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun

Það er ákaflega varhugaverð þróun að kjörnir fulltrúar blandi sér með beinum hætti í starfsmannamál Vestmannaeyjabæjar. Slíkt grefur undan trausti á stjórnsýslu Vestmannaeyjabæjar sem verður að geta starfað óáreitt gagnvart kjörnum fulltrúum, sérstaklega í viðkvæmum málum starfsfólks.

Það getur ekki talist óeðlilegt þó bæjarstjóri vilji bera hönd fyrir höfuð sér þegar ásakanir gegn henni um meint einelti eru reknar í fjölmiðlum.

Njáll Ragnarsson (sign.)

Íris Róbertsdóttir, bæjarfulltrúi H lista, gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það er miður að meirihlutinn sé ekki tilbúin að ráðast í úttekt sem lýtur að vinnuvernd starfsmanna en mikilvægt er að starfsmenn upplifi vellíðan í starfi, verkferlar séu skýrir og starfsmenn upplýstir um hvar þá sé að finna. Meirihlutinn átti hins vegar ekki í erfiðleikum með að ráðast í kostnaðarsama úttekt á kostnaði við steinsteypu í Fiskiðjunni sem skilaði engu.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
10. 202108001F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 350
Liður 1, Skipulag Baðlón við Skansinn, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-9 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
11. 202108003F - Fræðsluráð - 346
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
12. 202109001F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 351
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
13. 202109002F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 266
Liður 1, Verkferlar við ráðningu hafnarstjóra, liggur fyrir til umræðu.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1 tóku til máls: Trausti Hjaltason og Njáll Ragnarsson

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Lög kveða á um að hafnarstjórn ráði hafnarstjóra. Hafnarstjórn fól á engum tímapunkti starfsmannasviði að leiða ráðningarferlið. Það er miður að í stað þess að farið hafi verið yfir verklagið fullyrðir meirihlutinn áfram að ekkert sé athugunarvert.

Trausti Hjaltason (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)

Fulltrúar E og H lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihluti E- og H- lista harmar það að fulltrúa D lista dragi heilindi og faglega vinnu starfsfólks Vestmannaeyjabæjar í efa á pólitískum vettvangi, þar sem umrætt starfsfólk hefur ekki tækifæri á bera hendur fyrir höfuð sér. Það er kjörnum fulltrúum ekki til sóma að draga í efa að framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og mannauðsstjóri Vestmannaeyjabæjar hafi ekki farið að lögum og reglum við ráðningu hafnarstjóra.
Engar athugasemdir bárust um ráðningarferlið í aðdraganda þess, hvorki við auglýsinguna, sem var í birtingu í hálfan mánuð á öllum vefmiðlum Vestmannaeyja og á landsvísu, né þann hóp eða þá vinnu sem lá fyrir um mat á umsóknum. Ráðningarferlið var mjög ítarlegt og faglega staðið að verki. Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs, mannauðsstjóri Vestmannaeyjabæjar og ráðningarskrifstofa Hagvangs, önnuðust matið. Umsóknir voru metnar þar sem hæfnisþáttum var gefið ákveðið vægi. Allir umsækjendur voru boðaðir í viðtöl og þegar búið var að meta umsækjendur voru tveir hæfustu boðaðir í framhaldsviðtal og þeir beðnir um að halda kynningu á stöðu og framtíðarsýn hafnarinnar. Leitað var umsagnar umsagnaraðila, lagt var fyrir umsækjendur persónuleikapróf og unnin var ítarleg greiningarskýrsla. Niðurstöður matsins voru kynntar ítarlega fyrir framkvæmda- og hafnarráð og ræddar í framhaldinu. Eftir þá vinnu var ákveðið að ráða Dóru Björk Gunnarsdóttur, sem metin var hæfust, sem hafnarstjóra, án mótatkvæða í ráðinu.
Það var ekki fyrr en niðurstaða hópsins á matinu lá fyrir og var kynnt framkvæmda- og hafnarráði, mánuðum eftir að ákveðið var að auglýsa starfið, að fulltrúar D lista fóru að efast um lögmæti ráðningarinnar. Augljóst er að fulltrúar D lista eru að leita leiða til að draga mat og vinnu valnefndarinnar og ráðsins í efa. Leiða má að því líkur að sá umsækjandi sem þótti hæfastur til starfsins var þeim ekki þóknanlegur.
Minnt er á 7. gr. siðareglna kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar. Þar er m.a. kveðið á um að kjörnir fulltrúar skuli í störfum sínum virða hlutverk starfsfólks Vestmannaeyjabæjar. Kjörnir fulltrúar hafa ekki boðvald yfir einstaka starfsfólki Vestmannaeyjabæjar.
Mikilvægt er að virða hlutleysi og faglega vinnu stjórnenda og starfsfólks Vestmannaeyjabæjar.
Þetta er enn ein atlaga sjálfstæðismanna að starfsfólki Vestmannaeyjabæjar.

Njáll Ragnarsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirarandi bókun:

Hér er einungis verið að gagnrýna vinnubrögð fulltrúa E og H lista í málinu. Afgreiðsla málsins var ekki gerð í umboði hafnarstjórnar líkt og lögum samkvæmt. Enn og aftur er verið að nota starfsmenn sveitarfélagsins sem stuðpúða fyrir gagnrýni minnihlutans á störf pólitískra fulltrúa.

Trausti Hjaltason (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
14. 202109003F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3160
Liður 1, Fjárhagsáætlun 2022, liggur fyrir til umræðu.

Liðir 2-3 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1 tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Elís Jónsson, Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason, Helga Kristín Kolbeins og Njáll Ragnarsson.

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Lækkun fasteignaskatta er ánægjulegt skref sem undirrituð hafa talað fyrir.
Bæjarfulltrúum mun fjölga um tvo um mitt næsta ár eftir að núverandi meirihluti gerði þessar stóru breytingar á kjörtímabilinu, en ekki er gert ráð fyrir þeim kostnaði í áætlunum. Bæjarstjórn sem skipuð er í fyrsta skipti meirihluta kvenna virðist því telja tímabært að lækka laun bæjarfulltrúa.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

Tillaga frá fulltrúum E og H lista:

Meirihluti E og H lista leggur til að fjárheimildir til bæjarstjórnar séu ekki hækkaðar til að mæta fjölgun bæjarfulltrúa úr 7 í 9 á næsta kjörtímabili. Eðlilegt er að gera ráð fyrir sömu fjárhæð því með fjölgun bæjarfulltrúa dreifist vinnuálagið sem áður var á 7 fulltrúum á 9 fulltrúa. Þar af leiðandi er verið að fara fram á minna vinnuframlag og því eðlilegt að launin lækki samkvæmt því.

Tillagan var samþykkt með fjórum atkvæðum E og H lista gegn þremur atkvæðum fulltrúa D lista.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæðum fulltrúa D lista með eftirfarandi bókun:

Undirrituð samþykkja ekki tillögu bæjarfulltrúa meirihlutans. Það að fjölga bæjarfulltrúum dregur hvorki úr ábyrgð né skyldum sem bæjarfulltrúa sinna. Fjölgun bæjarfulltrúa felur m.a. í sér lengri fundartíma og aukið flækjustig samskipta.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

Fulltrúar E og H lista lögðu fram eftirfarandi bókun:

Það er ánægjulegt að í þeim forsendum fjárhagsáætlunar, sem liggja hér fyrir, er gert ráð fyrir lækkun fasteignaskatts prósentu á íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði fyrir árið 2020. Þetta er í þriðja skiptið sem fasteignaskattsprósentan er lækkuð á íbúðarhúsnæði á kjörtímabilinu og í annað skiptið sem hún er lækkuð á fyrirtæki.
Í tólf ára valdatíð sjálfstæðisflokksins lækkaði fasteignaskattsprósenta aðeins einu sinni á íbúðarhúsnæði fyrir árið 2016 en aldrei á atvinnuhúsnæði. En sjálfstæðisflokkurinn hækkaði aftur á móti fasteignaskattsprósentuna einu sinni á atvinnuhúsnæði á tímabilinu, fyrir árið 2017.

Njáll Ragnarsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Elís Jónsson (sign.)

Fulltrúar D lista lögðu fram eftirfarandi bókun

Í 12 ára valdatíð Sjálfstæðisflokksins voru þungar áherslur á lækkun skulda og grunnur lagður að þeirri góðu fjárhagsstöðu sem sveitarfélagið er í.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
15. 202108004F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 267
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
16. 202109004F - Fræðsluráð - 347
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:26 

Til baka Prenta