Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1583

Haldinn í Einarsstofu safnahúsi,
05.05.2022 og hófst hann kl. 12:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Trausti Hjaltason aðalmaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202203127 - Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021
Seinni umræða

Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri lagði endurskoðaðan ársreikning Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021 fram til síðari umræðu og upplýsti um að engar breytingar hefðu orðið á ársreikningnum á milli umræðna. Eina breytingin sem gerð var á ársreikningnum milli umræðna snýr að viðbót við skýringu um afkomu hjúkrunarheimilisins Hraunbúða, en sú skýring hefur engin áhrif á tölur í ársreikningnum.

Rekstrarniðurstaða aðalsjóðs Vestmannaeyjabæjar var jákvæð um rúmar 137 m.kr., sem er rúmum 110 m.kr. meira en fjárhagsáætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða samstæðureiknings var jákvæð um tæpar 394 m.kr., sem er tæpum 365 m.kr. hærri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir.

Niðurstaða
Við umræðu um ársreikninginn tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Trausti Hjaltason, Njáll Ragnarsson, Elís Jónsson og Helga Kristín Kolbeins.

Bókun frá bæjarfulltrúum D lista

Ársreikningurinn ber þess glögglega merki að útgjöld hafa bólgnað á kjörtímabilinu. Því til stuðnings má benda á að veltufé frá rekstri sveitarsjóðs sem hlutfall af tekjum er í sögulegu lágmarki. Ef síðustu 14 ár eru skoðuð kemur í ljós að reksturinn hefur ekki verið verri.

Væru áhrif rekstur Herjólfs ohf. tekin út úr reikningum bæjarins væri sveitarsjóður rekinn með tapi. Bara árið 2021 var gengið á 600 milljónir á sjóði sveitarfélagsins. Auk þess er slæmt að kostnaður bæjarfélagsins vegna óþarfa vaxtakostnaðar við greiðslu skulda hlaupi á milljónum síðustu ár.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

Bókun frá fulltrúum E og H lista

Meirihluti E- og H- lista lýsir ánægju með útkomu ársreiknings Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021. Ársreikningurinn sýnir sterka stöðu bæjarsjóðs, jákvæða rekstrarafkomu, góða eignastöðu og lágar skuldir.

Rekstrarafkoma samstæðunnar nam tæpum 394 m.kr., sem er um 365 m.kr. betri afkoma en áætlun gerði ráð fyrir. Rekstrarafkomu aðalsjóðs nam um 137 m.kr., sem er rúmum 110 m.kr. meiri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun 2021.

Frá árinu 2018 hafa rekstrartekjur samstæðunnar aukist úr 5.017 m.kr. í 7.525 m.kr. árið 2021 og á sama tíma hafa langtímaskuldir samstæðunnar lækkað úr 306 m.kr. í 223 m.kr. Fjárfestingar í innviðum m.a. húsbyggingum og aðstöðu hafa aukist úr 608 m.kr. árið 2018 í 1.265 m.kr. árið 2021.

Fjárhagsstaða Vestmannaeyjabæjar er góð og ársreikningurinn endurspeglar það. Það sama er hægt að segja um stöðu og rekstur bæjarsjóðs allt kjörtímabilið. Vestmannaeyjabær hefur staðið í umfangsmiklum framkvæmdum til að bæta þjónustu og innviði bæjarins, en jafnframt til að skapa störf yfir þann tíma er áskoranir voru í atvinnuhorfum. Hagrætt hefur verið í rekstri þar sem við hefur átt og ráðist í umfangsmikla bætta þjónustu við bæjarbúa. Megináherslan í öllum þessum aðgerðum hefur snúið að ábyrgri fjármálastjórnun en jafnframt að auka þjónustu og sinna þar með skyldum bæjarins við íbúa og fyrirtæki í Vestmannaeyjum.

Þessi sterka staða bæjarsjóðs kemur öllum til góða. Mikilvægt hlutverk bæjarfulltrúa er að horfa til framtíðar og byggja upp öfluga þjónustu og innviði sem geta fylgt eftir þeirri íbúafjölgun sem við væntum á næstu árum. Við horfum til framtíðar.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Elís Jónsson (sign.)

Bókun frá meirihluta E og H lista

Bæjarfulltrúar E- og H-lista ítrekar bókun frá síðasta fundi bæjarstjórnar í umræðu um ársreikning.

Umræða um ráðstöfun fjármagns úr verðbréfasjóðum bæjarins er villandi og röng ef ekki fylgja upplýsingar um hvert það fjármagn rennur. Þegar verið er að innleysa fjármagn úr sjóðum bæjarins, er það gert til að kosta framkvæmdir á vegum bæjarins. Framkvæmdir eru annars vegar fjármagnaðar með rekstrarafkomu (þ.e. afgangi af rekstri) eða úr verðbréfasjóðum bæjarins. Með því er ekki verið að eyða peningum bæjarins, heldur fjárfesta í eignum, rétt eins og þegar einstaklingar nota peninga af bankabók til að kaupa íbúð. Vissulega er búið að innleysa peninga af bankabókinni en það er gert til þess að fjárfesta í íbúðinni.

Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Elís Jónsson (sign.)

Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar, las upp niðurstöðutölur úr ársreikningi Vestmannaeyjabæjar og stofnana hans fyrir árið 2021:

a) Ársreikningur sjóða í A-hluta 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði (neikvæð) kr. -48.531.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 137.339.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 13.211.349.000
Eigið fé kr. 7.336.256.000

Samstæða Vestmannaeyjabæjar

Afkoma fyrir fjármagnsliði (jákvæð) kr. 404.764.000
Rekstrarafkoma ársins (jákvæð) kr. 393.773.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 15.820.680.000
Eigið fé kr. 9.843.795.000

b) Ársreikningur Hafnarsjóðs Vestmannaeyja 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 65.335.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 79.091.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 2.256.496.000
Eigið fé kr. 2.023.427.000

c) Ársreikningur Félagslegra íbúða 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 40.915.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 28.863.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 908.139.000
Eigið fé ( neikvætt) kr. -50.568.000

d) Ársreikningur Fráveitu Vestmannaeyja 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 47.527.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 27.143.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 687.447.000
Eigið fé kr. 369.254.000

e) Ársreikningur Dvalarheimilisins Hraunbúða 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 4.959.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 3.129.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 32.936.000
Eigið fé kr. 32.936.000

g) Ársreikningur Vatnsveitu 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 0
Rekstrarafkoma ársins kr. 0
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 352.000.000
Eigið fé kr. 0

h) Ársreikningur Vestmannaeyjaferjunar Herjólfs ohf 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 287.914.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 261.561.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 385.060.000
Eigið fé (neikvætt) kr. 256.551.000

i) Ársreikningur Náttúrustofu Suðurlands 2021:

Afkoma fyrir fjármagnsliði kr. 6.646.000
Rekstrarafkoma ársins kr. 6.646.000
Niðurstaða efnahagsreiknings kr. 27.002.000
Eigið fé kr. 25.939.000

Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir 2021 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
Ársreikningur Vestmannaeyjabæjar fyrir árið 2021 síðari umræða.pdf
2. 201811049 - Umhverfisstefna Vestmannaeyjabæjar
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, bæjarfulltrúi og formaður umhverfis- og skipulagsráðs, gerði grein fyrir umhverfis- og auðlindastefnu Vestmannaeyjabæjar og aðgerðaáætlun.

Umhverfis- og auðlindastefnan var unnin í nánu samstarfi við Eflu verkfræðistofu.

Í upphafi vinnunnar var ráðist í umhverfisgreiningu á þeim þáttum í starfsemi bæjarins sem valda umtalsverðum umhverfisáhrifum og tekið saman kolefnisbókhald. Í framhaldi var leitað víða eftir tillögum, um aðgerðir til að draga úr áhrifum frá starfsemi bæjarins og samfélagsins alls á umhverfi sitt. Mikil áhersla var lögð á að fá íbúa og starfsfólk sveitarfélagsins með í þessa vinnu.

Þeir þættir sem valda umtalsverðum áhrifum eru: raforka, kalt og heitt vatn, varasöm efni, innkaup, eldsneytisnotkun, frárennsli, fastur úrgangur og spilliefni.

Mikilvægir þættir í auðlindastefnu eru náttúran, dýralíf á landi og í sjó, orka og efni í sjó, jarðefni, landnotkun, sérstaða eyjanna, fjölbreytt náttúra og menningarminjar. Þessir þættir eru tengdir við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

Töluverð áhersla var lögð á samráð og samvinnu við sem flesta hagsmunaaðila, íbúa, fyrirtæki og stofnanir við gerð stefnunnar. Haldinn var íbúafundur, samráðsfundir með fulltrúum stofnana bæjarins og bæjarstjórn og lögð var spurningakönnun fyrir íbúa Vestmannaeyja og starfsfólk stofnana, þar sem fram komu margar tillögur að aðgerðum.

Aðgerðirnar eru settar fram með fyrirvara um samþykki í fjárhagsáætlun ár hvert.

Drög að umhverfis- og auðlindastefnu voru lögð fyrir umhverfis- og skipulagsráð þann 20. apríl sl., þar sem ákveðið var að vísa stefnunni til bæjarstjórnar þegar aðgerðaáætlun lægi fyrir. Nú liggja þær aðgerðir fyrir, sem flestar eru skilgreindar í samráði við starfsfólk, bæjarstjórn og íbúa bæjarins. Stefnan verður í stöðugri þróun og endurskoðuð á þriggja ára fresti. Aðgerðaáætlunin verður yfirfarin árlega í tengslum við fjárhagsáætlanagerð.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Elís Jónsson, Trausti Hjaltason, Njáll Ragnarsson, Helga Kristín Kolbeins og Íris Róbertsdóttir.

Bókun frá meirihluta E og H lista

Meirihluti E- og H-lista fagnar því að sveitarfélagið hafi í fyrsta skipti látið vinna stefnu í umhverfismálum. Umhverfis- og auðlindastefnan er skýr með aðgerðum sem eru forgangsraðaðar, kostnaðargreindar og tímasettar. Í þeirri vinnu sem er að baki var mikilvægt að fá sjónarmið íbúa sveitarfélagsins þar sem umhverfismál koma öllum við og snerta á flestum málaflokkum.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Njáll Ragnarsson (sign.)
Elís Jónsson (sign.)

Bæjarstjórn samþykkir umhverfis- og auðlindastefnu og aðgerðaáætlun fyrir Vestmannaeyjabæ með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Umhverfis- og auðlindastefna Vestmannaeyjabæjar 2022.pdf
3. 201909001 - Atvinnumál
Elís Jónsson, forseti bæjarstjórnar, gerði grein fyrir stöðu vinnu við gerð atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar og næstu skref.

Þann 7. apríl sl., voru lögð fyrir bæjarráð drög að atvinnustefnu Vestmannaeyjabæjar. Í drögunum er sett fram framtíðarsýn sveitarfélagsins í atvinnumálum, markmið í atvinnuþróun og áherslur fyrir hvert markmiðanna.

Ákveðið var að fylgja ákveðnu verklagi við söfnun umsagna og athugasemda um drögin, en vegna veikinda og annarra ófyrirséðra atvika hafa orðið tafir á þeirri vinnu.

Niðurstaða
Tillaga bæjarstjórnar

Í ljósi umræddra atvika samþykkir bæjarstjórn að fresta frekari vinnu við gerð atvinnustefnunnar fram yfir sveitarstjórnarkosningar.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa
4. 201006074 - Kosning í ráð, nefndir og stjórnir skv. 42. gr. bæjarmálasamþykktar Vestmannaeyjabæjar.

Niðurstaða
Við umræðu um þennan lið tóku til máls: Elís Jónsson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir.

Kjörstjórn:

Samkvæmt 5. tl. B-liðar 42. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar, kýs bæjarstjórn þrjá aðalfulltrúa og jafnmarga varafulltrúa í kjörstjórn við sveiarstjórnar og alþingiskosningar. Gerðar eru þær breytingar á kjörstjórn nú, að Ingólfur Jóhannesson kemur í stað Rutar Haraldsdóttur sem varamaður í kjörstjórn. Að öðru leyti eru engar breytingar á skipan kjörstjórnar.

Samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Stjórn Herjólfs ohf.

Samkvæmt 1. tl. D-liðar 42. gr. samþykktar um stjórn Vestmannaeyjabæjar og fundarsköp bæjarstjórnar nr. 991/220, skipar bæjarstjórn aðal- og varastjórn Herjólfs ohf. Bæjarstjórn hefur ákveðið að skipa eftirtalda einstaklinga í stjórn Herjólfs ohf:

Aðalmenn:
Pál Scheving, í stað Arnars Péturssonar,
Guðlaug Friðþórsson,
Agnesi Einarsdóttur,
Helgu Kristínu Kolbeins, í stað Arndísar Báru Ingimarsdóttur og
Sigurberg Ármannsson, í stað Páls Guðmundssonar.

Varamenn:
Rannveigu Ísfjörð, í stað Anítu Jóhannsdóttur og
Sæunni Magnúsdóttur, í stað Birnu Vídó Þórsdóttur

Samþykkt með sex atkvæðum atkvæðum bæjarfulltrúa. Elís Jónsson, bæjarfulltrúi, sat hjá og gerði grein fyrir atkvæði sínu.

Undirritaður hefði kosið þess að stjórn Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs ohf. hefði verið skipt út í heild sinni. Af þeim sökum kýs ég að sitja hjá en lýsi fullu trausti við nýtt stjórnarfólk og óska þeim velfarnaðar í störfum sínum
Elís Jónsson (sign.)

Hildur Sólveig Sigurðardóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu.
Fundargerðir til staðfestingar
5. 202204002F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 363
Liðir 1-7 liggja fyrir til upplýsinga.
6. 202204003F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 277
Liðir 1-6 liggja fyrir til upplýsinga.
7. 202204004F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 274
Liður 1, Ársreikningur Vestmannaeyjahafnar 2021, liggur fyrir til umræðu í bæjarstjórn.

Liðir 2-4 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Enginn kvað sér hljóðs við umræðu um ársreikning Vestmannaeyjahafnar fyrir árið 2021 og er reikningurinn þannig samþykktur af hálfu bæjarstjórnar.
8. 202204005F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3173
Liður 2, Umræða um samgöngumál, liggur fyrir til umræðu.

Liðir 1 og 3-5 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 2 tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason, Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Elís Jónsson.
9. 202204008F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 364
Liður 8, Umhverfisstefna Vestmannaeyjabæjar, var tekinn til umræðu og afgreiðslu undir 2. dagsrkrárlið þessa fundar.

Liðir 1-7 liggja fyrir til upplýsinga.
10. 202204010F - Fræðsluráð - 358
Liðir 1-4 liggja fyrir til upplýsinga.
Íris Róbertsdóttir, bæjarstjóri, færði þeim Trausta Hjaltasyni, Elís Jónssyni og Helgu Kristínu Kolbeins, bæjarfulltrúum, blóm í tilefni þess að þau eru að taka þátt í sínum síðasta bæjarstjórnarfundi, þar sem þau gefa ekki kost á sér til endurkjörs í næstu sveitarstjórnarkosningum.

Trausti Hjaltason tók þátt í 89 bæjarstjórnarfundum á síðustu tveimur kjötímabilum.

Helga Kristín Kolbeins tók þátt í 40 bæjarstjórnarfundum frá árinu 2018 er hún var kosinn í bæjarstjórn.

Elís Jónsson tók þátt í 44 bæjarstjórnarfundum frá árinu 2018 er hann var kosinn í bæjarstjórn.


Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 14:10 

Til baka Prenta