Fundargerðir

Til baka Prenta
Bæjarstjórn Vestmannaeyja - 1569

Haldinn í Einarsstofu safnahúsi,
25.02.2021 og hófst hann kl. 18:00
Fundinn sátu: Elís Jónsson forseti,
Jóna S. Guðmundsdóttir 1. varaforseti,
Íris Róbertsdóttir aðalmaður,
Njáll Ragnarsson aðalmaður,
Hildur Sólveig Sigurðardóttir aðalmaður,
Helga Kristín Kolbeins aðalmaður,
Eyþór Harðarson 1. varamaður,
Fundargerð ritaði: Angantýr Einarsson, framkvæmdastjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs


Dagskrá: 
Almenn erindi
1. 201212068 - Umræða um samgöngumál
Bæjarstjórn fjallaði um þjónustusamning ríkisins við Vestmannaeyjabæ um ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar sem undirritaður var af Vegagerðinni og Vestmannaeyjabæ þann 8. febrúar sl, og staðfestur hefur verið af samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Samningurinn gildir til 1. október 2023. Samningurinn var kynntur fyrir bæjarfulltrúum í byrjun febrúar.

Í samningnum er kveðið á um markmið, lagaheimildir og forsendur samnings, ábyrgð aðila, þjónustu, upplýsingar, samskipti og eftirlit, fjármögnun, greiðslutilhögun, vanefndir og meðferð ágreiningsmála, gildistíma og uppgjör fyrri samnings. Fjögur fylgiskjöl eru við samninginn, m.a. um verð og ferðatíðni, leigusamninga, samningur um aðstöðu í Landeyjahöfn og þurrlegusamningur.

Vestmannaeyjabær hefur falið Herjólfi ohf. rekstur ferjunnar eins og fram kemur í samningnum.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Eyþór Harðarson og Njáll Ragnarsson.

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn samþykkir fyrirliggjandi þjónustusamning milli ríkisins og Vestmannaeyjabæjar um ferjusiglingar milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar/Þorlákshafnar.

Samningur sem þessi felur í sér fjárhagslega áhættu fyrir bæjarfélagið, en ávinningur samningsins er talinn meiri en áhættan.

Bæjarstjórn þakkar samninganefnd Herjólfs fyrir vel unnin störf og Vegagerðinni og samgönguráðherra fyrir gott samstarf um samninginn á undirbúningstímanum.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Samningur og fylgiskjöl um rekstur Herjólfs 2021 - undirritaður og staðfestur.pdf
2. 202003120 - Ljósleiðaramál í Vestmannaeyjum
Bæjarstjóri fór yfir minnisblað frá framkvæmdastjóra umhverfis og framkvæmdasviðs og yfirmanni tölvudeildar um stöðu undirbúnings ljósleiðaraverkefnis í þéttbýli Vestmannaeyja.

Verkfræðistofan Efla hefur annast hönnun og sérfræðiráðgjöf. Hafin er gagnasöfnin sem nýtast mun verkefninu. Þéttbýlishluti verkefnisins er ekki styrkhæfur og verður því fjármagnaður af hálfu sveitarfélagsins. Fjarskiptafyrirtæki hafa lýst áhuga á að vera með í verkefninu. Viðræður við þau fyrirtæki fara fram þegar hönnunin liggur fyrir. Verið er að skoða hvaða rekstrarform henti verkefninu best, þ.e. hvort reksturinn verði hluti af starfsemi Vestmannaeyjabæjar, í opinberu hlutafélagi eða einkahlutafélagi.

Markmiðið er að byggja ljósleiðarakerfið þannig upp að það nýtist sem flestum og standist tímans tönn. Engar hindranir verða í kerfinu sem henta einni tækni betur en annarri. Um er að ræða opið netkerfi þar sem að þjónustuveitur geta keypt aðgang og boðið upp á rafræna þjónustu.

Í minnisblaðinu er að finna tímalínu framkvæmda sem gerir ráð fyrir að verkinu ljúki árið 2024. Framkvæmdahraði fer eftir fjármögnun og framvindu einstakra verkhluta. Þegar fyrsta áfanga lýkur fara að berast tekjur af ljósleiðarakerfinu sem nýst geta í áframhaldandi fjárfestingu og uppbyggingu.

Áætlun um heildarkostnað verkefnisins liggur ekki fyrir fyrr en eftir hönnun kerfisins. Gróflega áætlaður heildarkostnaður er á bilinu 500-600 m.kr.

Niðurstaða
Við umræðu um málið tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins, Eyþór Harðarson og Elís Jónsson.

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn þakkar yfirferðina.

Framkvæmdastjóra umhverfis- og framkvæmdasviðs, yfirmanni tölvudeildar og framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs er falið að leggja fyrir bæjarstjórn endanlegt minnisblað um verkefnið, þ.e. fjármögnun, framkvæmdatíma, kostnaðaráætlun, gjaldtöku, tímalínu og rekstrarform, í apríl þegar frumhönnun liggur fyrir.

Bæjarstjórn felur framkvæmdastjóra stjórnsýslu- og fjármálasviðs að kanna mögulegar leiðir varðandi stofnun félags um lagningu ljósleiðara í öll hús í Vestmannaeyjum, m.a. hvaða félagaform væri heppilegast um verkefnið, þ.e. ohf. eða ehf.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Minnisblað til bæjarstjóra um stöðu ljósleiðaraverkefnis í þéttbýli.pdf
3. 202102084 - Ósk um tilnefningu í skólanefnd Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum 2021-2025
Samkvæmt lögum um framhaldsskóla nr. 92/2008 skipar mennta- og menningarmálaráðherra skólanefnd við framhaldsskóla til fjögurra ára í senn.

Skipunartíma núverandi skólanefndar Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum lýkur þann 20. mars nk.

Mennta- og menningarmálaráðuneytið hefur óskað eftir að Vestmannaeyjabær tilnefni tvo aðalfulltrúa og aðra tvo til vara í skólanefnd framhaldsskólans og að þær tilnefningar berist ráðuneytinu eigi síðar en 5. mars nk.

Niðurstaða
Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn hefur ákveðið að tilnefna þau Helgu Jóhönnu Harðardóttur og Leif Jóhannesson sem aðalfulltrúa skólanefndar Famhaldsskólans í Vestmannaeyjum og þau Kára Bjarnason og Silju Rós Guðjónsdóttur sem varafulltrúa skólanefndarinnar.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.
Ósk um tilnefningu í skólanefnd Framhaldsskóla Vestmannaeyja.pdf
Fundargerðir til staðfestingar
4. 202101012F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3146
Liðir 1-12 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-12 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
5. 202101013F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 339
Liðir 1-3 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-3 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
6. 202101016F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 258
Liður 3, Frístundastyrkur, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 1-2 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 3, Frístundastyrkur, tóku til máls: Íris Róbertsdóttir og Jóna Sigríður Guðmundsóttir.

Bókun frá fulltrúm E og H lista

Meirihluti E- og H-lista lýsir yfir ánægju yfir nýtingu á frístundastyrk en 69% barna á aldrinum 2-18 ára í Vestmannaeyjum nýttu sér styrkinn á síðasta ári. Þá er miðað við öll börn í Vestmannaeyjum ekki eingöngu þá sem eru í íþrótta- og tómstundastarfi. Aukning hefur verið á nýtingu á styrknum og er það ánægjulegt. Á síðasta ári var tekin í notkun tenging við Nora kerfið sem heldur utan um iðkendur í íþróttum og tómstundum. Í gegnum kerfið er hægt að fá styrkinn greiddan strax og þurfa því forráðamenn ekki lengur að leggja út fyrir öllum gjöldum og fá endurgreiðslu frá sveitarfélaginu. Kerfið er orðið einfaldara og aðgengilegra forráðamönnum barna og ungmenna

Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)

Liður 3 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 1-2 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
7. 202102003F - Fræðsluráð - 340
Liður 1, Menntarannsókn, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-4 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1, Menntarannsókn, tóku til máls: Íris Róbertsdóttir, Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Helga Kristín Kolbeins og Elís Jónsson.

Bæjarstjóri fór yfir undirbúning og nýundirritaða viljayfirlýsingu um samstarfsverkefni menntamálaráðherra, Vestmannaeyjabæjar, fulltrúa atvinnulífsins og Háskóla Íslands um þróunar- og rannsóknarverkefni í Grunnskóla Vestmannaeyja, undir heitinu Árangur og áhugahvöt - kveikjum neistann. Markmið verkefnisins er að efla læsi og bæta líðan nemenda. Um er að ræða breyttar áherslur í framkvæmd og skipulagi skólastarfs með hagsmuni nemenda að leiðarljósi, þ.m.t. ólíkar þarfir kynjanna. Sérstök áhersla verður á stöðu drengja. Áherslurnar snúa að læsi, stærðfræði, náttúrufræði, hreyfingu og hugarfari nemenda. Jafnframt verður áhersla á þróun á kennsluháttum, kennsluefni, starfsþróun og ráðgjöf kennara og skólastjórnenda. Mikill áhugi er á verkefninu í Grunnskóla Vestmannaeyja og vinnan hafin innan skólans við að undirbúa upphafið á verkefninu sem fer í gang í haust.

Árangur og afurðir verkefnisins verða nýttar í þágu allra grunnskólanema á Íslandi. Til stendur að setja á laggirnar menntarannsóknarsetur sem mun annast undirbúning og framkvæmd verkefnisins.

Menntamálaráðuneytið mun leggja verkefninu til 10 m.kr. á árinu 2021, Vestmannaeyjabær aðrar 10 m.kr., Háskóli Íslands mun leggja til hálfa prófessorstöðu og Samtök atvinnulífsins skuldbinda sig til að leggja til fjárhæð sem er ígildi tveggja 20% staða gestaprófessora við rannsóknarsetrið. Til stendur að gera formlegan samning um verkefnið til þriggja ára.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn lýsir mikilli ánægju með þróunar- og rannsóknarverkefnið Kveikjum neistann og þátttöku Vestmannaeyjabæjar í því. Með verkefninu er verið að stíga ný skref í uppbyggingu skóladagsins og nýja nálgun í skólastarfi til þess að takast á við þær áskoranir sem eru í kerfinu í dag. Í forgrunni verður læsi og líðan nemenda.

Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Eyþór Harðarson (sign)

Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2-4 voru samþykktir með sjö samhjóða atkvæðum.
8. 202102004F - Bæjarráð Vestmannaeyja - 3147
Liður 1, Umræða um samgöngumál, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liður 4, Þjónustukönnun Gallup, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liður 5, Stafræn smiðja (fablab) í Vestmannaeyjum, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liður 6, Málefni Hraunbúða, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-3 og 7-9 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Við umræðu um lið 1, Umræða um samgöngumál, tóku til máls: Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Njáll Ragnarsson, Íris Róbertsdóttir og Eyþór Harðarson.

Bókun frá fulltrúum E og H lista

Meirihluti bæjarstjórnar telur eðlilegt að Vestmannaeyjabær verði við erindi Air Iceland Connect sem óskað hefur eftir því að sumarstarfsmenn bæjarins hjálpi til við afgreiðslu flugvéla þrjá virka daga í viku í um 2 klukkustundir í senn þá daga sem flogið verður til Vestmannaeyja.

Bæjarráð varð samhljóða við erindinu enda er það fyrst og fremst hugsað til þess að liðka fyrir því að áætlunarflug á markaðslegum forsendum til Vestmannaeyja geti vaxið og dafnað.

Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)

FUNDARHLÉ frá kl. 19:50 til 20:05

Bókun bæjarfulltrúa D lista

Undirrituð fagna því að Air Iceland Connect sýni flugsamgöngum við Vestmannaeyjar áhuga á markaðslegum forsendum. Við getum ekki samþykkt þær hugmyndir þar sem gert er ráð fyrir að skattgreiðendur í Vestmannaeyjabæ beri kostnað starfsmanna fyrirtækis í eigu þriðja aðila. Sé það vilji bæjaryfirvalda að styðja við rekstur flugfélagsins væri eðlilegra að gera slíkt með útseldri þjónustu starfsmanna Vestmannaeyjabæjar, t.d. Vestmannaeyjahafnar eða Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyja. Undirrituð standa með flugsamgöngum og vilja veg þeirra sem mestan en ítreka mikilvægi gegnsæis hvað varðar fjárhagslegan stuðning Vestmannaeyjabæjar til einkafyrirtækja.

Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Eyþór Harðarson (sign)

liður 1 var samþykktur með fjórum atkvæðum fulltrúa E og H lista og atkvæði Helgu Kristínar Kolbeins fulltrúa D lista. Tveir fulltrúar D lista sátu hjá.

Fulltrúi E lista gerðir grein fyrir atkvæði sínu með eftirfarandi bókun.

Það er ekki rétt að fullyrða að í þessu verkefni felist fjárhagsleg skuldbinding af hálfu sveitarfélagsins.

Njáll Ragnarsson (sign)

Við umræðu um lið 4, Þjónustukönnun Gallup, tóku til máls: Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir, Eyþór Harðarson og Elís Jónsson.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn fagnar niðurstöðum könnunar Gallup á þjónustu sveitarfélaga sem eru glæsilegar fyrir Vestmannaeyjabæ. Einkar ánægjulegt er hve mikil ánægja er með þjónustu við barnafjölskyldur, eldri borgara, leik- og grunnskóla og þjónustu við fatlaða. Markvisst hefur verið unnið að því á kjörtímabilinu að auka þjónustu við bæjarbúa sem greinilega er eftir tekið.

Í fyrstu bylgju Covid sl. vetur var hópsýking í Vestmannaeyjum og mikið álag á samfélagið allt meðan verið var að ná tökum á ástandinu. Því er það einstaklega ánægjulegt að íbúar í Vestmannaeyjum eru ánægðastir allra með sitt sveitarfélag þegar horft er til aðgerða vegna Covid.

Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Eyþór Harðarson (sign)

Liður 4 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Við umræðu um lið 5, Stafræn smiðja (fablab) í Vestmannaeyjum, tóku til máls: Njáll Ragnarsson, Hildur Sólveig Sigurðardóttir og Elís Jónsson.

Afgreiðslutillaga

Bæjarstjórn samþykkir, þar sem ekki liggur fyrir endanlegt eintak af samningi þar sem ráðuneytin eiga eftir að klára ákveðna þætti hans, að fela bæjarráði framgang málsins og ljúka við gerð samnings um rekstur stafrænnar smiðju (Fab-lab) með þeim athugasemdum varðandi húsnæðið og framlag Vestmannaeyjabæjar sem fram komu á síðasta fundi bæjarráðs.

Tillagan var samþykkt með sjö samhljóða atkvæðum.

Við umræðu um lið 6, Málefni Hraunbúða, tók til máls: Íris Róbertsdóttir.

Bæjarstjóri fór yfir stöðu viðræðna við Sjúkratryggingar Íslands um yfirfærslu dvalar- og hjúkrunarheimilisins Hraunbúða til ríkisins. Í ljósi þess hversu erfiðlega hefur gengið að fá upplýsingar og leiðbeiningar um yfirfrærsluna frá Sjúkratryggingum Íslands, ákvað bæjarráð að verða við tillögu bæjarstjóra á síðasta fundi sínum, um að leita til Heiðars Ásbergs Atlasonar lögmanns og meðeiganda Logos, lögmannsstofu, um ráðgjöf og umsjón. Fyrr í dag átti Vestmannaeyjabær, ásamt umræddum lögmanni, fund með forstjóra og öðrum fulltrúum Sjúkratrygginga Íslands um stöðu mála og framhaldið. Enn liggur ekki fyrir hver kemur til með að taka við rekstri stofnunarinnar og undirstrikaði Vestmannaeyjabær mikilvægi þess að Sjúkratryggingar Íslands fengju úr því skorið sem allra fyrst hjá heilbrigðisráðuneytinu hver sá aðili verði. Ákveðið hefur verið að funda aftur í næstu viku.

Sameiginleg bókun bæjarstjórnar

Bæjarstjórn tekur undir bókun bæjarráðs og skorar á heilbrigðisráðherra og Sjúkratryggingar Íslands að sinna sínu hlutverki og taka við þessu lögbundna verkefni ríkisins. Mikilvægt er að klára yfirfærsluna eins fljótt og auðið er.

Njáll Ragnarsson (sign)
Íris Róbertsdóttir (sign)
Elís Jónsson (sign)
Jóna Sigríður Guðmundsdóttir (sign)
Hildur Sólveig Sigurðardóttir (sign)
Helga Kristín Kolbeins (sign)
Eyþór Harðarson (sign)

Liður 6 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2-3 og 7-9 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
9. 202102006F - Umhverfis- og skipulagsráð Vestmannaeyja - 340
Liður 1, Deiliskipulag Austurbæjar við miðbæ, liggur fyrir til umræðu og staðfestingar.

Liðir 2-10 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liður 1 var samþykktur með sjö samhljóða atkvæðum.

Liðir 2-10 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
10. 202102007F - Fjölskyldu- og tómstundaráð - 259
Liðir 1-4 liggja fyrir til staðfestingar.

Niðurstaða
Liðir 1-4 voru samþykktir með sjö samhljóða atkvæðum.
Fleira ekki gert. Fundi slitið kl. 21:06 

Til baka Prenta