Fundargerðir

Til baka Prenta
Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 319

Haldinn Í fundarsal Fjölskyldu- og fræðslusviðs við Kirkjuveg,
02.09.2025 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Óskar Jósúason aðalmaður,
Rannveig Ísfjörð aðalmaður,
Salóme Ýr Rúnarsdóttir aðalmaður,
Hrefna Jónsdóttir formaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs, Silja Rós Guðjónsdóttir starfsmaður sviðs.
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs
Eydís Sigurðardóttir sat fundinn í 1. máli. Þóranna Halldórsdóttir og Björg Ólöf Bragadóttir sátu fundinn í 2. máli. Salóme Ýr Rúnarsdóttir yfirgaf fundinn eftir 3. mál.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 200809002 - Jafnréttisáætlun Vestmannaeyjabæjar
Eydís Sigurðardóttir mannauðsstjóri kynnir jafnlaunavottun Vestmannaeyjabæjar og niðurstöður launagreiningar hjá starfsfólki Vestmannaeyjabæjar. Jafnramt var farið yfir Jafnréttisáætlun 2023-2027.

Niðurstaða
Ráðið þakkar Eydísi fyrir kynninguna.
2. 201504033 - Heimaey - vinnu- og hæfingarstöð
Silja Rós Guðjónsdóttir, Björg Ólöf Bragadóttir og Þóranna Halldórsdóttir fóru yfir vinnu starfshóps á vegum fjölskyldu- og fræðslusviðs vegna endurskoðunar á starfsemi Heimaeyjar - vinnu- og hæfingarstöð. Markmiðið með endurskoðuninni er að efla Heimaey sem hæfingarstöð með áherslu á starfs- og virkniþjálfun í samræmi við hæfingarstöðvar hjá öðrum sveitarfélögum. Ekki verður lengur greidd laun fyrir verndaða vinnu heldur greitt fyrir ákveðin verkefni sem skila hagnaði. Þeim þjónustuþegum sem ná starfsmati verður veitt aðstoð við að komast í Atvinnu með stuðningi út á almennum vinnumarkaði og þeir sem ekki ná starfsmati verða áfram í hæfingu. Ekki er um að ræða skerðingu á þjónustu Heimaeyjar heldur fyrst og fremst breyttar áherslur. Starfshópurinn leggur til að gerðar verða breytingar á húsnæðinu í samræmi við áherslubreytingarnar. Lagt er til að gerðar verði breytingar, t.d. á eldhúsaðstöðu, bætt aðgengi og tækjabúnaður, útbúin rými fyrir hæfingu eins og smíðaaðstaða, sauma- og margmiðlunaraðstaða, heilsuþjálfunaraðstaða, einstaklingsþjálfunarrými, skynörvunar- og hvíldarrými, listaaðstaða, matsalur og fundar- og fræðslurými. Hópurinn leggur til að farið verði í þessar breytingar eins fljótt og hægt er.

Niðurstaða
Ráðið þakkar fyrir kynninguna og samþykkir fyrir sitt leiti þær áherslubreytingar sem lagðar eru fram á starfsemi og markmiðum Heimaeyjar þar sem áherslan verður á virkni og hæfingu í stað vinnu og hæfingu. Ráðið felur framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs að fara með hugmyndir að breytingu á húsnæði inn í vinnu við gerð fjárhagsáætlunar 2026.
3. 200804058 - Vinnuskóli Vestmannaeyjabæjar
Eyrún Haraldsdóttir verkefnastjóri æskulýðs- og tómstundarmála kynnti starfsemi vinnuskólans sumarið 2025. Vinnuskóli Vestmannaeyja var frá 11. júní til 15. ágúst fyrir börn og unglinga fædd 2009-2012. Það var misjafnt eftir árgöngum hversu langan tíma þau fengu í vinnu sem var frá 20-35 vinnudögum (30 klst á viku). Um 114 börn og unglingar fengu greidd laun á einhverjum tímapunkti. Fimm flokkstjórar voru ráðnir í upphafi sumars og var bætt við flokkstjórum þegar mesta álagið var á starfsemi Vinnuskólans. Frá miðjum júlí til loka júlí voru flokkstjórarnir 6 þar sem 2012 árgangurinn kom inn á þeim tíma. Sumarið gekk almennt vel fyrir sig. Verkefnin voru unnin með öðrum sumarstörfum hjá Þjónustumiðstöð Vestmannaeyja. Sem fyrr var reynt að bjóða upp á tilbreytingu á hinum hefðbundna vinnudegi þar sem boðið var upp á jafningjafræðslu frá Hinu Húsinu sem endaði með grilli. Einnig var þeim boðið í bíó í Eyjabíó á rigningardegi.

Niðurstaða
Ráðið þakkar kynninguna.
4. 202212025 - Sköpunarhús
Framhald af 3. máli 218. fundar fjölskyldu- og tómstundaráðs frá 28.07.2025. Ráðið ræddi stöðu á Sköpunarhúsi. Markmið þess er að efla listsköpun barna og unglinga með aðgengi að búnaði og fræðslu til tónlistarsköpunar, myndbandagerðar, útgáfu á sviði tónlistar og margt fleira. Sköpunarhúsinu hefur verðið fundinn staður í félagsmiðstöðinni og búið að kaupa tæki sem nýtist starfseminni. Enn á eftir að kaupa eitthvað meira af búnaði og tryggja launakostnað til verkefnisins.

Niðurstaða
Tillaga frá fulltrúa D-listans

„Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins óska eftir því að fjölskyldu- og tómstundaráð leggi til við bæjarráð að tryggja, annað hvort með viðauka eða tilfærslu fjárheimilda, kr. 500.000 í launakostnað svo að hefja megi nú á haustmánuðum starfsemi Sköpunarhúss í Félagsmiðstöðinni við Strandveg. Þegar hefur verið keyptur búnaður til tónlistarsköpunar í Sköpunarhúsið fyrir kr. 1,5 milljónir sem rétt er að koma í notkun með haustinu þegar meðbyr með æskulýðs- og tómstundastarfi er hvað mestur. Einnig óskar fulltrúar sjálfstæðisflokksins eftir því við bæjarráð að verkefnið verði tekið inn í gerð fjárhagsáætlunar 2026 bæði hvað varðar kaup á búnaði sem eftir stendur og rekstur. Mikilvægt er að hægt verði að hefja starfsemi Sköpunarhús strax í janúar 2026.
Ráðgert er að hefja klúbbastarf í Sköpunarhúsinu í Félagsmiðstöðinni í haust, ef af fjárveitingu verður, og að reynslan sem fæst af starfinu verði nýtt til að meta fjárþörf verkefnisins í fjárhagsáætlunarvinnu fyrir 2026. „

(sign. Óskar Jósúason)

Bókun fulltrúa H-listans

„Fulltrúar meirihluta hafna tillögu fulltrúa minnihluta um viðauka eða tilfærslu fjárheimilda. Meirihluti leggur til að verkefnastjóri æskulýðs- og tómstundamála í samráði við framkvæmdastjóra sviðsins móti framkvæmd og fyrirkomulag verkefnsins og leggur fyrir ráðið sem framtíðarverkefni. Einnig leggur meirihluti ráðsins til að verkefnið verði tekið inn í gerð fjárhagsáætlunar 2026. Mikilvægt er að vanda vel til verksins og að hægt verði að hefja starfsemi Sköpunarhúss í janúar 2026.“

(sign. Hrefna Jónsdóttir og Rannveig Ísfjörð)

Bókun fulltrúa D-listans

„Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023 var gert ráð fyrir 10 milljónum króna í Sköpunarhús og 7 milljónum við gerð fjárhagsáætlunar 2024. Af því hafa aðeins 1,5 milljónir verið nýttar tómstundastarf en þá hafa börn og unglingar mun mótaðri dagskrá. Leiðbeinandi mun einnig geta veitt betri innsýn inn í komandi fjárhagsáætlunar vinnu fyrir verkefnið. Svigrúm er til staðar miðað við fyrri áætlanir, kostnaður óverulegur við þennan viðauka sem og að allar líkur eru á því að sá búnaður sem bærinn hefur þegar fjárfest í standi óhreyfður, amk fram á næsta ár ef ekkert verður að gert.“

(sign. Óskar Jósúason)

Bókun fulltrúa H-listans

„Meirihlutinn er sammála þessari vegferð er varðar Sköpunarhús en vill að verkefnið sé unnið í samstarfi og í gegnum fjárhagsáætlun eins og kemur fram í fyrri bókun. Enda er þetta ákvörðun um aukningu á stöðugildum og er því eðlilegt að það verði tekið inní vinnu við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2026.“

(sign. Hrefna Jónsdóttir og Rannveig Ísfjörð)
5. 202508061 - Ósk um styrk
Ósk um styrk til að taka þátt í fjallahlaupi í Frakklandi.

Niðurstaða
Ráðið getur ekki orðið við erindinu
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:53 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove