Fundargerðir

Til baka Prenta
Fjölskyldu- og tómstundaráð - 269

Haldinn í fundarsal Rauðagerðis,
07.10.2021 og hófst hann kl. 16:15
Fundinn sátu: Helga Jóhanna Harðardóttir formaður,
Hrefna Jónsdóttir varaformaður,
Gísli Stefánsson aðalmaður,
Esther Bergsdóttir aðalmaður,
Hafdís Ástþórsdóttir aðalmaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs.
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201611107 - Frístundastyrkur
Vestmannaeyjabær styrkir tómstundaiðkun allra barna á aldrinum 2 - 18 ára. Markmið og tilgangur frístundastyrksins er; a) styrkja börn á umræddum aldri til þátttöku í uppbyggilegu frístundastarfi og auka möguleika til þáttttöku óháð efnahag, b) ýta undir aukna hreyfingu og félagsþátttöku barna, c) vinna gegn óæskilegu brottfalli í eldri aldurshópi iðkenda og d) auka virkni í frístundatíma barna. Nýtingin á styrknum hefur verið að aukast milli ára. Árið 2020 var hlutfallið miðað við fjölda barna í umræddum aldurshópum 58,5% sem nýttu styrkinn að fullu en það sem af er ársins er hlutfallið orðið 62,4%. Stærsti hluti styrkjarins fer í að niðurgreiða félagsgjöld hjá ÍBV-íþróttafélagi (rúmur helmingur) og Fimleikafélagsins Ránar (um þriðjungur).
Frístundastyrkur er einn liður í því að gera Vestmannaeyjar að barnvænu samfélagi. Umsóknarferli styrksins hefur verið einfaldað eftir að hægt var að merkja við nýtingu á styrknum um leið og greitt er fyrir æfingagjöld barna í íþrótta- og tómstundastarfi.

Niðurstaða
Ráðið þakkar framkvæmdarstjóra fyrir yfirferðina. Það er ánægjulegt að fleiri séu að nýta sér styrkinn. Með komu frístundarstyrksins hafa börn tækifæri á fjölbreyttara íþrótta- og tómstundastarfi. Þátttaka í skipulögðu íþrótta- og tómstundastarfi getur haft veigamikil forvarnaráhrif.
Meirihluti E- og H- listans leggja til að gert verði ráð fyrir því í gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2022 að styrkurinn hækki um 15.000 kr og verði því 50.000 kr. á barn. Mun sú hækkun taka gildi 1. janúar 2022 og felur framkvæmdastjóra að fylgja málinu eftir.

Fulltrúar E og H lista (Helga Jóhanna Harðardóttir, Hrefna Jónsdóttir og Hafdís Ásþórsdóttir) samþykkja umrædda tillögu en fulltrúar D lista sitja hjá (Gísli Stefánsson og Esther Bergsdóttir.


2. 202110009 - Húsnæðissjálfseignarstofnun á landsbyggðinni
Á fundi stjórnar Samband íslenskra sveitarfélaga sem haldinn var 24. september sl., var fjallað um verkefni sem snúa að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis á landsbyggðinni. Kynnt var hugmynd sem Húsnæðis- og mannvirkjastofnun hefur mótað og felur í sér að setja á fót húsnæðissjálfseignarstofnun (hses.) er starfi á landsbyggðinni. Markmið þessa nýja aðila verði að stuðla að uppbyggingu almennra íbúða þar sem þess er þörf utan höfuðborgarsvæðis og vaxtarsvæða, í þágu tekjulágra hópa á vinnumarkaði og þeirra hópa sem sveitarfélög bera sérstakar lagaskyldur gagnvart, m.a. fötluðu fólki. Í samræmi við bókun stjórnar sambandsins er óskað eftir því að sveitarstjórnir á landsbyggðinni taki afstöðu til hugmyndarinnar og upplýsi sambandið um hana fyrir lok október.

Niðurstaða
Fjölskyldu- og tómstundaráð sem heldur m.a. utan um húsnæðismál sveitarfélagsins tekur ekki illa í meðfylgjandi hugmynd en vill sjá þróun á verkefninu áður ef afstaða er tekin til frekari þátttöku. Ráðið bendir á að Vestmannaeyjabær hefur þegar fjárfest í 10 íbúðum fyrir fatlað fólk sem verða teknar til notkunar á næstunni sem og samþykkt að fjölga leiguíbúðum innan félagslega kerfisins.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17:27 

Til baka Prenta