Fundargerðir

Til baka Prenta
Fræðsluráð - 299

Haldinn í fundarsal Ráðhúss,
26.09.2017 og hófst hann kl. 16:30
Fundinn sátu: Hildur Sólveig Sigurðardóttir formaður,
Sindri Haraldsson aðalmaður,
Birna Vídó Þórsdóttir aðalmaður,
Gígja Óskarsdóttir 1. varamaður,
Guðjón Örn Sigtryggsson 1. varamaður,
Jón Pétursson framkvstj.sviðs,
Erna Jóhannesdóttir starfsmaður sviðs,
Helga Björk Ólafsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Guðrún Sigríður Þorsteinsdóttir áheyrnarfulltrúi,
Kolbrún Matthíasdóttir áheyrnarfulltrúi,
Fundargerð ritaði: Jón Pétursson, framkvæmdastjóri fjölskyldu- og fræðslusviðs
Thelma Sigurðardóttir, Auðbjörg Halla Jóhannsdóttir, og Erlingur Richardsson áheyrnarfulltrúar sátu fundinn. Anton Örn Björnsson umsjónarmaður frístundaversins var gestur fundarins.


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201709059 - Lækkun leikskólagjalda
Tillaga um lækkun leikskólagjalda

Niðurstaða
Fræðsluráð fjallaði um stöðu daggæslumála.
Það er einlægur vilji fræðsluráðs að þjónusta bæjarfélagsins við börn og barnafjölskyldur sé á öllum tímum eins góð og mögulegt er. Með það í huga voru teknar upp niðurgreiðslur dagforeldra frá 9 mánaða aldri barna. Vestmannaeyjabær greiðir nú einnig heimagreiðslur til foreldra sem vilja lengja fæðingaorlof og vera heima með barninu frekar en að nýta sér þjónustu dagforeldra.

Markmið sveitafélagsins er að öll börn sem orðin eru 18 mánaða komist inn í leikskóla á næsta mögulega inntökudegi en undanfarin ár hafa þeir verið á vorin og haustin. Kröfur og væntingar foreldra til daggæslu eru þó í sífelldri þróun og mikilvægt fyrir Vestmannaeyjabæ að vera ætíð vakandi hvað það varðar. Meðal annars á þeim forsendum hefur ráðið til skoðunar að fjölga inntökutímabilum barna til að freista þess að sem minnst frávik séu frá því að 18 mánaða börn komist inn á leikskóla.

Í dag eru 87 börn í Kirkjugerði og 95 börn í Sóla. Að auki eru 39 börn í Víkinni. Samtals eru því 221 barn í leikskólum sveitarfélagsins. Ekkert barn 18 mánaða eða eldra er á biðlista eftir leikskólaplássi í dag en í janúarlok verða þau orðin fimm og þrjú bætast við í febrúar, samtals 8 börn í febrúarlok. Leikskólinn Kirkjugerði er þegar orðinn fullnýttur en stefnt er að því að taka inn eins mörg börn á Sóla í janúar og mögulegt er.

Þegar er hafin undirbúningur að framkvæmdum við stækkun Kirkjugerðis um eina deild og á þeim að ljúka í vor. Með tilkomu nýrrar deildar verður auðveldara að taka börn inn í leikskóla oftar yfir árið en nú er og fækka þar með frávikum frá 18 mánaða viðmiðinu. Með því verður biðtími foreldra eftir leikskólaplássi enn styttur frá því sem nú er.

Afgreiðsla:
Fræðsluráð þakkar upplýsingarnar og fagnar því hversu vel hefur gengið að byggja upp þessa mikilvægu þjónustu og þá ekki síst fjölgun leikskólaplássa, fjölgun faglærðra kennara og stóraukinni þjónustu við yngstu börnin og foreldra þeirra.

Fyrir liggur að gjaldskrá leikskóla Vestmannaeyjabæjar er í dag orðin hærri en hjá viðmiðunarsveitarfélögum og hærri en ráðið telur æskilegt. Fræðsluráð samþykkir því að lækka dagvistunargjöld leikskóla um 12,9%, eða úr 3.616 kr/klst niður í 3.150 kr/klst til að bregðast við þeirri stöðu. Í því felst að hærra hlutfall skatttekna verði notað í niðurgreiðslu leikskólakostnaðar og við þessa breytingu verður 8 klst. dagvistunargjald í Vestmannaeyjum lægra en meðaltal þess í viðmiðunarsveitarfélögum. Þessi breyting felur það í sér að kostnaður foreldra af leikskóladvöl barna sinna verður um 15% en hlutfall Vestmannaeyjabæjar um 85%. Þess má geta að fyrir um 15 árum var þetta hlutfall nærri 60% sveitarfélag gegn 40% foreldra og fyrir eingöngu 5 árum greiddu foreldrar 23% af kostnaði við leikskóla gegn 77% hluta Vestmannaeyjabæjar. Gjaldskrárbreytingin tekur gildi frá og með 1. nóvember n.k.

2. 200706207 - Frístundaverið.
Nýr forstöðumaður, Anton Örn Björnsson kynnir starfsemi frístundaversins í Þórsheimilinu.

Niðurstaða
Fjöldi nemenda í frístundaveri er 63 þar af 36 stúlkur og 27 drengir. Sjö börn eru á biðlista eftir plássi og til stendur að taka þau inn á næstu vikum. Flest barnanna eru í 1. bekk eða 46 og 16 börn í 2. bekk. Fastir starfsmenn eru 7 í 45-50% starfshlutfalli auk umsjónarmanns í 80% starfshlutfalli. Daglegur starfstími er frá kl. 12.30 til 16.30 alla virka daga skólaársins. Boðið er upp á fjölbreytt tómstundastarf fyrir börnin auk þess sem boðið er upp á lengri vistunartíma þá virku daga sem skólinn er lokaður á skólatíma. Fræðsluráð þakkar kynninguna.
3. 201608142 - Umsókn um leyfi til að gerast dagforeldri
Ósk um áframhaldandi leyfi til daggæslu í heimahúsi.

Niðurstaða
Olga M Gomes Santos Costa sækir um áframhaldandi leyfi til daggæslu barna í heimahúsi. Fræðsluráð samþykkir að Olga fái heimild til daggæslu í heimahúsi enda uppfyllir hún öll skilyrði reglugerðar um aðbúnað og öryggismál.
4. 201709011 - Ósk um styrk v/ fyrirlesturs á haustþingi KV
Umsókn um styrk vegna haustþings 2017

Niðurstaða
Fræðsluráð samþykkir að veita styrk að upphæð kr 70.000 krónur til að mæta kostnaði vegna haustþings.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 17.10 

Til baka Prenta