Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3137

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
07.10.2020 og hófst hann kl. 16:00
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201810114 - Umræða um heilbrigðismál
Díana Óskarsdóttir, forstjóri Heilbrigðisstofnunar Suðurlands (HSU) og framkvæmdastjórn stofnunarinnar kom á fund bæjarráðs til þess að fara yfir stöðu mála á stofnuninni.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar forstjóra og framkvæmdastjórn fyrir upplýsingarnar og óskar eftir að fundað verði með reglubundnum hætti í framtíðinni. Bæjarráð ítrekar mikilvægi þess að halda úti öflugri þjónustu HSU í Vestmannaeyjum og ekki dragi úr starfsemi stofnunarinnar.
2. 202006242 - Fjárhagsáætlun 2021
Ræddar voru forsendur fjárhagsáætlunargerðar fyrir árið 2021. Framundan eru vinnufundir í fagráðum og bæjarstjórn. Jafnframt er gert ráð fyrir að vinna úr umsóknum um "Viltu hafa áhrif?" næstu daga og að framkvæmdastjórar skili áætlunum um rekstur og viðhald til fjármálastjóra. Gert er ráð fyrir að bæjarráð afgreiði fjárhagsáætlun til fyrri umræðu í bæjarstjórn undir lok októbermánaðar. Undirbúningur áætlunarinnar miðar vel.

Í forsendum fjárhagsáætlunar er gerð tillaga um útsvarsprósentan verði óbreytt á milli ára, eða 14,46%. Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga verði í samræmi við áætlun sjóðsins, sem ætti að liggja fyrir áður en áætlunargerðinni lýkur. Hlutfall af álagningu fasteignaskatta verði óbreytt milli ára, þannig að hlutfall fasteignaskatts á íbúðarhúsnæði verði 0,291%, á opinerar stofnanir 1,32% og á annað húsnæði, þ.m.t. atvinnuhúsnæði 1,55%. Gerð er tillaga um að aðrar tekjur málaflokka, svo sem vegna gjaldskráa bæjarins, hækki um 2,5% í takt við lífskjarasamninga. Hins vegar á eftir að taka ákvörðun um gjaldskrár er snúa að fjölskyldufólki sérstaklega, t.a.m. leikskólagjöld, dagmæður, skólamáltíðir og Frístund.

Á gjaldahlið verður í fyrsta sinn unnin sérstök launaáætlun sem tekur mið af mannaflaþörf á stofnunum bæjarins og útreikningi á áhrifum kjarasamninga eftir nýgerða kjarasamninga. Gert er ráð fyrir að aðrir rekstrarliðir hækki almennt um 3%.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir forsendur fjárhagsáætlunarinnar og þakkar upplýsingarnar. Bæjarráð leggur áherslu á að við gerð fjárhagsáætlunar verði reynt að komast hjá því að auka álögur á bæjarbúa eins og kostur er, án þess að þjónusta skerðist.
3. 202010005 - Fasteignagjöld fyrir árið 2021
Fasteignamat er lagt til grundvallar fasteignaskatti sem er einn helsti tekjustofn sveitarfélaga. Hækkanir á fasteignamati bitna því á húseigendum í formi aukins fasteignaskatts nema ákvörðun um annað sé tekin.
Í fyrra var ákveðið að lækka fasteignaskatt á íbúðarhúsnæði fyrir árið 2020 í 0,291% í stað 0,33% frá fyrra ári og á atvinnuhúsnæði í 1,55% í stað 1,65% frá fyrra ári. Kom þetta aðallega til af mikilli hækkun fasteignamats í Vestmannaeyjum fyrir árið 2020. Fasteignaskattur á opinberar stofnanir var óbreyttur milli ára, eða 1,32%. Hækkun fasteignamats fyrir árið 2021 er töluvert lægri og því er svigrúmið til lækkunar ekkert, án þess að tekjur bæjarsjóðs af fasteignaskatti skerðist milli ára.

Niðurstaða
Bæjarráð leggur til að fasteignaskattsálagning á íbúðarhúsnæði verði óbreytt milli ára, þ.e. 0,291% á íbúðarhúsnæði, 1,55% á atvinnuhúsnæði og 1,32% á opinberar stofnanir. Ákvörðun þessi er í anda lífskjarasamnings verkalýðshreyfingarinnar, atvinnurekenda og stjórnvalda þar sem m.a. er kveðið á um lægri skatta og lægri opinberar álögur til að auka kaupmátt og kjarabætur lágtekjuhópa. Bæjarráð vill leggja sitt af mörkum í þeirri viðleitni.
4. 202010006 - Átta mánaða uppgjör Vestmannaeyjabæjar
Lagt var fram yfirlit um 8 mánaða fjárhagsstöðu bæjarjóðs. Í ljósi Covid-19, skerðingu á tekjum (svo sem hafnargjöldum og framlögum úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga) og aðgerða bæjarins til þess að bregðast við atvinnuástandi og verkefnastöðu fyrirtækja, sérstaklega í vor og sumar, hefur fjárhagsstaða bæjarins þyngst. Bæjarsjóður stendur hins vegar á traustum grunni og afkoman þokkaleg í ljósi ástandsins. Ekki er útlit fyrir að skerða þurfi þjónustu eða draga úr framkvæmdum það sem eftir er af árinu. Fjárhagsstaða Herjólfs ohf. er hins vegar alvarleg, sem getur haft áhrif á samtæðu bæjarsjóðs. Viðræður standa nú yfir milli starfshóps, sem skipaður var af bæjarstjórn, og Vegagerðarinnar um forsendur þjónustusamnings um rekstur Herjólfs, fjárhagsstöðu félagsins og aðkomu ríkisins.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar.
5. 202009017 - Viðauki við fjárhagsáætlun 2020
Lagður var fram 8. viðauki við fjárhagsáætlun 2020, vegna gatnagerðar í Áshamri, að fjárhæð alls 15 m.kr. Framkvæmdirnar verða fjármagnaðar með handbæru fé.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir viðaukann.
6. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri og formaður bæjarráðs hafa undanfarna daga átt í samskiptum við fulltrúa Isavia vegna fyrirhugaðra uppsagna starfsmanna félagsins á Vestmannaeyjaflugvelli. Óþarfi er að tíunda mikilvægi flugvallarins fyrir samfélagið og mikilvægi þess að flugvellinum sé haldið opnum og viðhaldi sinnt, bæði á vellinum sjálfum sem og þeim mannvirkjum sem þar eru. Gott samtal hefur átt sér stað milli aðila og í kjölfarið hefur Isavia ákveðið að draga boðaðar uppsagnir starfsmanna sinna til baka og fresta ákvörðun um breytt starfsmannahald á vellinum til næsta vors.

Bæjarstjóri hefur átt í samskiptum við fulltrúa flugfélaganna undanfarinn mánuð. Meðal annars Air Iceland Connect um mögulegt áætlunarflug til Vestmannaeyja á markaðsforsendum. Stjórnendur Air Iceland Connect líta á Vestmannaeyjar sem spennandi viðbót við áfangastaði þeirra og hafa ákveðið að hefja áætlunarflug til Eyja næsta vor. Í þessu felast mikil tækifæri til kynningar á Vestmannaeyjum sem áfangastað, bæði fyrir innlendum sem og erlendum ferðamönnum. Einnig skiptir miklu máli fyrir Vestmannaeyinga að áætlunarflug hefjist aftur.

Viðræður samninganefndar Vestmannaeyjabæjar við Vegagerðina vegna þjónustusamnings um rekstur Herjólfs eru hafnar og hafa aðilar átt tvo fundi. Allur samningurinn er undir í viðræðunum.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og fagnar fréttum um að Air Iceland Connect ætli að hefja flugsamgöngur til Vestmannaeyja á markaðslegum forsendum næsta vor. Bæjarráð lýsir jafnframt ánægju með að Isavia hafi nú ákveðið að draga til baka uppsagnir á flugvellinum í Vestmannaeyjum.

Bæjarráð leggur áherslu á að niðurstöður viðræðna milli samninganefndar Vestmannaeyja og Vegagerðarinnar vegna rekstur Herjólfs skýrist fljótt svo hægt sé að eyða óvissu félagsins og starfsmanna um framhaldið.
7. 201911006 - Staða ferðaþjónustunnar í Vestmannaeyjum
Fulltrúar Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja komu á fund bæjarráðs til þess að fara yfir stöðu fyrirtækja í ferðaþjónustu og nýtt markaðsátak um Vestmannaeyjar, sem ætlað er að ná til stærri markhóps og til lengri tíma en áður.

Lögð var fram til upplýsinga skýrsla Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga um hagtölur um atvinnulíf á Suðurlandi með sérstakri áherslu á ferðaþjónustu.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar fulltrúum Ferðamálasamtaka Vestmannaeyja yfirferðina. Bæjarstjóra er falið að finna fundartíma bæjarfulltrúa með Ferðamálasamtökunum til þess að kynna fyrirhugað markaðsátak í ferðaþjónustu.

Skýrsla Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga er upplýsandi og áhugaverð samantekt á stöðunni.
Hagtölur-um-atvinnulíf-á-Suðurlandi-með-sérstaka-áherslu-á-ferðaþjónustu.pdf
8. 202006076 - Málefni Safnahúss og Sagnheima, húsakost og framtíðarskipan
Sigurhanna Friðþórsdóttir, formaður starfshóps um málefni safnanna, kom á fund bæjarráðs til þess að fylgja eftir skilagrein sem starfshópurinn hefur lokið og sent bæjarráði.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og vísar málinu til vinnu í tengslum við fjárhagsáætlun 2021 og þriggja ára áætlunar 2022-2024.

Bæjarráð þakkar starfshópnum fyrir vel unnin störf.
Skilagrein starfshóps um málefni safna Vestmannaeyjabæjar.pdf
9. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri gerði grein fyrir stöðu viðræðna við Sjúktratryggingar Íslands (SÍ) um yfirfærslu Hraunbúða til ríkisins. Haldnir hafa verið tveir fundir með forstjóra SÍ þar sem ræddir hafa verið ýmsir möguleikar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og felur bæjarstjóra og hlutaðeigandi embættismönnum bæjarins að halda áfram viðræðum við Sjúkratryggingar Íslands.
10. 202010015 - Breytingar á réttindarákvæðum Brúar - Lífeyrissjóðs
Lögð voru fram til ákvörðunar í bæjarráði gögn um breytingar á réttindaákvæðum lífeyrisþega í Lífeyrissjóði starfsmanna Vestmannaeyjabæjar, sem felur í sér að samþykkt verði að fara eftir svokallaðri metaltalsreglu í stað eftirmannsrelgu þegar starf er lagt niður. Með því er fylgt meginreglu sjóðsins um meðaltalsreglu þegar kemur að viðmiðun um ákvörðun lífeyris. Framkvæmd eftirmannsreglu hefur verið flókin og erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar um viðmiðunarlaun frá launagreiðendum fyrir þá lífeyrisþega sem fylgja eftirmannsreglu. Upplýsingar um hvaða starf viðkomandi líifeyrisþegi gegndi eru ekki alltaf tiltækar hjá launagreiðanda og oft þarf að treysta á þekkingu hlutaðeigandi launadeilda. Þar að auki hafa eðli starfa breyst í mörgum tilvikum þannig að í raun er ekki um sama starf að ræða og það sem lífeyriþegi gegndi. Umrædd breyting felur því í sér einföldun.

Niðurstaða
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að umræddar breytingar á réttindaákvæði Lífeyrissjóðs starfsmanna Vestmannaeyjabæjar, sem felur í sér viðmið við meðaltalsreglu í stað eftirmannsrelgu þegar um niðurlagningu starfs er að ræða, verði samþykktar.
Minnisblað_breytingar á samþykktum 2020.pdf
11. 201904142 - Umsagnir frá Alþingi - bæjarráð
Bæjarstjóri lagði fram drög að umsögn Vestmannaeyjabæjar um frumvarp ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, um lög um opinberan stuðning við nýsköpun. Í umsögninni er tekið undir meginmarkmið laganna og sérstaklega um að efla nýsköpun á landsbyggðinni, en athugasemdir gerðar við útfærslu einstakra ákvæða.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir drögin að umsögninni og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að skrá hana í samráðsgátt stjórnvalda.
12. 201904017 - Beiðni Lista- og menningarhóps Vestmannaeyja um húsnæði til leigu
Lögð voru fram drög að leigusamningi húsfélagsins SHIVE, sem starfrækt er um fasteignina að Strandvegi 50, og Þekkingarseturs Vestmannaeyja, sem framleigir 2. og 3. hæð hússins til Lista- og menningarfélags Vestmannaeyja. Haustið 2019 var gerður leigusamningur við Lista- og menningarfélagið til eins árs. Samningur þessi gildir frá 1. október 2020 til 30. september 2022. Hækkanir á samningi eru í samræmi við aukna notkun húsnæðisins og þróun vísitölu neysluverðs. Samningurinn er gerður með fyrirvara um samþykki bæjarráðs.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir leigusamninginn og fagnar því að blómleg starfsemi Lista- og menningarfélagsins í Hvíta húsinu við Strandveg 50 sé í húsinu. Lista- og menningarfélagið er gott dæmi um frumkvæði og sköpunarkraft ýmissa einstaklinga í Vestmannaeyjum og starfsemin setur skemmtilegan svip á bæjarbrag Vestmannaeyja.
Leigusamningur SHIVE og ÞSV um Strandveg 50 (Hvíta húsið).pdf
13. 202009105 - Beiðni um umsögn vegna rekstarleyfi fyrir Oddfellow
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Guðmundar Gíslasonar fyrir hönd Oddfellow um rekstrarleyfi fyrir Oddfellowhúsið vegna reksturs veitingastaðar í flokki II.

Niðurstaða
Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi hússins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
Beiðni um rekstrarleyfi fyrir Oddfellow.pdf
14. 202009031 - Beiðni um umsögn vegna rekstrarleyfi fyrir Lundann
Sýslumaðurinn í Vestmannaeyjum hefur óskað eftir umsögn Vestmannaeyjabæjar um umsókn Jóns Inga Guðjónssonar fyrir hönd Dalhrauns ehf., um rekstrarleyfi fyrir Lundann vegna reksturs veitingastaðar í flokki III.

Niðurstaða
Bæjarráð veitir umsókninni jákvæða umsögn að því gefnu að farið sé að skilyrðum sýslumanns og með fyrirvara um jákvæða umsögn hlutaðeigandi eftirlitsaðila.

Umsögnin er háð ríkri kröfu um frágang og snyrtimennsku og áskilur bæjarráð sér rétt til að láta þrífa umhverfi veitingastaðarins á kostnað rekstraraðila ef þörf krefur.
Beiðni um rekstrarleyfi fyrir Lundann.pdf
15. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Til upplýsinga voru lagðar fram fyrir bæjarráð fundargerðir 887 og 888 vegna funda stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 25. september sl. og 29. september sl. Auk þess var lögð fram fundargerð stjórnar Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga nr. 561 vegna fundar þann 4. september sl.
Fundargerð 887. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.pdf
Fundargerð 888. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.pdf
561.-fundur-stj.-SASS.pdf
16. 202010008 - Fundargerðir Heilbrigðisnefndar Suðurlands
Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð Heilbrigðisnefndar Suðurlands nr. 207, vegna fundar sem haldinn var þann 25. september sl.
207_fundur_fundargerd.pdf
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl.  

Til baka Prenta
Jafnlaunavottun Learncove