Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarráð Vestmannaeyja - 3130

Haldinn Fundarsal að Bárustíg 15 efri hæð.,
30.06.2020 og hófst hann kl. 11:30
Fundinn sátu: Njáll Ragnarsson formaður,
Jóna S. Guðmundsdóttir varaformaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Íris Róbertsdóttir bæjarstjóri,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Bæjarstjóri fór yfir stöðuna í tengslum við Covid 19. Enn eru samkomutakmarkanir á landinu og óljóst hvernig framhaldið verður með frekari tilslakanir ef nýjum innanlandssmitum heldur áfram að fjölga.

Staðan á vinnumarkaði Í Vestmannaeyjum:
Atvinnuleysi hefur aukist í Vestmannaeyjum eins og annars staðar vegna faraldursins. Í tölum frá Vinnumálstofnun kemur fram að í lok maí hafi 101 verið á atvinnuleysisskrá og 126 á hlutabótaleiðinni. Í apríl var 11,5% atvinnuleysi, en 6,6 % í maí. Spáð er 6,2% atvinnuleysi í júní. Í spánni fyrir hlutabólaleiðina fyrir júnímánuð er gert ráð fyrir töluverðri fækkun einstaklinga á þeim úrræðum, þ.e. úr 126 í 73 einstkalinga.

Fyrirkomulag bæjarhátíða og viðburða í Eyjum:
Í sumar er búið að halda flesta þá viðburði sem haldnir hafa verið undanfarin ár. Sjómannadagsráð hélt sjómanndagshelgina hátíðlega, en með breyttu sniði þó. Haldin var hátíð vegna Þjóðhátíðardagsins, 17. júní og einnig hefur ÍBV Íþróttafélag haldið bæði TM mótið (pæjumót) og Orkumótið nú í júnímánuði. Mótin gengu mjög vel. Voru þessir viðburðir aðlagaðir að þeim reglum og takmörkunum sem voru í gildi vegna Covid-19. Goslokahátíð verður haldin næstu helgi og verður fjölbreytt dagskrá með áherslu á barnadagskrá, listir og menningu. Öllum samkomutakörkunum og reglum sem eru í gildi verður fylgt. Til þess að gæta að öryggi og fylgja tilmælum Almannavarnardeildar ríkislögreglustjóra og embættis sóttvarnalæknis hefur Goslokanefnd ákeðið að hætta við kvöldskemtun sem vera átti á Stakkagerðistúni. Ljóst er að sá viðburður hefði getað orðið mjög fjölmennur og þar með aukið smithættu.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar og telur það ábyrga ákvörðun hjá Goslokanefnd að hætta við kvöldskemmtun á Stakkagerðistúni til þess að draga úr smithættu.
2. 202006242 - Fjárhagsáætlun 2021
Lögð voru fram drög að dagsetningum og verklagi við vinnu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2021.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir verklagið og dagsetningarnar.
Dagsetningar og verklag fyrir fjárhagsáætlun 2021.pdf
3. 202006239 - Tekjur og útgjöld Vestmannaeyjabæjar
Lagt var fram minnisblað um helstu breytingar á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs vegna Covid-19 faraldursins.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar upplýsingarnar. Bæjarráð beinir þeim tilmælum til yfirstjórnar bæjarskrifstofanna að fylgjast áfram grannt með fjárhagsstöðu bæjarins og upplýsa bæjarráð reglulega um stöðu mála á þessum krefjandi tímum. Framundan eru stórar áskoranir við rekstur bæjarins.
Samantekt um áhrif Covid-19 á fjárhagsstöðu bæjarsjóðs - gilt.pdf
4. 201906047 - Breytingar á bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar
Á bæjarstjórnarfundi þann 11. júní sl., voru lögð fram til fyrri umræðu í bæjarstjórn, drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt, sem starfshópur skipaður kjörnum fulltrúum Vestmannaeyjabæjar, vann á vormánuðum.
Samkvæmt 18. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, ber sveitarstjórnum að hafa tvær umræður, með a.m.k. einnar viku millibili, um samþykktur og aðrar reglur sem skv. lögum eiga að hljóta staðfestingu ráðherra, þ.m.t. bæjarmálasamþykkt Vestmannaeyjabæjar.
Samþykkt var samhljóða á fundinum að vísa bæjarmálasamþykktinni til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 9. júlí nk. Að lokinni fyrri umræðu í bæjarstjórn voru drögin send samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og óskað eftir athugasemdum. Gagnlegar ábendingar um breytingarnar á samþykktinni bárust frá ráðuneytinu, m.a. um gerð viðauka við samþykktinna vegna fullnaðarafgreiðslna fagráða. Samkvæmt ráðuneytinu þarf að ljúka við gerð umræddra viðauka áður en bæjarstjórn samþykkir bæjarmálasamþykktina og hún send ráðherra til staðfestingar.

Niðurstaða
Bæjarráð leggur til við bæjarstjórn að fresta síðari umræðu um bæjarmálasamþykktina fram til fyrsta fundar bæjarstjórnar að loknum sumarleyfum, þ.e. í september nk., í ljósi þess að gagnlegar ábendingar um gerð viðauka bárust frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu og vegna sumarorlofstíma framkvæmdastjóra bæjarskrifstofnna og annarra starfsmanna ráðanna, sem koma að gerð slíkra viðauka. Með því gefst framkvæmdastjórum, starfsmönnum og starfshópi kjörinna fulltrúa um endurskoðun bæjarmálasamþykktar, nægur tími til að útbúa drög að viðauka um fullnaðarafgreiðslu fagráða og fjalla um aðrar tillögur að breytingum. Mikilvægt er að vanda vinnu við endurskoðun bæjarmálasamþykktarinnar og gefa sér nægan tíma til þess að sú vinna verði sem best.
5. 202004076 - Markaðsátak í ferðaþjónustu 2020
Dagný Hulda Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Markaðsstofu Suðurlands, kom á fund bæjarráðs til þess kynna verkefni á vegum markaðsstofunnar.

Niðurstaða
Bæjarráð þakkar kynninguna.
6. 202006076 - Málefni Safnahúss og Sagnheima, húsakost og framtíðarskipan
Lögð voru fyrir bæjarráð drög að erindisbréfi til starfshóps um málefni Safnahúss.

Niðurstaða
Bæjarráð samþykkir skipan starfshópsins. Starfshópinn skipa þau Arnar Sigurmundsson, Sigurhanna Friðþórsdóttir (formaður) og Stefán Óskar Jónasson. Með hópnum starfa Kári Bjarnason, Hörður Baldvinsson og Angantýr Einarsson. Jafnframt samþykkir bæjarráð erindisbréfið og felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að afhenda starfshópnum bréfið.
Erindisbréf fyrir starfshóp um málefna safna Vestmannaeyjabæjar.pdf
7. 201907118 - Fundargerðir Sambands íslenskra sveitarfélaga og SASS
Til upplýsinga var lögð fyrir bæjarráð fundargerð stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga nr. 885 vegna fundar þann 12. júní sl.
stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga - fundargerð 885.pdf
8. 200708078 - Trúnaðarmál lögð fyrir bæjarráð
Afgreiðsla trúnaðarmála er færð í sérstaka fundargerð.

Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 13:30 

Til baka Prenta