Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3213

Haldinn í Ráðhúsinu,
05.04.2024 og hófst hann kl. 08:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir varaformaður,
Eyþór Harðarson aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Drífa Gunnarsdóttir embættismaður.
Fundargerð ritaði: Drífa Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Ríkisstyrktu vetrarflugi til Vestmannaeyja var hætt í lok mars. Samkvæmt Vegagerðinni var ekki fjármagn til að halda því áfram. Bæjarráð og bæjarstjórn hafa ítrekað mikilvægi þess að flugið yrði út apríl þar sem dýpið fyrir Herjólf er ekki fullnægjandi á rifinu og þarf að treysta á litla ölduhæð til að halda fullri áætlun.

Dýpkun hefur ekki verið sinnt sem skyldi yfir páskana þótt það hafi verið góður veðurgluggi. Vegagerðin gaf þá skýringu að Björgun hefði ekki geta mannað skipið og því ekki hægt að sinna dýpkun þótt veður væri til þess. Dýpið á rifinu er hamlandi fyrir siglingar og því algerlega ótækt að ekki séu allir veðurgluggar nýttir. Bæjarstjóri kom þessum athugasemdum á framfæri við fulltrúa Vegagerðarinnar um helgina.

Niðurstaða
Bæjarráð telur óásættanlegt að Björgun uppfylli ekki samning um dýpkun með þeim hætti sem gert var um helgina og fer fram á það við Vegagerðina að hún grípi til aðgerða gagnvart félaginu vegna vanefnda á samningi.
2. 202311142 - Tjón á neysluvatnslögn
Vátryggingafélag útgerðarinnar hefur viðurkennt bótaskyldu vegna tjónsins á neysluvatnslögninni og eiga bætur að koma til greiðslu á árinu 2024. Ljóst er að tjónið er langt umfram hámark vátryggingabóta og munu fulltrúar Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna funda með Vinnslustöðinni í næstu viku vegna frekari tjónabóta.

Bæjarráð fór yfir drög að viljayfirlýsingu milli Vestmannaeyjabæjar og HS Veitna er snúa að viðbrögðum við tjóninu á vatnslögninni, lagningu nýrrar vatnsleiðslu í samráði við HS Veitur og frekari framtíðarsýn fyrir vatnsveituna.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir drögin að viljayfirlýsingunni fyrir sitt leyti.
3. 202402026 - Þjóðlendukröfur íslenska ríkisins-Vestmannaeyjar
Bæjarstjóri óskaði eftir svörum frá fjármálaráðherra um hvort einhverjar breytingar hefðu orðið á kröfulýsingu í land í Vestmannaeyjum eða hvort kröfulýsingin hefði í heild sinni verið dregin til baka í ljósi fjölda ábendinga um alvarlegar villur í kröfulýsingunni sem ekki virðast eiga sér lagastoð.

Niðurstaða
Bæjarráð ítrekar áskorun á ráðherra um að draga kröfulýsinguna í land í Vestmannaeyjum til baka.
4. 202403123 - Efnistaka við Landeyjahöfn
Fyrirtækið HeidelbergCement Pozzolanic Materials ehf. (HPM) skilaði matsáætlun til Skipulagsstofnunar þann 22. desember sl. vegna efnistöku úr sjó við Landeyjahöfn. Skipulagsstofnun leitaði umsagna við matsáætluninni m.a. frá Vestmannaeyjabæ sem skilaði inn ítarlegri og greinargóðri umsögn um málið þar sem m.a. er farið yfir áhyggjur af lífríki, innviðum á hafsbotni og siglingum Herjólfs.
Skipulagsstofnun sendi síðan umsagnarbeiðni til Vestmannaeyjabæjar þann 3. apríl sl. er varðar umhverfismatsskýslu sem COWI vann fyrir hönd HPM. Skilafrestur á umsögn er til 16. maí nk.

Niðurstaða
Bæjarráð ítrekar áhyggjur sínar af þessu verkefni sérstaklega þar sem um er að ræða mikilvægt svæði fyrir sveitarfélagið er lýtur að siglingum um höfnina, hrygningarsvæði fiska og innviðum á hafsbotni. Reynslan af Landeyjahöfn og sandmokstri þar hefur sýnt að þrátt fyrir bestu áætlanir er ekki hægt að sjá fyrir hvernig til muni takast við efnistöku svo tryggt verði að hún hafi ekki áhrif til hins verra á Landeyjahöfn og ekki verði tjón á mikilvægum innviðum Eyjamanna. Vestmannaeyjabær mun senda umsögn um málið í skipulagsgátt Skipulagsstofnunar. Jafnframt mun Vestmannaeyjabær óska eftir því að fylgja umsögninni eftir með fundi.
Efnistaka Landeyjahöfn - Viðbrögð við umsögnum.pdf
Efnistaka við Landeyjarhöfn.pdf
5. 202402027 - Listaverk í tilefni 50 ára gosloka
Bæjarstjórn vísaði málinu um listaverkið til bæjarráðs í kjölfar tillögu sem kom fram frá fulltrúum D lista þess efnis að málið færi í íbúakosningu að lokinni ítarlegri kynningu á þeim hluta listaverksins sem snýr að inngripi í náttúruna, m.a. göngustígagerð í Eldfelli. Forseti bæjarstjórnar hefur verið tengiliður við samstarfsaðila um listaverkið og skilaði drögum að minnisblaði til bæjarráðs eftir að hafa rætt við samstarfsaðilana um stöðuna. Niðurstaða í drögunum er sú að samþykki bæjarstjórn að vísa málinu í íbúakosningu á þessu stigi jafngildi það ákvörðun um að hætta við verkið.

Niðurstaða
Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar. Endanlegt minnisblað mun liggja þar fyrir.
Listaverk í tilefni 50 ára gosloka_minnisblað_9.4.24.pdf
6. 202403122 - Fjárhagsáætlun 2025
Fyrir bæjarráði liggur tímalína vegna vinnu við fjáhagsáætlun 2025. Tímalína er hluti af forsenduskjali við vinnu áætlunarinnar.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir fyrirliggjandi tímaáætlun.
7. 201902130 - Almenn umræða um stöðu loðnuveiða
Loðnubrestur er orðin staðreynd, sá þriðji á fimm árum með tilheyrandi afleiðingum fyrir samfélagið í Vestmannaeyjum. Loðnubrestur er högg fyrir bæði uppsjávarsveitarfélög og þjóðarbúið allt.

Það er afar sérstök forgangsröðun fjármuna að ríkið skuli ekki setja meira fjármagn í loðnurannsóknir og loðnuleit í ljósi þeirra verðmæta sem tapast þegar loðnubrestur verður. Ríkið er stærsti hagsmunaaðili hvað loðnu varðar og ætti að haga sér sem slíkur.

Niðurstaða
Bæjarráð hvetur sjávarútvegsráðherra til að tryggja betri umgjörð og meira fé til loðnuleitar og loðnurannsókna enda miklir hagsmunir fyrir þjóðarbúið þar undir.
8. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Bæjarráð fundaði með forstjóra og stjórnendum HSU í síðasta mánuði. Farið var yfir stöðuna eftir þær breytingar sem grípa átti til í framhaldi af fundi bæjarstjórnar með heilbrigðiráðherra og forstjóra HSU fyrr á árinu. Ekki er komin mikil reynsla á þær en það eru þó jákvæð teikn á lofti samkvæmt því sem kom fram í máli forstjóra HSU á fundinum. Bæjarráð lagði mikla áherslu á að allt yrði gert til að bæta umgjörð HSU til að hægt sé að efla þjónustu við íbúa í Vestmannaeyjum.
9. 201911006 - Staða ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum
Vestmannaeyjabær hefur fundað með fulltrúum í stjórn ferðamálasamtaka Vestmannaeyja þar sem stjórnin hefur kynnt árangur af þeirri markaðsvinnu sem unnin hefur verið síðustu ár. Þá hefur stjórnin einnig farið yfir sínar áherslur og tillögur fyrir sumarið og framtíðarsýn í markaðsmálum fyrir næstu þrjú árin.
10. 202403126 - Menningarstefna Vestmannaeyjabæjar
Lagt er til að hefja undirbúning að nýrri menningarstefnu fyrir Vestmannaeyjabæ. Núgildandi stefna er frá árinu 2008 og er því orðin barn síns tíma.

Niðurstaða
Bæjarráð felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs, forstöðumanni Safnahúss, forstöðumanni Eldheima og safnstjórna Sagnheima að vinna að undirbúningi og tímalínu að gerð nýrrar menningarstefnu og leggja fyrir bæjarráð tillögu að verkefninu.
11. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Fundargerðir SÍS nr. 945 og 946 lagðar fram til upplýsinga.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 945 (6).pdf
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - 946.pdf
12. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Trúnaðarmál eru færð í sérstaka fundargerð trúnaðarmála.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 09:00 

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove