Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1570

Haldinn Í gegnum fjarfundabúnað,
25.03.2021 og hófst hann kl. 18:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir 1. varaforseti,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Trausti Hjaltason aðalmaður,
Eyþór Harðarson 1. varamaður,
Helga Jóhanna Harðardóttir 1. varamaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 202003036 - Viðbrögð vegna veiruógnunar
Samþykkt var með sjö samhljóða atkvæðum bæjarfulltrúa að taka á dagskrá bæjarstjórnar með afbrigðum mál nr. 202003036, Viðbrögð vegna veiruógnunar. Málið var ekki í útsendri dagskrá og því tekið á dagskrá með þessum hætti.

Bæjarstjóri fór yfir aðgerðir Vestmannaeyjabæjar vegna hertra samkomutakmarkana stjórnvalda sem tóku gildi í dag, 25. mars sl. Meðal annars var ákveðið að nemendur grunnskólans og Tónlistarskólans færu fyrr í páskaleyfi, en starfsfólk skólanna nýtti tímann fram að helgi til að undirbúa kennslu að loknu páskaleyfi. Frístund og Félagsmiðstöðinni var lokað. Ákveðið var að halda leikskólum opnum áfram, en þar gilda áfram reglur um grímuskyldu og 2 metra fjarlægðarmörk. Íþróttamiðstöðin, sundlaugin, Herjólfshöllin og Endurvinnslan eru lokuð.

Þá voru reglur fyrir starfsfólk og starfsemi stofnana Vestmannaeyjabæjar uppfærðar og sendar forstöðumönnum. Í þeim eru forstöðumenn beðnir um að skipuleggja starfsemina þannig að hægt sé að virða fjarlægðarmörk og fjöldatakmarkanir.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tók til máls: Íris Róbertsdóttir.

Sameiginleg niðurstaða bæjarstjórnar.

Mikið hefur reynt á samábyrgð, sveigjanleika og skilning bæjarbúa síðan veiruógnin hófst fyrir rúmu ári síðan. Fyrirtæki og einstaklingar hafa farið í gegnum erfitt tímabil og gripið til mjög harðra samkomu- og fjöldatakmarkana og sérstaklega síðasta vor. Mikilvægt er að við höldum áfram á þeirri vegferð sem stjórnvöld hafa gefið fyrirmæli um. Bæjarstjórn hvetur bæjarbúa til þess að fylgja reglum um samkomutakmarkanir og fjarlægðarmörk. Nauðsynlegt er að sinna áfram öflugum sóttvörnum og fylgja tilmælum sóttvarnayfirvalda til að koma i veg fyrir bakslag.
2. 202002051 - Málefni Hraunbúða
Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við ríkið um yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Um er að ræða viðræður við heilbrigðisráðuneytið um réttindi starfsfólks við yfirfærsluna og viðræður við Sjúkratryggingar Íslands og Heilbrigðisstofnun Suðurlands um ýmis hagnýt atriði við yfirfærsluna. Viðræður við heilbrigðisráðuneytið um réttarstöðu starfsfólks ganga út á að störf og réttindi alls starfsfólks Hraunbúða verði tryggð við yfirfærsluna. Á fundi sem haldinn var með ráðuneytinu í gær kom fram að fyrir liggur yfirlýsing frá heilbrigðisráðherra um flutning allra starfsmanna (utan deildarstjóra öldrunarmála) til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands. Ráðuneytið lagði jafnframt fram drög að samkomulagi um yfirfærslu starfsfólks, en Vestmannaeyjabær og Fjarðabyggð sendu athugasemdir sem til stóð að ræða við ráðuneytið á fundi í dag. Heilbrigðisráðuneytið afboðaði hins vegar fundinn og neitaði sveitarfélögunum um fund í dag, þrátt fyrir ítrekaða beiðni þeirra þar um, en ráðuneytið lagði síðar í dag til fundartíma á morgun, föstudag.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir og Trausti Hjaltason

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Vonbrigði er að ríkið skuli ekki koma að neinu leiti til móts við kröfur Vestmannaeyjabæjar varðandi fjármögnun á rekstri Hraunbúða. Bæjarstjórn leggur höfuðáherslu á að undirbúningur, viðræður og vinna við yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands verði áfram með hagsmuni heimilisfólks og starfsfólks að leiðarljósi. Mikilvægt er að yfirfærslan gangi eins vel fyrir sig og kostur er, en jafnframt tryggt að starfsfólk haldi störfum sínum og réttindum við yfirfærsluna. Það eru vonbrigði að heilbrigðisráðuneytið neiti að beita lögum um réttarstöðu starfsfólks við aðilaskipti að fyrirtækjum við yfirfærslu Hraunbúða til Heilbrigðisstofnunar Suðurlands og tryggja þannig störf og réttindi starfsfólks, en drög að samkomulagi ráðuneytisins og Vestmannaeyjabæjar um yfirfærslu starfsfólks er skref í rétta átt. Það er eðlilegt og mikilvægt að sveitarfélögin fái tækifæri til að gera viðeigandi athugasemdir við samningsdrögin sem varðar hagsmuni starfsfólks, sveitarfélags og þjónustuþega. Hvetur bæjarstjórn heilbrigðisráðuneytið til þess að taka þátt í því að tryggja störfin og gæta réttinda þessa mikilvæga starfsfólks. Jafnframt brýnir bæjarstjórn það fyrir aðilum að ljúka þessari vinnu hratt og örugglega.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmunsddóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)
3. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjóri fór yfir stöðu samgangna við Vestmannaeyjar.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Trausti Hjaltason og Elís Jónsson.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn lýsir yfir ánægju með að annan veturinn í röð skuli Landeyjahöfn vera opin enda skipta samgöngur í Landeyjahöfn íbúa, fyrirtæki og landsmenn alla miklu máli. Ánægjulegt er að sjá hvernig nýtt skip hefur verið að nýtast til siglinga í Landeyjarhöfn og Þorlákshöfn. Eins skiptir máli að búið er að eyða dýpkunartímabilum og er nú að dýpka um leið og færi gefst til dýpkunar. Hins vegar lýsir bæjarstjórn Vestmannaeyja yfir áhyggjum yfir þeim búnaði sem notaður er til dýpkunar í Landeyjarhöfn við núverandi aðstæður. Bæjarstjórn hefur áður lýst yfir áhyggjum af þeim búnaði sem notaður hefur verið til dýpkunar og hefur það raungerst í vetur að búnaðurinn hefur brugðist í þeim verkefnum sem liggja fyrir. Ljóst er að enn þarf að halda áfram að lagfæra Landeyjarhöfn til þess að hún verði sú heilsárshöfn sem lofað hefur verið.

Flugsamgöngur eru líka mikilvægar fyrir Vestmannaeyjar. Nú er haldið úti flugi með sérstöku framlagi frá samgönguráðuneytinu vegna covid. Það framlag gerir það kleift að flogið er tvisvar sinnum í viku. Fyrir notendur flugsins skiptir ferðatíðni miklu máli og verður töluverð breyting þegar ferðatíðnin eykst í vor með tilheyrandi fjölgun farþega.

Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)


Fundargerðir til staðfestingar
4. 202102008F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 341
Liðir 1-9 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-9 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
5. 202102014F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3148
Liðir 1-7 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-7 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
6. 202103001F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 260
Liðir 1-4 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
7. 202103004F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3149
Liður 1 liggur fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.
8. 202103008F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 342
Liðir 1-5 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-5 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
9. 202102012F - Framkvæmda- og hafnarráð Vestmannaeyja - 260
Liður 1, Hafnarstjóri Vestmannaeyjahafnar, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-7 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1, Hafnarstjóri Vestmannaeyjahafnar, tóku til máls: Eyþór Harðarson, Trausti Hjaltason, Jóna Sigríður Guðmundsdóttir, Helga Jóhanna Harðardóttir, Helga Kristín Kolbeins, Íris Róbertsdóttir og Elís Jónsson.

Bókun 1 frá fulltrúum E og H lista

Staða hafnarstjóra Vestmannaeyjahafnar var auglýst laus til umsóknar í byrjun febrúar sl. fimm sóttu um starfið.

Leitað var ráðgjafar Hagvangs við úrvinnslu og mat umsókna. Að mati á umsóknum komu fyrir hönd Vestmannaeyjabæjar, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs, framkvæmdastjóri umhverfis- og framkvæmdasviðs og mannauðsstjóri. Faglega var staðið að ráðningarferlinu og þeir sem komu að því hafa allir reynslu af ráðningum.

Ítarlegt mat átti sér stað á umsækjendum, m.a. starfsviðtöl, leitað var umsagna, hluti umsækjenda var beðinn um að kynna sig, framtíðarsýn hafnarinnar o.fl. Jafnframt var lagt fyrir hluta umsækjenda persónuleikamat. Stuðst var við matsskema þar sem hæfnisþáttum var gefið ákveðið vægi og umsækjendur metnir út frá því.

Niðurstöður matsins voru þær að Dóra Björk Gunnarsdóttir var metin hæfust af umsækjendum.

Á fundi framkvæmda- og hafnarráðs þann 16. mars sl., kynnti sérfræðingur Hagvangs ráðningarferlið, matið og niðurstöðu matsins fyrir ráðinu. Í framhaldi ákvað framkvæmda- og hafnarráð að ráða Dóru Björk í stöðu hafnarstjóra.

Fundi framkvæmda- og hafnarráðs var seinkað einu sinni á tímabilinu vegna þess að enn var verið að vinna í ráðningarferlinu. Engin nefndarmaður gerði athugasemd við það. Engin ósk kom frá fulltrúum minnihlutans í ráðinu frá því að starfið var auglýst; um aðkomu eða breytingu á ferlinu, um lengri tíma, um betri yfirferð, um fleiri gögn eða frest til að ráða í starfið.
Athugasemdir komu fram eftir að það var ljóst hver yrði ráðinn hafnarstjóri.

Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmunsdóttir (sign.)
Elís Jónsson (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign)

Bókun 2 frá fulltrúum E og H lista

Á þessu kjörtímabili hefur meðal annars verið ráðið í stöðu skólastjóra tónlistarskólans, fjármálastjóra og mannauðsstjóra. Faglegt ferli hefur verið við allar þessar ráðningar sem byggir á verklagsreglum um ráðningarferli Vestmannaeyjabæjar, sama faglega ferli og viðhaft var við ráðningu á hafnarstjóra. Það skýtur því skökku við að fulltrúar minnihlutans í ráðinu og í bæjarstjórn gagnrýni vinnu starfsfólks og ráðningaskrifstofu með þessum hætti þegar engin athugasemd kom við ráðningum sem nefndar eru hér að ofan.

Íris Róbertsdóttir (sign.)
Elís Jónsson (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)

Bókun 1 frá fulltrúum D lista

Samkvæmt reglugerð um Vestmannaeyjahöfn á hafnarstjórn að skipa hafnarstjóra. Þrátt fyrir það hefur hafnarstjórn Vestmannaeyjahafnar ekki farið með það verkefni og tók ekki ákvörðun um að auglýsa starfið eða fela ráðningarskrifstofu það verkefni. Hæfniskröfur hafnarstjóra voru útlistaðar í minnisblaði starfshóps sem fjallaði um framtíðarskipulag hafnarinnar og samþykkt var í febrúar á síðasta ári. Þegar starf hafnarstjóra var auglýst af Vestmannaeyjabæ var fallið frá þeim hæfniskröfum um starf hafnarstjóra sem búið var að samþykkja í bæjarstjórn. Auglýstum hæfniskröfum var síðan skipt upp í kvarða þar sem hver kvarði er metin eftir huglægum hlutföllum. T.d. er reynsla af hafnarstjórn lítið metin á meðan háskólamenntun hafði hátt vægi. Hafnarstjórn kom aldrei að ákvörðun um þessi matshlutföll á hæfniskröfum þrátt fyrir að eiga reglum samkvæmt að skipa hafnarstjóra. Málsmeðferðin er því ótrúverðug og óheppileg, þar sem vægið var ekki kynnt fyrirfram og í raun vikið frá samþykktum hæfniskröfum starfshóps um skipulag hafnarinnar.

Eyþór Harðarson (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Trausti Hjaltason (sign.)

Bókun 2 frá fulltrúum D lista (mótbókun við bókun 2 frá fulltrúum E og H lista)

Hvergi hefur komið fram gagnrýni á starfsfólk sveitarfélagsins. Hins vegar er hér að koma fram gagnrýni á pólitíska fulltrúa H- og E- lista. Það að fara gegn samþykktum og breyta hæfniskröfum er ekki faglegur og skýr verkferill.

Trausti Hjaltason (sign.)
Eyþór Harðarson (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)

Bókun 3 frá fulltrúum E og H lista (mótbókun við bókunum D lista)

Við ítrekum að farið var eftir verklagsreglum í ráðningaferlinu og Hafnarstjórn sinnti sínu lögboðna hlutverki og réð hafnarstjóra eins og fram kemur í fundargerð.

Helga Jóhanna Harðardóttir (sign.)
Íris Róbertsdóttir (sign.)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign.)
Elís Jónsson (sign.)

Bókun 3 frá fulltrúum D lista (mótbókun við bókunum E og H lista)

Hafnarstjórn ákveður ekki að auglýsa starfið líkt og hafnarlög kveða á um. Hæfniskröfur í auglýsingu er breytt frá vinnu ráðsins. Ef meirihlutinn kallar þetta að fara eftir verklagsreglum er það miður.

Trausti Hjaltason (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign.)
Eyþór Harðarson (sign.)

Liður 1 var samþykktur með fjórum atkvæðum fulltrúa E og H lista gegn þremur atkvæðum fulltrúa D lista.

Liðir 2-7 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
10. 202103007F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3150
Liðir 1-10 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-10 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
11. 202103003F - Fræðsluráð - 341
Liðir 1-5 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-5 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 20:03 

Til baka Prenta