Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1586

Haldinn í Ráðhúsinu,
15.09.2022 og hófst hann kl. 17:00
Fundinn sátu: Erlingur Guðbjörnsson 1. varamaður,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Páll Magnússon aðalmaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Margrét Rós Ingólfsdóttir aðalmaður,
Helga Jóhanna Harðardóttir aðalmaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Angantýr Einarsson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs
Njáll Ragnarsson, bæjarfulltrúi hefur boðað forföll. Í hans stað kemur Erlingur Guðbjörnsson, varabæjarfulltrúi.

Forseti bæjarstjórnar bar undir bæjarfulltrúa tillögu um að taka inn með afbrigðum 2. dagskrárlið 283. fundar fjölskyldu- og tómstundaráðs, þar sem í útsendri dagskrá málið er aðeins til upplýsinga, en óskað hefur verið eftir umræðu um það. Bæjarfulltrúar greiddu samhljóða atkvæði með tillögu forseta bæjarstjórnar.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Flugsamgöngur
Þann 12. september sl., átti bæjarráð, bæjarstjóri og framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, fund með innviðaráðherra og fulltrúum ráðuneytisins um flugsamgöngur milli lands og Eyja. Töluverður tími er liðinn frá því að umræða um ríkisstyrkt flug hófst og stóðu bæjaryfirvöld í Vestmannaeyjum í þeirri trú að Vegagerðin og innviðaráðuneytið væru að vinna að undirbúningi útboðs á ríkisstyrktu flugi. Nokkur tími er síðan Vestmannaeyjabær fékk þær upplýsingar að Vegagerðin hefði lokið þarfagreiningu á flugi til og frá Vestmannaeyjum og undirbúningi útboðs.

Fram kom í máli ráðherra á fundinum að lítið sem ekkert hafi þokast í átt að útboði á ríkisstyrktu flugi og til standi að nota veturinn til frekari undirbúnings. Jafnframt kom fram á fundinum að útboðsferlið sé a.m.k. sjö mánuðir og þurfi að bjóða út flugið á evrópska efnahagssvæðinu. Hins vegar kom fram í máli ráðherra að hann vildi leysa flugsamgöngur í vetur með svipuðum hætti og gert var síðasta vetur, án þess að útskýra það fyrirkomulag frekar.

Þessar fréttir komu eins og þruma úr heiðskýru lofti. Bæjaryfirvöld stóðu í þeirri trú að ríkisstyrkt áætlunarflug gæti hafist í haust, undirbúningur ráðuneytisins og Vegagerðarinnar væri langt á veg kominn og bara ætti eftir að tryggja fjárheimildir til verkefnisins.

Samgöngur á sjó
Samkvæmt upplýsingum frá Herði Orra Grettissyni, framkvæmdastjóra Herjólfs ohf., er áætlað að Herjólfur IV fari í slipp þann 8. október nk. og að Herjólfur III muni leysa ferjuna af meðan á slipptöku stendur, sem áætlað er að taki um 3 vikur. Um er að ræða hefðbundið viðhald og viðgerðir. Stærstu og tímafrekustu verkin felast í útskiptum á landfestarspilum og sandblæstri og málun á bíladekki.

Farþegaflutningar hafa gengið mjög vel síðan Landeyjahöfn opnaði aftur í apríl og hafa met í farþegaflutningum verið slegin 5 mánuði í röð og þá fer septembermánuður vel af stað. Fyrstu 8 mánuði ársins voru 327.243 farþegar fluttir milli lands og Eyja til samanburðar við 284.091 farþega á sama tímabili árið 2019. Rekstur félagsins gengur samkvæmt áætlunum eftir erfiða vetrarmánuði þegar siglt var til Þorlákshafnar.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson og Hildur Sólveig Sigurðardóttir,

Flugsamgöngur

Sameiginlega bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn Vestmannaeyja harmar að enn liggi ekki fyrir neinar ákvarðanir innviðaráðuneytisins um útfærslu á ríkisstyrktu flugi til Vestmannaeyja eins og fyrirheit höfðu verið gefin um. Á fundi bæjarráðs með ráðherra og starfsfólki innviðaráðuneytisins 12. sept. sl. kom fram vilji ráðherra til að stuðla að lágmarks flugi í vetur en engin útfærsla á hvernig því yrði háttað.
Þetta eru mikil vonbrigði því að bæjaryfirvöldum hefur margsinnis verið sagt að undirbúningur fyrir útboð á ríkisstyrktu flugi væri á lokastigi hjá Vegagerðinni og gæti farið fram nú í haust. Sömuleiðis hefur ráðherrann í samtölum og á fundum margítrekað vilja sinn til að stuðla að áætlunarflugi til Vestmannaeyja með aðkomu ríkisins.

Bæjarstjórn skorar á innviðaráðherra að efna nú þegar áður gefin fyrirheit í þessum efnum þannig að áætlunarflug komist á milli lands og Eyja strax í vetur.

Páll Magnússon (sign.)
Eringur Guðbjörnsson (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdótir (sign.)
2. 202103172 - Vatnsleiðsla til Vestmannaeyja
Bæjarráð tók fyrir á fundi sínum þann 16. ágúst sl., bréf innviðaráðuneytisins, dags. 14. júlí 2022, með niðurstöðu viðræðna milli Vestmannaeyjabæjar og innviðaráðuneytisins um kaup og lagningu nýrrar vatnsleiðslu til Vestmannaeyja. Í bréfi ráðuneytisins kemur fram að stjórnvöld ætli ekki að verða við beiðni Vestmannaeyjabæjar um fjársstuðning til verkefnisins. Viðræður milli aðila hafa staðið yfir í meira en ár og meðan á þeim stóð voru bundnar miklar vonir við að stjórnvöld myndu veita Vestmannaeyjabæ fjárstuðning ríkisins við lagningu nýrrar vatnsleiðslu til Vestmannaeyja, vegna sérstöðu þeirra. Bæjarráð lýsti miklum vonbrigðum með niðurstöðu ráðherra og ráðuneytisins, sérstaklega þar sem annað hljóð hafi verið á þeim fjölmörgu fundum sem haldnir voru. Jafnframt hafi niðurstaðan komið bæjaryfirvöldum verulega á óvart.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Gísli Stefánsson og Eyþór Harðarson

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn tekur undir með bæjarráði og lýsir miklum vonbrigðum með niðurstöðu ráðherra og ráðuneytisins varðandi ósk Vestmannaeyjabæjar um þátttöku í lagningu nýrrar vatnsleiðslu neðansjávar. Ný vatnsleiðsla til Eyja er öryggismál og nauðsynlegt að hún verið lögð sem fyrst. Því er borið við í svari ráðuneytisins að ekki megi skapa fordæmi í þessum efnum. Það er undarlegt í ljósi þess að ráðuneytið sjálft skilgreindi sérstöðu Vestmannaeyja árið 2008, vegna mikils kostnaðar þar sem um neðansjávarleiðslu er að ræða. Þannig skapar það ekki nýtt fordæmi að styðja við nýja leiðslu til Eyja nú þar sem það var gert árið 2009 í ljósi fyrrgreindrar sérstöðu; og er þannig heldur ekki fordæmi fyrir önnur verkefni. Bæjarráð hefur fundað með þingmönnum Suðurkjördæmis og sýna þeir málinu stuðning og skilning sem vonandi kemur í ljós þegar á reynir.

Páll Magnússon (sign.)
Erlingur Guðbjörnsson (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdótir (sign.)
Bréf innviðaráðuneytis um vatnslögn til Vestmannaeyja.pdf
3. 201911005 - Staða sýslumannsins í Vestmannaeyjum
Dómsmálaráðherra hefur boðað framlagningu á frumvarpi til laga um sýslumann. Verði frumvarpið að lögum munu lögin leysa af hólmi lög nr. 50/2014 um framkvæmdarvald og stjórnsýslu ríkisins í héraði. Helstu breytingarnar varða fækkun sjálfstæðra sýslumannsembætta úr níu í eitt og með því verða öll sýslumannsembætti landsins sameinuð undir einni yfirstjórn og einn sýslumaður skipaður í umrætt embætti. Til stendur að starfrækja flestar núverandi starfsstöðvar, m.a. í Vestmannaeyjum. Hins vegar verður öllu starfsfólki sagt upp störfum og það ráðið til hins nýja embættis. Stöður sýslumanna verða lagðar niður og nýr sýslumaður annast ráðningar stjórnenda starfsstöðva um landið. Jafnframt stendur til að leggja fram drög að frumvarpi um breytingar á ýmsum lögum til að hægt sé að innleiða nútímalega starfshætti, m.a. stafræna þjónustu, hjá nýju embætti. Ekki liggur fyrir hvar dómþing verða staðsett, en bent hefur verið á mikilvægi þess að dómþing sé sinnt í Vestmannaeyjum.

Vestmannaeyjabær sendi umsögn um frumvarpið meðan það var í Samráðsgátt stjórnvalda, þar sem dómsmálaráðherra var hvattur til að fresta framlagningu frumvarpsins og byrja þess í stað á að ákveða verkefni starfsstöðva á landsbyggðinni og nútímavæða vinnubrögð og verklag hjá sýslumannsembættunum. Jafnframt að dómþing verði áfram starfrækt í Vestmannaeyjum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Eyþór Harðarson, Páll Magnússon, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Helga Jóhanna Harðardóttir.

Bókun frá bæjarfulltrúum D lista
Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins börðust hart í byrjun síðasta kjörtímabils fyrir sjálfstæði embættisins í Vestmannaeyjum en til stóð að sýslumaðurinn á suðurlandi yrði settur yfir embættið í Eyjum. Sú barátta skilaði árangri og var blessunarlega horfið frá þeim áformum. Í dag er embættið sjálfstæð eining með öfluga forystu sem hefur sótt ný verkefni og styrkt sérstöðu starfsmanna og stofnunarinnar í Eyjum og eflt starfsgrundvöll hennar til framtíðar. Fyrirætlanir dómsmálaráðuneytis snúa að þessu sinni að landlægum breytingum á öllum embættum sýslumanna en mikilvægt er að starfsstöð sýslumanns verði fest í sessi í Vestmannaeyjum eins og kemur fram í frumvarpinu og þau opinberu störf sem hér hafa byggst upp tryggð og fjölgað til framtíðar með frekari fjölgun verkefna.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)

Bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista

Meirihluti E og H lista tekur undir umsögn bæjarráðs um frumvarp til laga um sýslumann, sem birtist í Samráðsgátt stjórnvalda í sumar. Mikilvægt er að styðja við og styrkja embættin en óvissan í frumvarpinu er mikil og í raun engin trygging fyrir áframhaldandi starfsemi, hvað þá eflingu hennar, eins og þó er lýst sem markmiði frumvarpsins.

Dómsmálaráðherra hefur nú boðað framlagningu frumvarps um málið í haust og hvetur bæjarstjórn ráðherrann til að taka tillit til umsagnar bæjarins.

Ítrekuð er sú afstaða bæjarráðs að réttast væri að dómsmálaráðherra falli frá áformum um að leggja frumvarpið fram á þessum tímapunkti og hefji eðlilegt samráð við hlutaðeigandi aðila um framtíðarsýn fyrir sýslumannsembættin í landinu.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Páll Magnússon (sign.)
Erlingur Guðbjörnsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Samráðsgátt stjórnvalda, drög að frumvarpi til laga um sýslumann.pdf
Umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp til laga um sýslumann.pdf
4. 201503032 - Endurskoðun Aðalskipulags Vestmannaeyja.
Samkvæmt 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 er sveitarstjórnum ætlað að meta hvort ástæða sé til endurskoðunar aðalskipulags sveitarfélaga og hefur til þess 12 mánuði frá sveitarstjórnarkosningum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Margrét Rós Ingólfsdóttir, Eyþór Harðarson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Íris Róbertsdóttir, , Helga Jóhanna Harðardóttir og Erlingur Guðbjörnsson.

Tillaga að afgreiðslu

Umhverfis- og skipulagsráði ásamt starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs er falið að endurskoða aðalskipulagið samkv. 35. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 og leggja fyrir bæjarstjórn. Í þeirri endurskoðun leggur meirihluti E- og H-lista til að sérstaklega skuli horft til svæðis ÍB-5 við malarvöll og Löngulág, skipulagsmörkum verði breytt til að fá betri nýtingu á svæðinu, að byggingarmagn verði aukið og að koma skuli fyrir 8-10 deilda leikskóla. Jafnframt leggur meirihlutinn til að við vinnuna verði græn svæði látin halda sér.

Tillagan var samþykkt með fimm atkvæðum bæjarfulltrúa E og H lista gegn fjórum atkvæðum bæjarfulltrúa D lista

Bókun frá bæjarfulltrúum D lista

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins lýsa sig mótfallna því að stór hluti væntanlegs skipulagssvæðis verði nýttur undir leikskóla, útisvæði honum tengdum og bílastæðum. Ekki liggur fyrir þarfagreining í málinu, en skv.nýlegum upplýsingum eru 4 börn á biðlista og þörf á 8-10 deilda leikskóla því óljós að okkar mati. Formlega hafa ekki verið skoðaðir möguleikar á stækkun núverandi leikskóla sem hefði minni rekstraraukningu í för með sér, né liggur fyrir hvert hlutverk eldri leikskóla yrði til framtíðar með tilkomu nýs leikskóla, töluvert stærri en þeir sem fyrir eru.
Einnig er slíkur fyrirvari um leikskóla hamlandi fyrir hönnuði sem munu koma með tillögur hvernig hverfið gæti litið út.

Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)

Bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista

Í tillögu meirihluta E- og H-lista er gert ráð fyrir að umrætt svæði, ÍB-5 við malarvöll og Löngulág, verði stækkað í aðalskipulagi. Skipulagsmörkum verði breytt til að fá betri nýtingu á svæðinu til að auka byggingarmagn. Gert verður áfram ráð fyrir blandaðri íbúðabyggð eins og í núgildandi aðalskipulagi. Þannig aukast möguleikar fyrir ungt fólk sem eru að eignast sína fyrstu íbúð ef gert er ráð fyrir minni íbúðum. Með því að gera ráð fyrir nýjum leikskóla á svæðinu er verið að huga að barnvænu svæði, enda yrði leikskólinn þá miðsvæðis eins og leikskólinn Rauðagerði var áður. Leikskóli mun ekki hamla góðum hugmyndum á deiliskipulagningu á svæðinu enda ekki gert ráð fyrir að fækka íbúðum á kostnað leikskóla enda snýr tillagan að því að stækka svæðið og auka byggingarmagn án þess þó að það hafi truflandi áhrif á umhverfið í kring. Þegar ákvörðun er tekin um að gera ráð fyrir leikskóla í aðalskipulagi er það ekki ákvörðun um að byggja.

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Páll Magnússon (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Erlingur Guðbjörnsson (sign.)
5. 202206129 - Erindisbréf til til fulltrúa í ráðum skv. bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar
Lögð voru fyrir bæjarstjórn til samþykktar erindisbréf til fulltrúa í ráðum á vegum Vestmannaeyjabæjar. Um er að ræða fulltrúa í bæjarráði, fræðsluráði, fjölskyldu- og tómstundaráði og framkvæmda- og hafnarráði. Erindisbréf fyrir fulltrúa í umhverfis- og skipulagsráði verður tekið fyrir í ráðinu á mánudaginn kemur og verður tekið inn til samþykktar á næsta fundi bæjarstjórnar.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tók til máls: Páll Magnússon

Bæjarstjórn samþykkir erindisbréf fyrir fulltrúa í bæjarráði, fræðsluráði, fjölskyldu- og tómstundaráði og framkvæmda- og hafnarráði með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Erindisbréf fyrir bæjarráð.pdf
Erindisbréf_fyrir_fræðsluráðs.pdf
Erindisbréf_fyrir_fjölskyldu-_og_tómstundaráð.pdf
Erindisbréf_fyrir_framkvæmda_og_hafnarráð_lokaeintak_(002).pdf
Fundargerðir til staðfestingar
6. 202206009F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 277
Liðir 1-7 liggja fyrir til upplýsinga.
7. 202207001F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 280
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
8. 202207006F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 281
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
9. 202207007F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3176
Liður 7, Siðareglur kjörinna fulltrúa Vestmannaeyjabæjar, liggur fyrir til samþykktar.

Liður 11, Fræðsluráð Vestmannaeyja - 361, þ.e. liður 4 um endurskoðun leikskólagjalda á 5 ára deild og liður 5 um heimagreiðslur, liggja fyrir til umræðu

Liður 12, Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 368, þ.e. liður 2 í fundargerðinni um deiliskipulag miðbæjar og liður 12, um umferðarljós á gatnamótum Heiðavegs og Kirkjuvegs, liggur fyrir til umræðu.

Liðir 1-6 og 8-10 liggja fyrir til upplýsinga.

Um lið 7: Samkvæmt 29. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, skulu sveitarstjórnir setja sér siðareglur sem sendar skulu ráðuneytinu til staðfestingar. Ef siðareglur eru í gildi skal ný sveitarstjórn meta hvort ástæða sé til endurskoðunar þeirra. Ef niðurstaðan er sú að siðareglur þarfnist ekki endurskoðunar halda þær gildi sínu. Tilkynna skal ráðuneytinu um þá niðurstöðu.

Bæjarráð fól framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að kanna hvort ástæða þætti til að endurskoða siðareglur kjörinna fulltrúa og sérstaklega með hliðsjón af samþykkt um stjórn og fundarsköp Vestmannaeyjabæjar nr. 991/2020, sem tók gildi eftir að siðareglurnar voru síðast staðfestar. Endurskoðaðar siðareglur yrðu svo lagðar fyrir bæjarstjórn á fundi hennar í september.

Framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs hefur yfirfarið reglurnar. Ekkert í bæjarmálasamþykktinni, sem tók gildi árið 2020, kallar á breytingar á siðareglum kjörinna fulltrúa. Þær eru því lagðar fyrir bæjarstjórn óbreyttar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 7, tók til máls: Páll Magnússon

Siðareglur kjörinna fulltrúa hjá Vestmannaeyjabæ, sem lagðar voru fyrir bæjarstjórn óbreyttar, voru samþykktar með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs var falið að tilkynna innviðaráðuneytinu um niðurstöða bæjarstjórnar.

Við umræðu um lið 11 tóku til máls: Páll Magnússon, Helga Jóhanna Harðardóttir, Eyþór Harðarson, Erlingur Guðbjörnsson og Íris Róbertsdóttir.

Bókun frá bæjarfulltrúum D lista

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eru mótfallin því að fæði sé gjaldfrjálst. Rekstur sveitarfélagsins þyngist sífellt með auknum kröfum um þjónustu. Launakostnaður eykst umfram áætlanir og fjárfestingaþörf sveitarfélagsins er mikil á komandi árum. Foreldrar eru framfærsluskyldir með börnum sínum og ef einhverra hluta vegna þau geta það ekki, eru til úrræði sem hægt er að leita til. Eðlilegt og sjálfsagt er að foreldrar greiði hóflegt gjald fyrir fæði barna sinna.

Eyþór Harðarson (sign.)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)

Bókun frá bæjarfulltrúum E og H lista

Meirihluti E- og H-lista tekur undir bókun meirihluta fræðsluráðs um endurskoðun leikskólagjalda á 5 ára deild, Víkinni. Meirihlutinn hefur unnið að því undanfarin ár að gera Vestmannaeyjar að stað sem styður við barnafjölskyldur. Er þetta stórt skref í átt að þeim markmiðum.

Með því að bjóða upp á gjaldfrjálsa 7 tíma á 5 ára deild ásamt fríu fæði er verið að styrkja þetta mikilvæga skólastig þar sem öll börn í Vestmannaeyjum hafa þá jafnan rétt á að hefja sína skólagöngu. Einnig er þetta eins og fram kom í bókun meirihluta fræðsluráðs hvati til þess að stytta vinnudag barna. Teljum við þetta vera skref í rétta átt að fjölskylduvænna samfélagi.

Erlingur Guðbjörnsson (sign.)
Páll Magnússon (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)

Við umræðu um lið 12 tók til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir

Fallið var frá umræðu um lið 2 í fundargerð umhverfis- og skipulagsráðs nr. 368, um deiliskipulag miðbæjar.

Bókun frá bæjarfulltrúum D lista um 12. lið fundargerðar 368. fundar umhverfis- og skipulagsráðs

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fagna framlagðri tillögu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í ráðinu og taka undir hana, enda mikilvægt að bæta umferðaröryggi við ein hættulegustu gatnamót sveitarfélagsins.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
Gísli Stefánsson (sign.)
Margrét Rós Ingólfsdóttir (sign.)
10. 202208001F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3177
Liðir 1-7 liggja fyrir til upplýsinga.
11. 202208002F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 369
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
12. 202208004F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 362
Liðir 1-6 liggja fyrir til upplýsinga.
13. 202208005F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 278
Liður 4, Borgað þegar hent er, liggur fyrir til umræðu.

Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 4 tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Erlingur Guðbjörnsson og Gísli Stefánsson.
14. 202208007F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 282
Liðir 1-3 liggja fyrir til upplýsinga.
15. 202208008F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 370
Liður 2, Breyting á aðalskipulagi - Viðlagafjara, liggur fyrir til samþykktar.

Liður 3, Strandvegur 104. Umsókn um stækkun lóðar og byggingarreits, liggur fyrir til samþykktar.

Liðir 1, og 4-12 liggja fyrir til upplýsinga.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 2 tóku til máls: Páll Magnússon

Liðurinn var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa

Við umræðu um lið 3 tóku til máls: Páll Magnússon

Liðurinn var samþykktur með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa
16. 202209001F - Fræðsluráð Vestmannaeyja - 363
Liðir 1-5 liggja fyrir til upplýsinga.
17. 202209002F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3178
Liðir 1-12 liggja fyrir til upplýsinga.
18. 202209006F - Fjölskyldu- og tómstundaráð Vestmannaeyja - 283
Liður 1, Barnaverndarlög - Ný skipan barnaverndarmála hjá sveitarfélögum, liggur fyrir til umræðu og samþykktar.

Á fundi fjölskyldu- og tómstundaráð sem haldinn var þann 12. september sl., voru kynntar breytingar á skipan barnaverndarmála sveitarfélaga. Fjölskyldu- og fræðsluráð samþykkti, að tillögu framkvæmdastjóra fjölskyldu- og fræðslusviðs, að taka þátt í rekstri á umdæmisráði barnaverndar á landsvísu. Ráðið samþykkti jafnframt að sækja um undanþágu frá sex þúsund íbúa lágmarki varðandi rekstur á barnaverndarþjónustu í sveitarfélaginu.

Lögð voru fyrir bæjarstjórn drög að samningi umdæmisráðs barnaverndar á landsvísu, erindisbréf valnefndar og viðauki við samning vegna stofnunar og starfsemi umdæmisráðs barnaverndar. Samkvæmt innleiðingu á breytingum á barnaverndarlögum skulu öll sveitarfélög hafa skipað umdæmisráð fyrir 1. október nk.

Liður 2, Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja, liggur fyrir til umræðu.

Niðurstaða
Margrét Rós Ingólfsdóttir, bæjarfulltrúi, vék af fundi undir þessum lið 1 í fundargerð fjölskyldu- og tómstundaráðs, þar sem hún er starfsmaður fjölskyldu- og fræðslusviðs og annast þ.m.t. barnaverndamál.

Við umræðu um lið 1 tók til máls: Páll Magnússon

Niðurstaða

Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu fjölskyldu- og tómstundaráðs og samþykkir bæjarstjórn að taka þátt í umdæmisráði barnaverndar á landsvísu, en óskar nánari skýringa á fyrirkomulagi vegna greiðslna fyrir hvert og eitt mál sem fer til meðferðar hjá umdæmisráði.

Jafnframt samþykkir bæjarstjórn að sótt verði um undanþágu frá sex þúsund íbúa lágmarki varðandi rekstur á barnaverndarþjónustu í Vestmannaeyjum.

Bæjarstjórn felur bæjarstjóra að undirrita samning þann sem fyrir liggur.

Liðurinn var samþykktur með átta samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.

Við umræðu um lið 2 tók til máls: Páll Magnússon

Niðurstaða

Bæjarstjórn tekur undir með fulltrúum fjölskyldu- og tómstundaráðs um að bæta þurfi aðstöðu í Íþróttamiðstöð Vestmannaeyja og sér í lagi búningsklefana. Málið var einungis til kynningar en kynna þarf tillögurnar sem um ræðir betur og kostnaðar- og þarfagreina verkið. Bæjarstjórn felur starfsfólki umhverfis- og framkvæmdasviðs að vinna áfram að tillögum um bætta búningsaðstöðu í Íþróttamiðstöðinni og leggja tillögur sviðsins fyrir fjölskyldu- og tómstundaráð. Bæjarráð mun svo fjalla um málið að lokinni umræðu í fjölskyldu- og tómstundaráði.


Niðurstaðan var samþykkt með níu samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 19:08 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove